Robert E. Lee hershöfðingi Suðurríkjanna Robert E. Lee hershöfðingi Suðurríkjanna

Robert Edward Lee var fæddur 19. janúar 1807 í Stratford, Virginíu. Hann var sonur Lighthorse Harry Lee sem var stríðshetja úr Frelsisstríði Bandaríkjanna. Lee var menntaður í herskóla Bandaríkjahers í West Point og útskrifaðist þaðan 1829 og var skipaður undirliðsforingi í verkfræðisveitum hersins. Hann var hækkaður í tign 1836 og skipaður yfirliðsforingi og aftur 1838 þegar hann var gerður að höfuðsmanni. Lee gat sér frægðar í stríði Bandaríkjamanna við Mexíkó og særðist árásinni á Chapultepec árið 1847. Fyrir vasklega framgöngu í henni var hann gerður að majór.

Lee gerðist síðar forstöðumaður West Point og eftir þvínæst ofursti yfir riddaraliðssveit. Hann var við stjórn herafla Texas árið 1860 og snemma á næsta ári var hann kallaður til Washington þegar Borgarastyrjöld Bandaríkjanna var í uppsiglingu. Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna bauð honum að gerast yfirhershöfðingi herafla Norðurríkjanna en Lee hafnaði boðinu. Þann 20. apríl, þremur dögum eftir að Virginía hafði sagt sig úr ríkjasambandinu, sagði Lee sig úr her Bandaríkjanna. 23. apríl gerðist hann yfirhershöfðingi herafla Virginíu. Lee gegndi í eitt ár stöðu hernaðarráðgjafa Jefferson Davis, forseta Suðurríkjasambandsins, en var síðan skipaður yfirhershöfðingi herja Norður-Virginíu.

Þegar faðir Lees hafði látist hafði Lee áskotnast fjöldi þræla ásamt landareign föður síns í Arlington House í Virginíu. Lee gaf þó fljótlega öllum þrælum sínum frelsi. Árið 1864 var heimili hans hertekið af Norðurríkjahernum og breytt í grafreit fyrir fallna Norðurríkjahermenn, m.a. til að smána Lee. Í dag er þar Þjóðargrafreitur Bandaríkjanna (Arlington National Cemetery). Í febrúar 1865 var Lee skipaður yfirhershöfðingi allra herja Suðurríkjanna. Tveim mánuðum síðar lauk stríðinu með uppgjöf Lee fyrir Grant hershöfðingja við Appomattox. Mestu orrustur Lee voru við Antietam, Chancellorsville, Fredericksburg, og Gettysburg.

Frábær herstjórn laut í lægra haldi fyrir miklum yfirburðum Norðurríkjanna í hergögnum og hermönnum. Hernaðaraðferðir Lees eru enn þann dag í dag kenndar í herskólum sem fyrirmynd að afburða herstjórnarlist. Lee hafði einstakan hæfileika til að sjá gerðir andstæðinga sinna fyrir fram og til að átta sig á veikleikum þeirra og nýta sér þá. Hann skipulagði birgðaleiðir á einstaklega nákvæman hátt þannig að liðsauki, birgðir og annar flutningur skilaði sér á sem allra fljótastan hátt og án þess að andstæðingurinn gæti rofið þær. Mesta framlag Lees til hernaðartækninnar er þó sennilega notkun hans á víggirðingum í bardögum í því skyni að færa til herlið. Hann áttaði sig á því að fámennt herlið gæti haldið aftur af margfalt stærri her, ef það var varið af varnarmannvirkjum, á meðan að aðalheraflinn réðist á andstæðinginn annað hvort frá hlið eða tortímdi minni hersveitum andstæðingsins væri herafli hans dreifður. Að þessu leyti var Lee mörgum árum á undan samtíð sinni. Þessi herstjórn var ekki fyllilega skilin né almennt notuð fyrr en á 20. öldinni.

Að stríðinu loknu sótti Lee um sakaruppgjöf en var aldrei veitt hún. Honum var boðin staða forseta Washington-háskóla haustið 1865 og þáði hann hana. Í dag heitir háskólinn Washington and Lee University. Inna fárra ára hafði háskólinn náð framúrskarandi árangri undir forystu Lee. Lee lést 12. október 1970. Árið 1975 var Lee loks gefnar upp sakir af Bandaríkjaþingi og honum veittur ríkisborgararéttur á ný í Bandaríkjunum að honum látnum.

Robert Edward Lee er að mörgum talinn besti herforingi sem Bandaríkin hafa alið af sér. Hernaðarsnilld hans var án efa mesti einstaki þáttur þess að Suðurríkjasambandið hélt út fjögur ár í stríði við algert ofurefli.

Hjörtur J.
Með kveðju,