Saga Sovétríkjanna: Lífið í Sovétríkjunum [2/3] Lenín og Stalín:

Það var á þessum grunni Karls Marx sem Sovétríkin byggðu á þegar þau voru stofnuð árið 1921. Leiðtogi Sovétmanna var Vladimir Lenín, og innleiddi hann ýmsar breytingar á Sovéska kerfinu. Þekktasta stefnubreyting hans nefndis NEP stefnan, eða ný efnahags- og atvinnustefna. Hún fól í sér nokkurt afturhvarf til kapítalískra búskaparhátta, en það réttlætti hann með hinum frægu orðum að maður yrði að stíga eitt skref afturábak til að geta stigið tvö skref fram síðar. Hann fylgdi stefnunni af harðfylgi innan flokksins, og þrengt var að skoðanafrelsi og agi var hertur. Efnahagsávinnungur NEP stefnunnar var góður en hún hlóð þó undir hættulegustu andstæðinga bolsévika, eða kúlakkanna.

Lenín lést árið 1924 og eftir fráfall hans urðu mikil innanflokksátök í kommúnistaflokknum. Þar börðust um völdin Jósef Stalín og Leon Trotsky. Trotsky vildi leggja áherslu á að kommúnisminn dreifðist sem víðast og var hann persónugervingur heimsbyltingarinnar. Hann vildi rekja byltingastefnu út á við, en gegn því barðist hans helsti andstæðingur, Jósef Stalín. Það fór svo að lokum að Stalín náði völdum í Sovétríkjunum og þar ríkti hann til dauðadags. Undir stjórn Stalíns einkenndust Sovétríkin af miklu harðræði og kúgun. Hann hikaði ekki við að hneppa menn í fangelsi fyrir að segja sína skoðun og talið er að milljónir manna hafi látist í stjórnartíð hans. Bæði voru það pólitískir fangar sem voru teknir af lífi og einnig létust margir vegna misviturra ákvarðana einræðisherrans.

Stalín hvarf frá NEP stefnunni og vildi hefja mikla iðnaðaruppbyggingu með svokölluðum fimm ára áætlunum. Með þeim skyldi ákveða hvað ætti að framleiða næstu fimm árin og lítið mátti hagga við þeirri framleiðslu. Í fyrstu fimm ára áætluninni kom Stalín á áætlunarbúskap, en það gekk síður en svo þrautalaust fyrir sig. Bændur voru allflestir á móti því að jörðum þeirra væri skellt saman eins og gert var og gerðu þeir víða uppreisn gegn stjórnvöldum. Þeir skemmdu frekar jarðir sínar og eigur heldur en að leggja þær inn í samyrkjubúin. Afleiðing þessa var víðtæk hungursneið sem drap milljónir manna.

Þjóðfélagskerfi Sovétríkjanna á fjórða áratugnum hefur verið kennt við stalínisma. Stalínisminn einkenndist meðal annars af einræði Stalíns, persónudýrkun á honum og pólitískar hreinsanir. Í efnahagsstjórninni lagði hann mesta áherslu á þungaiðnað á kostnað annarra greina, og var þvingunum óspart beitt til að ná settum markmiðum. Í tíð Stalíns var horfið frá jafnlaunastefnu, og í iðnfyrirtækjum var komið á alráðu forstjóravaldi á kostnað þeirra verkamannaráða sem höfðu verið innleidd í kjölfar byltingarinnar. Þessi stefna hans á lítið skylt við þann kommúnisma sem menn höfðu hugsað sér. Talið er að Stalín hafi látið taka af lífi hundruðir þúsunda pólitískra andstæðinga sinna og þá sem hann taldi vera óvinveitta sér. Hann vildi ala á ótta í samfélaginu og tryggja eigin valdastöðu ásamt því að útrýma öðrum valkostum varðandi forystu flokksins. Hann hélt meðal annars þekkt sýndarréttarhöld, Moskvuréttarhöldin, þar sem menn játuðu á sig ótrúlegustu glæpi. Hann inndleiddi einnig miklar hreinsanir meðal foringja Rauða hersins, og má segja að þeir hafi farið inn í síðari heimsstyrjöldina sem höfuðlaus her.

Eftir síðari heimsstyrjöldina töldust Sovétmenn einir af sigurvegurum stríðsins þrátt fyrir að hafa misst allt að 20 milljónir manna og að stór hluti landsins væri rústir einar að stríðinu loknu. Sem sigurvegarar styrjaldarinnar fengu Sovétmenn að ráða einum fjórða hluta Þýskalands og öll austanverð Evrópa lenti á sovésku áhrifasvæði. Önnur lönd sáu fljótt að erfitt væri að vinna með Sovétmönnum. Þeir innleiddu miklar breytingar á sínum hluta þýska ríkisins, sem þeir nefndu Austur-Þýskaland. Fjöldi manns flúði frá hinu kommúníska Austur-Þýskalandi og yfir til vesturs þar sem kjör voru betri. Til að hindra þessa fólksflutninga var reistur múr þvert yfir landið og hver sá sem reyndi að flýja yfir var handtekinn eða jafnvel skotinn. Berlínarmúrinn hélt þýsku fólki aðskildu í nokkra áratugi og var nokkurs konar tákn um það að heimurinn væri klofinn í tvennt. Sovétmenn fjarlægðust sífellt önnur vestræn ríki og afstaða vesturlandanna til þeirra einkenndist af mikilli tortryggni. Það ástand sem þar ríkti hefur verið kallað kalda stríðið.

Vinir og vandamenn:

Eftir seinni heimsstyrjöldina skiptist heimurinn nokkurnveginn í tvennt. Menn voru annað hvort í liði með Bandaríkjunum eða Sovétríkjunum. Kommúnískt skipulag fékk mikinn hljómgrunn í gjörvallri Austur Evrópu, þó kommúnisminn hafi birst í óíkum myndum þar. Sovétmenn reyndu að ná sem mestum áhrifum í austanverðri Evrópu. Löndin þar áttu að vera nokkurs konar öryggispúðar þeirra – það þyrfti fyrst að ráða niðurlögum þeirra áður en átök gætu náð til Sovétríkjanna sjálfra. Ríkin í austri voru eins konar leppríki Sovétríkjanna og flest gerðu þau sitt besta til að styggja ekki Sovétmenn. Einhverjar undantekningar voru þó á því, t.a.m. reyndu Tékkóslóvakar að gera litlar breytingar á kommúnismanum og Ungverjar vildu svo gæta hlutleysis á alþjóðavettvangi. Þetta tóku Sovétmenn ekki í mál og beittu ríkin mikilli hörku til að fá þau til að hlýða og tugþúsundir féllu í átökum. Aðgerðirnar réttlættu Sovétmenn með Breznevkenningunni,nefnd eftir þáverandi leiðtoga þeirra, en samkvæmt henni var sósíalískum ríkjum rétt og skylt að grípa til aðgerða ef gagnbyltingaröfl ógnuðu tilvist sósíalismans í einhverju landi.

Mörg hernaðar- og varnarbandalög voru við lýði á tímum kalda stríðsins. Bandaríkjamenn og þeirra félagar í Evrópu mynduðu NATO, á meðan Sovétmenn og ríki vinveitt þeim mynduðu Varsjárbandalagið. Varnarbandalög ganga út á það að ríkin sem mynda bandalögin standa saman ef óvinur ræðst á eitthvert ríkja bandalagsins. Þau geta því virkað ógnandi fyrir önnur ríki og draga úr hættunni á að ráðist verði á aðildarlöndin. Bandaríkin og Sovétríkin héldu alþjóðasamfélaginu í nokkurs konar gíslingu í þau ár sem kalda stríðið ríkti. Sameinuðu þjóðirnar voru hálf lömuð stofnun og stofnunin gat ekki beitt sér sem skyldi á alþjóðavettvangi. Það orsakaðist meðal annars af því að stórveldin beittu neitunarvaldi sínu óspart á ýmsar tillögur um aðgerðir til að tryggja sína hagsmuni og koma í veg fyrir að önnur ríki gætu hagnast. Evrópusambandið, sem stofnað var árið 1957, varð fyrst alvöru stofnun eftir lok kalda stríðsins en þá breyttist grundvöllur þess mikið. Hið sama gerðist líka með Sameinuðu þjóðirnar, en aðstæður urðu allt aðrar eftir fall kommúnismans og lok kalda stríðsins.

Kalda stríðið:

Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands sagði að lokinni seinni heimstyrjöldinni að Sovétmenn hefðu reist járntjald þvert yfir Evrópu sem skipti álfunni í tvennt. Tjaldið hafði verið reist af Sovétmönnum til að tryggja yfirráð þeirra í Austur Evrópu. Þetta var ógn við vesturlönd og Bandaríkin, hugmyndafræðileg, hernaðarleg og efnahagsleg. Bandaríkin töldu að ef völd Sovétríkjanna yrðu of mikil í Evrópu væri hagsmunum Bandaríkjanna ógnað. Reynsla þeirra var sú að ef eitt ríki næði yfirburðastöðu í Evrópu, væri þeim ógnað. Þannig leiddust þeir inn í tvær heimsstyrjaldir. Þegar Bandaríkjamenn sáu að Sovétríkin voru við það að ná yfirburðastöðu í álfunni fannst þeim þeir þurfa að gera eitthvað í málunum og bjuggust til varnar gegn Sovétríkjunum. Þessi tortryggni milli Sovétmanna Bandaríkjanna og birting hennar í ýmsum myndum, hernaðarlegum og efnahagslegum, hefur verið kölluð kalda stríðið. Í kalda stríðinu mættust tveir algjörlega andstæðir pólar - áætlunarbúskapur gegn markaðshagkerfi og sovéskt alræði gegn vestrænu lýðræði.

Í upphafi kalda stríðsins höfðu Bandaríkin og Sovétmenn gjörólíkan valdagrundvöll. . Bandaríkin voru betur búin á flestum sviðum, og höfðu misst tiltölulega fáa í heimsstríðinu meðan Sovétmenn misstu 20 milljónir. Hins vegar var það almenn skoðun að Sovétmenn hefðu nægilegt vald og vilja til að vera ógnun við Vesturlönd. Eitt af einkennum kalda stríðsins var hin gríðarmikla áhersla sem þessi tvö ríki lögðu á vígbúnað. Í upphafi kalda stríðsins áttu Bandaríkjamenn einir kjarnorkusprengju. Sovétmenn sættu sig ekki við það og lögðu mikið kapp á að hanna sína eigin. Þeim tókst það fljótlega, og í kjölfarið hófst fyrir alvöru hið svonefnda vígbúnaðarkapphlaup. Ríkin voru fljótt búin að koma sér upp það mikið af vopnum að þau hefðu dugað til að sprengja allan heiminn margfalt. Það ástand var kallað ógnarjafnvægi – þau höfðu komið sér upp það miklu magni af sprengjuefnum að engu ríki myndi koma til hugar að leggjast til atlögu gegn þeim.

Í kalda stríðinu, sem ríkti í um 50 ár, kom aldrei til beinna átaka milli Sovétmanna og Bandaríkjanna. Þjóðirnar tvær börðust þó óbeint í nokkrum stríðum. Bandaríkjamenn beittu sér gegn kommúnistum í Kóreu og Víetnam á meðan Sovétmenn börðust meðal annars í Afghanistan. Innrás Bandaríkjamanna í Víetnam var rökstudd með dómínókenningunni svokölluðu. Ef tilraun kommúnista til að leggja undir sig Víetnam yrði ekki stöðvuð myndi öll Asía falla í hendur þeirra líkt og í d´mínóspilinu.. Þetta yrði að koma í veg fyrir, með beinum hernaðaraðgerðum og annars konar viðnámi. Stríðið var mjög óvinsælt í Bandaríkjunum og eftir áralangt brölt í landinu neyddust Bandaríkjamenn til að taka saman með skottið á milli lappanna.

Í kalda stríðinu ríktu til skiptis tímabil slökunar og spennu. Hámarki náði spennan í Kúbudeilunni haustið 1962, en deilan hófst þegar Bandaríkjamenn sáu að Sovétmenn hefðu komið sér upp eldflaugakerfi á Kúbu, aðeins 160 km frá strönd Flórída. Heimurinn hefur eflaust aldrei verið nær kjarnorkustyrjöld en í þessari deilu. Sem betur fer náðust þó sáttir. Sovétmenn tóku niður skotpallana en í staðinn urðu Bandaríkjamenn að viðurkenna fullveldi Kúbu og taka burt eldflaugapalla sína við landamæri Sovétríkjanna.

Hlutirnir breyttust lítið í kalda stríðinu fram á níunda áratuginn. Þá tók nýr maður við stjórnartaumunum í Sovétríkjunum - Mikael Gorbatjov. Ný viðhorf hans til skipulags Sovétríkjanna átti eftir að hafa mikil áhrif á gang mála í heimsmálunum og í Austur-Evrópu.