Á Tækniöld - Gömul MR-ritgerð
Ég verð að játa að eftirfarandi pistill er ekki “mitt eigið verk”, heldur föður míns sem lést á síðasta ári. Þetta er “stíll” sem hann skrifaði á árum sínum í MR, þaðan sem hann útskrifaðist 1969.

Þetta fann ég í stílabók þegar ég var að fara í gegnum eigur hans, og hafði svo gaman að þessu að mér flaug í hug að vélrita þetta til fyrstu og einu “opinberrar birtingar”. Bæði kallinum til heiðurs, og (vonandi) einhverjum til skemmtunar.




Tækninni fleygir fram með sívaxandi hraða. Meiri framfarir hafa orðið í tækni og vísindum á síðustu öld en áður höfðu orðið á öllum þeim árþúsundum, er sagan greinir frá. Ef Arkimedes gamli væri hrifinn aftur úr fornöld og sýnd tæknin í byrjun 19. aldar, gæti hann sjálfsagt skilið gang gufuvélar og myndi hrósa þeirri snilld, er þar lægi að baki. Ef hins vegar t.d. James Watt væri tekinn og settur niður fyrir framan sjónvarpstæki, þá myndi hann tæpast skilja mikið í því, hvað gerðist inn í kassanum, jafnvel þótt hann ætti þess kost að kíkja inn í hann.

Oft er erfitt að ákveða, hvort ein tækniframförin sé þýðingarmeiri en önnur. Það hefur örugglega verið ein mesta framför í sögu tækninnar, er eldurinn var beizlaður, og sömuleiðis er hjólið var fundið upp. Nöfn hugvitsmanna þeirra, er þar voru að verki, eru óþekkt og hvergi skráð, og ber þeim þó miklu meiri heiður en ýmsum öðrum, sem mikið hefur verið látið yfir.

Kalla má skipið mikla uppfinningu, þótt sjálfsagt hafi það ekki verið beysið fyrst í stað, aðeins fallinn trjádrumbur, sem menn fleyttu sér á yfir fljótinn En skipið var smám saman engurbætt gegnum aldirnar og var um langt skeið þýðingarmesta samgöngutæki mannsins. Frá þessum tíma líða svo fjölmargar aldir án nokkurra markverðra uppfinninga nema vopna og vígvéla, sem sumt er þó býsna hugvitsamlegt. Ég ætla mér engan veginn þá dul að telja það allt saman upp, en þó er skylt að minnast á a.m.k. uppgötvun málma og húsagerðarlist.

Næsta markverða skrefið myndi sjálfsagt teljast uppgötvun áttavitans, sem þýddi mikla framför í siglingum. Næst kemur svo prentlistin, sem ég hygg að allir getir fallist á að sé ein sú þýðingarmesta, ef ekki sú allra þýðingarmesta framför sem orðið hefur. Í sambandi við hana má gjarna taka eftir því, að þýðingarmestu framfarirnar eru ekki alltaf þær hugvitsamlegustu.

Ég vil halda því fram, að ekki liggi sérlega mikið hugvit að baki prentlistinni. Einhver góður maður vill sjálfsagt benda mér á söguna um Kólumbus og eggið í þessu sambandi, en engu að síður er það mín skoðun, að einungis þjoðfélagslegar aðtæður hafi valdið því, að hún var ekki fundin upp miklu fyrr.

Næsti merki áfangi er uppgötvun rafmagnsins, enda þótt það væri aðeins leikfang fyrst í stað. Síðan kemur gufuvélin um aldamótin 1800, og síðan rekur hver uppfinningin aðra; rafmótor, gufutúrbína, benzínmótor, útvarp, bíll, flugvél, gastúrbína, sjónvarp, þrýstiloftsmótor, kjarnorka, eldflaug, atómbomba.

Hér hefur verið stiklað á stóru. En nýjar uppfinningar eru sjaldan fullkomnar í sinni fyrstu útgáfu, eins og Aþena, sem stökk albrynjuð úr höfði Seifs, heldur eru þær endurbættar og aftur endurbættar, unz ekki er hægt að endurbæta meira, eða þá að einhver ný uppfinning gerir hana úrelta.

Fornleifafræðin dregur ýmislegt athyglisvert í ljós. Hún sýnir okkur t.d. hvernig verkfæri, sem upphaflega er gróft og óhentugt, kemur fram í nýjum og og nýjum gerðum, sem hver er aðeins betri en fyrirrennari hennar, unz algerri fullkomnum er náð, bæði í hentugleika og formfegurð, en síðan fer því hnignandi og það úrkynjast smám saman.

Hér virðist vera á ferðinni eitthvert þróunarlögmál, sem krefst sífelldrar breytingar, jafnvel til hins verra, ef ekki er hægt til hins betra. Ef til vill getum við tæknialdarmenn dregið einhvern lærdóm af þessu.


Hlutverk tækninnar í nútímaþjóðfélagi er að gera lífið þægilegra, vinna að því að fólk afskasti sem mestu á sem auðveldastan hátt og styztum tíma, svo að þjóðfélagið beri sig. Flestum þjóðum er það því kappsmál að innleiða sem mesta tækni, iðnvæða þjóðfélagið o.s. frv., og þykir sumum nóg um. Vegna þarfa þjóðfélagsins er því alltaf rekið nokkuð á eftir tækniframförum, en þó aldrei meira en þegar stríð geisar. Flestar tækniframfarir, að minnsta kosti í seinni tíð, hafa orðið vegna þarfa stríðsaðila á nýjum og betri vopnum til að ná sér niðri á andstæðingunum með. Að afloknu stríði hefur svo stundum verið athugað, hversu nota mætti þessar dýrkeyptu tækniframfarir í friðsamlegum tilgangi.

Tækni og vísindi eru svo samtvinnuð, að hvort um sig getur vart án hins verið, og mætti ef til vill segja að tæknin sé háðari vísindunum en vísindin tækninni. Öll tækni byggist á vísindum, og sé hlutur þeirra skarður í í þjóðfélaginu, stendur tæknin varla í miklum blóma, og þjóðarbúskapurinn þá ekki heldur. Flestar eða allar þjóðir keppast því við að koma sem flestu fólki til sem mestra mennta og búa sem bezt að vísindaiðkunum og tækniframförum, og sýnist sumum að tæknin sé orðin takmark í sjálfri sér. Oft gerist það þó jafnsmenna, að gerð er ný uppgötvun á sviði tækni eða vísinda og fundið er upp nýtt vopn eða gamalt endurbætt. Er skemmst að minnast kjarnorkunnar.

Fæstir munu halda því fram að andleg þróun mannsins hafi haldið í við þá tæknilegu, og jafnvel heyrast öðru hvoru hjáróma raddir um að andleg menning muni sogast niður í hringiðu tækni og stundar velferðar í velferðarríkinu. Því til sönnunar er bent á bítilæði og aðra múgsefjun, siðpillingu og eiturlyfjanotkun, vaxandi gróðahyggju og síðast en ekki sízt, óreglu unglinga. Ekki aðeins það, heldur sé sú andlega menning sem enn tórir, aðeins innantómur hjúpur, fólk fari ekki á symfóníuhljómleika til að njóta tónlistarinnar, heldur til að láta alla sjá hvílíkur munur er á sauðsvörtum almúganum og þeim sem vit hafa á músík.

Svartsýnismenn mála jafnan skrattann á vegginn. En enginn reykur er án elds, segir máltækið, og vera má að þeir hafi nokkuð til síns máls. Hér á landi a.m.k. mun það vera næsta fátítt að “sauðsvartur almúginn”, þ.e. millistéttarfólk láti sig miklu skipta andlega menningu eða hafi mikinn áhuga á andlegum verðmætum, heldur munu þeir sem þykjast hafa, aðallega vera hin nýja yfirstétt, sem í stað greifa og baróna áður fyrr samanstendur nú af pólitíkusum, listamönnum, menntamönnum, og síðast en ekki sízt af forstokkuðum “snobbum”.

Ekki mundi ég samt halda því fram að andleg menning sé að troðast niður í svaðið, en skal hinsvegar ekki fortaka það, að henni sé dálítillar uppfyllingar þörf. Hún verður aðeins framkvæmd með því að að ráðast á orsakir spillingarinnar, og er það verkefni fyrir aðra en mig að komast að, hverjar þær eru. Hér áður fyrr var siður að kenna Keflavíkursjónvarpinu um allt sem aflaga fór í íslenzku þjóðlífi, en eftir að því var lokað, eða svo á að heita, hafa menn fundið aðrar orsakir, nefnilega siðspillandi kvikmyndir í Hafnarfirði.

En eitt er víst, að andlegri menningu á tækniöld verður ekki haldið við með latínukennslu í skólum einni saman.


Því má svo bæta við að kennarinn skrifaði stutt og laggott “mjög gott” neðan við þetta :)
_______________________