Í upphafi vil ég biðjast velvirðingar á því, að það vanti heimildaskrá í lokin. Fæst af þessu er hins vegar fengið uppúr bók, heldur er þetta allt eitthvað sem ég hef heyrt útundan mér hér og þar, kannske lesið í bók en þá gleymt hvaða bók, og svo framvegis.

Það eru viðtekin sannindi, að minnsta kosti í okkar heimshluta, að vestrænar konur njóta meiri frelsis og jafnræðis við karla heldur en aðrar mannlegar kynsystur þeirra (“mannlegar” segi ég því ljónynjur njóta ekki jafnræðis við karlljón - þær eru þeim æðri). Um það má eflaust deila hvort að það sé satt og rétt - a.m.k. skilst mér að kvenréttindakonur í múslimaheiminum (sumar þeirra) vorkenni vestrænum konum örlítið, vegna þess að þær (hinar múslimsku) líta svo á, að á vesturlöndum sé sjaldan litið á konur sem konur, heldur séu þær annað hvort “kynhlutir” (íslenska orðið yfir “sex object” er alveg horfið frá mér núna) eða eins konar “karlkonur”.

En þetta er ekki efni þess sem ég ætla mér að skrifa um, og ég ætla að gefa mér það, að vestrænar konur séu frjálsari en aðrar.

En hvers vegna eru þær það? Er það vegna þess að við erum hvít, og því betri en aðrir? Eða er það vegna þess að við erum kristin, og að kristin trú sé meiri kvenréttindatrú heldur en önnur trúarbrögð? Hvoru tveggja hefur verið haldið fram.

Ég neita því að þessi tvennd hafi haft mikið að segja í þeim efnum (nema þá kannske óbeint), og held því frekar fram að það sé einkum annarri tvennu um að kenna, að karlar hafi glatað yfirburðastöðu sinni á Vesturlöndum (og verið róleg, ég harma það alls ekki þótt ég taki svona til orða). Annars vegar er það iðnbyltingin og hins vegar heimstyrjaldirnar tvær (sem ég ætla bara að kalla 1H og 2H, eða FH og SH). Þó vil ég alls ekki gera lítið úr framlagi kvenna eins og hinnar fögru Mary Wollstonecraft, móður Mary Shelley sem samdi Frankenstein.

En hugmyndin er semsagt þessi:

Með iðnbyltingunni fóru konur meira út á vinnumarkaðinn heldur en fyrr. Áður höfðu þær einkum verið heimavinnandi, en nú gerðist það að þær tóku að starfa í verksmiðjum, þótt það hafi verið í takmörkuðu mæli. En með því að konur tóku meiri þátt í vinnumarkaðnum heldur en áður, og tóku því líka að greiða meiri skatt, þá hefur eðlilega vaknað sú krafa að þær fái líka eitthvað að segja um það, hvernig skattfé þeirra sé varið.

En það var fyrst í 1H sem konur fóru virkilega að taka þátt í vinnumarkaðnum, og af skiljanlegum ástæðum. Karlpeningur Evrópu, og síðar BNA æddi í hundrað þúsundavís til vígstöðvanna til þess eins að láta brytja sig niður, murrka úr sér lífið eins og fiskum í fiskabúri þegar kvikasilfursmælir er brotinn í því. Og þegar karlarnir eru allir annað hvort dauðir, bæklaðir, á vígstöðvunum eða of gamlir/ungir, hver á þá að sjá um að framleiða meiri vopn? Eru það ekki konurnar? Þeim fjölgaði sem aldrei fyrr í verksmiðjunum og öðluðust meira sjálfstæði en áður. Ég meina, ef það er ekki mikið af körlum til að segja þeim fyrir verkum, hvað annað gæti gerst en að þær taki völdin í sínar hendur sem aldrei fyrr?

Þess mikla þáttaka í stríðinu hefur líka gert þeim kleift að segja, þegar hildarleiknum lauk,

“Án okkar hefðuð þið tapað. Annað hvort hefðuð þið verið færri á vígvellinum því þið þurftuð að verksmiðjurnar til að framleiða leikföngin ykkar, og þá hefðuð þið tapað. Eða þá að enginn hefði verið í verksmiðjunum, og þá hefðuð þið fljótlega orðið uppiskroppa með skotfæri - og þá hefðuð þið tapað. Við praktískt héldum ykkur uppi, ásamt því að sjá um heimilið á meðan þið voruð í burtu. Nú viljum við fá viðurkenningu á okkar framlagi - t.d. með kosningarétti til jafns við ykkur.”

Er það ekki annars rétt hjá mér skilið, að í Bretlandi og BNA hafi konur fengið kosningarétt á milli 1918 og 192x, og í Frakklandi uppúr 1950 (sem er auðvitað eftir 2H, sem kann að skýrast af þáttöku frankra kvenna í andspyrnuhreyfingunum, sem og því að flestir Frakkar eru kaþólskir - og þá kannske ívið meira hægfara (með fullri virðingu fyrir kaþólikkum, að sjálfsögðu))? Mér sýnist að kosningaréttur kvenna hafi komið síðast í þeim löndum sem voru a) kaþólsk og b) fyrir utan bæði stríðin. Til dæmis hefur það varla gerst í sama mæli í Sviss og Spáni að konur hafi farið í hefðbundin karlastörf, þarsem karlarnir voru ekki einhvers staðar annars staðar að láta murka úr sér lífið?

Ég veit vel að þetta er mikil einföldun og jafnvel óheyrilega mikið af getgátum, og eflaust eru margar gloppur, enda er ég að gera þetta að mestu eftir minni. Nú voru aðstæður allt aðrar á Íslandi, og þar fengu konur jafnan kosningarétt á við karla 1920, og mér skilst að það hafi verið vegna þrýstings Dana sem hafa væntanlega verið að fylgja frumkvæði Breta og/eða BNA-manna þar sem þeir stóðu fyrir utan 1H (ekki satt?).

En hvers vegna hefur sama þróun ekki átt sér stað t.d. í Íran (ég held að konur hafi ekki kosningarét þar - en ég veit ekkert um það, svo sem) og Írak? Af hverju eru (eða virðast) konur vera svo kúgaðar þar, þrátt fyrir að þessi lönd hafi barist í fjölda ára, með tilheyrandi mannfalli?

Trúin, eða a.m.k. túlkun hennar hefur örugglega sitt að segja, en mig langar til að veðja á annan hest (sem er svo sem ekki öruggur - a.m.k. hef ég ekki kynnt mér hann, en kannske getur einhver frætt mig betur, eða vísað mér á betri hest). Hann er sá, þessi lönd hafi framleitt minnst af sínum vopnum sjálf og því hafi ekki verið eins mikil þörf fyrir konur í verksmiðjum, aukþess sem iðnbyltingin sjálf hefur ekki þróast eins langt þar (þetta eru hugsanlega fyrirlitlega grófir fordómar af minni hálfu, ég er opinn fyrir leiðréttingum). Þannig var almennt minni þörf fyrir konur í hefðbundin karlastörf, og þá jafnvel minni ástæða til að ætla þær leggja jafnmikið af mörkum til landsins og karlarnir.

En þetta eru nú bara getgátur.
All we need is just a little patience.