Fasismi I. hluti I. hluti - Fasismi sem stjórnmálastefna

Þessar greinar skrifaði ég í dálitlu flýti og biðst forláts á kvillum sökum þess.


Þegar fólk upplifir sig óvarið og umhverfi þess er í upplausn þráir það reglu. Þetta var það sem gerðist í mörgum ríkjum Evrópu á millistríðsárunum. Fyrri heimsstyrjöldin hafði farið illa með bróðurpartinn af álfunni og þá komu tapþjóðirnar Þýskaland og Austurríki-Ungverjaland þar verst út enda þurftu þær að gjalda vel fyrir ósigurinn. Í kjölfarið kom gríðarlegt atvinnuleysi og efnahagskreppa auk þess sem vofa byltingar sveimaði yfir borgum og þéttbýlum.

Á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina náði fjölþjóðakeisaradæmið Austurríki-Ungverjaland yfir drjúgan part af Austur-Evrópu. Þýskaland og Rússland lágu yfir allt það svæði sem nú hýsir Pólland og á Balkanskaga voru Grikkland, Búlgaría og Serbía búin að brjótast undan yfirráðum Tyrkja. Þegar ósigurinn reið yfir þessar þjóðir árið 1918 var svæðið í upplausn og þjakað af stríðsþreytu, niðurlægingu og örbirgð.
Þýskaland sem hafði verið í stanslausri sigurgöngu og uppgangi síðan löngu fyrir stofnun ríkisins árið 1871 var nú niðurbrotið og sigrað land. Frakkar, sem höfðu verið gersigraðir af Þjóðverjum í stríði þeirra 1870-71, fóru fyrir bandalagi Bandamanna og í Versalasamningunum árið 1919 létu þeir Þjóðverja svo sannarlega borga fyrir niðurlæginguna. Í kjölfar samninganna misstu þjóðverjar mikið land í Prússlandi og víðar og þurftu að greiða óheyrilegar stríðsskaðabætur. Auk þess var kveðið á heilmiklar skorður á herafla og var franskur her settur í Rínarlönd Þýskalands til að passa að Þjóðverjar gætu vígbúist aftur.
Sama var uppi á teningnum í hinum sigruðu löndum Austurríkis-Ungverjalands. Austurríki-Ungverjaland hafði verið leyst upp og uppúr rústum þess voru stofnuð fjögur ný ríki; Austurríki, Ungverjaland, Tékkóslóvakía og Júgóslavía Einnig stækkaði Rúmenía á kostnað Ungverjalands. Fólk var atvinnulaust, fátækt, stríðsþreytt og kommúnistar sóttu í sig veðrið borgarastéttinni til mikillar óhamingju. Byltingar blossuðu upp víðsvegar en voru barðar niður jafnóðum. Reyndar heppnuðust byltingar í Þýskalandi og Ungverjalandi en þó ekki nema þannig að þær voru barðar niður fljótlega.

Við þessar aðstæður þráði fólk sterkan leiðtoga og sterka reglu. Pólitískar hreyfingar sem voru óhræddar við að sýna sitt rétta agressíva eðli stofnuðu einkaheri og stóðu í götubardögum við kommúnista spruttu upp og leiðtogar þeirra sem lofuðu stöðugleika, öryggi, atvinnu og umfram allt, vernd gegn kommúnistum, unnu traust borgarastéttarinnar.
Hvers vegna virðist sem fólk hafi ‘viljað’ fá yfir sig alræðisstjórn? Hvers vegna studdu menn Benito Mussolini til dáða og hvers vegna kusu menn Adolf Hitler í lýðræðislegum kosningum þegar agressíft eðli þeirra var ekki dulbúnara en raun ber vitni?


Hvað er fasismi?

Fasismi er stefna í stjórnmálum sem skaut rótum í mörgum ríkjum Mið-og Austur Evrópu á árunum milli stríða í kjölfar eftirmála fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fasistahreyfingin varð til á Ítalíu og þróaðist hún út frá sósíalískri stjórnmálahreyfingu undir forystu manns að nafni Benito Mussolini en hún varð að agressívri þjóðernisstefnu fljótlega eftir stríðið.
Fasisminn breyddist út á 3. og 4. áratugnum og komust fasistar til valda í Austurríki, Ungverjalandi, Spáni, Rúmeníu, Portúgal og í Þýskalandi. Í Þýskalandi komust nasistar til valda árið 1933 og falangsistar á Spáni árið 1939 í kjölfar borgarastyrjaldarinnar þar í landi, en nasismi og falangismi eru undirgreinar fasismans. Í kjölfar hinnar árásargjörnu utanríkisstefnu fasistaríkjanna, þá einkum Þýskalands, fór bróðurparturinn af heiminum í stríð árið 1939-1945. Eftir stríðið átti fasismanum að hafa verið útrýmt en ríkisstjórnir hafa poppað upp víða sem bendla má við fasíska stjórnarhætti þó óritskoðaður og ódulbúinn fasismi í allri sinni dýrð hefur ekki sést síðan fyrir stríð.

Orðið fasismi er komið af latneska orðinu fascis er þýðir knippi. Vandsveinar nefndust lífverðir ræðismanna í Rómarveldi hinu forna er ruddu þeim leið í gegnum mannfjöldan og gátu handtekið fólk eftir beiðni auk þess sem þeir héldu uppi ró og reglu. Þeir báru vopn sem á latínu kallaðist fasces en það var exi vafin í hrísknippi og hefur vopn þetta verið síðan þá tákn valdsins. Mussolini tók því að nota exina í hrísknippinu sem merki fasistahreyfingar sinnar auk þess sem hreyfingin var fyrst kölluð Fasci italiani di combattimento eða “Ítölsk bardagaknippi” eins og það myndi útleggjast í beinþýðingu. Þaðan er nafnið fasismi komið, en á ítölsku útleggst það fascismo, eða “knippisismi” ef útí það er farið. Vissulega eru þetta nafntoganir, nafnið á auðvitað að tengja við exina í hrísknippinu sem tákn valdsins, en það er vörumerki fasismans, vald og ofríki.

Sagnfræðingar eru ýmist ósammála um það hvernig tala megi um fasismann. Sumir vilja varla tala um hann sem sér stjórnmálastefnu, heldur aðeins stjórnmálaflokk sem réði Ítalíu á árunum 1922-1943. Sumir vilja meina að fasisminn hafi fæðst 1919 og dáið 1945 og aðrir segja um að hann lifi enn góðu lífi í dulbúningi annars konar stjórnarfars. Oft hefur orðið einfaldlega verið notað til að lýsa ólíkum ódulbúnum einræðisstjórnarformum eins og sést hefur víða í Afríku, Miðausturlöndum, Suður-Ameríku og Suður-Evrópu og jafnvel hafa menn notað orðið um ríki sem stjórnuð eru eftir stalínískri hugmyndafræði. Oft hefur það loðað við þá sem aðhyllast marxískar skoðanir að tala um fasisma sem lokastig kapítalismans, neyðarúrræði auðvaldssinna til að forða þeim frá byltingu öreiga. Höfundur þessa rits, eins og áður hefur komið fram (og koma mun fram) vill nota hugtakið fasisma um það stjórnarfyrirkomulag sem notað var í áður upptöldum ríkjum á millistríðsárunum og jafnvel um fleiri ríki víðar í heiminum. En hvað sem því líður er orðið notað í daglegu tali í neikvæðri merkingu um alræðisríkisstjórnir eða jafnvel um fantskap, ofbeldishneigð, yfirgang og valdaníðslu hjá einstaklingum eða hópum.


Einkenni fasismans

Fasismi er alræðisstefna sem grunnhugmyndafræðin byggist á andlýðræðislegum einræðisfídusum, heimsveldisstefnu og þjóðernishyggju. Félagslegur darwinismi, hugmyndin um að hið sterka sigri hið veika er lögð til grundvallar og boða fasistar sterka reglu og aga. Ríkið spilar aðalhlutverkið sem alsráðandi eining sem stjórnar samfélaginu, vörður laga, reglu og kristilegs siðgæðis. Það er æðsta eining samfélagsins og hefur algert vald yfir þegnum landsins og þarf því hvorki að lúta mannréttindum né lögum og notar ríkið lögregluna og/eða herinn til að halda uppi aga. Ríkið hefur allan réttinn gagnvart einstaklingnum en einstaklingurinn engan rétt gagnvart ríkinu. Fasískar ríkisstjórnir eru einflokksbundnar og er hugmyndin sú að valdið sé í höndum fárra en sterkra leiðtoga (styrkleiki frekar en gáfur). Þannig er lýðræðislegt þingræði andstæðan við fasisma (sem stjórnarfarstegund ríkisstjórnar) en hins vegar virkja fasistar óbeina þáttöku fjöldasamtaka og annara hópa samfélagsins í stjórnmálum.
Með því að beita ofbeldi og hefta einstaklingsfrelsi vilja fasískar ríkisstjórnir stuðla að öryggi og stöðugleika og því hefur það verið algengt að finna sameiginlegan óvin þjóðarinnar, þ.e. einhverja aðra hópa samfélagsins, oft fólk með aðrar stjórnmálaskoðanir og/eða fólk sem tilheyrir öðrum kynstofnum eða trúarbrögðum. Þannig höfða fasistar til þjóðerniskenndar og kynda undir múgæsing, hatur og fordóma gegn öðrum hópum. Þó er bein andstaða til annarra þjóða og/eða kynþátta ekki sjálfgefin þar sem mörg fasistaríki aðhylltust enga sérstaka kynþáttahyggju, en kynþáttahyggjan var hinsvegar það sem einkenndi nasismann helst.


Fasismi og kommúnismi

Varla er hægt að segja að upphaflegi fasisminn hafi haft einhverja grunnhugmyndafræði þar sem hann þróaðist aðallega sem andsvar við öðrum stjórnmálastefnum, þá fyrst og fremst kommúnismanum og lýðræðinu og má því hugsa fasismann, við hlið kapítalismans, sem andstæðuna við sósíalisma. Hann er því flokkaður sem öfga-hægristefna á hægri-vinstri skalanum. Hann á einnig heima þar þar sem hann hefur stundum verið skilgreindur sem ofbeldishneigð íhaldsstefna. Reyndar má líkja ýmsum siðum fasista við siði kommúnista og jafnvel segja að sumir þeirra séu komnir þaðan (þar sem kommúnisminn (marxisminn) er töluvert eldri stefna). Þá má helst nefna alræði eins flokks (flokksræði), í stað eins manns eða fjölskyldu o.sfr., afskiptasemi ríkisvaldsins af atvinnulífinu, þá helst fjölmiðlum, iðngreina og landbúnaði.
Ólíkt hugmyndafræði sósíalismans um afnám eignaréttar fjármagnseigenda og landeigenda, nutu þeir verndar ríkisins í sumum fasistaríkjum millistríðsáranna. Aftur á móti urðu þeir að þola afskaplega mikla afskiptasemi yfirfaldsins, en fasísk efnahagsstjórn einkennist oft af mikilli skipulagningu og ríkisrekstri. Fasistar eru algerlega á móti hugmyndum kommúnista um stéttlaust samfélag, heldur boða þeir íhaldssama stéttaskiptingu. Þeir segja að stéttaskiptingin sé nauðsynleg til að þess að samfélagið gangi upp, þá vilja þeir meina að allar stéttir eiga að halda sínum ólíku stéttareinkennum og vinna saman hver á sínu sviði með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Andstæðurnar í þessum tveimur stjórnmálastefnum þar eru það miklar að það gat hvergi endað nema með blóðsúthellingum, sérstaklega þar sem fasistar og kommúnistar höfðu verið að berjast líkamlega síðan árið 1919. Þegar fasistar (nasistar) og kommúnistar höfðu komist til valda í sitthvoru hernaðarveldinu, Þýskalandi Hitlers og Sovétríkjunum, fóru þeir vitaskuld að elda grátt silfur saman (þó kommúnistaríkið hafi alltaf verið til staðar fyrir fasistum). Sú eldamennska náði svo hámarki árið 1941 þegar Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin, uppfullir af andkommúnískum hugmyndum fasismans og kynþáttahugmyndum nasismans. Það stríð var fasisminn í hnotskurn. Það var áþreifanlegur holdgerfingur andlegrar hugmyndafræði. Sú krossför fór þó ekki eins og fyrst var áætlað og urðu afleiðingarnar þveröfugar eins og vart hefur farið framhjá neinum sagnfræðiáhanganda.
Es rasseln die Ketten, es dröhnt der Motor,