Saddam Hussain Fjöldi fólks lést þegar bílsprengja sprakk í Bagdad í dag. Fyrirsagnir sem þessar sjáum við á forsíðum margra blaða hvern dag en ástandið í Írak er skelfilegt um þessar mundir. Borgarastyrjöld ríkir í landinu á milli tveggja stórra trúarhópa sem hafa búið saman í sátt og samlyndi til fjölda ára.

Þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra gerðu innrás í Írak árið 2003 var Saddam Hussein við stjórn landsins og hafði gert það í tugi ára. Hann er þekktur í dag sem grimmur harðstjóri sem drap mikið af fólki, miskunnarlaus maður sem pyndi og aflífaði fólk fyrir aðeins að mótmæla. Hann var fundinn sekur fyrir að myrða 148 manneskjur í smábæ sem heitir Dujail árið 1982 en talið er að hann beri ábyrgð á dauða mun fleiri manneskjum. Þar af leiðandi segja margir að dauði hans hafi komið alltof snemma þar sem það átti eftir að sækja hann til saka í fjöldann allan af málum. Mörg af hans ódæðisverkum var á Kúrdum í norður Írak en sagt er að hann hafi ætlað að útrýma þeim. Talið er að mörg hundruð þúsundir kúrda hafi látist af efnavopna árásum sem hann hafði átt að fyrirskipa, en hann verður aldrei sakfelldur fyrir þessi brot þar sem þær ákærur voru lagðar niður.

Í valdar tíð Saddam gekk Írak í gegnum gríðarlegar breytingar þar sem stríð og friður ríkti á víxl. Hægt er þó að spyrja hver þessi Saddam er í raun, var hann svona árásargjarn og miskunnarlaus eins og haldið er fram? Hvernig var Írak undir hans stjórn og hverjum á að skella skuldinni á fyrir ástandið í dag? Þetta eru spurningar sem ég spyr sjálfan mig og ætla svara í þessari grein.

Æska Saddam Hussain
Saddam Hussein Abd al-Majid al-Tikriti fæddist þann 23. apríl 1937 í smábæ sem heitir Al-Awja sem er 13 km frá borginni Tikrit. Nokkrum mánuðum áður en Saddam fæddist hvarf pabbi hans Hussein 'Abid al-Majid. Talið er að hann hafi látist úr krabbameini sem og bróðir hans. Þeir létust báðir rétt áður en Saddam fæddist sem vakti mikinn óhug hjá móður hans Subha Tulfah al-Mussallat, en hún reyndi að eyða fóstrinu og fyrirfara sér sem mistókst.

Móðir hans, nefndi son sinn Saddam en það þýðir „sá sem horfist í augu við“. Þegar Saddam fæddist vildi hún ekkert með hann hafa og sendi hann á brott til frænda síns Khairallah Talfah. Þar dvaldi hann til þriggja ára aldurs en móðir hans vildi þá fá hann aftur eftir að hún tók með nýjum manni. Saddam átti mjög erfiða æsku, sérstaklega meðan hann bjó hjá móður sinni, en hann varð fyrir miklu heimilisofbeldi frá stjúpföður sínum og það ástand varaði í sjö ár. 10 ára gamall flúði hann til frænda síns Khairallah Talfah. Talfah var mikill þjóðernissinni, heittrúaður múslimi og fyrrverandi hermaður. Að sögn Saddam lærði hann mikið hjá Tulfah en Tulfah kom honum í skóla í Bagdad. Eftir miðskólann fór hann í lögfræði en hann hætti í henni árið1957, eftir þriggja ára nám, og byrjaði að taka þátt í stjórnmálum. Saddam var aðeins 20 ára gamall þegar hann gekk til liðs við pan-Arab Baath Party, sem var einmitt flokkurinn sem Tulfah studdi.

Á þessum tíma var Írak konungsríki. Háttsettir menn í hernum komu kóngnum frá völdum og maður að nafni Abdul Karim Qassim tók yfir Írak og leiddi ríkistjórn landsins. Baath flokkurinn, með
stuðning leyniþjónustu Bandaríkjanna, reyndi að koma Qassim frá völdum sem mistókst. Margar sögusagnir segja til um að Saddam hafi átt að skjóta Qassim en hann átti að hafa farið á taugum og aðeins sært forsetann, aðrar sagnir segja að Saddam hafi verið skotinn í löppina og hafa rétt sloppið í burtu. Saddam var gerður útlægur og því flúði hann til Sýrlands og svo til Egyptalands og byrjaði aftur í lögfræðinámi í Kairó.

Leið Saddam að forsetaembætti Íraks
Saddam sneri aftur til Íraks árið 1964 þegar Baath flokkurinn kom stjórn Qassim frá völdum, sama ár gerðist Saddam aðalritari flokksins. Undarleg staða kom upp í landinu á þessum árum. Þegar Baath flokkurinn kom Qassim frá völdum skipuðu þeir Abdul Salam Arif sem forseta landsins. Seinna það ár sveik Arif flokkinn og gekk til liðs við and-Baathisk samtök. Hann handtók flokksmenn Baath flokksins ásamt Saddam Hussein. Ári síðar lést Arif í þyrluslysi og bróðir hans Abdul Rahman Arif tók við völdum.

Saddam slapp úr fangelsi árið 1967 en ári seinna náði Baath flokkurinn enn einu sinni að koma forsetanum frá völdum. Þá gekk allt upp og Ahmad Hassan al-Bakr tók við embættinu, en Saddam var hans hægri hönd. Áður en Saddam tók við völdum ríkti mikil spenna í landinu þar sem hver hópurinn var upp á móti hinum, súnnítar á móti sjítum, og arabar á móti kúrdum.

Fyrstu ár Saddam á valdastóli reyndi hann að koma í veg fyrir þessi átök sem honum tókst nokkuð vel. Hann beitti sér einnig fyrir að bæta efnahag landsins og það gerði hann í gegnum þær olíulindir sem voru í landinu, en olíuverðið hækkaði gríðarlega á þessum tíma. Í kjölfarið urðu miklar framfarir í landinu þar sem frítt var í skóla og öll börn lærðu að lesa. Ríkisstjórnin hjálpaði fjölskyldum hermanna og efldu heilbrigðiskerfið mikið. Saddam Hussein fékk til að mynda viðurkenningu frá UNESCO fyrir vel unnin störf. Vegir voru byggðir og Írakar fengu að kynnast rafmagni. Hann kom einnig upp vestrænu lagakerfi en það tíðkaðist ekki meðal neinna arabaríkja í kringum Persaflóa.

Jafnrétti kynjanna jókst líka gríðarlega á þessum árum. Saddam var mikið gefinn fyrir hitt kynið og sjaldan sást hann öðruvísi en með konum sitjandi sér við hlið. Saddam giftist fjórum sinnum. Fyrst tók hann saman með Sajida Khairallah Talfah, elstu dóttur frænda síns, árið 1963. Hann eignaðist með henni tvo syni, þá Uday og Qusay Hussein. Þau eignuðust einnig þrjár dætur. Sajida og elsta dóttir hennar eru eftirlýstar af írösku þjóðinni en þær eru taldar hafa stutt Saddam fjárhagslega og fleiri súnni múslimum. Sögusagnir segja að hann hafi eignast einn son, Ali, með sinni annarri konu, Shamira Shahbandar, en það er óvíst hvort hann sé sonur eða dóttursonur Saddam, en ekki er vitað fyrir vissu hvenær þau byrjuðu saman. Ósannað er svo hvort hann hafi gifst aftur en margir telja að Saddam hafi tekið svo saman með enn einni konunni, Nidal al-Hamdani en hún vann við einhverskonar stóriðju í Írak. Þau eignuðust engin börn saman. Svo er sagt að hann hafi aftur gifst árið 2002 en það er lítið sem ekkert vitað um það hjónaband, en þetta er einnig aðeins getgáta.

Írak fer í stríð
Aðeins einu ári eftir að Saddam tók við völdum í Írak ákvað hann að ráðast inn í Íran. Aðdragandann má rekja til að Írakar gáfu Írönum landsvæði með því skilyrði að Íranar hættu að fjármagna og styðja Kúrda. Þessi sáttmáli ríkti ekki lengi þar sem Saddam fékk þá hugmynd að ef hann myndi ráðast á Íran og myndi vinna þýddi að Írakar yrðu allsráðandi á svæðinu.

Saddam hafði fengið þær heimildir að her Írana væri veikur og réðst inn í Vestur-Íran í kjölfarið þann 22. september 1980. Réttlætingin sem hann gaf var sú að Íranar, ásamt Kúrdum, áttu að hafa reynt að drepa utanríkisráðherra Íraks. Írakar fengu fullan stuðning Bandaríkjanna fyrir innrásinni. Írakar réðust inn á stórar sléttur og unnu stór landsvæði fyrir vikið.

Saddam hafði ekki gert sér grein fyrir styrkleika Írana en þeir höfðu unnið öll sín landssvæði til baka árið 1982. Þeir réðust því inn í Írak í þeirri von um að steypa Saddam af stól. Írakar buðu fram sáttarhönd en Íranar neituðu og héldu áfram að sækja inn í Írak. Þetta stríð einkenndist af skotgrafarhernaði. Mannfallið var gríðarlegt og ávinningar voru engir hjá hvorugri þjóðinni. Stríðið varð skítugra með hverju árinu þar sem það gekk út á að særa efnahag hins ríkisins nægilega mikið svo það gæfist upp. Fleiri hundruð olíuskipa voru skemmd og mörg hundruð sjómenn létu lífið þegar óvinurinn reyndi að sökkva eða ræna hlutlausum olíuskipum.

Árin liðu í þessu ástandi en Írak fann fyrir meðbyr frá öðrum ríkjum og náði að byggja upp nýjan her sem réðst inn í Íran á ný. Bandaríkin, Bretland, Egyptaland og Frakkland útveguðu Írak mikið af vopnum og Bandaríkin og Bretland gáfu þeim efnavopn sem og hjálpuðu þeim til að byggja upp kjarnorkuvopn. Loftárásir voru gerðar á Taheran, höfuðborg Íran, sem leiddi til þess að Íranar þurftu að semja um frið og friður kom á aftur milli ríkjanna 10. ágúst 1988. Þetta stríð einkenndist af mikilli grimmd og miskunnarleysi og var ekki ósvipað fyrri heimstyrjöldinni, þegar óþjálfaðir hermenn voru ofan í skotgröfum. Stríðið skildi eftir sig djúp sár í sálu beggja ríkja, sár sem seint munu gróa. Bæði ríkin urðu fyrir miklum efnahagslegum afföllum þar sem þau sátu í skuldasúpunni lengi vel eftir þetta.

Árið 1989, eða ári eftir sáttmálann á milli Íran og Íraks, myndaðist spenna á milli Kúveit og Íraks. Írak þurfti að borga Kúveit af þeim lánum sem þeir fengu út af stríðinu við Íran. Írakar vildu hækka olíuverð svo þeir gætu hagnast enn meira, en Kúveit neitaði því og hélt áfram að selja olíuna á lágu verði. Spennan átti þó dýpri rætur að rekja þar sem Írakar héldu því fram að Kúveit væri sögulega séð á Íröskum landamærum. Spennan jókst með hverjum mánuðinum sem gerði það að verkum að Saddam Hussein sá ekkert annað í stöðunni heldur en að fara með her sinn í átt að landamærunum. Bandaríkin sögðu að þeir myndu ekki styðja Íraka í þessum málum eftir átta ára samstarf, en að þeir myndu ekki beita sér á móti Írak. Saddam tók því og reyndi að tala við Kúveit enn einu sinni sem mistókst þannig að hann réðst inn í landið. Það er ekki hægt að segja með neinu móti að Saddam hafi ráðist þarna inn útaf grimmd eða því hann var í nöp við Kúveit heldur var þetta neyðarúrræði til að bæta upp efnahaginn sem var í molum.

Saddam réðst inn í Kúveit og innlimaði þann 2. Ágúst 1990 og náði yfirráðum yfir nær öllum olíulindum landsins. Bandaríkin og Sovétríkin unnu saman á fundi Sameinuðu Þjóðanna þar sem ákveðið var að gefa Saddam úrslitakosti, annaðhvort bakkar hann út eða að ráðist verði á hann. Saddam leit hinsvegar öðruvísi á stöðuna, ef hann sneri til baka myndi efnahagur landsins hrynja og því sá hann haginn í að taka áhættu og bjarga landi sínu frá kreppu.

Þann 16. Janúar 1991 réðust Bandaríkin á Írak 175.000 Írakar voru teknir til fanga og 85.000 Írakar féllu í valinn. Írakar drógu her sinn til baka og eyddu út öllum efnavopnum sem þeir höfðu milli sinna handa.

Millistríðsárin
Eftir Persaflóastríðin settu Sameinuðu þjóðirnar útflutningsbann á Írak og máttu þeir ekki flytja út neina olíu í mörg ár eftir stríð. Þetta skaðaði efnahag ríkisins enn meira og landið var skilið eftir í molum. Saddam notaði oft þann frasa að hann hafi unnið Bandaríkin þar sem þeir fóru áður en þeir náðu Írak og fékk hann mikinn stuðning fyrir það.

Í desember 1996 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að leyfa Írak að selja olíu fyrir mat. Bandaríkin ásökuðu Íraka að vera með gjöreyðingarvopn sem og efnavopn milli handa sinna en Saddam neitaði því alltaf. Sameinuðu þjóðirnar vildu koma vopnaeftirlitsmönnum í landið en Saddam leyfði það ekki til að byrja með. Synir Saddam urðu valdameiri með hverju árinu og sagt er að þeir hafi drepið fjöldann allan af kúrdum en þeir létust svo í skotbardaga árið 2003.

Bandaríkin ráðast inn í Írak
Í janúar 2002 talaði George Bush forseti Bandaríkjanna um að það þyrfti að stöðva ákveðin veldi í heiminum. Hann nefndi lönd eins og Norður-Kóreu, Íran og svo Írak. Hann talaði einnig um að Írakar hefðu kjarnorkuvopn sem þyrfti að gera upp. Að ráðast inn í Írak var aðeins einn þáttur í stríðinu á móti hryðjuverkum. Sameinuðu þjóðirnar sendu vopnaeftirlitsmenn til Íraks en það var samið um að enginn myndi ráðast á Írak ef þeir fengu að koma í landið. Leyfið fékkst ekki fyrr en í nóvember árið 2002 eftir að Írakar höfðu neitað lengi aðgangi eftirlitsmanna í landið.

Mánuði seinna komu eftirlitsmennirnir en fundu ekkert. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að innrás væri ekki lausnin á þeim vanda sem ríkti við botn Miðjarðarhafsins og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands á þeim tíma, og Jacques Chirac, forseti Frakklands, töluðu um að ekki þyrfti að beita hervaldi gegn Írak. Þolinmæði Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands og George Bush, forseta Bandaríkjanna, var á þrotum. Þeir hlustuðu ekki á Sameinuðu Þjóðirnar og bjuggu til bandalag sem kallaðist Bandalag hinna viljugra þjóða. 49 þjóðir voru í þessu bandalagi og Ísland var eitt af þeim.

Í október 2002 samþykkti bandaríska þingið innrás í Írak. Röksemdirnar voru nokkrar; Írak truflaði starf vopnaeftirlitsmanna, heimurinn stóð ógn af þeim gjöreyðingarvopnum sem áttu að vera í Írak, stuðningur Saddam við Al-Qaida og hjálp hans við hryðjuverkaárásirnar þann 11. september og hræðslan að Saddam gæfi hryðjuverkahópum gjöreyðingarvopn.

17. mars 2003 gáfu Bandaríkin og Bretland Saddam úrslitakost að yfirgefa landið en Saddam neitaði því eins og skot. Tveim dögum síðar réðust Bandaríkin, Bretland og Ástralía í Írak en þrem vikum síðar var Írak fallið og Bandaríkin höfðu tekið við völdum. Saddam Hussein fór í felur en fannst ekki fyrr en 13. desember 2003, í lítilli holu sem rétt rúmaði hann einan. Hann veitti enga mótspyrnu við handtökuna, heldur gafst hann strax upp.

Mikil óvissa ríkti um hvar og hvenær ætti að rétta yfir Saddam. Hann og lögmenn hans vildu láta alþjóðadómstólinn í Haag dæma í málinu en Bandaríkin vildu láta írösk stjórnvöld rétta yfir honum. Það var endanleg niðurstaða og réttað var yfir honum 30. júní til 5. nóvember en þá var dómur kveðinn upp.

Talið er að undir stjórn Saddam hafi mikill fjöldi fólks verið myrtur. Til að mynda þegar
Saddam tók við forsetaembætti landsins átti hann að hafa lesið upp 68 nöfn. Þeir menn sem voru lesnir upp voru sóttir til saka og 22 af þeim voru dæmdir til dauða fyrir landráð. Árið 1988 átti Saddam að hafa ráðist á borg í Norðaustur Írak, Halabja. Þar er sagt að um 5.000 Kúrdar hefðu verið líflátnir í efnavopnaárás. Írakar hafa þó aldrei viðurkennt þetta og Saddam ásakaði Írana fyrir að mála vélar í íröskum litum. Þetta verður þó aldrei sannað né afsannað. Árið 1983 voru 8.000 Kúrdar handteknir en ekki er vitað um afdrif þeirra alla. Ráðist var á Saddam Hussein árið 1982 en að árásinni komu menn frá smábænum Dujail. Saddam drap 42 manns og handtók 399 aðra.

Saddam Hussein var dæmdur til dauða fyrir brot gegn mannkyni þegar hann drap 148 manneskjur í smábænum Dujail og fyrir ólöglega handtöku á 399 manns. Saddam Hussein hefur og mun ekki vera sóttur til saka fyrir hina glæpina.

Þann 30. desember 2006 var Saddam Hussein leiddur fram á gálgann og látinn falla.

Írak í dag
Háskóli í Bandaríkjunum rannsakaði mannfall eftir að Bandaríkin réðust í landið árið 2003 þar sem kom í ljós að um 601.027 manns höfðu látist eftir árásina. Rannsóknin var birt 13. október 2006 og kom hún talsvert á óvart þar sem Leyniþjónusta Bandaríkjanna hafði reiknað út mun minna mannfall. Án efa hefur þessi tala farið hækkandi síðan þessi rannsókn var birt þar sem ástandið er virkilega slæmt og fer versnandi með degi hverjum.

Undir stjórn Saddam Hussein var Írak mjög gott land. Óháð því hvort hann var einræðisherra eða bara með mikil völd þá var mikið framfaraskeið í Írak. Enginn gerði sér grein fyrir því hvort hann væri Súnníti eða Sjiti. Áður en hann komst til valda var mikil spenna í landinu sem hann stöðvaði. Hryðjuverk, líkt og við heyrum og sjáum í fréttum daglega, tíðkuðust ekki í landinu undir hans stjórn. Ég tel að Saddam hafi stjórnað nokkuð vel, allavega mun betur en gert er í dag. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Írak af fölskum forsendum og það er svo sannarlega þeim að kenna hvernig ástandið er í dag. Var hann svona miskunnarlaus og vondur maður? Ég held ekki. Hann gerði gríðarmikið af vondum hlutum en að skella skuldinni bara á hann er rangt. Hann var studdur af vesturveldum frá 1980 – 1990. Halda sér réttum megin við línuna var eina meginreglan í landinu meðan hann stjórnaði því.

Fangelsisverðir og læknar í Írak minnast Saddam sem rólegum manni sem las í fangaklefa sínum allan daginn. Hann óskaði eftir að vera skotinn af aftökusveit landsins en fékk því ekki framfylgt.

Saddam var hengdur þann 30. desember. Hans síðustu orð voru; Það er enginn guð nema Allah og ég staðfesti hér með að Múhameð…

Heimildir:

Höfundar margir. Skrifað fyrir wikipedia enclopedia , Saddam Hussein
Vefslóð: http://en.wikipedia.org/wiki/Saddam_Hussein

Gerald Butt. 2001, Janúar. BBC news Saddam Hussein profile.
Vefslóð: http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/middle_east/1100529.stm

Austin Cline. Skrifað fyrir About, Saddam Hussein.
Vefslóð: http://atheism.about.com/library/glossary/islam/bldef_husseinsadam.htm

Jennifer Rosenberg,. Skrifað fyrir About: 20th century historie, Saddam Hussein.
Vefslóð: http://history1900s.about.com/od/saddamhussein/p/saddamhussein.htm

Elisabeth Bumiller in the New yorks time, May 15, 2004. Was a Tyrant Prefigured by Baby Saddam? Vefslóð : http://hnn.us/roundup/entries/5225.html

Copyright 2003 by United Press International, News max. Saddam key in early CIA plot Vefslóð: http://www.newsmax.com/archives/articles/2003/4/10/205859.shtml

Auk viðtals sem ég tók við Jóhönnu Kristjónsdóttur sem verður ekki hér birt. Það var tekið í mars 2007.