Býsanska ríkið Imperium Romanum Orientale

Austrómverska ‘Býsanska‘ Keisaradæmið var grískt/rómverskt keisaradæmi á Balkansskaga og í Litlu-Asíu sem var arftaki og leifar hins Rómverska heimsveldis í tæp þúsund ár. Frá 330 til 1453 stóð grískumælandi ríkið í kringum hina miklu höfuðborg Konstantínópel og varðist stöðugum árásum og innrásum frá norðri og austri. Landið er ýmst kallað Austrómverska ríkið, Býsanska ríkið eða Gríska heimsveldið auk þess sem Íslendingar miðalda kölluðu það Miklagarðsríkið eftir höfuðborginni sem þeir kölluðu Miklagarð. En oftast þykir þó við hæfi að tala Austrómverska ríkið og Býsanska ríkið þegar talað er um landið eftir að það fjarlægðist Rómartímann og varð grískt heimsveldi.


Rómarveldi Býsans,- upphaf og endir

Árið 330 gerði Konstanínus Mikli (274-337), fyrsti kristni Rómarkeisarinn, fornu grísku nýlenduborgina Býsans að höfuðborg Rómarveldis en hún hafði verið grísk smáborg frá árinu 667 f.kr. Við þetta skiptist Rómarveldi í tvennt: Austrómverska ríkið þar sem Konstantínópel var höfuðborg og Vestrómverska ríkið þar sem miðstöðin var Róm. Skiptingin var við Balkanskaga í Evrópu og í Lýbíu í Afríku. Vestrómverska ríkið lenti í ýmsum hremmingum á síðari hluta fornaldar. Það var þjakað af deilum og óöld ríkti auk þess sem barbarar sóttu að úr öllum áttum. Árið 476 lögðu germanir Róm undir sig og stóð þó Austrómverska ríkið eftir eitt sem arftaki Rómarveldis (en auðvitað var Austurrómverska ríkið Rómarveldi ennþá þó Róm hafi verið fallin).

Fyrstu aldirnar voru gullaldir Austrómverska ríkisins. Á 6. öld undir forystu Jústiníanuar I keisara (482-565) var það á hátindi stórveldistíma síns. Jústiníanus vildi ná aftur fornum Rómverskum landsvæðum og með herinn undir stjórn hernaðarsnillingsins Belaríusar hershöfðingja vann hann mikla sigra. Eftir að hafa unnið Persa árið 532, sem Býsanska ríkið hafði verið í stríði við síðan um 500, snéri Jústiníanus sér að vesturglugga sínum. Ári eftir sigurinn á Persunum sendi hann Belisaríus til Norður Afríku með 15.000 hermenn og náði hann ströndinni auðveldlega af Vandölum, allt að því landsvæði sem nú er strönd Alsír og réði hann þá næstum öllum Miðjarðarhafshringnum. Árið 535 sendi Jústiníanus her til Sikileyjar og hafði hann tekið allt Ítalíustígvélið auk dágóðs parts af Suður-Spáni og allar eyjurnar í Miðjarðarhafi árið 565. En stærri varð Býsansríkið aldrei. Það byrjaði strax að skreppa saman við dauða Jústiníanusar. Austgotar náðu fljótlega aftur bróðurpartinum af Ítalíu, þó að suðurhlutinn hafi verið talsvert lengi undir stjórn Býsansmanna. Búlgarar voru einnig harðir í horn að taka og sóttu þeir hart að í Búlgaríu og við Dóná. Einnig stóðu Býsansmenn í kröppum dansi við múslíma frá 650 þá helst Seljúka sem voru forfeður Tyrkjanna. Þeir komu frá Mið-Asíu og börðust vel enda þekktu þeir til stríðstækni frænda sinna Mongólanna. Býsansmenn áttu nokkur góð blómaskeið og gagnsóknir á tímum Alexíusar I keisara (1048-1118) og Basil II (958-1025) sem kallaður var búlgaraslátrarinn. Um 1000 höfðu þeir þó misst síðustu borgirnar á Suður-Ítalíu og eyjarnar í Miðjarðarhafi og í austri börðust Tyrkir og Býsansmenn stanslaust. Uppúr 1100 fór að síga mjög á ógæfuhliðina. Árið 1204 þegar fjórða krossferðin fór um þúfur hertóku og rændu og hertóku gráðugir feneyskir krossfarar Konstantínópel og stofnuðu Latneska keisaradæmið Rómaníu sem stóð í rúm fimmtíu ár. Fyrir þetta bannfærði Páfinn krossfarana en Austurkirkjan tók ekki formlega við afsökunarbeiðni Páfagarðs fyrr en á 20. öld. Eftir að hafa endurheimt borgina árið 1260 var ríkið veiklulegt og þjakað og fór það hratt niður í vaskinn. Borgarastyrjaldir geisuðu og sú lengsta stóð frá 1341-54 auk þess var ríkið á barmi gjaldþrots. Keisaradæmið fór að liðast í sundur undan innrásum og óeirðum og náðu Tyrkir nær allri Anatólíu og Grikklandi þegar komið var á 14. öld og við upphaf 15. aldar var landið aðeins aumt grískt smáríki. Banasárið kom svo árið 1453 þegar Konstantínópel féll loks eftir tveggja mánaða umsátur gríðarlegs tyrknesks hers undir stjórn Mehmeds II Tyrkjasoldáns, en þá höfðu Tyrkir reynt margar tilraunir til að ná borginni síðan fyrir þúsaldarmótin.


Býsans – Konstantínópel – Mikligarður – Istanbúl

Eftir fall Rómarveldis varð höfuðborgin Konstantínópel alger miðpunktur ríkisins enda varð landið síðar kennt við hana („Býsanska ríkið“ er hugtak sem ekki kom fram fyrr en á 19.öld og þá er ríkið eins og gefur að skilja kennt við borgina Býsans). Það var blómleg heimsborg sem iðaði af mannlífi og menningu. Í borginni fór fram mikil silkiframleiðsla og var miðstöð verslunar og samgangna útaf landfræðilegri legu sinni. Hún státaði af aragrúa af merkilegum og fallegum byggingum. Fyrir utan djásn hennar Soffíukirkjuna voru virkisveggir hennar svo stórir og góðir að sjaldan hafði annað eins sést enda héldu þeir ófá umsátur og hafa þeir orðið frægir fyrir það. Ekki er mikið til í dag af frægum byggingum og minnismerkjum frá tímum Konstantínópels þar sem mikið var eyðilagt eftir innrás Tyrkja og hernám krossfaranna 1204.

Konstantínusi mikla fannst Róm ekki nógu góður staður fyrir miðstýringu heimsveldisins og vildi flytja hana austur þar sem hún væri nær átakasvæðunum við norður-og austurlandamærin, þ.e. við Dóna og í Austurlöndum við Zagrosfjöll en þar var hið eilífa vesen á barbörum og Persum. Býsans var því kjörinn staður útaf landfræðilegri legu hennar auk þess sem hún var miðstöð verslunarleiða á milli Evrópu og Asíu. Konstantínus skýrði hana „Nova Roma“ eða hina nýju Róm en hún var fljótlega skýrð í höfuðið á honum Konstantínópel. Það nafn bar hún svo til ársins 1930 er Tyrkir breyttu nafninu í Istanbúl eins og hún heitir í dag. Tyrkir gerðu hana að höfuðborg sinni 1453 og kölluðu hana Kostantiniyye og var það ekki fyrr en árið 1922 þegar Ottomanveldið liðaðist í sundur að Ankara varð að höfuðborg Tyrklands. Einnig hefur hún verið þekkt af Tyrkjum sem Islambol, Tsarigrad af Slövum og Mikligarður af norrænum mönnum.


Væringjar og býsanski herinn

Norrænir menn sóttu stundum til keisarans í Konstantíópel og gerðust málaliðar í hernum. Væringjar kölluðust þeir skandinavíuvíkingar sem fóru í austurveg og stunduðu verslun og rán í Rússlandi og Úkraínu við Svartahaf. Margir þessara væringja gengu í býsanska herinn gegn gjaldi og þóttu þeir hinir ágætustu dátar. Á þjóðveldistímanum kom fyrir að Íslendingar sem höfðu verið að höggva mann og annan fóru til Rómar og fengu syndaaflausn Páfans eða fóru til Konstantínópel og gerðust stríðsmenn keisarans. Býsanski herinn var öflugur en hermennirnir voru engir elítuhermenn. Þeir voru af ýmsum þjóðarbrotum og ekki komu þeir alltaf frá landinu sjálfu og var mikið af útlenskum málaliðum en þó var kjarninn grískir bændur sem fengu jarðnæði að launum fyrir herþjónustuna. En þessir skandinavísku væringjar þóttu svo tryggir og góðir hermenn að á 11.öld höfðu býsanskir keisarar myndað keisaralega lífvarðasveit úr væringjahermönnum og voru þetta úrvalssveitir keisarans(e. Varangian Guard). Til eru margar sögur af Íslendingum sem komið hafa heim frá Miklagarði með fulla vasa af djásni sem keisarinn gaf þeim fyrir dygga þjónustu. En ekki voru norrænu víkingarnir alltaf jafn samvinnuþýðir. Eitt skipti árið 860 gátu þeir ekki staðist víkingaeðlið og gullið og gersemarnar í Konstantínópel og drápu menn, brenndu kirkjur og rændu og rupluðu. Það var ekki fyrr en keisarinn mútaði þeim með gulli og demöntum að þeir fóru.
Býsanski herinn bjó yfir leynivopni sem því miður glataðist allveg er Konstaníópel féll en það voru einfaldar en banvænar eldvörpur sem kallaðar voru Grískur Eldur eða Býsanskur Eldur. Þær voru ekki ósvipaðar eldvörpum nútímans en þær spúðu ókunnri eldfimri efnablöndu á óvininn sem hafði verið kveikt í. Efnablandan hafði þann eiginleika að það þótti nánast ómögulegt að slökkva eldinn og sagan segir að hann hann hafi aðeins magnast upp ef skvett var á hann vatni. Býsansmenn notuðu þetta leynivopn á hermenn auk þess sem það kom sér mjög vel í sjóorrustum þar sem tyrknesku skipin bókstaflega fuðruðu upp.


Austurkirkjan; arfleifð Býsanska ríkisins

Segja má að Býsanska ríkið hafi aðeins verið langdreging á dauða Rómverska keisaradæmisins en óhætt er að segja að þeir hafi skilað stórum hluta arflefðar sinnar áfram til komandi kynslóða. Þó Býsanska ríkið hafi verið mikið herveldi liggur menningararfur þess að mestu í rétttrúnaðarkirkjunni. Árið 1054 sleit kirkjan í Konstantínópel sig frá páfanum í Róm og varð Konstantínópel miðstöð grísk/rómversku réttrúnaðarkirkjunnar og er hún það enn þar sem æðsti yfirmaður hennar, Patríarkinn, situr enn þann dag dag í hinni múslímsku Istanbúl. Rétt eins og annarsstaðar í Evrópu á þessum tíma var trúin mikill partur í lífi manna og sameinaði hún þjóðir ríkisins. Þó íbúar keisaradæmisins hafi verið af mörgum þjóðarbrotum áttu þeir allir það sameiginlegt að þeir játuðu trú sína á Jesúm Krist. Þeir skildu eftir sig fullt af fallegum guðshúsum út um gervallt ríkið og má þar helst nefna Hagia Sofia í Konstantínópel sem norrænir menn köluðu Ægisif. Hún var reist af Jústniníanusi keisara á árunum 532-537 en í henni hefur komið fram ómetanleg mósaíklist sem Tyrkirnir spösluðu yfir er þeir breyttu henni í mosku á 15.öld. Rétttrúnaðarkirkjan sem er að miklu leiti lík þeirri kaþólsku fyrir utan grísk og austræn menningaráhrif sín er og hefur verið stór stofnun og er hún er hún stærsta trúarbragðið í Grikklandi, Rússlandi, Úkraínu, Hvíta Rússlandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Serbíu og hefur hún þúsundir fylgismanna víðar í Austur-Evrópu.


Grísku keisararnir; meistarar tíma og rúms

Gríska var alltaf langstærsta tungumálið innan keisaradæmisins en varð hún ekki opinbert tungumál fyrr en Heraklíus keisari (610-641) gerði hana að ríkismáli um miðbik 7.aldar en Jústiníanus mikli var síðasti keisarinn sem talaði Latínu (og hann dó rúmri öld á undan Heraklíusi). Almenningur fór að kalla keisarana Baselikus uppá grísku í stað Augustus sem keisarar Rómar voru kallaðir. Keisarar 15. aldar létu einnig stundum kalla sig Keisara Grikklands (Basileus ton Hellinon). Þó litu Býsansmenn allaf á sig sem Rómverja kölluðu landið Rómarveldi. Alræði keisaranna var algert og voru þeir meðal annars stundum ávarpaðir Chronokrator (Meistari tímans) og Kosmokrator (Meistari alheimsins) og voru þeir teknir í dýrðlingatölu eftir dauða sinn. Jústinianus mikli lét gera lögbók (Corpus Juris Civilis) sem gilda átti í öllu ríkinu og skyldi tryggja að allir næðu lögum og rétti en hún hefur verið lögð til grundvallar réttarkerfum margra Evrópuríkja. Þessi löggjöf gerði alla stjórnsýslu skilvirka og réttláta og var lögð áhersla á sanngirni og réttlæti.
Í Býsanska ríkinu varðveittist grísk og rómversk menntun og menning og býsanskir listamenn eru frægastir fyrir sínar undurfögru mósaíkmyndir út lituðum stein-og glerflísum sem þeir skreyttu kirkjur sínar með. Þrátt fyrir rómversk bönd sín varð ríkið þegar arftaki og vörður hellenískrar menningar. En þó það hafi verið Rómarveldi fyrst má segja að það hafi þróast og orðið að eigin grísku heimsveldi þegar leið á miðaldir.
Es rasseln die Ketten, es dröhnt der Motor,