Kakóbaunin Súkkulaði er matvara sem er unnin úr kakói. Það er algeng uppistaða í margs konar sælgæti, kökum og ís svo eitthvað sé nefnt. Það er einnig eitt af vinsælustu bragðefnum í heimi. Súkkulaði er eitthvað sem hvert mannsbarn í hinum vestræna heimi þekkir. Það er löngu orðin hluti af vestrænni menningu, hvort sem það tengist hátíðum eða vikulegum og jafnvel hversdagslegum glaðningi. Fæstir vita hinsvegar eitthvað um sögu súkkulaðsins. Hvernig fór kakóbaunin að því að sigra heiminn?

Kakóbaunin og kakótréð er upprunið frá Mið-Ameríku og Mexíkó. Sagan segir að guðinn Quetzalcoatl, sem dýrkaður var áður en Evrópumaðurinn kom til mið – Ameríku, hefði kennt tilbiðjendum sínum að rækta og vinna úr kakótrénu. Mannfórnir Quetzacoatl til heiðurs voru algengar og ganga sögur um að jafnvel hundruðum eða þúsundum manna hafi verið fórnað á einum degi. Maya – þjóðin, sem áður var þar sem Guatemala er nú, hafði þróað með sér margflókið menningarsamfélag og voru m.a framarlega í byggingar- og myndlist. Þeir eru taldir vera fyrstir þjóða til að gera kakórækt að búskapagrein en þeir notuðu kakóbaunir einnig sem gjaldmiðil.


Kakóbaunirnar voru oft muldar í steinmortélum svo úr varð kornótt og feit klessa. Í hana var settur kanill, vanilla og chili-pipar. Síðan var maísmjölið blandað saman við og úr þessu mótaðar hringlaga kökur til þurrkunar. Þurrkaðar kökurnar voru svo muldar út í sjóðandi vatn. Feitur drykkurinn, xocolat í munni íbúa Suður-Ameríku, var talinn búa yfir bæði töfra- og lækningamætti.

Svona drykki var spænska landvinningamanninum Cortés boðið upp á í bænum Tenochtitlán, þar sem nú er Mexíkóborg, þegar hann koma þangað. Hann hreifst svo af þessum drykk að hann ákvað að kynna það löndum sínum, Spánverjum árið 1527. Fjörtíu árum síðar varð súkkulaðið vinsælt á Spáni. En kakóið var reyndar spánskt leyndarmál í hartnær heila öld, það barst ekki til Ítalíu fyrr en árið 1606 og varð ekki vinsælt í Frakklandi fyrr en eftir að spænska prinsessan María Theresa giftist Loðvíki fjórtánda árið 1660.

Súkkulaði fór að verða sí vinsælla hjá efnuðum borgurum í öllum helstu stórborgum Evrópu. Heitt súkkulaði var ómissandi hversdagslegur glaðningur hjá mörgu efnuðu fólki í Evrópu og víðsvegar spruttu upp kakóhús. Það var ekki fyrr en árið 1828 að súkkulaði í föstu formi til átu kom fram á sjónarsviðið. Það var Hollendingur að nafni Hendrik von Houten sem fann upp á að pressa fituna úr kakóbaunum svo hægt væri að framleiða þurrt kakóduft. Með þessari aðferð varð til kakómauk og úr því mátti vinna milt, sætt og gott súkkulaði að bíta í. Ekki leið á löngu þar til að samkeppni um súkkulaði til að bíta í varð það hörð að verð á mörgum þeirra fór að lækka. Kakóduft sem framleidd voru í verksmiðjum voru það ódýr að brátt gat fólk af lægri stéttum Evrópu einnig tileinkað sér þann munað að borða súkkulaði.

Sumir af elstu súkkulaðiframleiðendum heims eru enn við lýði í dag. Þar ber helst að nefna fyrirtækið Nestlé sem margir kannast eflaust við. Fyrirtækið heitir í höfuðið á Svisslendingnum Henri Nestlé en hann, ásamt Daniel Petur eru frumkvöðlar mjólkursúkkulaðsins. Þeir fundu upp á að blanda mjólkurdufti og kakódufti saman.

Eftirspurn súkkulaðis er orðin það mikil í dag að byrjað er að rækta kakótréð á öllum mögulegum stöðum. Þar ber helst að nefna Fílabeinsströndina í Vestur – Afríku en þar er framleitt um 70% af kakói heimsins. Aðeins 14% af kakói kemur frá heimaslóðum þess í Suður, og Mið - Ameríku.


Hægt er að fullyrða að kakóbaunin hafi svo sannarlega sigrað heiminn. Það stendur undir nafninu vinsælasta sælgæti í heimi, með réttu enda kemur það víða við. Sérstaklega í Norður – Ameríku og Evrópu en tveir þriðju af súkkulaðiframleiðslu heimsins hverfur ofan í þær þjóðir sem tilheyra þessum heimsálfum. Vert er þó að nefna að saga framleiðslunnar í dag er ekki alltaf jafn sæt og bragðið á framleiðsluvörunni. Nýleg dæmi eru um það að börn séu seld í þrældóm á kakóplantekrum á Fílabeinsströndinni. Þrátt fyrir það hámum við súkkulaði í okkur og ekkert lát virðist vera á því á næstunni.
./hundar