Inngangur.
Eftir að hafa lesið um samfélag Shakerana varð mér ljóst að til þess að skilja tilgang og tilurð hönnunar þeirra, verður að segja stuttlega frá sögu þeirra og menningu. Það er ljóst að einstök húsgögn þeirra hefur sett mark sitt á hönnun komandi kynslóða.
Ég mun því leitast við að finna og skýra út hvaðan hugmyndir þeirra komu og hverjir urðu helstu áhrifavaldar þeirra. Ég mun einnig reyna að svara spurningum eins og hvers vegna þeir fóru út í að framleiða húsgögn og hver er hugsunin á bak við muni þeirra.
Einnig er athyglisvert að velta fyrir sér hverjir hafa orðið svo fyrir áhrifum af þeim eða tekið upp hugsanagang þeirra. Þó að Shakeranir hafi orðið þekktastir fyrir húsmuni og nytjahluti, voru fleiri hlutir sem vert er að minnast á, eins og arkitektúr þeirra, umhverfishönnun, grafíska hönnun á umbúðum um mat sem þeir framleiddu. Einnig framleiddu þeir föt og varning ýmiskonar sem eftirsóttur var.

Saga Shakerana.
Á blómatíma innflytjendanna í hinu fyrirheitna landi, Ameríku komu margir trúarhópar með það að markmiði að setjast þar að. Þar á meðal var ung kona frá Manchester í Englandi, Ann Lee að nafni. Hún kom til New York ásamt eiginmanni, skyldmennum og nokkrum áhangendum árið 1774. Þessi hópur hafði klofnað frá Quakers trúarhópnum og fékk fljótlega nafnið the Shaking Quakers, vegna hins undarlega hristings líkamanns við trúarathafnir. Ann Lee sem var einskonar andlegur leiðtogi hópsins, hafði ákveðið að fara til hins nýja heims í leit að hinu fullkomna lífi, en hún hafði áður misst fjögur börn, öll annaðhvort í fæðingu eða á unga aldri. Hún var haldin miklum sjálfs ásökunum vegna þessa og taldi að huggunar mætti leita hjá Guði sínum.
Hópurinn settist að í New York fylki og hófu þar sjálfsþurftar-búskap. Mjög strangar reglur hópsins útilokuðu samskipti við umheiminn. Regla var á öllu sem þeir aðhöfðust og samlindi var algjört, allir voru jafnir. Af þessu leiddi að Shakerarnir framleiddu allt það sem þeir þurftu til hins daglega lífs og afurðir þær, lutu sömu lögmálum, allt var reglulegt og nánast fullkomið. Best lýsa orð Ann Lee hugsanagangi Shakerana “feldu höndum þínum vinnu en Guði hjarta þitt” Brátt voru farnar trúboðaferðir um Bandaríkin í leit að nýjum meðlimum í söfnuð Shakerana. Um 1840 voru Shakera-samfélög í nokkrum fylkjum og voru þeir um 6000 manns þegar mest var. Árið 1930 hófst mikið hnignunartímabil í sögu þeirra, vegna þess að lokað var alveg fyrir inntöku nýrra meðlima í söfnuð þeirra. Í dag er hópurinn að deyja út og eru örfáir meðlimir ennþá með búskap í New York fylki. En hönnun þeirra lifir. Hún er og verður öllum sem kunna að meta “function” í sinni fullkomnu mynd, til yndisauka og unaðar um ókomna framtíð.

Húsgögnin og hönnun.
Það er erfitt að segja til um hverjir áhrifavaldarnir hafa orðið. Á þessum tíma var það Tomas Chippendale (1718-1779) sem hafði mestu áhrifin í Evrópu. Húsgögn hans voru mörkuð geometiskum formum með regluna að leiðarljósi. Evrópubúar voru rétt nýbúnir að sleppa hendinni af miðaldastílnum og einfaldari reglulegri form tóku við.
Einnig er hægt að sjá samsvörun í Bidedermeier.
Shakerarnir sem voru afbragðs handverksmenn, tóku upp einkunnarorð í hönnun sína eins og “hámark fegurðar liggur í fullkomnum samleik” eða “regla er leiðin að fegurðinni”. Hundrað árum seinna er það Louis Sullivan sem vísar leiðina til functionalismans með orðunum “form follows function”, alveg eins og mælt úr munni manns úr Shakerasamfélaginu. En hefur það ekki verið takmarkað, hvað Shakerarnir sóttu hugmyndir útfyrir samfélag sitt þar sem það var alveg lokað fyrir öðrum.
Athyglisvert er að velta fyrir sér hvers vegna Shakerarnir voru svona natnir við að búa til hluti sem auðvelduðu þeim lífið. Ef þá vantaði eitthvað eða einhverja hluti þá voru þeir smíðaðir eða hannaðir á staðnum. Ég hallast helst að því að ef líf þeirra var auðveldara þá sparaðist tími og um leið var meiri tími til trúariðkana.
Allir hlutir Shakerana voru unnir með natni, vandvirkni og virðingu fyrir hugtakinu fegurð. Stólar voru með grönnum pílárum, með hámarks styrkleika og sparsemi í efnisnotkun að leiðarljósi. Stólarnir urðu gjarnan léttir og meðfærilegir og oft hengdir upp á veggi til að spara pláss þegar þeir voru ekki í notkun. Dæmi eru um stóla, með baki, sem ekki voru nema 800-900 gramma þungir. En lagið á þeim var umfram allt einfalt, fallegt og reglulegt. Frægastir stóla Shakerana eru líklega ruggustólarnir. Þeir voru með háu baki, þannig að stuðningur var við höfuðið ef of þægilegt var að rugga sér í þeim og menn blunduðu. Setur voru gjarnan fléttaðir úr tágum oft í fallegum litum.
Skápar og skenkar voru með formföstum línum og voru í náttúrulegum litum, en oft í bæsuðum litum einnig. Þekktur er í Bandaríkjunum, litur sem kallast “Shaker blue”.
Skáparnir voru gerðir með notkun að sjónarmiði, en Shakerarnir hafa sennilega talið að orðið “notkun” fæli einnig í sér að njóta návistar við hlutina, þeir séu ekki síst fallegir. Skápar voru ýmist frístandandi eða byggðir inn í vegg og náðu þá til lofts. Stærsta eining sem sést hefur á vegg var með 850 skúffum og skápum. Shakerarnir fengust einnig við mechaniska hluti eins og klukkur og hluti ætlaða til framleiðslu matvæla. Þeir smíðuðu allt sjálfir jafnt úr tré og málmi, neyðin kennir naktri konu að spinna.
Diskarekkar sem víða sjást nú til dags gætu verið frá Shakerum komnir, eru einfaldir og fallega hannaðir (Sjá mynd 3). Þekkt eru einnig öskjur til að geyma ýmsa smámuni. Þær voru úr sveigðum viðarrenningum og negldir saman á samskeytunum með koparnöglum til að þeir ryðguðu ekki. Þeir fléttuðu einnig körfur úr tágum.
Hýbíli Shakerana voru með sömu einkennum og húsgögn þeirra. Innandyra voru oftast hankar á listum meðfram öllum veggjum til að hengja upp hluti ýmiskonar sem ekki var verið að nota þá stundina. Þessir listar mynduðu skemmtilegar línur sem harmoneruðu fullkomlega við regludregna skápana.
Umgjörð um glugga var oftast úr við og jók enn frekar á heildarsvip herbergisins. Gluggar voru franskrar ættar og húsin oft hlaðin úr náttúrusteini einnig voru þau hvít að lit. Það hefur verið dálítið sérstakt um að lítast í dæmigerðu herbergi Shakerana, engum hlut ofaukið en hver hlutur með sinn sérstaka tilgang og allir handunnir, umfram allt reglulegir, fallegir og Guði þóknanlegir.
Fata og textilhönnun var einnig partur af hinu daglega lífi og þeir ófu öll sín efni sjálfir. Hettur kvennmannana voru fléttaðar af mikilli list og voru þeim sem báru þær, hin mesta prýði. Bútasaumsteppi voru litrík og barnafatnaður eftirsóttur að fólki utan trúarhópsins. Allt það sem Shakerarnir framleiddu var þekkt að gæðum og fallegu handbragði og eftirsótt.
Ótalið er grafísk hönnun þeirra en umbúðir um matvæli sem þeir seldu, urðu þeir að búa til sjálfir. Stafagerð og myndræn hugmyndavinna var með svipuðum hætti og allt annað, en ber þó með sér nútímalegan blæ áranna fyrir stríð. Shakerarnir voru einnig uppfinningamenn og margir hlutir sem þekktir eru eignaðir þeim. Hlutir eins og þreskivélin, hringsögin og fleiri hlutir eru dæmi um þetta.
Joseph Meacham sem var leiðtogi hópsins eftir lát Ann Lee, sagði eitt sinn að "allir hlutir sem gerðir eru fyrir samfélag Shakerana skulu gerðir vandaðir og nytsamlegir en samt einfaldir og lausir við prjál. En hvað sat eftir og hvar er hægt að greina aðila sem tóku sér hönnun og einkunnarorð Shakerana til fyrirmyndar? Þetta má helst sjá í Frank Lloyd Wright og hönnun modernistana. Einnig greini ég samsvörun í nokkrum verkum Postmedernistana.
Lokaorð.
Eftir að hafa rannsakað menningu Shakerana er ekki annað hægt en að dást að öllu því er þeir tóku sér fyrir hendur. Vönduð vinnubrögð og ást á fegurðarhugtakinu var slík að útkoman var fullkomin. Ég hallast ennfremur að því að trú þeirra og skeytingarleysi gagnvart umhverfinu utan trúarhópsins, hafi haft sitt að segja um hversu vel þeim tókst upp. Við verðum að hafa í huga að líf þeirra og menning hefur haldist svo að segja óbreytt í rúm 200 ár.


Heimildaskrá:
Shaker style - The gift og simlicity.
Candace Ord Manroe with Joseph Boehm.

Design.A concise history. Thomas Hauffe.

History of Shakers (internetið). http://cti.itc.virginia.edu/~jkh8x/soc257/nrms/Shakers.html

The Shaker museum (internetið).
http://www.shakermuseumoldchat.org/

Handcraft og the Shakers (internetið).
http://www.majwood.com/

Saga Bandaríkjana í nýju ljósi.
Sjónvarpsmyndaflokkur, RUV sumarið 1998.