Forsendur nýsköpunarstjórnarinnar 1944-1946.

Með þekktari ríkisstjórnum sem setið hefur á valdastóli á Íslandi er án efa hin svokallaða nýsköpunarstjórn sem hélt um stjórnartaumana á árunum 1944-1946. Í stjórn þessari tóku höndum saman Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðuflokkur og má vafalaust segja að hún hafi lagt grundvöllinn að þeim framförum sem orðið hafa á Íslandi eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari og að auki tekið fyrsta afgerandi skrefið í að færa íslenskt þjóðfélag almennilega inn í nútímann. Má og færa ýmis rök fyrir því að fáar ríkisstjórnir Íslands hafi skilað sér jafn vel fyrir íslensku þjóðina og nýsköpunarstjórnin, enda hafði hún óneitanlega úr miklu að spila.

Á árum síðari heimsstyrjaldar safnaðist íslensku þjóðinni gífurlegur stríðsgróði í erlendum gjaldeyri. Eftir þrengingarnar á kreppuárunum, atvinnuleysi og ótrygg kjör, kom gullöld í atvinnusögu Íslendinga. Atvinnuleysið hvarf eins og dögg fyrir sólu, laun snarhækkuðu og alls staðar var eftirspurn eftir vinnuafli. Megnið af stríðsgróðanum var til komið vegna veru erlendra herliða í landinu en einnig stór hluti vegna útflutningstekna og innanlandsverslunar.

Um það leyti sem nýsköpunarstjórnin tók við völdum, í október 1944, námu erlendar innistæður Íslendinga meira en 500 milljónum króna. Voru innistæðurnar að jafnvirði meira en heildarútflutningsverðmæti tveggja ára. Sáu framsýnir menn á flestum sviðum þjóðfélagsins að hér væri komið einstakt tækifæri fyrir Íslendinga sem þeir mættu með engu móti missa af. Nýta þyrfti hið mikla fé til algerrar uppbyggingar atvinnuveganna. Kallaði þetta óvenjulega ástand á það að stéttir þjóðfélagsins stæðu saman ef vel ætti til að takast og féð að nýtast sem best þjóðinni í hag. Út úr þessu ástandi spratt nýsköpunarstjórnin.

Aðdragandi stjórnarmyndunarviðræðna 1944

Á stríðsárunum voru samtals við völd á Íslandi einar fimm ríkisstjórnir; fyrsta og önnur ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins; fyrsta ríkisstjórn Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins; utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar; og loks nýsköpunarstjórnin, önnur ríkisstjórn Ólafs Thors.

Fyrsta ríkisstjórn Ólafs Thors, var mynduð 16. maí 1942. Var þetta minnihlutastjórn og var einungis við völd fram í nóvember sama ár (gegndi þó störfum fram í desember). Tilgangurinn með ríkisstjórn þessari var fyrst og fremst að koma í framkvæmd samþykkt Alþingis um stjórnarskrárbreytingu sem leiðrétta átti atkvæðamagn á milli kjördæmanna í landinu. Var þetta gert með stuðningi allra stjórnmálaflokkanna nema framsóknarmanna, enda kostaði breytingin þá nokkur þingsæti. Töldu þeir Ólaf Thors hafa gerst sekan um svik við sig þar sem hann hefði heitið því að viðhalda óbreyttu kosningaskipulagi. Eftir það greri aldrei um heilt milli Ólafs Thors og ýmissa framsóknarmanna, ekki síst Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins, og varð síðar ein af ástæðunum fyrir því að ekki tókst að mynda ríkisstjórn með þátttöku flokkanna tveggja tveimur árum síðar.

Eftir að kjördæmamálið var í höfn baðst minnihlutastjórn Ólafs Thors lausnar og lagði niður störf í desember sama ár. Var því næst kappkostað við að reyna að mynda þjóðstjórn með þátttöku allra flokkanna. Skipuð var nefnd að tillögu Sveins Björnssonar, ríkisstjóra, með aðild allra flokkanna til undirbúningsviðræðna. Viðræður þessar báru þó engan árangur enda ekki einfalt verk að sameina öll hin ólíku sjónarmið í eina stjórn. Sveinn Björnsson ákvað því að leita annarra leiða en allt kom fyrir ekki.

Um þetta leyti kom upp sú hugmynd, af hálfu sósíalista, að mynduð yrði stjórn skipuð mönnum utan þingsins sem framkvæmdi ákvarðanir Alþingis þar til hægt yrði að mynda þingræðisstjórn. Tóku framsóknarmenn þessari hugmynd vel en Alþýðuflokkurinn og sjálfstæðismenn voru á móti henni og vildu ekki síst þeir síðarnefndu að reynt yrði til þrautar að mynda þingræðisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn gerði því úrslitatilraunir til myndunar þingræðislegrar bráðabirgðastjórnar til þess að leysa aðkallandi mál meðan verið væri að þreifa fyrir sér um þingræðisstjórn á breiðum málefnagrundvelli, eins og það var orðið. Þær tilraunir báru þó engan árangur. Utanþingsstjórn var því mynduð, undir forsæti dr. Björns Þórðarsonar, 16. desember 1942.

Utanþingsstjórnin sat við völd fram að 21. október 1944 og hafði ærin verkefni, s.s. að reyna að halda aftur af verðbólgunni sem þá geysaði og að sjá um sambandsslitin við Danmörku. Mun án efa mörgum hafa fundist það súrt að ekki skyldi takast að mynda þingræðisstjórn fyrir lýðveldisstofnunina og að utanþingsstjórn skyldi þurfa að sjá um sambandsslitin. Mun mönnum einnig hafa verið farið að finnast utanþingsstjórnin vera búin að vera til staðar full lengi. Þegar komið var fram á árið 1944 var mörgum því farið að finnast að utanþingsstjórnin ætti nú að fara frá og reyna ætti að koma á þingræðisstjórn að nýju.

Stjórnarmyndunarviðræður 1944

Þegar lýðveldisstofnunin var um garð gengin var kannað hvort mögulegt væri að mynda þjóðstjórn með aðild allra stjórnmálaflokkanna. Í þeim tilgangi var aftur komið á viðræðunefnd sem fulltrúar allra flokkanna áttu aðild að og tók nefndin til starfa í ágúst 1944. Þann 14. september ritaði Sjálfstæðisflokkurinn hinum flokkunum bréf um málefnalegan samstarfsgrundvöll. Endalok tilrauna til myndunar þjóðstjórnar urðu þegar fulltúi Framsóknarflokksins lýsti því yfir að enginn tilgangur væri í að halda viðræðunum áfram þar sem sjálfstæðsmenn og sósíalistar ætluðu greinilega að fara í stjórn án þess að tekin væri ákvörðun um ýmis mál sem framsóknarmenn töldu skipta mestu máli. Var þar einkum um að ræða kröfu Framsóknar um 10% lækkun launa sem sósíalistar gátu engan veginn sætt sig við. Auk þess munu framsóknarmenn hafa talið sig vel geta unað við utanþingsstjórnina áfram.

Eftir að yfirlýsing framsóknarmanna lá fyrir fól Sveinn Björnsson, forseti lýðveldisins, Ólafi Thors, formanni Sjálfstæðisflokksins, að reyna að mynda ríkisstjórn. Sneri hann sér fyrst að Framsóknarflokknum en úr þeim tilraunum varð ekkert þar sem framsóknarmenn gerðu það að skilyrði að ríkisstjórnin yrði undir forsæti Björns Þórðarsonar. Viljálmur Hjálmarsson segir svo frá í bók sinni um Eystein Jónsson að hugmynd framsóknarmanna með því hafi verið að hlutlaus aðili leiddi stjórnina en hvor flokkur tilnefndi síðan tvo ráðherra að auki. Ennfremur segir Indriði G. Þorsteinsson, í bók sinni um Hermann Jónasson, að tillaga Framsóknarflokksins hafi ekki verið bundin við Björn Þórðarson heldur einungis einhvern hlutlausan aðila eða einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins; annan en Ólaf Thors.

Sérstaklega mun Hermann Jónasson hafa verið á móti því að Ólafur yrði forsætisráðherra vegna stuðnings hans við breytingarnar á kjördæmaskipuninni 1942. Stefán Jóhann Stefánsson segir í endurminningum sínum að ein ástæða þess að upp úr slitnaði í viðræðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hafi verið að þeir síðarnefndu hafi talið sig geta treyst því að Ólafi tækist ekki að semja við Alþýðuflokkinn og sósíalista. Sjálfstæðismenn svöruðu þessum skilyrðum framsóknarmanna í engu enda taldi Ólafur sér ekki skylt að svara þeirri ósvífni að útiloka hann sem forsætisráðherra.

Ólafur sneri sér því næst að Sósíalistaflokknum og Alþýðuflokknum og stóðu samningaviðræður milli flokkanna yfir í tíu daga uns komist var að samkomulagi um stjórnarmyndun. Eini flokkurinn sem kom óskiptur að þessum samningaviðræðum var Sósíalistaflokkurinn en töluverð andstaða var í báðum hinum flokkunum við samstarf við kommúnista. Ekki eru menn þó sammála um hvers vegna svona mikil samstaða var á meðal sósíalista um að fara í stjórn. Samkvæmt bók Þórarins Þórarinssonar um sögu Framsóknarflokksins er skýringin fyrirmæli frá Alþjóðasambandi kommúnista til kommúnistaflokka í V-Evrópu um að komst í þær ríkisstjórnir sem myndaðar yrðu að stríðinu loknu. Skýring Einars Olgeirssonar í bók hans “Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar” er hins vegar sú að þessi áhugi hafi einungis beinst að því að vinna að þeim nýsköpunarhugmyndum sem hann m.a. lýsir í nýsköpunarræðu sinni sem síðar verður minnst frekar á.

Fimm þingmenn Sjálstæðisflokks lýstu yfir fullri andstöðu við stjórnarmyndunina, þá einkum vegna of mikillar eftirlátsemi við samstarfsflokkana, en einnig vegna andúðar á samstarfi við sósíalista. Í “Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar” segir Einar Olgeirsson að ástæðan fyrir þessu hafi verið að þetta hafi verið þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru hvað mest undir áhrifum Framsóknar, með öðrum orðum bændaþingmenn.

Í Alþýðuflokknum var einnig töluverð andstaða við stjórnarmyndunina. Til að mynda var Stefán Jóhann Stefánsson, formaður flokksins, algerlega andvígur allri samvinnu við sósíalista og raunar aðild að stjórnarviðræðunum yfir höfuð. Í sjálfsævisögu sinni er hann heldur ekkert að skafa utan af þessari afstöðu sinni, en þar segir hann m.a.: „Vantrú mín, ég vil segja ógeð, á öllu samstarfi við þá [kommúnista] átti sér djúpar rætur og olli því löng og ömurleg reynsla af óheilindum þeirra og vinnubrögðum.“ (Stefán Jóhann Stefánsson: “Minningar”. bls. 10-11.) Stefán sannfærðist þó að lokum um ýmsa kosti þessa samstarfs fyrir atbeina ýmissa samflokksmanna sinna. Það sem varð þess þó fyrst og fremst valdandi að Alþýðuflokkurinn samþykkti loks að ganga til stjórnarsamstarfsins var mikil eftirlátssemi Ólafs Thors við kröfur Alþýðuflokksins. Samkvæmt frásögn Stefáns Jóhanns mun þó einungis hafa munað hans atkvæði að ekki hefði orðið að aðild Alþýðuflokksins að stjórninni og þó hann hafi verið enn sem fyrr algerlega andvígur samstarfinu við sósíalista hafi hann ekki viljað hindra með atkvæði sínu að stjórnin yrði mynduð.

Nýsköpunarstjórnin tók því til starfa 21. október 1944. Ráðherrar voru sex, tveir frá hverjum flokki að tillögu Ólafs Thors enda vildi hann slá því föstu að hér störfuðu saman þrír aðilar, jafnir að rétti, skyldum og ábyrgð. Frá Sjálfstæðisflokki komu Ólafur Thors, forsætis- og utanríkisráðherra og Pétur Magnússon, viðskipta- og fjármálaráðherra, frá Sósíalistaflokki komu Brynjólfur Bjarnason, menntamálaráðherra, og Áki Jakobsson, atvinnumálaráðherra, og frá Alþýðuflokki komu þeir Emil Jónsson, samgöngumálaráðherra, og Finnur Jónsson, félags- og dómsmálaráðherra. Með því var nýsköpunarstjórnin, önnur ríkisstjórn Ólafs Thors, mynduð.

Afstaða stjórnmálaflokkanna til nýsköpunarinnar

Flest virðist benda til þess að að allir stjórnmálaflokkarnir hafi verið meira eða minna hlynntir a.m.k. einhvers konar uppbyggingu íslenskra atvinnuvega eftir stríð. Þá hafi þó greint á um það með hvaða hætti það ætti að gera. Þorleifur Óskarsson segir svo frá í bók sinni um íslenska togaraútgerð að langur vegur hafi verið frá því að einhugur hafi ríkt um málið á Alþingi. Skiptar skoðanir hafi t.d. verið um það með hvað miklum hraða byggja skyldi upp, hvort einstaklingar eða ríkisvaldið ætti að ráða ferðinni o.s.frv.

Af heimildum að dæma er margt ljóst varðandi afstöðu stjórnmálaflokkanna til nýsköpunar atvinnuveganna, en margt er þó einnig á huldu þar um. Heildarlínurnar eru þó óneitanlega skýrari hjá sumum þeirra en annarra, eins og gengur og gerist. Í raun má með sanni segja að eini flokkurinn sem mun hafa haft algera samstöðu um málið hafi verið Sósíalistaflokkurinn, en ljóst er að hinir flokkarnir hafa verið meira eða minna klofnir í afstöðu sinni til þess.

Framarlega í hópi þeirra sem litu þannig á málin, að nýsköpun atvinnuveganna eftir stríð væri algert forgangsmál, var einmitt Einar Olgeirsson, alþingismaður og einn helsti forvígismaður íslenskra sósíalista í áratugi. Hann taldi, eins og raunar fleiri, að hér væri um einstakt tækifæri að ræða fyrir Íslendinga. Í svokallaðri nýsköpunarræðu, sem Einar flutti á Alþingi 11. september 1944, sagði hann m.a.:

“Íslenska þjóðin á nú yfir 500 millj. kr. í innistæðum erlendis. Ef við notum þetta fé rétt, getum við með því gerbreytt atvinnuvegum okkar og lagt öruggan grundvöll að blómlegasta atvinnulífi sem hér hefur þekkst. Ef allt þetta fé væri notað á næstu 4-5 árum til þess einvörðungu að kaupa fyrir það framleiðslutæki og efni til varanlegra bygginga og mannvirkja, allt samkv. fyrir fram gerðri áætlun um þjóðarbúskap okkar, þá getum við tryggt hverjum einasta Íslending vinnu með tækjum sem hann afkastar margfalt meira með en nokkru sinni fyrr og getur því um leið tryggt sér miklu betri og öruggari lífsafkomu en áður. Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við keypt 20-30 nýja dieseltogara af bestu gerð, 200-300 nýtísku vélbáta, tvöfaldað fiskiskipaflota Íslendinga með nýjum, glæsilegum skipastól, verðugan þeim hraustu sjómönnum okkar sem í fimm ár hafa lagt lífið í hættu til þess að afla þess fjár sem nú skapar velmegun þjóðarinnar.” (Einar Olgeirsson: “Ísland í skugga”. bls. 373.)

Forsendu þess að nýta mætti féð sem allra best þjóðinni í hag sagði Einar vera samstöðu meðal framfaraaflanna í öllum höfuðstéttum landsins, verkalýð, bændum og atvinnurekendum, er myndi sterka stjórn í því skyni.

Eins og fyrr er getið taldi Einar Íslendinga nú standa frammi fyrir einstöku tækifæri sem alls ekki mætti glopra niður, enda yrði þá stríðsgróði þjóðarinnar að engu eins og hann lýsir hér í nýsköpunarræðunni:

“En ef við hins vegar förum nú að berjast af öllum mætti innbyrðis … þá verður lítið sem ekkert af þessu framkvæmt nú á næstunni, þá kaupum við matinn handa okkur erlendis frá fyrir innistæðurnar, á meðan við rífumst hér heima …. Og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað.” (Einar Olgeirsson: “Ísland í skugga”. bls. 374-375.)

Einar og Sósíalistaflokkurinn voru þó alls ekki einir um að líta svo á málin. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var mjög á sama máli. Eftir að Einar hafði flutt ræðuna mun Ólafur hafa sagt við hann að hann væri bara kominn með allt “prógrammið” fyrir næstu ríkisstjórn. Að Ólafi undanskildum var nýsköpunarræðu Einars þó tekið fremur fálega í þinginu. Aðrir þingmenn sem fluttu ræður við sama tilefni minntust ekki einu orði á nýsköpun atvinnuveganna, ef undan er skilinn einn sjálfstæðismaður, Jón Pálmason frá Akri.

Umfjöllun málgagna hinna stjórnmálaflokkanna, svo og einstakra manna, um nýsköpunarhugmyndir Einars voru ekki beint jákvæðar. Í ritstjórnargrein í Vísi voru hugmyndirnar sagðar vera svikráð gagnvart almenningi og núverandi þjóðskipulagi. Alþýðublaðið kallaði Einar hlægilegasta skýjaglópinn og tungumjúkasta hræsnarann sem sæti hafi átt í sölum Alþingis. Og þannig hélt þetta áfram.

Af sumum heimildum sem ritaðar hafa verið á síðustu árum og áratugum og um málið fjalla, s.s. æviminningar helstu stjórnmálaleiðtoganna á þessum tíma, virðast margar hverjar taka þann pól í hæðina að beinlínis eigna hinum og þessum flokkum upphafið að nýsköpuninni og sýna fram á að þeir hafi fyrstir átt hugmyndina að henni, eða a.m.k. að halda því fram að þeir hafi alls ekki verið mótfallnir nýsköpuninni. Þá sérstaklega virðist manni þetta áberandi hjá framsóknarmönnum, sem er kannski að mörgu leyti skiljanlegt þar sem þeir stóðu fyrir utan nýsköpunarstjórnina. Má sem dæmi um þetta nefna að í ævisögu Eysteins Jónssonar, eftir Vilhjálm Hjálmarsson, segir að árið 1942 hafi Framsóknarflokkurinn beitt sér fyrir því fyrstur flokka að skipulegur undirbúnaður yrði hafinn í þá veru að endurreisa íslenskt atvinnulíf með stórátaki þegar styrjöldinni slotaði. Í bók sinni, “Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar”, segir Einars Olgeirssonar að Sósíalistaflokkurinn hafi þegar árið 1938 flutt frumvarp á Alþingi um nýsköpun atvinnuveganna.

Hugmyndin að nýsköpuninni virðist því ekki beint hafa verið ný af nálinni árið 1942, ef skrif Einars eiga við staðreyndir að styðjast, þó að viðkvæðið “þegar styrjöldinni slotaði” geti e.t.v. flokkast undir einhvers konar nýjung. Undirtektir framsóknarmanna við hugmyndum Einars Olgeirssonar árið 1944 munu þó a.m.k. hafa verið all fátæklegar, og í raun beinlínis fjandsamlegar, og ekki benda til mikils áhuga á nýsköpun. Í tillögum framsóknarmanna, í stjórnarmyndunarviðræðum þeirra og sjálfstæðismanna 1944, var ekki minnst einu orði á neitt sem hét nýsköpun og því nýsköpun atvinnuveganna nokkuð ljóslega ekki á dagskrá hjá þeim, a.m.k. ekki það árið. En þrátt fyrir að sú fullyrðing standist sennilega ekki, að Framsóknarflokkurinn hafi fyrstur komið með hugmyndina um nýsköpun atvinnuveganna, þá er ljóst að einhvers konar nýting erlendu innistæða þjóðarinnar til framfara og umbóta í þjóðfélaginu hafi verið á dagskrá. Á sjöunda flokksþingi flokksins, [1944], var gefin út eftirfarandi stjórnmálaályktun:

“Framsóknarflokkurinn álítur þjóðarnauðsyn að komið verði á … stjórnmálasamstarfi þeirra flokka og einstaklinga … sem vilja vinna að alhliða þjóðfélagsumbótum og öðrum framförum í þágu almennings. Telur flokkurinn að slíkt samstarf verði að byggjast á því að … vaxandi fjársöfnun þjóðarinnar … verði notaður til að auka framleiðslu landsmanna og félagslegt öryggi allrar þjóðarinnar.” (Þórarinn Þórarinsson: “Sókn og sigrar”. bls. 135.)

Engu að síður er hugsanlega töluvert sé til í því, sem fram kemur í bók Þorleifs Óskarssonar um íslenska togaraútgerð, að draga megi í efa að Framsóknarflokkurinn hafi haft sérstakan áhuga á stórfelldri eflingu sjávarútvegsins, þar sem hann var þá ennþá fyrst og fremst málsvari bændastéttarinnar. Að sumu leyti hvarflar það því að manni að tilgangurinn með því að meina að Framsóknarflokkurinn hafi verið einhvers konar brautryðjandi nýsköpunar sé fyrst og fremst tilraun til að skreyta sig með blómum úr garði nágrannans.

Hvað varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins er ljóst að á þeim bæ voru menn ekki í alla staði sammála um ágæti nýsköpunarinnar, þó andúð margra þeirra á nýsköpunarstjórninni hafi fyrst og fremst snúið að samstarfi við kommúnistana og eftirlátsemi við þá og Alþýðuflokkinn, eins og áður hefur verið minnst á. Einkennilegt má þó e.t.v. telja að menn úr röðum flokksins virðast ekki hafa sett það sérstaklega fyrir sig að höfuðmarkmið stjórnarinnar væru í raun sósíalísk; ríkisafskipti og skipulagshyggja, en ákveðnar skýringar eru þó fyrir því að svo var ekki. Forysta flokksins hafði lært sína lexíu af kreppunni sem enn var mönnum vel í fersku minni. Hún hafði rekið sig á það að afskipti ríkisvaldsins af efnahagslífinu væri nauðsynleg innan vissra marka ef tryggja ætti sæmilega afkomu landsmanna. Hugsanlegt er einnig að ein af ástæðunum fyrir því að flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu stjórnina hafi verið sú nálgun sem orðið hafði milli Sjálfstæðisflokksins og vinstri flokkanna árin á undan, ekki síst vegna náins samstarfs við lýðveldisstofnunina.

Hvað svo sem annars má segja um sjálfstæðismenn í heild þá eru víst nægar heimildir fyrir því að Ólafur Thors hafi verið algerlega heill varðandi nýsköpun atvinnuveganna, enda er honum fremur en nokkrum öðrum að þakka að myndum stjórnarinnar tókst. Einnig mætti minnast á fleiri sjálfstæðismenn sem munu hafa haft nokkuð jákvæða afstöðu til málsins, s.s. Jón Pálmason, sem áður hefur verið nefndur, og Bjarna Benediktsson, síðar forsætisráðherra. Ýmsir í Sjálfstæðisflokknum munu þó hafa verið í miklum vafa um að hægt yrði að semja við Alþýðuflokkinn um stjórnarsamstarf, ekki síst eftir að sá síðarnefndi birti skilyrði sín fyrir aðild að stjórninni. Meirihluti sjálfstæðisþingmanna studdi þó stjórnina þegar til kom, en ljóst er að margir stuðningsmenn flokksins munu hafa haft horn í síðu hugmyndanna.

Nokkuð hefur verið vikið að afstöðu Alþýðuflokksins áður. Mun allmikil andstaða hafa ríkt innan flokksins og miðstjórnar hans við myndun nýsköpunarstjórnarinnar og þá fyrst og fremst við að rugla saman reitum við sósíalista. Ekki síst var formaður flokksins, Stefán Jóhann Stefánsson, algerlega andvígur öllu samstarfi við þá, eins og fyrr hefur verið vikið að. Alþýðublaðið, málgagn flokksins, fór heldur ekki fögrum orðum um nýsköpunarræðu Einars Olgeirssonar, en hugsanlegt er þó að þar hafi fremur ráðið ferðinni andúðin á sósíalistum en bein afstaða til nýsköpunar.

Á heildina litið er ljóst að skiptar skoðanir voru um ágæti nýsköpunarinnar á meðal stjórnmálaflokkanna og sýndist sitt hverjum. Sumir voru klofnir í afstöðu sinni á meðan að aðrir gengu óskiptir til leiks. En eins og lagt er út frá í byrjun þessa kafla verður að líta svo á að allir flokkarnir hafi verið hlynntir nýsköpun atvinnuveganna á einhvern hátt en greint á í meginatriðum með hvaða hætti standa skyldi að slíkri nýsköpun.

Niðurstöður

Þegar litið er á málið í heild er ljóst að fæðing nýsköpunarstjórnarinnar hefur svo sannarlega ekki verið laus við erfiðleika. Stjórn þessi er auðvitað alveg einstakt fyrirbæri í íslenskri stjórnmálasögu. Eftir daga nýsköpunarstjórnarinnar hafa sósíalistar og sjálfstæðismenn aldrei myndað ríkisstjórn saman og enn í dag er slíkt ætíð talinn lang ólíklegasti og jafnvel útilokaður kostur.

En svo vikið sé að þeirri spurningu sem lagt var af stað með í upphafi, þ.e. hvaða forsendur hafi valdið því að höfuðandstæður íslenskra stjórnmála tóku höndum saman um myndun nýsköpunarstjórnarinnar, þá er ljóst að svarið við henni er ekki einþætt. Ýmsar forsendur ollu þessu óvenjulega samstarfi og skulu hér nefndar þær helstu. Lykilforsenda þess að til þessa samstarfs kom er án efa sú hugmyndafræði að ef nýsköpunin ætti að bera árangur sem skyldi yrði að koma til samstarf höfuðstétta þjóðfélagsins. Til viðbótar má síðan nefna kjördæmabreytinguna 1942 sem varð uppspretta langvarandi illindin á milli Framsóknarflokksins og hinna stjórnmálaflokkanna. Þessi illindi urðu þess síðan valdandi að eina leiðin út úr stjórnarkreppunni sem var við lýði meginhluta stríðsáranna var samstarf Sjálfstæðisflokks og vinstri flokkanna, ef undan eru skildar nýjar kosningar. Kjördæmabreytingin hafði einnig umturnað því stjórnmálalega landslagi sem hafði meira eða minna ríkt hvað varðar þingmannafjölda flokkanna á Alþingi. Sú nálgun sem orðið hafði á milli Sjálfstæðisflokksins og vinstriflokkanna á árunum fyrir stjórnarsamstarfið, ekki síst með lýðveldisstofnuninni, olli því að það stjórnarmynstur sem telst nær óhugsandi í dag var mögulegt þá. Síðast en ekki síst má síðan nefna þá eftirlátssemi og liðlegheit sem Ólafur Thors sýndi vinstri flokkunum í stjórnarmyndunarviðræðunum, en það atriði hefur án efa vegið mjög þungt á vogarskálunum. Þessi atriði tel ég að hafi ráðið úrslitum um myndun nýsköpunarstjórnarinnar.

Hjörtur J.


Heimildaskrá

Agnar Kl. Jónsson: “Stjórnarráð Íslands 1904-1964”. Bindi I-II. Reykjavík. 1969.
Einar Olgeirsson: “Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar”. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1981.
Indriði G. Þorsteinsson: “Ættjörð mín kæra. 1939-1976. Ævisaga Hermanns Jónassonar forsætisráðherra”. Annað bindi. Reykjavík. 1992.
Matthías Johannessen: “Ólafur Thors. Ævi og störf”. Fyrsta bindi. Reykjavík. 1981.
Stefán Jóhann Stefánsson: “Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar” Annað bindi. Reykjavík. 1967.
Vilhjálmur Hjálmarsson. “Eysteinn Jónsson í baráttu og starfi”. Annað bindi. Reykjavík. 1984.
Þorleifur Óskarsson: “Íslensk togaraútgerð 1945-1970”. Reykjavík. 1991.
Þórarinn Þórarinsson: “Sókn og sigrar. Saga Framsóknarflokksins 1937-56”. Annað bindi. Reykjavík. 1986.
Með kveðju,