Þjóðernishreinsanir Bandamanna árið 1945

Mikið var rætt fyrir nokkrum árum um þjóðernishreinsanir í sambandi við átökin í Bosníu og Kosovo og varð umheimurinn hneykslaður yfir þeirri gimmd sem þar var stunduð enda var þeim gjarnan líkt við gyðingaofsóknir nasista á árum heimstyrjaldarinnar síðari. En þær voru vissulega fleiri þjóðernishreinsanirnar á öldinni sem leið og fóru sumar ekki hátt og hefur lítið verið fjallað um. Ein þeirra átti sér stað rétt eftir lok síðari styrjaldar og að henni stóðu sigurvegararnir í styrjöldinni, Bretar Bandaríkjamenn og Rússar.

Í Potsdamsamkomulaginu svokallaða 1945 voru gerðar stórtækar breytingar á austurlandamærum Þýskalands. Þar kvað m.a. á um framtíðarlandamæri Þýskalands og Póllands og sovésku svæðin í Þýskalandi. Þessi ákvæði náðu til u.þ.b. fjórðungs landsins eins og það var 1938. Á Jalta-ráðstefnunni höfðu Bretar og Bandaríkjamenn samþykkt kröfur Stalíns um að Rússar fengju að innlima stóran hluta af Austur-Póllandi enda mun sú hugmynd að setja Pólland á “hjól” og renna því vestur á bóginn upphaflega hafa komið frá Winston Churchill. Varð þetta til þess að milljónir Pólverja voru fluttir nauðungarflutningum frá þeim héruðum sem Rússar innlimuðu í Sovétríkin. Til að bæta Pólverjum upp það land sem Rússar fengju átti að færa vesturlandamæri Póllands vestar á bóginn – á kostnað Þýskalands. Spurningin var hins vegar hvar vesturlandamærin ættu að liggja. Rússar vildu að landamærin fylgdu hinni svokölluðu Oder-Neisse línu, landamæri sem myndu afmarkast af ánum Oder og Neisse sem runnu frá Eystrasaltinu og að tékknesku landamærunum.

Allt frá 1921 höfðu Rússar haft áhuga á að færa landamæri sín lengra til vesturs. Það tókst þeim með innlimun 200.000 km² af Póllandi 1939. Þeir kröfðust þess í staðinn í stríðinu að Pólverjar, sem þá voru orðnir bandamenn þeirra, fengju hluta af þýsku landi. Pólland átti óumdeilanlega rétt til bóta fyrir allan stríðsskaðann en mikið vafamál er hvort þessi leið hafi átt rétt á sér, það er að segja að innlima alþýsk svæði í stað svæða í Austur-Póllandi sem Rússar fengu. Þýsku svæðin, sem um ræðir, voru alls 114.000 km² og náðu yfir Austur-Prússland, Slésíu og hluta af Pommern og Brandenburg. Þýskt fólk hafði búið þar síðan um aldir og þýsk menning var þar rótgróin. Þetta voru einnig þýðingarmikil landbúnaðarsvæði, sem brauðfæddu nálega 13,5 milljónir manna og þaðan kom fimmtungur allra kola landsins.

Bretar og Bandaríkjamenn gerðu sér þó strax ljósan þann fjölda Þjóðverja sem flytja þyrfti brott ef vilji Rússa næði fram að ganga og lögðu til önnur landamæri sem hefðu þýtt að minna landsvæði hefði verið tekið frá Þýskalandi. En í lok stríðsins hafði Rauði herinn hernumið allt landsvæði austan við Oder-Neisse línuna. Niðurstaða Potsdam-ráðstefnunnar var því yfirlýsing sem fól í sér hina illframkvæmanlegu “nauðsyn” að flytja allt fólk af þýskum uppruna sem enn byggi í Póllandi, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi nauðugt til Þýskalands “með skipulögðum og mannúðlegum hætti”.

Þótt þessi áætlun liti vel út á pappírunum leiddi hún hörmungar og dauða yfir milljónir manna og var langt því frá framkvæmd með mannúðlegum né skipulögðum hætti. Ákvæði áætlunarinnar áttu ekki að ná til landsvæða sem tilheyrðu Þýskalandi fyrir styrjöldina en þar var þeim engu að síður beitt með hörku eins og annars staðar í austantjaldslöndunum. Áður en hafist var handa höfðu 4 milljónir þegar flúið vestur yfir. 5,6 milljónir voru neyddar til að yfirgefa heimkynni sín á þýsku svæðunum og 3,5 milljónir urðu að yfirgefa Súdetaland í Tékkóslóvakíu. Þannig urðu u.þ.b. 13 milljónir landflótta. Þetta fólk varð að skilja mestan hluta eigna sinna eftir. Áætlað er að u.þ.b. ein milljón hafi látið lífið í þessum þjóðflutningum vegna hungurs, sjúkdóma og ofbeldis sigurvegaranna. Flóttafólkinu var dreift um öll hernumdu svæðin sem vesturveldin réðu og flutt til annarra landa. Flestir settust að þar sem Sambandslýðveldið Þýskaland (Bundesrepublik Deutschland) var síðar stofnað.

Norman Naimark, formaður sagnfræðideildar Stanford háskóla og höfundur bókarinnar “The Russians in Germany” segir atburðina í Bosníu fyrir nokkrum árum og brottrekstur Þjóðverja eftir stríðið mjög hliðstæða atburði.

“Sumt fólk myndi halda því fram að Þjóðverjarnir hafi aðeins fengið það sem þeir áttu skilið og að þjóðernishreinsanir eigi sér stundum ákveðna siðferðislega réttlætingu. Þjóðverjar gerðu hryllilega hluti í Póllandi og þess vegna ráku Pólverjar þá af höndum sér. En þetta er engu að síður sami hluturinn, að taka landsvæði af fólki sem á hugsanlega rétt til þess.”

(“Some people would argue that's not legitimate, that the Germans got what they deserved, … that ethnic cleansing has certain moral connotations. They (the Germans) did horrible things to the Poles, so the Poles drove them out. But it is the same thing, to seize territory from people who might have a claim to it.”)

Framan af var mjög erfitt að finna húsnæði, fæði og klæði í stríðshrjáðu landinu. Flóttafólkið fékk mikla aðstoð við uppbyggingu nýs lífs í nýju umhverfi, m.a. var lagður nýr skattur á þá sem meira máttu sín til að gera það kleift. Byrðinni var dreift. Viðskiptabatinn sem kom í kjölfar stofnunar Vestur-Þýskalands gerði fólkinu léttara að aðlagast aðstæðum. Smám saman samlagðaist það fólkinu sem fyrir var. Oder-Neisse línan, sem þó upphaflega var sögð að yrði aðeins tímabundin landamæri þar til saminn yrði endanlegur friður við Þýskaland, urðu að einu mesta deilumáli kalda stríðsins.

Í byrjun var kommúnistaflokkurinn í Austur-Þýskalandi einnig sammála því að landamærin yrði aðeins til bráðabrigða, en 6. júlí 1950 hittust forsætisráðherrar Austur-Þýskalands og Póllands á Neisse brúnni, á milli vesturhluta þýsku borgarinnar Görlitz og austurhlutans sem ný kallaðist Zgorzelec, og undirrituðu samning um “eilíf landamæri friðar”. Allir aðrir stjórnmálaflokkar í Þýskalandi voru þó algerlega andvígir þessum landamærum.

Almennt fannst fólki í Þýskalandi brottflutningur og aðskilnaður frá svæðum austan Oder-Neisse línunnar mjög óréttlátur. Vestur-Þýskaland benti á ákvæði Potsdamsamkomulagsins um að framtíðarskipan landamæra landsins ætti að ákveða í friðarsamningum við landið í heild. Þá var og bent á ákvæðin um að ekki mætti svipta fólk á þýsku svæðunum rétti sínum til að vera þar áfram. Jafnframt lýsti Vestur Þýskaland því yfir að það hygðist ekki reyna að breyta landamærunum með valdi. Samt sem áður stóðu skiptar skoðanir ríkjanna um landamæramálið lengi í vegi fyrir eðlilegum samskiptum við Pólland.

Það var ekki fyrr en 1970 að Varsjársamningurinn um þessa mál var staðfestur í viðleitni Vestur-Þýskalands til að bæta samskipti sín við Sovétríkin og samskipti ríkjanna urðu “eðlileg”. Í samningnum var staðfest að Oder-Neisse línan væri landamæri Póllands að vestan. Bæði ríkin staðfestu að landamærin skyldu vera óbreytanleg og þau ættu framvegis engar landakröfur hvort gegn öðru. Þegar Þýskaland var sameinað 1990 var eitt af skilyrðunum sem sett voru fyrir sameiningunni að þýsk stjórnvöld viðurkenndu Oder-Neisse línuna sem vesturlandamæri Póllands. 1991 var því undirritaður samningur á milli Póllands og sameinaðs Þýskalands þar sem Oder-Neisse línan var endurstaðfest sem vesturlandamæri Póllands.

Hjörtur J.
Með kveðju,