Árangur frjálslyndisstefnunnar í Þýskalandi á 19. öld
eftir Hjört J. Hjartar

Frjálslyndisstefnan fékk ekki almennar undirtektir í Þýskalandi fyrr en að Napóleon-styrjöldunum loknum eftir 1815. Sú hreyfing sem þá reis upp í landinu var fyrst og fremst ávöxtur af hugmyndum upplýsingarinnar og þeim öflum sem börðust gegn yfirráðum Napóleons í Þýskalandi. Hreyfing þessi stefndi að því m.a. að sameina Þýskaland í eitt ríki svo og að tryggja hagsmuni einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu. Hreyfingin hlaut fljótt töluverða athygli og hratt af stað almennum ákafa sökum herskárrar mótspyrnu við harðstjórn og þröngsýni prinsanna sem réðu ríkjum í hinum mörgu þýsku smáríkjum. Hreyfingin náði töluverðum árangri alls staðar í Þýskalandi, sérstaklega í tveimur stærstu ríkjunum, Austurríki og Prússlandi.

Eftir 1815 var komið á stjórnarskrám í flestum suðurríkjum Þýskalands, hannaðar og veittar af valdhöfunum. Þessar stjórnarskrár kváðu á um að komið yrði á fót fulltrúaþingum sem voru kjörin af mjög takmörkuðum hópi þegnanna og sem höfðu aðeins takmörkuð völd. Einræðisvaldið var áfram í höndum einvaldsins og ráðherrarnir voru áfram einungis ábyrgir gagnvart honum. Þetta var ekki þingræði en þessi þing urðu þó vettvangur þar sem þingmennirnir gátu komið skoðunum sínum á framfæri og gagnrýnt stefnu stjórnvalda.

Í Prússlandi höfðu frjálslyndum einnig verið lofað stjórnarskrá eftir 1815 en það gekk ekki eftir. Í stað þess að verða frjálslyndara ríki en áður varð Prússland að gallhörðu stofnana- og hernaðarlegu einræðisríki. Þetta varð frjálslyndum til mikilla vonbrigða og ekki aðeins í Prússlandi heldur um allt Þýskaland þar sem frjálslyndir höfðu vonast til þess að stjórnmálalega endurbætt Prússland myndi geta orðið forysturíki nýs Þýskalands. Frjálslyndisöflin í Þýskalandi töldu sig hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna þessa en eftir 1830 endurheimtu þau kjark sinn í kjölfar byltinganna í Frakklandi og Belgíu og hreyfing þeirra stækkaði ört.

Byltingarárið 1848 er löngu orðið sögulegt og þá ekki síst í sögu frjálslyndisstefnunnar. Þýskaland fór ekki varhluta af því og varð byltingin í Þýskalandi ekki síst mikilvæg í atburðarás ársins 1848. Til að byrja með náði byltingin miklum árangri í Austurríki og Prússlandi. Valdhafarnir í þessum ríkjum sáu sig tilneydda að kalla saman þing til að ræða gerð stjórnarskráa.

Eitt aðalmarkmið byltingarhreyfingarinnar í Þýskalandi var að sameina landið í eitt ríki sem fyrr segir. Til að ná þessu markmiði var stofnað til þings í Frankfurt þar sem kjörnir fulltrúar frá öllum þýsku ríkjunum komu saman til að semja drög að stjórnarskrá fyrir sameinað Þýskaland. Þingið í Frankfurt gaf út skjal, “Fundamental Rights of the German Nation”, þar sem lýst var frjálslyndum meginatriðum svipuðum þeim sem fram komu í mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar. 1849 tók þingið upp lýræðislega stjórnarskrá þar sem lýst var yfir stofnun sambandsríkis þýsku ríkjanna (fyrir utan Austurríki) og var hugmyndin mótuð að hluta að Bandarískri fyrirmynd. Sambandsríkið átti að vera einveldisríki, ekki lýðveldi, og var forystan falin konungi Prússlands sem keisara.

Þrátt fyrir allt höfðu hugmyndir manna í Þýskalandi um sameiningu landsins þó mun meiri rómantískan blæ á sér en nokkurn tímann frjálslyndan. Þegar þingið í Frankfurt kom saman voru fáir í Þýskalandi sem greindu muninn á frjálslyndum og þjóðernissinnuðum markmiðum þingsins. Eftir á var þingið síðan gagnrýnt mjög fyrir að að hafa eytt of miklum tíma í að vinna að því að komið yrði á frjálsum stofnunum í stað þess að setja allt kapp á að sameina landið.

Það leið þó ekki á löngu uns valdhafarnir í þýsku ríkjunum endurheimtu kjark sinn og sneru sér gegn byltingarmönnum. Í Austurríki og Prússlandi voru þingin, sem semja áttu drög að stjórnarskrám, leyst upp. Friðrik Vilhjálmur IV, konungur af Prússlandi, gaf síðan út stjórnarskrá sem var allt annað en frjálslynd. Valdið kom ekki frá fólkinu heldur konunginum sem síðan fékk aðstoð frá þingi kjörnu eftir stéttakerfi þar sem eignamenn höfðu mest vægi.

Friðrik Vilhjálmur IV hafnaði boði þingsins í Frankfurt að verða keisari yfir sameinuðu Þýskalandi. Í hans huga var sú tign sem því fylgdi að vera keisari eitthvað sem aðeins Guð gæti stofnað til. Hann áleit einnig að hin gamla þýska keisaratign væri samtvinnuð Hapsborgar-ættinni og hún gæti hvorki verið tekin frá henni né flutt yfir á einhvern annan aðila, hvað þá að hægt væri að stofna til annarrar keisaralegrar tignar. Hann leit á það sem hreina móðgun við þessa tign að búa til nýja slíka með byltingu og að hann gerðist samsekur í þessum glæp ef hann tæki boði þingsins í Frankfurt. Hann sneri sér því að því að gera að engu verk þingsins og bæla niður byltinguna sem og tókst. Hin mikla fyrirhöfn til að sameina Þýskaland endaði sem alger mistök. Útkoma hinnar “óuppfylltu byltingu” varð almennt afturhald gegn frjálslyndi. Hugtakið varð nánast að slæmu orði í Þýskalandi. Þeir sem stefndu að því að sameina landið sneru sér nú að öðrum hugmyndum og aðferðum til að ná markmiði sínu. Mistökin þingsins í Frankfurt áttu síðan eftir að hafa þýðingarmiklar afleiðingar fyrir Þýskaland og raunar allan heiminn.

Þrátt fyrir mistök þingsins í Frankfurt tókst því að gera eitt sem skipti tölvuverðu máli, að gera hugmyndina um sameinað Þýskaland vinsæla. Á þessum tíma var að komast til valda í Prússlandi maður sem var staðráðinn í að sameina Þýskaland án þess að frjálslyndisstefnan kæmi þar nærri og jafnvel í andstöðu við hana. Þessi maður hét Otto von Bismarck. Sameiningarhugmyndir Bismarcks gengu út á það að Prússland yrði að neyða hin þýsku ríkin, fyrir utan Austurríki, til að ganga í ríkjasamband með Prússland sem forysturíki. Til að af þessu gæti orðið þurfti Prússland því að hafa á að skipa öflugum her sem væri tilbúinn til að berjast gegn öllum andstæðingum hugmyndarinnar, innanlands sem utan.

Til að ná fram þessum hugmyndum sínum óskaði Bismarck, þá kanslari, eftir því að prússneska þingið veitti auknu fé til hermála. Þingið, þar sem meirihluti þingmanna voru frjálslyndir, neitaði hins vegar að samþykkja það. Ríkisstjórnin tók sig þá til og byrjaði að leggja á nýja skatta til að standa undir nýja hernum, í óhlýðni við stjórnarskrána frá 1850. Þetta orsakaði miklar deilur milli þingsins og Bismarcks. Almenningsálitið studdi þingið en það hindraði ekki Bismarck í áformum sínum og varð ekkert til að stöðva hann. Í kjölfar sigurs Prússa á Austurríkismönnum 1866 fór mikil þjóðernisbylgja um Þýskaland. Frjálslyndisstefnan var nánast gleymd og prússneska þingið samþykkti það sem Bismarck hafði gert í andstöðu við stjórnarskrána landsins.

Stjórnarskrá, sem Bismarck var höfundurinn að, var tekin upp í hinu svonefnda Norður-þýska-sambandi (The North German Confederation) 1867. Eftir sigur Prússa á Frökkum 1871 var stjórnarskrá Bismarcks síðan samþykkt af suðurríkjum Þýskalands og varð þar af leiðandi að stjórnarskrá sameinaðs Þýskalands. Uppbygging sameinaðs Þýskalands, samkvæmt stjórnarskrá Bismarcks, varð ólík öllum ríkjaskipulögum sem þá þekktust. Þýska keisaradæmið var sambandsríki 25 ríkja með konung Prússlands sem keisara. Prússland fékk ennfremur ákveðin sérréttindi í sambandsríkinu umfram önnur aðildarríki sem urðu þess valdandi að Prússland var allsráðandi innan þess.

Sambandsþingið (Reichstag) hafði löggjafarvaldið innan ríkissins en lög frá því urðu þó að fá samþykki sambandsráðsins (Bundesrat) til að öðlast gildi, en í því réðu ríkjum valdhafarnir í hinum ýmsu aðildarríkjum sambandsríkisins. Ennfremur hafði sambandsþingið enga stjórn yfir ríkisstjórninni sem var skipuð af keisaranum og einungis ábyrg gagnvart honum. Þannig var sambandsþingið að mörgu leyti mjög valdalítið og áhrif þess takmörkuð og fór það ekki að breytast fyrr en eftir 1890 að sambandsþingið fór að verða að meira og meira að miðpunkti þýskra stjórnmála í kjölfar þess að efnahagslíf Þýskalands fór að verða þróaðara.

Stjórnun sambandsríkisins var í höndum kanslara sem hafði gríðarleg völd í gegnum keisarann og sambandsráðið. Kanslarinn var ekki á neinn hátt skuldbundinn gagnvart sambandsþinginu með þeirri undantekningu að hann þurfti stuðning þingsins fyrir sínum eigin lagafrumvörpum. Kanslarinn var einungis ábyrgur gagnvart keisaranum, eins og öll ríkisstjórnin, og sambandsþingið gat ekki sett kanslarann af. Hann hélt embætti sínu eins lengi og keisarinn bar traust til hans. Sem kanslari fór Bismarck þó yfirleitt sínu algerlega fram gagnvart þinginu og ef þingið samþykkti ekki lagafrumvörp hans fór hann aðrar leðir og þá giltu ekki ákvæði stjórnarskrárinnar lengur fyrir honum. Yfirleitt var þó samstarf Bismarcks við þingið gott.

Stjórnarskrá Bismarcks hafði ekki að geyma nein ákvæði um réttindi borgaranna (Bill of Rights) og hvergi var tryggt að borgaraleg stjórnvöld hefðu vald yfir hernaðaryfirvöldum. Hernum var raunar veitt svo mikla sérstaða innan ríkisins að hann varð nánast að ríki innan ríkisins. Samkvæmt stjórnarskránni áttu réttindi borgaranna að vera ákveðin og veitt af ríkinu, þ.e.a.s. einstaklingurinn hafði ekki náttúruleg réttindi sem ekki yrðu tekin frá honum í anda frjálslyndisstefnunnar. Ennfremur var kveðið á um að réttindi einstaklingsins færu eftir því hvaða stétt hann tilheyrði og að það væri síðan skylda ríkisins að stuðla að velferð hverrar stéttar til þess að tryggja hollustu þeirra við þjóðina. Þrátt fyrir þessa stéttaskiptingu innan ríkisins voru allir borgarar landsins þó jafnir fyrir lögum sama hvaða stétt þeir tilheyrðu. Með þessu móti var frelsi einstaklingsins, samkvæmt hinni þýsku hugmynd um réttarríkið, samtvinnað hollustu við ríkið og þjóðlega samstöðu.

Þrátt fyrir að þýska keisaradæmið gæti ekki verið skilgreint sem frjálslynt ríki var margt í því mótað í anda frjálslyndisstefnunnar. Almenningur naut mikils frelsis til mennta, ritskoðun var ekki stunduð, tjáninga-, skoðana-, og prentfrelsi var almennt viðurkennt og trúfrelsi var nær algert. Þýska keisaradæmið varð einnig frumkvöðull hvað sneri að lögum um félagslegt öryggi þegna sinna. Frjálshyggja (Laizzez faire) hafði enga hliðstæðu í keisaradæminu líkt og gerðist í Frakklandi og Englandi. Þess í stað var keisaradæmið mótað að landsföðurhyggju (paternalism) þar sem það var álitin skylda ríkisins að tryggja hag allra stétta í gegnum lagasetningu sem tryggja ætti réttindi þeirra. Þannig voru t.a.m. sett lög í þýska keisaradæminu á árunum 1883-1889 sem kváðu á um sjúkratryggingar, slysatryggingar, örorkubætur og ellilífeyri til handa þýskum verkamönnum. Ástæðan fyrir þessu var þó ekki síður til að grafa undan fylgi sósíalista á sambandsþinginu enda reyndi Bismarck mjög að draga úr áhrifum þeirra meðal verkalýðsins og jafnvel tortíma hreyfingunni.

Það sem á hafði skort í Þýskalandi 1848, og m.a. hafði gert byltinguna þá svo máttlausa, varð til eftir að landið var sameinað í eitt ríki. Þetta var öflug og stór borgarastétt sem varð til vegna þeirrar miklu iðnvæðingar sem átti sér stað í Þýskalandi eftir sameiningu landsins. Það höfðu einmitt verið borgaraöflin sem knúið höfðu byltingarnar í Frakklandi og Englandi en hafði skort svo tilfinnanlega í Þýskalandi 1848 til að byltingin þá hefði getað borið árangur.

En þrátt fyrir að til yrði öflug borgarastétt varð það ekki til þess að kollvarpa því forsjárhyggjuþjóðfélagi sem þýska keisaradæmið óneitanlega var. Ástæður þess voru ýmsar. Til að geta staðið í samkeppni við Breta, sem um langan aldur höfðu verið fyrirferðamiklir á heimsmarkaðinum, sneru þýskir kaupsýslumenn sér til ríkisins eftir stuðningi. Ríkið veitti þeim þann stuðning sem þeir þurftu m.a. í formi verndartolla, niðurgreiðslna og hagkvæmra viðskiptasamninga. Önnur ástæða þess að kaupsýslumennirnir sneru sér til ríkisins eftir stuðningi var ástandið í innanlandsmálum. Fljótlega eftir að landið var sameinað fóru verkamenn að fylkja liði undir fána sósíalisma. Hræðsla við byltingar og eignaupptöku fengu borgarastéttina til að leita á náðir ríkisvaldsins eftir vernd. Hún snerist einnig gegn kröfum um að stjórnarskráin yrði gerð frjálslyndari af ótta við að það yrði til að auka völd og áhrif sósíalista sem síðan gætu beitt sér fyrir lagasetningum sem yrðu fjaldsamlegar viðskiptahagsmunum þeirra.

Þetta þýddi að andstaða sú sem ríkisstjórnin varð fyrir var aðallega frá sósíalistum. Sósíalistar gagnrýndu stjórnina og stefnu hennar harðlega á Sambandsþinginu en gátu ekki komið í veg fyrir gerðir hennar þar sem stjórnin var ekki háð þinginu. Tvisvar á árinu 1913 samþykkti þingið vantraust á ríkisstjórnina en stjórnin fór þó hvergi. Allan þann tíma sem þýska keisaradæmið var og hét, frá 1871-1919 var stjórnarfyrirkomulagið nær óbreytt.

Hjörtur J.


Heimildaskrá:

Carr, William: A History of Germany 1815-1945. London. 1969.
Collins, Irene: Liberalism in Nineteenth-Century Europe. [staður].1971.
Lee, Stephen J.: Imperial Germany 1871-1918. London. 1999.
Schapiro, J. S.: Liberalism: It’s Meaning and History. Princeton, NJ. 1969.
Simon, W.M.: Germany in the Age of Bismarck. London. 1968.
Treue, Wolfgang: Germany Since 1848: History of the Present Times. Bonn-Bad
Godesberg. 1969.
Með kveðju,