Þýzka vasaorrustuskipið Graf von Spee Söguleg endalok þýzka vasaorrustuskipsins Graf von Spee

Árið 1999 voru 60 ár liðin frá því að þýzka vasaorrustuskipinu Admiral Graf von Spee var sökkt á La Plata-flóanum við strendur Suður Ameríku. Var þetta fyrsta herskipið sem Þjóðverjar misstu í Síðari heimstyrjöldinni, en það sem gerir þennan atburð enn merkilegri er sú staðreynd að skipinu var sökkt af Þjóðverjum sjálfum.

Vasaorrustuskipinu Admiral Graf von Spee var hleypt af stokkunum í Wilhelmshaven, árið 1934. Eftir Fyrri heimstyrjöld hafði nær öllum flota Þjóðverja verið sökkt, en í Versalasamningnum var þó tekið fram að Þjóðverjar mættu eiga nokkur úrelt herskip. Ennfremur var tekið fram að einu nýsmíði þeirra mættu vera sex 10 þús. tonna beitiskip. Í samningnum var hins vegar ekkert minnst á stærð vopnabúnaðar og nýttu Þjóðverjar sér þetta með því að smíða 14 þús. tonna beitiskip (opinberlega sögð 10 þús. tonn) með sex 28 cm orrustuskipabyssum. Bandamönnum brá í brún en gátu ekkert aðhafst, Þjóðverjar virtust ekki hafa brotið samninginn.

Vegna vopnabúnaðar skipanna þótti ekki hæft að flokka þau sem beitiskip og ekki voru þau heldur nógu stór til að teljast til orrustuskipa. Var því afráðið að búa til nokkurns konar milliflokk, svokallaðan flokk vasaorrustuskipa (ens. Pocket Battleships, þý. Panzerschiffe). Var áætluð smíði fjögurra slíkra skipa en aðeins þremur var lokið: Admiral Graf von Spee, Admiral Scheer og Deutschland. Nafni þess síðastnefnda var síðar breytt að skipun Hitlers þar sem óþolandi yrði ef nafnskip Þýskalands færist.

Vasaorrustuskipin voru, eins og fyrr segir, 14 þús. tonn. Þau höfðu 26 hnúta hámarkshraða, voru 182 m á lengd, 21,7 m á breidd og ristu 5 metra. Þau voru búin átta 6.750 hestafla vélum, samtals 54 þús. hestöflum og 2 skrúfum. Síður skipanna voru með 60 mm brynvörn, þilfar með 40 mm, stjórnstöð 150 mm, og skotturnar 140 og 100 mm brynvörnum. Þau voru búin sex 28 cm fallbyssum í tveimur skotturnum, átta 15 cm fallbyssum, tuttugu og fjórum loftvarnarbyssum af ýmsum stærðum, átta 53,3 cm tundurskeytarörum og tveimur flugvélum. Í áhöfnum skipanna voru 1.150 manns.

Þegar Síðari heimstyrjöldin brauzt út voru Þjóðverjar eina þjóðin sem undirbúin var fyrir styrjöld. Þeir voru ekki aðeins undirbúnir á landi og í lofti heldur einnig á hafinu. Áður en Þjóðverjar réðust inn í Pólland, 1. september 1939, höfðu þeir sent bæði herskip og vopnuð kaupför út á sunnanvert Atlantshaf til að stunda sjórán þegar styrjöldin brytist út. Þessum skipum tókst að valda töluverðu tjóni og beindust árásir þeirra einkum gegn siglingum breskra skipa. Gerðu Bretar ýmsar ráðstafanir til að hafa hendur í hári þessara skipa sem skiluðu þó yfirleitt mjög litlum árangri. Eitt þessara skipa var Admiral Graf von Spee, þá undir stjórn Hans Langsdorf skipherra.

Fyrstu þrjá mánuði styrjaldarinnar hafði Graf Spee, eins og það var yfirleitt nefnt, sökkt níu kaupskipum Breta á Suður-Atlantshafi, samtals yfir 50 þús tonnum. Í þessum átökum hafði þó enginn týnt lífi vegna skilyrðislausrar hlýðni Langsdorfs skipherra við Haag stríðssáttmálann. Í hvert skipti sem Graf Spee hafði grandað óvinaskipi voru farþegar og áhöfn flutt yfir í þýzka herskipið og þeir síðan settir í land í fyrstu hlutlausu höfn.

Bretum var Graf Spee sem þyrnir í augum, en þrátt fyrir mikla gæslu hafði þeim ekki tekist að granda því. Reynt var að gera ráð fyrir því á hvaða slóðum Graf Spee héldi sig hverju sinni miðað við neyðarsendingar sem borist höfðu frá sumum fórnarlömbum þess. Afmörkuðu Bretar að lokum svæði nálægt La Plata-flóa í Suður-Ameríku þar sem þeir töldu líklegast að þýzka skipið væri. Hélt S-Ameríkudeild brezka flotans, með beitiskipunum Exeter, Ajax og Achilles, á þetta svæði og sigldi loks fram á Graf Spee við mynni flóans, þann 13. desember 1939.

Graf Spee hafði mikla yfirburði á við brezku skipin og átti frá hernaðarlegu sjónarmiði séð að geta sökkt þeim öllum. Þjóðverjar lögðu þó aðal áherslu á að koma sér undan, en varð ekki ágengt vegna yfirburða brezku skipanna í hraða. Var hleypt af fyrstu skotunum kl. 6.18 að morgni 13. desember. Brezku skipin umkringdu strax Graf Spee. Gerði skipherrann á Graf Spee, Hans Langsdorf, í byrjun þau mistök að dreifa skothríð sinni á brezku skipin í stað þess að reyna að sökkva þeim einu á fætur öðru. Breyttu Þjóðverjar þó fljótlega út af þessu og einbeittu sér að Exeter þar sem byssur þess voru þeim hvað skæðastar, enda hafði Exeter öflugasta vopnabúnaðinn af bresku skipunum, sex 20 cm byssur. Varð Þjóðverjum vel ágengt á tuttugu fyrstu mínútum orrustunnar og tókst að eyðileggja fjórar af sex byssum Exeter. Mörg skot Graf Spee reyndust þó gölluð og sprungu ekki þó þau hittu brezku skipin. Á meðan höfðu hin brezku skipin tekist að koma nokkrum vel miðuðum skotum á Graf Spee úr 15 cm byssum sínum og breyttist orrustan fljótlega í eltingarleik þar sem þýzka skipið reyndi að komast undan í átt að La Plata ármynninu. Beittu þeir til þess m.a. reykvél.

Eftir um klukkustundar eltingarleik sneri Graf Spee við og réðst til atlögu við Exeter til að reyna að gera út af við illa laskað beitiskipið. Exeter beit þó illa frá sér með þeim byssum sínum sem ekki höfðu verið eyðilagðar og sneri þýzka skipið fljótlega við aftur með minniháttar eld innanborðs. Fimm mínútum síðar greiddi Graf Spee Ajax þungt högg sem eyðilagði báða afturskotturna breska skipsins. Að öðrum fimm mínútum liðnum neyddist Exeter til að láta undan síga og halda undan þar sem þær byssur þess sem eftir voru í lagi voru orðnar ónothæfar vegna mikils leka í skipinu. Sömuleiðis loguðu miklir eldar um borð í skipinu, auk mikils mannfalls.

Á sama tíma og Exeter hélt undan reyndu hin brezku skipin að þrengja að Graf Spee og koma þannig betur skotum á það. Einn af fjórum skotturnum Ajax var á þessari stundu með öllu orðinn ónothæfur. Graf Spee reyndi á ný að komast undan og notaðist enn við reykvélina. Brezku skipin eltu og tókst að koma nokkrum skotum á þýzka skipið. Er talið að annar skotturn Graf Spee að aftan hafi orðið ónothæfur um þetta leyti þar sem ekkert var skotið úr honum eftir þetta.

Um 7.40 höfðu brezku skipin nær klárað skotfærabirgðir sínar og voru að auki orðin verulega illa farin. Ákvað því yfirmaður deildarinnar að halda undan og ráðast á ný til atlögu um kvöldið og reyna þá að koma tundurskeytum á Graf Spee í skjóli myrkurs. Hélt Graf Spee inn til Montevideo, höfuðborgar Uruguay, til viðgerða.

Samkvæmt hlutleysisstefnu sinni fyrirskipaði stjórn Uruguay Langsdorf skipherra að yfirgefa landið innan þriggja daga, annars yrði skipið kyrrsett. Þjóðverjar vildu ógjarnan una þessu og kvörtuðu yfir því að sá tími dygði ekki til að gera Graf Spee klárt til bardaga.

Brezki flotamálaráðunauturinn í Buenos Aires sá fram á að eitthvað yrði til bragðs að taka. Að öðrum kosti slyppi Graf Spee út á Atlantshafið til frekari sjórána strax eftir að viðgerðum á því væri lokið. Brezku beitiskipin, sem Graf Spee hafi áður barist við, voru það illa farin að ekki þótti gerlegt að etja þeim aftur á móti þýzka skipinu. Nálægasta brezka herskipið var flugmóðurskipið Ark Royal, en það var alltof langt í burtu til að geta hindrað för Graf Spee á nokkurn hátt. Því greip flotamálaráðunauturinn til þess bragðs að hefja mikil vistakaup og lét það berast út að öflug brezk flotadeild væri nú komin til La Plata-flóa til að eyða þýzka orrustuskipinu. Þýzka leyniþjónustan komst fljótlega að þessu og kom boðum um þetta til Langsdorf skipherra. Þar sem skipherrann vissi ekki betur en að skilaboðin væru á rökum reist áleit hann að ekki væri nema um eitt að ræða.

Hinn 17. desember sigldi Graf Spee út frá Montevideo og út á La Plata-flóann, eingöngu mönnuð nauðsynlegri áhöfn. Þar opnaði áhöfnin botnhlera skips síns og lagði síðan eld að því, til þess að það félli ekki í hendur Bretum. Ekki eitt einasta brezkt skip var á staðnum og þýzka skipið hefði án efa auðveldlega geta komist undan. Hitler hafði misst sitt fyrsta herskip í stríðinu.
Graf Spee brann í fimm daga þangað til það hvarf loks í hafið. Áhöfn skipsins var flutt með dráttarbátum yfir til Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu, og var síðar flutt heim til Þýzkalands með þýzkum kaupskipum.

Eftir að hafa gengið frá öllum málum er sneru að áhöfn sinni hélt Langsdorf skipherra upp í herbergi sitt, vafði sig inn í hinn gamla keisaralega flotafána og skaut sig 20. desember 1939. Með þessu vildi hann koma í veg fyrir að nokkur skömm félli á skip hans og fána. Hins vegar leit stjórn Hitlers engan veginn á gerðir Langsdorfs sem virðingarverðar og var nafni hans útskúfað með skömm og er það þannig enn þann dag í dag.

Ekki verður betur séð en að Hans Langsdorf skipherra hafi verið mun virðingarverðari maður en margar þær stríðshetjur úr Síðara heimsstyrjöldinni sem mikið hefur verið hampað. Skilyrðislaus hlýðni hans við þær alþjóðlegu leikreglur sem settar höfðu verið á milli þjóða til þess að eftir þeim væri farið, hvort heldur sem væri á ófriðar- eða friðartímum, er svo sannarlega aðdáunarverð og til eftirbreytni, ekki síst í samfélögum nútímans þar sem heiður og æra virðist oft skipta langtum minna máli en skammtíma hagsmunir og yfirdrottnunarsemi. Það hlýtur að teljast nokkuð undarlegt að slíkur maður skuli ekki hafa hlotið uppreisn æru enn þann dag í dag og að útskúfunardómur þýzku nasistastjórnarinnar yfir honum skuli enn standa.

Höfundur nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands

Heimildir:
Compton’s Interactive Encyclopedia 1997 Edition, Compton’s New Media, Inc.
Chronicle of the 20th Century, The Mediascope, Inc.
Skipabók Fjölva, Fjölvi
The New Universal Encyclopedia, The Educational Book Co., Ltd.
Með kveðju,