Virgill og Eneasarkviða Virgill eða Publius Vergilius Maro var fæddur þann 15. Október árið 70 fyrir Krist nálægt Mantúu á Norður Ítalíu, nánar tiltekið þorpinu Andes sem er nú á svæði sem nefnist Pietola. Hann var af sveitafólki kominn en þó ekki ekki mjög fátæku. Menntun Virgils hófst þegar hann var fimm ára gamall. Hann fór í barnaskóla í Cremona og síðan í Milano. Eftir dvölina í Mílanó fór hann til Rómar til frekara náms, lagði hann þar stund á mælskulist en hann varð aldrei mjög góður mælskumaður. Eftir þetta fór Virgill til Neapel til þess að læra heimsspeki en einnig stærðfræði og læknisfræði.

Á árunum sem Virgill var að vaxa úr grasi var mikill umbrotatími á Ítalíu. Árið 42 f. Kr. Var land hans tekið eignarnámi handa uppgjafarhermönum. Oktavíanus eða Ágústus keisari bætti honum þetta upp. Þegar hér er komið við sögu var Virgill einkum að iðka skáldskap og hann komst í kynni við auðmanninn Maecenas sem var mikill listaunnandi en hann styrkti mörg stórskáld Rómverja en auk Virgils ber að nefna skáldið Hóras. Virgill varð fljótt alþekktur í Róm en hann gerði þrjú kvæðasöfn um ævina og vöru þau öll undir hexametri. Elsta safnið, Bucolica var það minnsta en Eneasarkviða það stærsta. Bucolica er tíu hirðingjaljóð og í þeim er hjarðlífið lofað og vegsamað en þessi kvæði eru talin endurspegla líf Virgils sjálfs og ljóðin lýsa einna helst löngunar til friðsæls sveitalífs, nutu nokkurar hylli í Róm en þau voru ort árin 42-39 f. Kr.
Maecenes var svo hrifin af þessum ljóðum að hann hvatti Virgil til þess að yrkja meira, og það gerði hann. Virgill orti búnaðarljóð eða sveitasæluljóð að nafni Georgica en þau voru í fjórum bókum og ort árin 37- 29 f. Kr. Fjölluðu þau um kornrækt, aldinrækt, húsdýr og býflugur. Þar lýsti hann lífi bænda í sveitinni og einnig komu fyrir unaðsfagrar náttúrulýsingar. Þessi tvö kvæðasöfn er Virgill minnst þekktur fyrir og komast þau ekki í hálfkvisti við síðasta skálderk hans, Eneasarkviðu en eftir að hafa lokið við Georgicu hóf hann svo að semja Eneasarkviðu árið 30. f. Kr. og um hana verður fjallað hér á eftir.
Virgill lést 21. September árið 19. f. Kr. í hafnarborginni Bundisium var hann þá á koma úr ferð með Ágústusi keisara þar sem þeir höfðu verið í kynnisferð um söguslóðir Eneasarkviðu, hafði Virgill þá veikst alvarlega úr hitasótt. Virgill er grafinn í grennd við Napólí nálægt sínum heimsalóðum.

Nánar um Eneasarkviðu.

Eneasarkviða var samin á miklum umbrotatímum í Róm, jafnt félagslegum sem og í stjórnmálum. Rómverska lýðveldið var fallið og borgarastríð hafði leikið rómverska samfélagið grátt. Ágústus, sem frá 27 f.Kr. var fyrsti keisari Rómaveldis, reyndi að að ýta undir hefðbundnar hugmyndir um rómverskt siðgæði og Eneasarkviða er talin endurspegla þá viðleitni. Virgill hóf að semja Eneasarkviðu þegar hann var beðinn þess af Ágústusi og hóf hann það verk um 30 f. Kr. og er talið að það hafi tekið hann síðustu 11 ár ævi sinnar. Eneasarkviða er mjög fágað og flókið kvæði en segir sagan að Virgill hafi einungis samið þrjár línur á dag. Virgill tók Hómverskviður sér til fyrirmyndar. Eneasarkviða, sem er nokkurn veginn sömu lengdar og Ódysseifskviða Hómers, er ókláruð, þónokkuð margar línur eru einungis hálf-samdar og oft vantar síðari hluta línanna. Aftur á móti er ekki óalgengt að í epískum kveðskap séu línur ókláraðar eða illa varðveittar og af því að Eneasarkviða var samin og varðveitt í rituðu formi ólíkt t.d. Hómverskviðum, sem voru munnlegur kveðskapur er Eneasarkviða heilstæðara verk en flest önnur epísk kvæði. Enn fremur er umdeilt hvort Virgill ætlaði slíkum línum að vera kláraðar. Sumar væri erfitt að klára og í sumum tilfellum eykur stuttleiki línunnar á dramatískan endi málsgreinar. Þegar Virgill lést, lét hann eftir sig fyrirmæli til Ágústusar um að Eneasarkviða skyldi brennd vegna þess að verkið væri óklárað. Virgill var einnig ósáttur við hluta söguþráðsins í 8. bókinni. Ágúst varð hins vegar ekki við óskum Virgils og þess í stað skipaði hann Lucius Varius Rufus og Plotius Tucca ritstjóra verksins og fékk þá til að ganga frá því til útgáfu með eins litlum breytingum og mögulegt væri. Eftir að Eneasarkviða kom út varð hún þegar í stað viðurkennd sem meistaraverk og innan skamms var hún talin eitt mikilfenglegasta kvæði á latínu.
Á 15. öld voru gerðar tvær tilraunir til þess að semja viðauka við Eneasarkviðu. Aðra tilraunina gerði Pier Candido Decembrio, en viðauki hans var aldrei kláraður, hina gerði Maffeo Vegio og var hans viðauki oft hafður með í prentuðum útgáfum af Eneasarkviðu á 15. og 16. öld.
Frægasta þýðing Eneasarkviðu er ef til vill ensk þýðing eftir 17. aldar skáldið John Dryden. En kviðan er til í íslenskri þýðingu Hauks Hannessonar og til gamans má geta að sú bók er til á bókasafninu í Íþöku ef þið viljið kynna ykkur hana.

Söguþráður Eneasarkviðu

Eneasarkviða er 12 bækur og er eiginlega beint framhald af Ilíónskviðu Hómers en kviðan segir frá Trójukappanum Eneasi sem kemst undan með föður sinn á bakinu þegar að Trója fellur og er förinni heitið til Ítalíu, þar sem hans bíða örlög um að stofna mikið og voldugt ríki. Á leiðinni til Ítalíu rekur stormur hann til Karþagó, þar sem hann hittir drottninguna Dídó og fljótlega verða þau ástfangin. Júpíter sendir svo Merkúríus til þess að minna Eneas á örlög sín og Eneas verður því að yfirgefa Karþagó en aumingja Dídó fremur sjálfsmorð þegar hún fréttir að því að Eneas hafi yfirgefið sig og bölvar honum sem gat því miður ekki stáldrað lengra við í Karþagó. Þegar Eneas kemur til Cumae á Ítalíu ráðfærir hann sig við véfréttina þar, sem segir honum að hann verði að fara til undirheima. Eneas er svo endurfæddur sem stofnandi Rómaveldis. Frá Cumae siglir Eneas til Latíum þar sem konungurinn þar, Latinus lofaði honum hönd dóttur sinnar Laviniu. Eneas giftist Laviniu, en hún var þá þegar lofuð Túrnusi, konungi Rútúla, sem reiðist og segir Eneasi stríð á hendur. Eneasarkviðu lýkur svo með einvígi á milli Eneasar og Túrnusar, sem Eneas vinnur þrátt fyrir að vera beðinn um að sýna miskunn.

Fyrstu sex bækurnar í Eneasarkviðu eru mikið líkar Ódysseifskviðu Hómers og Virgill hefur greinilega fengið sínar hugmyndir þaðan en aftur á móti samsvara síðari sex bækur kviðunnar hins vegar Ilíonskviðu.


Persónan Eneas

Eneas kemur fyrst fyrir í Hómerskviðum og var þegar orðinn að rómverskri goðsögn þegar Virgill samdi Eneasarkviðu. Virgill breytti þó aðeins hefðnni úr kviðum Hómers um ferðalög og ævintýri Eneasar og tengsl hans við stofnun Rómar. Þrátt fyrir að persónan Eneas eigi sér langa sögu hefur hann lengi verið tengdur við skyldurækni og guðrækni. Hann kemur fyrir sem dyggur maður, bæði trúr og tryggur og sinnir skyldum sínum við land sitt og örlög ætíð fram yfir eigin hagsmuni
Virgill gerði úr Eneasi flóknari persónu og gerði hann að þjóðhetju sem tengdi sögu Rómar og Tróju, einnig varpaði hann dýrðarljóma á hefðbundnar rómverskar dygðir og réttlætti.


Áhrif Eneasarkviðu


Eneasarkviða er eitt fárra verka á latínu sem mjög margir latínunemar hafa þurft að lesa, ásamt verkum Júlíusar Caesars, Cícerós, Óvidíusar og Catúllusar. Þessa stöðu innan námsefnis í latínu og í klassískum fræðum náði Eneasrakviða í raun stuttu eftir andlát Virgils. Afleiðing þessa er meðal annars sú að ýmis orðatiltæki úr kviðunni hafa orðið til á latínu eins og ef til vill línur úr verkum Shakespeares hafa unnið sér sess í ensku og á sama hátt eru ýmis orðatiltæki í íslensku komin úr Hávamálum og Íslendingasögunum.


Heimildir:

Ágúst H. Bjarnason. 1953. Saga mannsandans. IV Róm í heiðnum og kristnum sið. Hlaðbúð, Reykjavík.


Ásgeir Hjartarson. 1973. Mannkynssaga. Fornöldin. Mál og Menning, Reykjavík.


Kristmann Guðmundsson. 1955. Heimsbókmenntasaga. Fyrra bindi. Bókaútgáfa menningarsjóðs, Reykjavík.


Virgill, 1999. Eneasarkviða (eftirmáli). Haukur Hannesson íslenskaði. Mál og menning, Reykjavík.