Vesturvígstöðvarnar 1914-18 - Kynslóð deyr Þar sem kyrrðin ríkir

Í línu sem nær þvert yfir hinar rólegu sveitir norðanverðs Frakklands, allt frá Ermarsundi til Alpafjalla, má víða sjá skringilegt landslag. Sléttir akrar og skógarspildur víkja þar fyrir mikilli óreiðu af litlum hólum og lægðum, og víða má þar einnig finna langa og djúpa skurði. Allt er þetta gróðri vaxið, gras og kjarr hafa gefið þessu skörðótta og ónáttúrulega landslagi sléttara yfirbragð. En greinilega hafa hér einhverntíman í fyrndinni átt sér stað miklar hamfarir.

Já, hvað skeði eiginlega hér? Eldsumbrot, eins og þau sem oft hafa raskað landslaginu hér á landi? Flæddi kannski ægilegt stórfljót hér yfir með brauki og bramli? Var þetta loftsteinadrífa af himnum ofan? Eitt er víst að margir týndu lífi í þessum hamförum, um það vitna stórir minnisvarðar og kirkjugarðar sem víða má finna hér og í næsta nágrenni. Ef við lesum á minnisvarðana sjáum við að hörmungarnar dundu yfir fyrir minna en öld síðan. Ártölin 1914-1918 eru hvarvetna letruð, og nú komumst við að raun um að þessar hamfarir voru af manna völdum: Ofan við ártölin stendur nefnilega “La Grande Guerre” eða “The Great War” – Stríðið Mikla.

Þegar gróðurinn sem nú þekur þessa kyrrlátu staði var byrjaður að festa rætur sínar fyrir hartnær mannsaldri síðan, skall á annað og enn meira stríð. En það var háð á allt annan hátt og lét þessa staði að mestu ósnortna. Hinir föllnu hvíldu hér áfram í friði og náttúran hélt áfram að græða sár sín, allt fram á okkar daga.

Þeir sem muna Vesturvígstöðvarnar, en svo kölluðust þessir vígvellir einu nafni, eru nú nær allir gengnir á vit sinna föllnu félaga. Fyrir þeim var þetta alltaf sannarlega “Stríðið Mikla”. Fyrir aðra nefndist það Fyrri heimsstyrjöldin, og féll í skuggann af þeirri Seinni. Það er kannski fyrst nú, þegar kynslóð Seinni heimsstyrjaldar er einnig að verða öll, sem við förum að sjá málin í öðru ljósi og skoða báðar styrjaldir úr “svipaðri fjarlægð” í tíma. Og þegar við gefum okkur smá tíma til að íhuga vel þau ósköp sem Vesturvígstöðvarnar voru, hlýtur að þyrma yfir okkur.


Skelfileg byrjun, en áfram er haldið

Í dag hefur Vestur-Evrópa búið við frið í yfir 60 ár, og styrjaldir milli ríkja hennar eru fyrir löngu orðnar óhugsandi, burtséð frá ýmsum deilumálum um alþjóðapólitík og efnahagsmál álfunnar. Bretar, Frakkar og Þjóðverjar senda deildir úr sínum vel þjálfuðu atvinnuherjum til ýmissa friðargæslustarfa útí heimi. Tæknilegir yfirburðir herjanna yfir andtæðinga eru feykilegir, og fyllsta öryggis hermanna er jafnan gætt. Vitað er að viss áhætta er fyrir hendi, en mannfall er yfirhöfuð ekki ásættanlegt. Ef að 2-3 menn úr herjum landanna falla í átökum við skæruliða í órólegu landi, er það forsíðufrétt. Ef að 10 manns falla er það skandall, og ef að 50-100 hermenn féllu í einu, yrði það katastrófa og tilefni þjóðarsorgar. Gildi mannslífa hefur stórlega hækkað síðan 1914…

Þegar stríði var lýst yfir í ágúst 1914, var hvarvetna mikið húllúmhæ með lúðrasveitablæstri og fánaveifingum í evrópsku stórveldunum þremur. Nú skyldu menn sko loksins, loksins sýna þessum aumingjum í tvo heimana. Í Þýskalandi og Frakklandi voru allir menn og strákar á herskyldualdri kallaðir út. Þjóðverjar marséruðu inní Frakkland með sína gadd-hjálma á höfðinu, og ætluðu sér að endurtaka leik sinn frá 1870; að rústa þessum montnu froskétandi vínsvelgjum, umkringja París og neyða þá til uppgjafar, fyrir jól. En Frakkar með skær-rauðar húfur sínar voru aldeilis ekki á því. Þeir ætluðu sér að taka í lurginn á þessum súrkálsétandi & bjórþambandi hrokagikkjum, og hefna ófaranna gegn þeim rúmlega 40 árum áður. Sparka þeim með gadd-hjálminn í óæðri endanum útúr landi sínu og endurheimta Alsace og Lorraine héruðin. Fyrir jól, náttúrlega. Fljót-afgreitt mál.

Eða hvað? Báðir aðilar komust að því fullkeyptu á fyrstu vikum stríðsins, að málin yrðu ekki alveg svona einföld. Nú var ekki 1870, nú var 1914. Á þeim tíma sem liðinn var, var búið að finna upp vélbyssur, magasín-riffla og langdrægar afturhlaðnar fallbyssur. Aðferðirnar við að framleiða þessi vopn og að koma herjunum fljótt á áfangastað, voru einnig orðnar mun skilvirkari og fullkomnari. Þjóðverjar sóttu óvenju hratt og harkalega fram í Frakklandi, og litlu munaði að þeim tækist ætlunarverk sitt. En við Marne-ánna voru þeir stöðvaðir af frækilegri framgöngu Frakka sem voru álíka vel mannaðir og vopnaðir, og studdir litlum en mjög vel þjálfuðum breskum her. Í Bretlandi var enn ekki herskylda, landið var fyrst og fremst flotaveldi. Landher þeirra var því byggður upp með því markmiði að vera “smár en knár” og sendanlegur hvert sem er með litlum fyrirvara, líkt og tíðkast í dag. Sá litli her skaut mun fjölmennara þýskt lið sundur & saman haustið 1914, og átti sinn þátt í að stöðva framsókn þeirra.

Þegar Frökkum og Bretum hafði tekist að stöðva sókn Þjóðverja, fóru herirnir að grafa sig niður í skotgrafir til að halda í horfinu og bíða færis á að sækja fram samkvæmt nýjum “snilldarplönum” hershöfðingjanna að baki víglínunni. Vesturvígstöðvarnar urðu til. En í þessum orrustum sem urðu á örfáum vikum ÁÐUR en menn grófu sig niður í fasta víglínu, týndu eitthvað um 150 þúsund manns lífi, stundum tugþúsundir á dag! Að sjálfsögðu mest strákar um tvítugt, ekki enn komnir úr foreldrahúsum. Ekki er erfitt að ímynda sér hver viðbrögðin yrðu í dag við slíku ólýsanlegu blóðbaði, þvílíkri katasrófu sem munuð yrði um aldir. Erfiðara er að ímynda sér hugarfarið á þeim tíma, því þetta var bara rétt byrjunin, stríðinu var haldið áfram.


Enn versnar það

Hryllingi skotgrafahernaðarins á Vesturvígstöðvum næstu árin hefur oft verið lýst í bókum og kvikmyndum. Báðir aðilar leituðu sífellt fyrir sér með leiðir til að rjúfa pattstöðuna, oftast með slökum árangri og gífurlegu mannfalli. Menn óðu þúsundum saman gegnum sundurtætt “einskismannslandið” á milli skotgrafanna, og voru jafnan sallaðir niður af vélbyssuskothríð óvinarins. Vígvöllurinn fékk á sig nánast óraunverulegan martraðarblæ. Fallbyssuskothríðin tætti hann sundur og saman dag eftir dag. Oft gafst ekki færi á greftra þá föllnu, oft grófust þeir undir í jarvegi sem ein sprengja þeytti upp, og var síðan rotnum og tættum líkunum þeytt upp aftur síðar af annari sprengju. Þetta voru kjöraðstæður fyrir rottur, sem fitnuðu grimmt. Þegar ný og hryllileg vopn eins og eiturgas og eldvörpur komu til sögunnar, var það síst til þess að draga úr hryllingnum. Enda voru fjölmargir hermenn sem þoldu þetta ekki, töpuðu vitinu og jöfnuðu sig ekki fyllilega það sem eftir var ævinnar.

Hámarki náði slátrunin í hinni gríðarlegu orrustu við Verdun árið 1916. Hér var komið á þann punkt að slátrun var í sjálfu sér orðið markmið; Þýska herforingjaráðið skilgreindi hér sóknarmarkmið sín með það fyrir augum að valda Frökkum svo miklu manntjóni að þeim myndi “blæða út”, og þá yrði leiðin loks greið fyrir hina fjölmennari Þjóðverja að veita náðarhöggið. Hér tókust grannarnir á af áður óþekktri grimmd og miskunnarleysi. Þúsundir eftir þúsundir manna voru sendir í “hakkavélina” dag eftir dag. Litlu munaði að Þjóðverjum tækist ætlunarverk sitt, en með miklu harðfylgi og góðri stjórn Pétains hershöfðingja (sem síðar hlaut nöturleg örlög) tókst Frökkum að stöðva sóknina. En ekki fyrr en a.m.k. 220 þúsund manns lágu í valnum og tvöfalt fleiri voru særðir. Í orrustunni við Somme síðar sama ár, voru tölurnar litlu minni. Þar voru það Bandamenn með Breta í fararbroddi sem reyndu sókn, með litlum árangri.

Enn skildi maður ætla að nú hefði báðum aðilum þótt nóg komið. En sökum ýmissa “ytri aðstæðna” t.d. stöðunni á Austurvígstöðvunum og víðar í heiminum, þótti hvorugum aðila það vera sér í hag að stöðva stríðið. Á Vesturvígstöðvunum hélt því blóðbaðið áfram næstu tvö árin, og ekki fór að koma nein veruleg hreyfing á víglínuna fyrr en síðustu sex mánuðina. Þegar styrjöldinni lauk loks með uppgjöf Þjóðverja í nóvember 1918, lágu milljónir manna í valnum, og bein hundruða þúsunda þeirra voru að eilífu týnd einhversstaðar í einskismannslandinu. Voru allir aðilar algerlega úrvinda, og í löndum Bandamanna átti sorgin líklega stærri hlut í hugum fólks en sigurgleði. Það kom þó ekki í veg fyrir að friðarsamningunum væri klúðrað, en það er önnur saga.


Evrópa aldrei söm

Hið skringilega landslag í norðanverðu Frakklandi, sem talað er um í upphafi greinar, er grafreitur nánast heillar kynslóðar af strákum þriggja landa. Árgangar ca. 1890-1900 voru á þessum fjórum árum fyrir hrikalegum skakkaföllum. Til eru bekkjarmyndir frá því fyrir stríðið, þar sem aðeins 3-4 strákar lifðu stríðið af. Ef við hugsum út í þetta fáum við betri skilning á hugsanagangi fólks á millistríðsárunum, sérstaklega afhverju Bretar og Frakkar almennt voru alls ekkert spenntir fyrir að fara aftur í stríð við Þjóðverja. Hernaðarandinn sem ríkt hafði 1914 var gersamlega horfinn, nema í Þýskalandi þar sem Adolf Hitler náði að blása í glæður hans með að höfða til hinna lágu hvata fólks, biturðar og hefnigirni.

Það er líka einkennilegt til þess að hugsa, að það friðsamlega viðhorf sem nú ríkir í Vestur-Evrópu var farið að lifa góðu lífi á millistríðsárunum. Bretar og Frakkar forðuðust sem kunnugt er í lengstu lög að fara í stríð við Hitlers-Þýskaland. Ekki af því að þeim væri neitt vel til Hitlers, heldur því þeir hreinlega vildu ekki annað stríð við Þjóðverja, sem þeir litu nú á sem jafningja sína í Evrópu og báru engan haturshug til lengur. Best kom þetta í ljós í “Platstríðinu” (Phoney War, Sitzkrieg) svonefnda veturinn 1939-40. Franskir og þýskir landamæraverðir héldu áfram að spjalla saman yfir nú-harðlæsta landamæraslánna. Ekki var lokað á þýska landamærabæji sem fengu rafmagn sitt frá rafveitum Frakklandsmegin. Breska ríkisstjórnin vildi ekki gera loftárásir á þýskar verksmiðjur því slíkt gæti “valdið tjóni á einkaeigum”. Þetta átti því miður fljótlega eftir að breytast og verða verra áður en það varð betra.

Leifar Vesturvígstöðvanna eins og þær blasa við í dag eru í senn grafreitur og minnisvarði um þá sem féllu, og um brjálæði stríðs yfirleitt. Og sem slíkar “helg vé”, sem við heimsókn snerta fólk á svipaðan hátt Auschwitz gerir. En eru þær kannski líka minnisvarði um heimspólitískt sjálfsmorð Evrópu? Það var jú hér sem að hin áður almáttugu Evrópuveldi ruku út í stríð sem þurrkaði eilíflega af þeim glansinn og veikti stöðu þeirra í heimsmálum verulega, þó heims-forræði væri ekki augljóslega framsalað Bandaríkjunum og Sovétríkjunum fyrr en eftir Seinna stríð. Dæmi nú hver fyrir sig.
_______________________