Cíceró Inngangur

Marcús Túllíus Cíceró var einn merkasti stjórnmálamaður, heimspekingur og rithöfundur Rómar á fyrstu öld fyrir Krist. Hann fæddist 3. janúar árið 106 f.Kr. í Arpinum á Ítalíu. Hann var af auðugum riddaraættum og hlaut gott uppeldi. Snemma kom í ljós að Cíceró var gæddur afburðagáfum og fluttist fjölskylda hans til Rómar til að veita honum góða menntun. Síðar lagði Cíceró stund á mælskulist og heimspeki í Aþenu og á Ródos. Cíceró gerðist málfærslumaður og gat sér fljótt góðan orðstír sem einn mesti ræðusnillingur Rómar.

Stjórnmál og málfærsla

Stjórnmálaferill Cícerós var samofinn málfærsluferli hans. Hann vakti fyrst á sér athygli árið 80 f.Kr. þegar hann tók að sér mál gegn liðsforingja í flokki Súllu, en Súlla var á þessum tíma einvaldur í Róm. Þessi liðsforingi hafði drepið mann að nafni Sextus Roskíus, lagt undir sig eigur hans og síðan dregið son hans fyrir dóm og sakað hann um morðið. Cíceró sýndi mikla dirfsku þegar hann afhjúpaði glæpi og spillingu manna Súllu, en af ótta við hefnd hans flúði Cíceró til Grikklands og dvaldi þar við nám þar til Súlla lést.

Þegar Cíceró sneri aftur til Rómar hóf hann fyrir alvöru þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi. Cíceró var einn af fáum meðlimum riddarastéttarinnar sem náðu að rísa til æðstu metorða í stjórnmálum. Hann var svokallaður novus homo en það voru þeir kallaðir sem voru fyrstir í sinni ætt til þess að taka sæti í öldungaráðinu. Cíceró fetaði embættismannastigann hægt og rólega og stjórnmálaferill hans var nokkuð dæmigerður.

Árið 75 f.Kr. var hann kvestor á Sikiley og þótti mjög réttlátur stjórnandi. Fimm árum síðar tók hann að sér mál gegn Caiusi Verresi, sem var landsstjóri eyjarinnar og átti að baki sér langan feril ofbeldis og rána. Verres hafði kúgað fé út úr íbúum Sikileyjar og breytt stjórnkerfi eyjarinnar í gullmyllu fyrir sjálfan sig. Cíceró tókst málflutningurinn svo vel að Verres flýði land strax eftir fyrstu sóknarræðuna en ræðurnar voru tvær og þá seinni gaf Cíceró út í bókarformi. Í ræðunum tveimur afhjúpaði Cíceró glæpsamlegt framferði Verresar og gagnrýndi einnig Rómverja og forustu þeirra. Með þessu féll hann úr náðinni hjá voldugum einstaklingum.

Um þessar mundir áttu sjóræningjar í auknum átökum við Rómverja og hafði höfðingjasinnanum Pompejusi verið falin herstjórn í baráttunni gegn þeim. Þegar Cíceró varð pretor árið 66 f.Kr. studdi hann Pompejus og mælti með því að sett yrðu lög sem ykju völd hans. Talið er að Cíceró hafi með þessu komið sér í mjúkinn hjá Pompejusi, sem var á þeim tíma valdamesti maður Rómar, en upp úr þessu komst Cíceró til mikilla áhrifa í Róm.

Árið 63 f.Kr. gegndi Cíceró ræðismannsembætti. Á embættisári sínu, kom Cíceró í veg fyrir að einn helsti andstæðingur hans, Lucius Sergius Catilína, næði ræðismannskosningu fyrir næsta ár. Þannig var að Catilína hafði með lýðskrumi safnað að sér miklu fylgi meðal rómverskra bænda. Þessir bændur stefndu til Rómar á kosningardag en þá greip Cíceró til klækja og frestaði kosningunum. Þetta var á uppskerutíma og bændurnir máttu ekki við því að dvelja í borginni svo lengi. Þeir tóku því að tínast burt þegar atkvæðagreiðslan fór fram og Catilína tapaði kosningunum. Catilína hóf þá að undirbúa valdarán og söfnuðust að honum fylgismenn úr ýmsum stéttum. Cíceró komst á snoðir um samsærið og hélt fjórar magnaðar ræður í öldungaráðinu og á þjóðfundum þar sem hann ljóstraði upp öllu saman. Catilína flúði til Etrúríu en skildi eftir ýmsa samsærismenn í Róm. Þegar öldungaráðið gerði sér grein fyrir hvernig málunum var háttað fól það Cíceró að bæla niður uppreisnina. Cíceró afhjúpaði fylgismenn Catilínu, handtók og lét taka þá helstu af lífi án dóms og laga, en það átti eftir að koma honum í koll síðar. Catilína var sigraður í orrustu ásamt 10 þúsund manna liði sínu í Etrúríu og þar með var byltingartilraunin úr sögunni.

Árið 62 f.Kr. varð mikið hneyksli í kringum Bona dea hátíðina hafði það afdrifaríkar afleiðingar fyrir Cíceró. Bona dea var frjósemisgyðja sem var dýrkuð af rómverskum konum. Venjan var að hátíðarhöld til heiðurs henni færi fram á heimili þess sem fór með æðsta embætti hverju sinni, en einungis konur máttu taka þátt í hátíðarhöldunum. Í desember árið 62 f.Kr. var hátíðin haldin á heimili Júlíusar Cæsars. Upp komst að maður hefði verið viðstaddur dulbúinn sem kona en hann komst undan án þess að borin væru kennsl á hann. Fljótlega komst á orðrómur um að dulbúni maðurinn hefði verið Publius Clodius. Clodius var kærður fyrir atvikið en engar sannanir voru fyrir hendi. Hann kvaðst hafa verið utanbæjar þegar atvikið átti sér stað en Cíceró bar vitni gegn honum. Clodius var sýknaður en talið var að hann hefði mútað dómurunum. Þarna eignaðist Cíceró öflugan óvin. Clodius var kosinn alþýðuforingi árið 59 f.Kr og lét hann setja lög sem sögðu að hver sá sem hefði látið taka af lífi rómverskan borgara án dóms og laga að yrði að halda sig utan vissra marka frá Róm. Þannig tókst honum að hrekja Cíceró í útlegð.

Cíceró sneri heim úr útlegðinni ári síðar en þáttur hans í stjórnmálum var aldrei samur aftur. Fyrra þremenningabandalagið var við völd í Róm og Cíceró neyddist til að taka að sér landsstjórn í Kilikíu. Þegar Cíceró kom aftur til Rómar hafði brotist út borgarastyrjöld og var Júlíus Cæsear nánast einvaldur eftir hana. Eftir að Cæsar hafði verið myrtur hélt Cíceró margar ræður þar sem hann fagnaði morðinu og einnig réðst hann harkalega á Markus Antoníus, samverkamann Cæsars. Þegar Antoníus komst til valda í seinna þremenningabandalaginu fór hann fram á að Cíceró yrði hafður á lista yfir þá sem ætti að ráða af dögum. Cíceró var síðan myrtur á hrottalegan hátt 7. desember árið 43 f.Kr.

Ritstörf

Cíceró var gríðarlega afkastamikill rithöfundur. Cíceró ritaði glæstan latneskan stíl og hafði mikil áhrif á ritstíl í latínu síðar á öldum. Megnið af vitneskju okkar um hann er fengið úr hans eigin skrifum. Ritum hans má skipta í fernt: ræður, mælskurit, spekirit og bréf.

Í ræðum sínum hefur Cíceró venjulega mál sitt á því að skýra á einfaldan og hlutlausan hátt frá málavöxtum, en fer fljótlega að sefja áheyrendur með mælsku sinni, annað hvort til samúðar með skjólstæðingi sínum eða andúðar á andstæðingi sínum.

Alls eru varðveittar 58 ræður eftir Cíceró en margar aðrar hafa glatast. Ræðurnar eru ýmist stjórnmálaræður eða ræður frá málaferlum sem Cicero tók þátt í. Meðal frægustu ræðna Cícerós má nefna:
- ræðan fyrir Sextusi Roscíusi
- sex ræður gegn Verresi
- catilínsku ræðurnar fjórar
- fjórtán „filippskar“ ræður gegn Antóníusi
Í filippsku ræðunum hefur Cíceró verið líkt við sjálfan Demosþenes að mælsku.

Cíceró samdi nokkur fræðileg verk um mælskulist og er hann í hópi þeirra höfunda sem hafa haft mest áhrif innan mælskufræðinnar. Helst þessara rita eru Um ræðumanninn þar sem hann fjallar um fyrirmyndarræðumanninn og menntun hans, Brútus sem fjallar að mestu um sögu ræðumennskunnar í Róm og Ræðumaðurinn sem fjallar um tæknilegri hliðar mælskulistarinnar.

Cíceró skrifaði allmörg rit um heimspeki og stjórnspeki. Heimspekiverk hans þykja ekki ýkja frumleg þar sem hann var aðallega að túlka kenningar annarra eldri grískra spekinga á góðri latínu. En hann átti mikinn þátt í að breiða út þekkingu á grískri heimspeki í Róm og auka vinsældir hennar. Hann studdist við ýmis rit eftir gríska höfunda sem nú eru glötuð og er því mikilvæg heimild um suma þætti grískrar heimspeki. Þau heimspekirit hans sem eru talin merkust eru: Um endimörk góðs og ills og Um skyldurnar en bæði þessi rit eru siðferðilegs eðlis.

Um það bil 900 bréf eru varðveitt eftir Cíceró sem hann skrifaði til vina og ættingja. Flest þeirra skrifaði hann Attícusi vini sínum, sem átti fullan trúnað Cícerós og var stoð hans og stytta. Bréfin eru einkabréf sem voru ekki ætluð til útgáfu. Þar sem margir vinir hans voru fremstu stjórnmálamenn síns tíma eru bréfin ómetanlegur tímaspegill og lýsa þau stjórnmálaástandinu á þessum byltingatímum í Róm. Einnig veita þau einstaka innsýn í líf þessa merka manns, sem fyrir vikið er sennilega sá fornmaður sem við þekkjum best.


Heimildir

Helgi Ingólfsson. 1994. Rómaveldi. Þættir úr sögu fornaldar.

Durant, Will. 1963. Rómaveldi. Fyrra bindi. Bókaútgáfa menningarsjóðs, Reykjavík.

Ágúst H. Bjarnason. 1953. Saga mannsandans, IV. Róm í heiðnum og kristnum sið. Hlaðbúð, Reykjavík.

Veraldarsaga Fjölva. 6. bindi. Þorsteinn Thorarensen þýðir, endursegir og frumsemur. Fjölvaútgáfa.

Cíceró, Marcús Túllíus. Um ellina. Inngangur eftir Eyjólf Kolbeins. 1982. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.

Geir Þ. Þórarinsson. [2005]. „Hver var Cíceró?“ Sótt 2007, 18. febrúar. Vísindavefurinn.