Hefnd Suðursins í Hollywood - Seinni hluti D.W. Griffith hafði árið 1915 gert ódauðlega (og umdeilda) mynd um Borgarastríðið, og margir höfðu fylgt í fótspor hans. Aldarfjórðung síðar var annað kvikmyndastórvirki um efnið að koma út…

Sagnfræðin á hverfanda hveli

Ein af metsölubókum ársins 1936 í Bandaríkjunum (og seinna víðar) var Gone with the Wind, eftir unga suðurríkjakonu að nafni Margaret Mitchell. Kvikmyndarétturinn var fljótlega keyptur, og svo gerð ein frægasta Hollywood-stórmynd allra tíma árið 1939. Það ár var hápunkturinn á svonefndri “Gullöld” Hollywood, og mógúlarnir Louis B. Mayer og David Selznick hjá MGM kvikmyndaverinu sáu til þess að ekkert var til sparað við framleiðsluna. Myndin var tekin í lit (sem þá var rándýrt), og ekkert nema stórstjörnur ráðnar í helstu hlutverk. Eins og í dag, var smáfréttum af tökum myndarinnar sífellt lekið út til fjölmiðla til að auka eftirvæntinguna. Enda sló hún rækilega í gegn um allan heim. Þetta varð ein helsta stórmynd allra tíma, og er enn í dag að seljast vel á DVD og finna nýja aðdáendur. En burtséð frá því, ætlum við hér að skoða myndina í sínu sögulega samhengi…

Hér er “Suðurríkja-rómantíkin” áðurnefnda sett í yfirgír. Aðalpersónan Scarlett O’Hara er spillt daðurdrós sem býr á plantekru-óðalinu Tara, þar sem allt leikur í miklu lyndi. Scarlett þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu nema að vera nógu flott í tauinu á næsta dansleik, þar sem hún er jafnan umsetin af ungum “séntilmönnum”. Það er að vísu verið að tala um einhverjar pólitískar þrætur við Norðurríkin og ríkisstjórnina í Washington, en það virðist ekkert til að hafa áhyggjur af. Þrælarnir sem þessi Lincoln forseti segist vilja “frelsa” una sáttir við sitt. Þeir elska þessa paradís, fyrir-stríðs Suðurríkin, jafn mikið og húsbændur þeirra, eru jafnvel tilbúnir að verja hana fyrir bölvuðu “yankee” norðanpakkinu.

Fyrr en varir er komin stórstyrjöld, og allir vonbiðlar Scarlett fara að berjast, henni til mikillar skapraunar. Það er ekki fyrr en herir norðanmanna eru komnir að Tara-búgarðinum, sem hún áttar sig á að þetta stríðs-vesen varði hugsanlega stærri hagsmuni en bara hennar karlamál. Hún flýr “í öryggið” til frænku sinnar í Atlanta, en kemst þá að því að þangað eru helvískir norðanmennirnir einnig komnir og byrjaðir að brenna borgina til grunna. Hún þarf því aftur, með aðstoð sinna tryggu húsþræla, að flýja. Þá fyrst er henni hálfpartinn nóg boðið, og ákveður að berjast af alefli fyrir Suðurríkin. Verst að þá er stríðinu nánast lokið. Þessi aðalpersóna er kannski í sjálfu sér eina gagnrýnin á Suðurríkin almennt sem finna má í þessari þriggja tíma mynd.

Það er ekki um kynþáttahatur að ræða í myndinni, og reyndar eru svartar persónur hennar allar í “góða liðinu”. En þær eru engu að síður ægilegar “stereótýpur”. Aðal svörtu hlutverkin eru “hús-þrælarnir” svonefndu, og er þar Mammy fremst í flokki, stórvaxin svört kona sem tekið hefur að sér einskonar móðurhlutverk fyrir dekurrófuna Scarlett og talar skemmtilega “negra-ensku”. Mammy hefur nánast alið Scarlett upp á búgarðinum fína, og enginn kemst upp með neitt múður við hana, “Ouw, naw ya don’t! Naw ya jest do what ah says!” Þessi mikli svarti kvenmaður var ein af stereótýpunum sem jafnvel svartir réttindabaráttumenn gátu sjálfir haft gaman af, enda bregður þessari týpu enn stöku sinnum fyrir í gamanmyndum í dag án þess að neinn móðgist herfilega. Hinsvegar þótti Prissy, hin afar vitgranna sí-vælandi og nuðandi litla þrælastelpa, alls ekki gefa góða mynd af svörtum ungdómi!

Í myndinni er Borgarastríðið hreinasti paradísarmissir, fyrir Scarlett og yfirstéttarvini hennar jafnt sem þeirra trúföstu húsþræla. Fyrri partur myndarinnar lýsti í sólskini og mikilli litadýrð hinu yndislega landi sem Suðurríkin voru fyrir stríðið, en í seinni hluta þegar stríðið er tapað, er allt orðið grámyglulegt og ömurlegt – halda mætti að verið væri að lýsa eftirköstum kjarnorkustríðs. Þar er nánast alltaf dumbungsveður, bómullar-akrarnir fínu í órækt og Tara-óðalið í niðurníðslu. Scarlett er komin í gráan verkakvenna-kjól, og þegar hún skýtur drukkinn norðurríkja-hermann sem ryðst inná býlið og reynir að nauðga henni, hjálpa Mammy og hinir fyrrum þrælarnir henni að hylma yfir.

Miklir skúrkar voru norðanmenn, að ráðast á þetta dýrðarland í suðri, brenna heilu borgirnar, og fara ruplandi og rænandi um þessar yndislegu sveitir þar sem allir höfðu lifað í sátt og samlyndi! En eins og áður með The Birth of a Nation, hreyfðu fáir andmælum. Ekki einu sinni NAACP, því nú voru þó svertingjar sýndir á (allavega eilítið) jákvæðan hátt, og nú fékk svört leikkona í fyrsta sinn Óskar. Hattie MacDaniel sem leikið hafði Mammy, kunni samt ekki við að vera á frumsýningu myndarinnar í Atlanta. Því þar hefði hún ríkislögum samkvæmt ekki mátt sitja hjá meðleikurum sínum, heldur þurft að vera aftar í “colored” sætaröðum bíóhússins!


Glansinn fer loks af Dixielandi

Gone with the Wind var hápunkturinn á umræddri “hefnd Suðursins”, enda festi hún glansmyndina af Suðurríkjunum vel í sessi í áraraðir. Nú gekk hinsvegar Seinni heimsstyrjöldin í garð, og kvikmyndaáhugi fólks beindist ekki lengur að mis-rómantískum myndum um Borgarastríðið. Þær fáu myndir sem út komu um efnið eftir stríðið, t.d. The Red Bagde of Courage (1951) sem miklar vonir voru bundnar við, hlutu ekki hljómgrunn í miðasölunni. Borgarastríðsins varð einna helst vart í vestra-myndunum vinsælu, þar sem aðalpersónur höfðu oft bakgrunn úr því stríði, t.d. hinn bitri sunnanmaður sem John Wayne lék í The Searchers (1956), einni af sínum frægustu myndum.

Í vestramyndum á þessum tíma var talsvert um að hin gamla afstaða til indíána væri endurskoðuð, og farið í auknum mæli að sýna skilning á þeim órétti sem þeir voru beittir. En hin rómantíska afstaða til Suðurríkjanna með sínu kynþáttamisrétti stóð hinsvegar óhögguð. Var áréttuð ef eitthvað var, í myndum eins og Disney-myndinni Song of the South (1946). Þessi fjölskyldumynd var blanda af teiknuðu efni og leiknu, og í henni er gamall þræll að segja lítilli stelpu sögur um “The Old South” þegar hann var ungur. Myndin er Suðurríkjarómantíkin uppmáluð, og varð nokkuð vinsæl á sínum tíma. Þegar kom að því áratugum síðar að gefa hana út á vídeó sem gamla Disney-klassík varð það hinsvegar umdeilt, þó hún kæmi út á endanum og sé fáanleg í dag. Menn báru því fyrir sig, að þó vissulega væri söguskoðun og viðhorf myndarinnar gamaldags, væri hún (rétt eins og Gone with the Wind og fleiri myndir), “barn síns tíma” og engin ástæða til að gefa hana ekki út.

En breytingar voru handan við hornið. Um 1960 fór “Civil Rights” hreyfingin að sækja í sig veðrið í Bandaríkjunum, og fullvíst er að hún varð kom róti á hugi margra og breytti ríkjandi viðhorfum í þjóðfélaginu á örfáum árum. Hreyfingin var margþætt, og hinir mörgu kvistir hennar höfðu ýmsar þjóðfélagsumbætur á stefnuskrá sinni. En fyrst og fremst barðist hreyfingin friðsamlega fyrir jafnrétti svartra, ekki einungis fyrir lögum, heldur í hugarfari fólks almennt. Það tókst nokkuð vel, enda fóru nú þjóðfélagsstraumarnir að breytast. Þessa varð að sjálfsögðu einnig vart í kvikmyndabransanum, og nú fóru að koma frá Hollywood gæðamyndir eins og t.d. To Kill a Mockingbird (1962), og In the Heat of the Night (1967).

Þessar myndir gerðust reyndar í Suðurríkjum samtímans, en drógu loks fram í dagsljósið raunsanna mynd af þeim þjóðfélagsaðstæðum sem þar ríktu, og mátti rekja allt aftur til Borgarastríðsins. Suðurríkin voru ekki, og höfðu aldrei verið, sú glansmynd sem þau höfðu margoft verið útmáluð í bíómyndum. Þau voru þvert á móti landshluti plagaður af ýmsum þjóðfélagsmeinum – Ekki einungis kynþáttahatri, heldur líka almennri fátækt til sveita, og rótgróinni spillingu embættismanna. Dixie var engin paradís, heldur land pikkfast í hlekkjum hugarfarsins. Boðskapur myndanna komst svo enn betur til skila þegar fólk var nánast daglega farið að sjá í fjölmiðlum fréttir af ýmissi óhæfu sem viðgekkst suðurfrá. Glansmyndin sem ríkt hafði í áratugi, var óðum að hverfa.


Rætur svörtu Ameríku

Með hinu mikla þjóðfélagsumróti sem hófst á sjöunda áratuginum, fengu svartir Bandaríkjamenn loksins nokkra leiðréttingu sinna mála, þó langt þætti (og þyki kannski enn) í land. Eitt þótti þeim þó miður, nefnilega að þeir upplifðu sig sem amerískan þjóðfélagshóp “án sögu”. Ítalir höfðu sinn Kólumbusardag, Írar sinn St. Patreksdag, Norðurlandamenn Leifs Eiríkssonar-daginn… í stuttu máli, þá áttu allir sinn uppruna handan Atlantshafsins sem þeir minntust með stolti – nema þeir. Þeirra forfeður höfðu komið til landsins hlekkjaðir í lestum þrælaskipa, og allar minningar þeirra um “gamla landið” markvisst bældar niður. Í gegnum kynslóðirnar hafði þessi menningararfleifð fallið í gleymsku, svartir Bandaríkjamenn voru nú orðnir ekkert nema akkúrat það, kúguð og langþjáð þrælaþjóð að auki.

Þannig var í það minnsta boðskapurinn sem hinir “Svörtu Múslimar” sjöunda áratugsins boðuðu, menn eins og Eliah Muhammed og Malcolm X. Einn af frægustu stuðningsmönnum þeirra var boxarinn mikli Cassius Clay. Hann gaf á sinn stórkarlalega hátt út opinbera yfirlýsingu, um að hann hefði ákveðið að varpa “þrælsnafni” sínu fyrir róða, og myndi framvegis kallast Muhammed Ali. Fjölmargir svertingjar fóru á næstu árum að dæmi hans, og tóku ýmist upp múslimsk eða afrísk nöfn, samhliða því sem þeir fóru að klæðast afrískum (eða í það minnsta afrísk-útlítandi) fötum.

Það var í þessu andrúmslofti sem að skáldsagan Roots eftir Alex Haley kom út. Roots var epískt fjölskyldudrama þar sem söguþráðurinn spannaði rúmlega öld af sögu Bandaríkjanna. Hún hefst í Vestur-Afríku á miðri 18. öld, með fæðingu aðalpersónunnar Kunta Kinte. Lýsa fyrstu kaflarnir áhyggjulausum uppvexti hans sem sonar þorpshöfðingja, þar til dag einn hann er á ferli í nágrenni við þorpið og verður fyrir árás hvítra þrælaveiðara, og ævi hans sem þræls hefst. Honum er lömuðum af ótta hent ofaní lest skips, sem síðan heldur af stað. Lesandinn skilur hvað er að gerast, en sögunni er lýst frá sjónarhorni vesalings Kunta, sem hefur ekki minnstu hugmynd um hvað í fjandanum er að ske, og líður líklega svipað og okkur myndi ef geimverur hefðu rænt okkur. Eftir nokkurra vikna hræðilega siglingu er hann dreginn upp úr lestinni og rekinn frá borði í köldu og skrýtnu landi fullu af þessum ógeðslegu hvítingjum. Hann er seldur til óðalsbónda í Virginíu, og lifir þar sem þræll til æviloka. Hann fer smám saman að skilja meira í þessu furðulega hvítingjalandi, og draumar hans um að komast nokkurntíman aftur heim fölna eftir því sem árin líða. Hann lærir að lifa sem þræll, en sættir sig þó aldrei við hlutskipti sitt. Hann segir börnum sínum sögur af “gamla landinu” þar sem hann var frjáls maður, höfðingjasonur.

Í seinni helmingi bókarinnar segir síðan frá afkomendum hans og brösóttri leið þeirra til frelsis eftir Borgarastríðið. Lýkur sögunni með fæðingu höfundar (..og skömmu síðar eignuðust þau son. Það var… Ég!) Á eftir fylgir eftirmáli þar sem hann lýsir leit sinni að uppruna sínum, sem loks leiddi hann til Vestur-Afríku og höfingjasonar að nafni Kunta Kinte, sem horfið hafði sporlaust á 18. öld. Þetta þótti mörgum ansi ótrúlegt, enda viðurkenndi Haley að þó miklar rannsóknir lægu að baki og ýmislegt ætti sér styrkar stoðir í raunveruleikanum, væri sagan fyrst og fremst skáldsaga, táknmynd fyrir reynslu Afrískra Bandaríkjamanna almennt séð.

Roots varð metsölubók, sértaklega meðal svartra en ekki eingöngu. Kvikmyndamenn sáu í henni gullnámu ef rétt væri með þetta vandasama efni farið. Bókin var of löng og viðamikil til að gera henni almennileg skil í bíómynd, en var hinsvegar upplögð fyrir sjónvarps-framhaldsmynd (miniseries). Ýmsar smávægilegar breytingar voru gerðar á sögunni til að gera hana “sjónvarps-vænni” (t.d. var hvítum hlutverkum fjölgað). Frumsýning framhaldsmyndarinnar árið 1977 var rækilega auglýst sem einn af mestu viðburðum sjónvarpssögunnar, enda sviku áhorfstölurnar ekki þegar á hólminn var komið.

Með þessari sjónvarpsseríu var síðasti naglinn endanlega rekinn í kistu hinnar gömlu “Suðurríkja-rómantíkur”. Plantekru-óðalsbændurnir eru engin glæsimenni, bissness þeirra gengur vægast sagt mis-vel, og húsþrælarnir komast að ýmsu misjöfnu um einkalíf þeirra. Fátækt hvítt fólk er síður en svo lífsglatt og söngelskt, það er þvert á móti “white thrash”, hatursfullur drykkfelldur lýður sem húsbændurnir nota sem “grýlu” á hvern þann þræl sem ekki “hagar sér vel”. Og þrælunum er svo sem sama um Borgarastríðið, það er hvítra manna stríð. Einhverjir ungir og bjartsýnir sem láta í ljós vonir um að “Massa Lincoln” ætli að frelsa þá, eru hnussaðir niður með þeim orðum að líklega sé hann rétt eins og aðrir “massar”. Enda færa lok Borgarastríðsins þrælunum aðeins meiri þjáningar, m.a. í formi Ku Klux Klan. Það er enn langur vegur í eitthvert raunverulegt “frelsi”.


Nútíminn – Hefndahringnum lokað ?

Nokkrar fínar myndir hafa verið gerðar um Borgarastríðið síðan, t.d. bíómyndin Glory (1989) og sjónvarpsmyndin Gettysburg (1993). Í þeim er jafnan farinn eilítill millivegur. Síst er reynt að draga úr óréttinum sem svertingjar voru beittir, en jafnframt er útmáluninni á Suðurríkjamönnum sem úrkynjuðum þrælapískandi þrjótum, stillt í meira hóf en nokkrum árum fyrr. Myndirnar reyna umfram allt ekki að taka málstað norðurs eða suðurs, heldur að segja sannleikann eins og sagnfræðingar sjá hann í dag.

En í Glory mætir Matthew Broderick, með sinn vel þjálfaða og agaða svarta herflokk, öðrum svörtum norðan-herflokki. Sá herflokkur er ó-agaður og drukkinn ribbaldalýður sem foringjarnir nota sem refsivönd, leyfa honum að vaða uppi brennandi hús sunnanmanna og nauðgandi konum. Erum við þá ekki komin aftur að uppruna The Birth of a Nation ?



Greinin er að mestu unnin uppúr bókinni:
The Reel Civil War: Mythmaking in American Film
Eftir Bruce Chadwick, 2001
_______________________