Kjarnorkuógn Kaldastríðsáranna, Fyrri hluti: MAD og Megadeath Myndin er af “Castle Bravo” tilraunasprengju USA, 1. mars 1954

Inngangur

Nú á dögum er “kjarnorkuógn” (atomic scare) hugtak sem ekki mikið er í umræðunni. Reyndar er slík ógn ekki alveg óþekkt í dag, en hún er minni og annars eðlis en hún var í Kalda stríðinu. Nú erum við hræddust um að hryðjuverkamenn komist einhvernveginn yfir slíkt vopn, laumi því inní stórborg og sprengi. Án þess að gera lítið úr þeim hroðalegu afleiðingum sem slíkt hefði í för með sér, má þó með sanni segja að þessi ógn er lítilfjörleg miðað við þá sem fólk upplifði áður. Þá var hættan ekki sú að ein miðborg yrði eyðilögð og tugþúsundir létu lífið – Hættan var sú að nánast allri siðmenningu yrði eytt, meirihluti mannkyns færist og allt lífríki jarðar yrði aldir að jafna sig.

En hversu raunveruleg var þessi hætta? Því verður líklega aldrei svarað með neinni fullvissu, en menn geta velt þessu fyrir sér við lestur þessarar greinar.


Kjarnorkuvopn koma á sjónarsviðið

Eins og við öll vitum voru fyrstu kjarnorkusprengjur mannkyns hannaðar í Bandaríkjunum á árum Seinni heimsstyrjaldar. Var sú fyrsta sprengd þann 16. júlí 1945 í eyðimörk Nýju-Mexíkó. Tvær sprengjur voru síðan notaðar til að klykkja út þessum ægilegasta hildarleik mannkynssögunnar þegar þeim var varpað á Hiroshima og Nagasaki.

Sem betur fer eru þær enn í dag einu kjarnavopnin sem notuð hafa verið í hernaði. Þó “smáar” væru miðað við sprengjurnar sem á eftir komu, gáfu þær mönnum óhuggulega hugmynd um það gríðarlega eyðingarafl sem í þessum vopnum fólst. Borgirnar tvær voru í einu vetfangi nánast afmáðar af yfirborði jarðar. Tugþúsundir létu lífið strax og aðrar tugþúsundir næstu mánuði fyrir áhrif hinnar ósýnilegu geislavirkni.

Í ljósi hinnar gríðarlegu eyðileggingar sem þessi vopn höfðu valdið, var eðlilegt að menn veltu fyrir sér hvernig málum skyldi hagað varðandi þau framvegis. Ljóst var að aldrei yrði hægt að “af-uppfinna” kjarnorkuvopn. En yrði þá ekki einhvernveginn að hafa hemil á þeim? Margir vísindamannana sem unnið höfðu að smíði vopnanna í stríðinu, með eðlisfræðinginn Leo Szilard fremstan í flokki, komu fram með tillögu um einhverskonar alþjóðastofnun (e.t.v. á vegum SÞ), sem myndi hafa yfirráð allra kjarnorkuvopna með höndum.

En það varð mjög fljótlega ljóst að slíkar hugmyndir voru skýjaborgir. Bandaríkjamenn höfðu þarna náð miklu forskoti á það ríki sem nú var að breytast úr bandamanni í andstæðing, Sovétríkin. Og það var dagljóst að því forskoti ætluðu þeir sér að halda. Kjarnorkuleyndarmálum var ekki einu sinni deilt með helstu bandamönum eins og Bretlandi, hvaðþá einhverjum hugsanlegum alþjóðastofnunum sem Rússar væru einnig aðilar að. Strax sumarið 1946 var hafist handa um að prófa nýjar kjarnorkusprengjur. Var það gert á Bikini-rifi í Kyrrahafi, þar sem tilraunum var haldið áfram með hléum næsta áratuginn.

Eins og áður sagði, höfðu kjarnorkusprengjurnar tvær yfir Hiroshima og Nagasaki verið nógu óhugnanlegar, en á næstu árum var sífellt unnið að því að gera þessi vopn öflugri, jafnframt því að byrgja vopnabúrin með þeim. Hiroshima sprengjan hafði verið af einföldustu gerð kjarnorkusprengja, þetta var atómsprengja sem byggði verkun sína á tveim auðguðum úrankjörnum sem skotið var saman til að skapa klofnings-keðjuverkun. Nagasaki sprengjan var plútóníum sprengja af eilítið flóknari gerð, samt “bara” atómsprengja sem byggði á klofningi atóms.

Fljótlega fóru eðlisfræðingar með Edward Teller fremstan í flokki að huga að hönnun annarar gerðar kjarnorkuvopna. Sú nefndist vetnissprengja, og myndi byggjast á samruna tveggja vetniskjarna, og gæti orðið þúsund sinnum öflugri en “venjuleg” atómsprengja. Var umdeilt hvort yfirleitt væri þörf á svo hrikalegu vopni. Robert Oppenheimer, sem hafði verið yfirmaður kjarnorkurannsókna í stríðinu, var andvígur hönnun vetnissprengjunnar. Hann mætti á fund Trumans forseta, að því er virtist ekki í andlegu jafnvægi, og talaði um “blóð á höndum sínum” – væntanlega meinandi Hiroshima og Nagasaki. Truman bað um að þessum manni yrði framvegis ekki hleypt nálægt sér, og eftirleiðis átti Teller – “faðir vetnissprengjunnar” – eyra forsetans varðandi kjarnorkuvopnaþróun.

Á meðan á þessu stóð unnu Rússar einnig hörðum höndum að því jafna forskotið með sinni eigin sprengju. Bandaríkjamenn höfðu ekki miklar áhyggjur af rússnesku sprengjunni á þessum tíma, þeir töldu Rússa eiga a.m.k. fimmtán ár enn í land, án þess þó að hafa mikið fyrir sér í mati. Það var í september 1949 sem Bandaríkin vöknuðu skyndilega upp við vondan draum þegar Rússar sprengdu sína fyrstu sprengu. Truman fyrirskipaði fljótlega að þróun vetnissprengju skyldi haldið áfram á fullum krafti. Kjarnorkukapphlaupið var hafið, og óhugur almennings jókst á næstu árum þar til hann var að sumra mati kominn uppí hreina hysteríu.


Óttinn fer að grafa um sig

Í kjölfar Hiroshima og Nagasaki fóru menn nánast strax að ímynda sér hinn hrikalegu ragnarrök sem myndu hljótast af stríði í framtíðinni. Heilu þjóðfélögin myndu hverfa og siðmenning sem byggst hefði upp síðustu aldir og árþúsund líða undir lok. Þar komum við t.d. aftur að hugmyndum Szilards og félaga um alþjóðlega stjórn kjarnorkuvopna; Þeir héldu því fram að styrjaldir væru einfaldlega ekki lengur “optíón” í alþjóðlegum deilumálum þar sem slíkt myndi þýða útrýmingu mannkyns.

Í raun voru slíkar pælingar ótímabærar (eða þá framsýnar) árið 1945. Kjarnorkusprengjur heimsins voru fáar og “smáar” fyrsta áratuginn eða svo, og leiðir til að koma þeim í mark afar ófullkomnar miðað við það sem síðar varð. Þó vissulega hefði styrjöld með kjarnorkusprengjum á þessum orðið hrikaleg, hefði hún ekki orðið sá dómsdagur sem menn héldu, og líklega hefði heimurinn jafnað sig.

Það kom að auki í ljós í Kóreustríðinu 1950-53, að vel var hægt að heyja takmörkuð stríð án þess að grípa til stóru sprengjanna. Truman forseti lagði sig fram um það að láta stríðið ekki stigmagnast útí heimsstyrjöld. Hér var í hinum nýja veruleika kjarnorkusprengjunnar komið það pólitíska “módel” sem ótal önnur takmörkuð stríð áttu eftir að byggja á næstu áratugina.

Það var fyrst um 1955 sem að hin ömurlega sýn vísindamannana fór að virðast raunverulegri við nánari skoðun. Bandaríkjamenn sprengdu sína fyrstu vetnissprengju á Kyrrahafi árið 1952, og Rússar fylgdu fljótlega í kjölfarið. Hér var greinilega komið alvöru dómsdagsvopn. Hér er rétt að staldra aðeins við og skoða afl kjarnorkuvopna og samanburð á gerðum þeirra…

Hiroshima og Nagasaki sprengjurnar voru á bilinu 13-20 kílótonn; hvert kílótonn samsvarar sprengikrafti 1000 tonna af hinu algenga sprengiefni TNT. Fyrsta vetnissprengja Bandaríkjanna var 10,4 megatonn, og í einu megatonni eru eðli málsins samkvæmt 1000 kílótonn. Tveimur árum síðar sprengdu Bandaríkjamenn sína öflugustu sprengju nokkru sinni. Var tilraunin kölluð “Castle Bravo” og var sprengikrafturinn mældur uppá 15 mt. Glóandi geislavirkt sveppaský reis 40 km uppí loftið, og hefði þessi sprenging örugglega verið greinilega sýnileg berum augum hefði verið horft á jörðu úr talsverðri fjarlægð í geimnum. Rússar bættu svo um betur árið 1961 með vetnissprengju sem þeir kölluðu “Tsar Bomba”. Hún var sprengd á Novaya Zemlya eyju í Norður-Íshafinu, og mældist 58 megatonn, stærsta sprengja sem nokkurntíman hefur verið sprengd á jörðinni.

Aðeins er hægt að ímynda sér hvernig slík vopn hefðu leikið borgir, sérstaklega ef margar borgir yrðu fyrir þeim samtímis. Á árunum fyrir 1960 varð þessi möguleiki sífellt raunverulegri, því bæði Bandaríkjamenn og Rússar unnu að því hröðum skrefum að auka bæði magn vopnanna og að fullkomna leiðirnar við að koma þeim á áfangastað (kallað “Delivery Systems” á Pentagonísku). Bandaríkjamenn komu sér upp gríðarlegum flota af B-47 og B-52 sprengjuflugvélum, og var hann hvenær sem er sólarhingsins með einhverjar vélar á lofti, tilbúnar að fljúga af stað yrðu stöðvar þeirra fyrir óvæntri árás. Rússar voru í fyrstu nokkru framar í flugskeytum – sérstaklega til að skjóta úr kafbátum, en Bandaríkjamenn unnu það fljótlega upp. Þegar kom að Kúbudeilunni 1962, skiptu kjarnorkuvopn stórveldanna þúsundum.


MAD – Skammstöfun sem hitti í mark

Á þessum árum kom upp hugtak sem notað var um kjarnorkustefnu stórveldanna “Fullvissa um gagnkvæma gereyðingu” – “Mutual Assured Destruction” (eða hin ákaflega viðeigandi skammstöfun MAD). Þetta var hugmyndafræði sem byggði á þeirri forsendu að ef bæði stórveldin væru jöfn að gereyðingarmætti, væri það tryggt að hvorugt þeirra myndi nokkru sinni þora að leggja útí stríð. Fólk gæti samkvæmt þessu sofið rólegt í þeirri vissu að ógnarjafnvægi kjarnorkuvopnanna myndi tryggja varanlegan frið!

Í reynd var þetta að sjálfsögðu ekki svona einfalt. Tilraunir til að takmarka fjölda vopna í ógnarjafnvæginu með stórveldaviðræðum, gengu oft brösuglega og strönduðu jafnvel á tæknilegum atriðum eins og fjölda kjarnaodda á hverju flugskeyti. Hvorugt stórveldið vildi heldur algerlega afsala sér því pólitíska vopni að geta ógnað andstæðingum í smástríðum með hugsanlegri notkun kjarnorkuvopna (eins og t.d. Nixon í Víetnam).

Að auki voru hugmyndafræðingar beggja stórvelda (t.d. RAND stofnunin bandaríska) sífellt að bræða með sér möguleikann á hugsanlegu “takmörkuðu kjarnorkustríði”. Þar notuðu menn ýmiskonar reiknilíkön til að reikna út líklegt mannfall undir hinum og þessum kringumstæðum kjarnorkustríðs. Einn af spekingum RAND, smáskrýtinn maður að nafni Herman Kahn, fann m.a. upp á mælieiningunni “megadeath” í þessum pælingum sínum. 1 megadeath = 1 milljón manns látin. Kahn sat á skrifstofu sinni umkringdur kortum, pappírum og þeirra tíma IBM-tölvum, og reiknaði út hve mörg “megadeath” Bandaríkin yrðu að þola að hinum eða þessum forsendum gefnum, t.d. veðurfari og vindátt. Einnig fann hann upp á ýmsum áætlunum til að stofna þjóðfélag neðanjarðar ef illa færi. Nefna má að hann var klárlega aðal-fyrirmyndin að “Dr. Strangelove” í samnefndri kvikmynd sem kom út á þessum árum.

Í seinni hluta höldum við áfram að skoða þessi mál. Við skoðum gagnrök annara vísindamanna við RAND-speki Kahns og Tellers. Skoðum líka ýmsar myndir sem kjarnorkuógnin tók á sig í hugum fólks og hvernig hún kom fram í menningunni.
_______________________