Morðið á JFK: Regnhlífarmaðurinn Sífellt koma menn fram í sviðsljósið sem valda miklum heilabrotum meðal almennings. Menn sem maður spyr hvað vaki fyrir. Einn þessara manna ber vissulega nafn en hann er mun betur þekktur undir öðru heiti; Regnhlífarmaðurinn (Umbrella Man). Þá er ekki nema eðlilegt að einhverkir spyrji, hver er það eiginlega? Í þessari grein ætla ég að reyna að koma til skila þeim upplýsingum sem til eru um þennan mann sem eins og segir, hefur valdið miklum heilabrotum og ýmsar spurningar hafa vaknað um ætlun þessa manns.

Eins og margir vita var John F. Kennedy myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas Texas. Síðan þá hafa sprottið upp margar getgátur um það hverjir voru að verki og í því sambandi fáum við oft að heyra um CIA, FBI, Kúbverja, Rússa, Jack Ruby, Lee Harvey Oswald og fleiri. Allt þetta er auðvitað efni í fleiri fleiri greinar en nú ætla ég að taka fyrir Regnhlífarmanninn og reyndar annan mann líka, mann sem er eingöngu þekktur sem Dökki maðurinn (Dark-Complected Man).

Regnhlífarmaðurinn og Dökki maðurinn eru menn sem sjást á hinu víðfræga Zapruder-myndbandi sem sýnir hvað best morðið á JFK (myndbandið er hér, skrolla aðeins niður) Myndbandið er búið er að grandskoða í áraraðir. Hverja einustu hreyfingu John F. Kennedy er búið að stúdera til hins ítrasta vegna ásakana um að fleiri en 3 kúlum hafi verið skotið þennan örlagaríka dag og að fleiri en 1 hafi verið að verki. Eftir um 12 sekúndur í Zapruder-myndbandinu, sést hvar maður sem stendur fyrir framan skilti á svæðinu, opnar regnhlíf rétt áður en bílalest JFK keyrir framhjá. Við hliðina á Regnhlífarmanninum er síðan annar maður, Dökki maðurinn, sem að, rétt eftir að regnhlífin hefur verið opnuð, lyftir hægri hönd sinni upp í loftið eins og að hann sé að veifa JFK.

Hvað er svona einkennilegt? Er það eðlilegt að það sé maður með svarta regnhlíf á degi þar sem það sést ekki ský á lofti? Ég ætla ekkert að dæma um það en það sem furðulegra er, að eftir skothríðina setjast mennirnir tveir rólega niður á kantinn þar sem þeir stóðu og töluðu saman, meðan þeir sem í kring voru skelfingu lostnir yfir því sem gerst hafði fyrir aðeins nokkrum sekúndum áður.

Eftir morðið var hrundið af stað opinberri rannsókn (Warren-Commission) á glæpnum en þessum tveimur mönnum voru ekki gerð mikil skil í því riti. Regnhlífarmaðurinn kom ekki fram fyrr en árið 1978 og spurður hvers vegna hann hafi ekki gefið sig fram sagðist hann ekki vita hversu umdeildur hann í raun og veru var. Þá var hann orðinn eftirlýstur en ábending kom um að maður að nafni Louis Steven Witt væri einmitt sá maður. Eftir ábendingu gaf hann sig fram undir því skini að vera hinn eini og sanni Regnhlífarmaður. Ekki hefur verið sannað hvort þetta sé hinn raunverulegi Regnhlífarmaður en við yfirheyrslur 1978 var hann að sjálfsögðu spurður hinnar augljósu spurningar af saksóknara að nafni Genzman:

Genzman: Hvers vegna varstu með regnhlíf umræddan dag?

Witt: Ég ætlaði að pirra (heckle) John F. Kennedy.

[...]

Genzman: Gætir þú sagt okkur aðeins betur um tákn regnhlífarinnar og af hverju þú ákvaðst að nota regnhlífina til þess að pirra John F. Kennedy með því að opna regnhlífina?

Witt: Það var eitthvað í sambandi við… Þegar John Kennedy eldri var sendiherra í Englandi og hann ásamt forsætisráðherranum Neville Chamberlain reyndu að friðast við Hitler. Regnhlífin sem Chamberlain kom með til baka varð að eins konar tákni hjá Englendingum. Í gegnum þessi sambönd barst þetta tákn til Kennedy-fjölskyldunnar og mér skildist að þetta væru sárindi fyrir Kennedy-fjölskylduna.



Þarna er hann að vísa í það þegar Chamberlain sneri aftur til Bretlands eftir viðræður við Hitler í München árið 1938. Við komuna til Bretlands lýsti Chamberlain yfir peace in our time en Chamberlain var oftar en ekki með regnhlíf í hendi. Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa útskýringu Witt og er vinsæl kenning að Witt hafi verið hluti af samsærinu alræmda og að með því að opna regnhlífina ættu leyniskytturnar að halda áfram að skjóta að JFK. Í þessum sama vitnisburði þvertekur Witt þó fyrir að svo hafi verið. En jafnvel þó að einhverjir samsærismenn láti sér duga að halda að hann hafi verið að gefa e-s konar merki, þá er til kenning sem er ekki jafn útbreidd en samt sem áður mög áhugaverð. Hún gengur út á það að ekki hafi Witt aðeins verið hluti af samsærinu, heldur hafi hann notað regnhlífina til þess að skjóta JFK í hálsinn með pílu fulla af taugaeitri. Þess vegna ber JFK hendurnar að hálsinum rétt eftir að regnhlífin spennist upp. Þessi kenning er m.a. studd af L. Fletcher Prouty, manninum sem er kveikjan að X í kvikmyndinni JFK eftir Oliver Stone sem ég mæli eindregið með að fólk kíki á.

Mynd af vopninu er hér

Þótt margi hugsi við þessa sýn “djöfulsins rugl”, þá er það staðreynd að svona vopn var til á þessum tíma.

Eins og komið hefur fram hefur Dökki maðurinn aldrei fundist og engin opinber leit var heldur gerð að honum. Hvað þátt hans í þessu öllu saman snertir þá er því haldið fram að hann hafi verið með talstöð og hafi með handarhreyfingunni verið að gefa merki, einnig um að halda eigi áfram að skjóta á forsetann. Við fyrstu sýn finnst manni auðvitað augljóst að hann sé einungis að veifa JFK en þegar maður skoðar myndirnar eftir morðið sést að hann virðist vera með eitthvað á sér. Á síðunni fyrir neðan eru virkilega góðar myndir af þeim félögum 22. nóvember 1963.

Smelltu hér

Það er auðvitað endalaust hægt að tala um svona menn en það fer allt eftir því hvað maður heldur sjálfur um þetta mál. Hvor hliðin á málinu er sterkari? Maður verður að ákveða það sjálfur.

Heimildir:

http://www.jfk-online.com/jfk100tum.html

http://www.jfk-assassination.de/articles/umbrella.php

og á ofangreindum síðum.