Íslendingasagan vekur áhuga margra, því að þar er góð spennusaga á ferð. Þetta er líka efni sem snertir okkur öll, þar sem við búum á söguslóðunum. Það er heillandi að hugsa til þess að við erum afkomendur fornra víkinga sem lögðu upp í hættuför á fjarlægar slóðir í norðri, í leit að betra lífi, frægð og frama.

Nokkrir norrænir menn komu til Íslands, annaðhvort vegna þess að þeir villtust af leið, eða voru að leita að nýju landi vegna landsskorts af völdum erfðareglna. Talið er að menn hafi komið til landsins, áður en hinir eiginlegu landnámsmenn stigu fæti á Frón, og eru til frásagnir sem styðja það. Þar á meðal eru sagan af Ultima Thule, sigling heilags Brendans, frásögn Duicilusar munks og frásögn Ara fróða í Íslendingabók.
Á 4. öld fyrir Krist sigldi maður að nafni Pýþeas upp frá Massilíu í Frakklandi í norður til að kanna hvað heimurinn næði langt í þá áttina. Fyrst sigldi hann til Bretlandseyja og síðan eftir sex daga siglingu kom hann að eyju norður við heimskautsbaug sem gæti hafa verið Ísland en var þá nefnd Thule eða Ultima Thule. Þar upplifði Pýþeas hásumar sem var bjart allan sólarhringinn. Eftir eins dags siglingu í norður frá eyjunni kom hann að freðnu hafi.
Sagt er frá Írum sem tóku kristni á 5. öld og gerðust síðar atorkusamir trúboðar og ferðalangar. Duicilus, írskur munkur, var kennari við hirð Frankakeisara en þar þurftu menn að kunna skil á löndum og ríkjum. Í bók hans De Mensura Orbis Terrae segir hann frá írskum pöpum sem höfðu siglt norður til Thule og dvalist þar sumarlangt. Þar upplifðu þeir sumarið eins og Pýþeas hafði gert og komust einnig að því að eftir dagssiglingu norður frá eyjunni var frosinn sjór. Af frásögn Dicuilusar er helst að ætla að eyjan hafi þá verið óbyggð með öllu. Ástæðan fyrir komu papanna hingað til lands var sú að þeir leituðu oft einlífs á eyjum og útskerjum.
Talið er að fyrsti maðurinn sem nam land á Íslandi hafi verið Naddoddur en hann dvaldi á Austurlandi yfir sumartímann. Hann var á leiðinni til Færeyja frá Noregi, en lenti í hafvillu og rak vestur í haf, og endaði hér á landi. Hann gaf landinu nafnið Snæland, vegna þess að þegar þeir fóru af landi snjóaði mikið í fjöllin. Þeim fannst landið stórkostlegt og lofuðu það í hásterta.
Annar landneminn var hinn sænskættaði Garðar Svavarsson. Framsýn móðir hans rak hann af stað í þessa miklu ferð. Hann sigldi hringinn í kringum landið og uppgötvaði að það var eyja. Hann ákvað að hafa vetursetu við Skjálfandaflóa, þar sem nú er Húsavík. Þegar hann ætlaði heim aftur um vorið, stakk einn manna hans, Náttfari, af með þræl og ambátt. Náttfari settist að í Náttfaravík. Er Garðar sneri aftur til Noregs var hann hæstánægður með þessa fallegu eyju, sem hann kallaði Garðarshólma.
Seinna kom norski víkingurinn Flóki Vilgerðarson, sem hafði heyrt vel af landinu Garðarshólma, og ákvað að leita þess. Hann hafði hrafna þrjá með í för, sem hann notaði sem landleitartæki. Fyrstu tveir hrafnarnir sem hann sendi af stað gáfust strax upp, en sá þriðji flaug fram fyrir skipið og í átt að landi. Í þeirri átt fundu Flóki og menn hans landið. Hann tók land í Vatnsfirði við Barðaströnd. Þeir sinntu ekki því að heyja fyrir kvikfé sitt, og eyddu öllu sumrinu í veiðiskap. Og svo fór, að um veturinn dó allur kvikfénaður þeirra. Þeir voru þar einn vetur, og um vorið sá Flóki hafís mikinn í firði fyrir norðan fjöllin. Þá nefndi hann landið Ísland, og hefur það haldið því nafni síðan. Þegar hann sneri aftur til Noregs, hafði hann ekkert gott um landið að segja, og var mjög bitur.

Fyrstu landnámsmennirnir sem settust hér að fyrir alvöru, voru fóstbræðurnir Ingólfur Arnarson og Hjörleifur Hróðmarsson. Þeir lentu í útistöðum í heimalandi sínu Noregi, vógu tvo menn í hita leiksins, og greiddu eignir sínar í bætur. Þá ákváðu þeir að leita landsins Íslands. Héldu þeir til Íslands og eyddu einum vetri í Álftafirði á Austfjörðum, og sneru svo aftur til Noregs. Ári seinna, árið 874 komu þeir aftur og ætluðu að setjast að. Þegar Ingólfur sá til lands, kastaði hann hinum frægu öndvegissúlum fyrir borð og sagðist ætla að byggja þar sem þær rækju að landi. Ingólfur bjó fyrsta veturinn á Ingólfhöfða á Suð-Austurlandi, á meðan Hjörleifur var á Hjörleifshöfða sem er nokkru vestar. En svo kom þannig til, að um vorið gerðu þrælar Hjörleifs uppreisn og myrtu hann og vinnumenn hans, og flýðu svo með konur þeirra til Vestmannaeyja. Þá vildi Ingólfur hefna fóstbróður síns, fór til Eyja og myrti þrælana en frelsaði konurnar. Næsta vetur bjó Ingólfur á Hjörleifshöfða, og þarnæsta vetur við Ingólfsfjall vestur af Ölfussá. Þá fundu þrælar hans hvar öndvegissúlurnar höfðu komið á land, sem var í Reykjavík. Ingólfur tók sér því bústað í Reykjavík, sem er höfuðborg landsins nú í dag.

Farkosturinn var venjulega knerrir (tréskip með einu ferhyrndu segli) sem voru ágætir í millilandasiglingar, og voru venjulega notaðir til flutninga. Vegna þess hve langar landnámsferðirnar voru, þurfti að taka mikið af vistum með, auk búfés og fóðurs handa því. Ef byrinn var einsog helst var á kosið var þó hægt að komast til Íslands á einungis fjórum sólarhringum. En ef veðrið var slæmt gat þetta tekið óratíma, og skipið jafnvel rekið langt af leið. Til að rata réttu leiðina, var notast við stjörnurnar, og náttúrulegt áttaskyn ef það var skýjað.