Hernám Danmerkur - Seinni hluti Ég bið lesendur að afsaka lengdina á þessum hluta, hann er helmingi lengri en sá fyrri. Efnið varð einfaldlega meira en ég hélt þegar ég skrifaði fyrri hlutann.


Andstaðan eykst - Gríman fellur

Eins og fram kom í fyrri hluta, hélt danska ríkisstjórnin völdum við upphaf hernámsins, og átti að líta út fyrir að ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir veru þýsks herliðs í landinu. Að sjálfsögðu var þetta aldrei svo í raunveruleikanum, og urðu dönsk stjórnvöld í ýmsu að beygja sig undir vilja Þjóðverja. Í raun var staðan sú að báðir aðilar urðu að fara varlega. Þjóðverjum var í mun að halda Dönum góðum og samvinnuþýðum, og vildu því ekki koma of harkalega fram við þá. Dönsk stjórnvöld vissu að sjálfstæði þeirra var háð náð og miskunn Þjóðverja, og gátu því ekki gengið of langt í að mótmæla þýskum “tillögum” um stjórn landsins.

Strax árið 1940 tókst Þjóðverjum að knýja á um mikilvæga breytingu á ríkisstjórn Danmerkur, þegar Erik Scavenius tók við embætti utanríkisráðherra, en hann hafði alltaf verið fremur hliðhollur Þjóðverjum. Næstu árin mæddi mest á honum í samskiptum við Þjóðverja, sérlega eftir að hann varð forsætisráðherra árið 1942. Hlutverk hans hefur alltaf verið umdeilt; hörðustu andspyrnumenn kölluðu hann föðurlandssvikara og Þjóðverjalepp, en aðrir töldu hann hafa gert sitt besta til að viðhalda því sem eftir var af sjálfstæði landsins. Sífellt var lagt að Dönum að ganga í ýmis lepp-bandalög Þjóðverja, en þykir Scavenius hafa staðið sig vel í að humma slíkt fram af sér í lengstu lög. Það hjálpaði honum að yfirmaður hernámsliðsins, Werner Best þótti með skilningsríkari hernámsstjórum í Evrópu.

Þjóðverjar urðu stöðugt afskiptasamari árin 1940-43, í réttu hlutfalli við vöxt dönksu andpyrnunnar. Eins og áður sagði hafði dönsk andspyrna byrjað með saklausum hrekkjum á hernámsliðinu, og hlutum eins og “Klump” kveðjunni – hún stóð fyrir “Kongen Leve, Ud Med Pakket”. En andspyrnan varð fljótlega alvarlegri. Skemmdarverk urðu sífellt algengari, bæði á eigum hernámsliðsins, og ekki síður í verksmiðjum sem mikilvægar voru fyrir stríðsreksturinn. Smám saman komst skipulag á dönsku andspyrnuhreyfinguna, og hún fór að njóta stuðnings frá Bretum í gegnum hina frægu stofnun SOE (Special Operations Executive), en það var deild leyniþjónustunnar sem sá um samskipti við andspyrnuhreyfingar allstaðar í hernumdu Evrópu. Að rekja þá sögu væri efni í aðra grein, enda hafa fjölmargar bækur verið skrifaðar um efnið.

Kristján X ávann sér sess sem einn ástsælasti konungur Danmerkur fyrr og síðar með tákrænni andspyrnu sinni við Þjóðverja. Hann fór nánast daglega einn síns liðs í reiðtúr um götur Kaupmannahafnar, eins og til að minna á að hið forna danska konungsdæmi væri enn við lýði. Þegar Adolf Hitler sendi honum langa og “hugheila” afmæliskveðju árið 1942, svaraði hann með snubbóttu skeyti: “Takk fyrir. Kristján konungur”. Sagt er að Foringinn hafi móðgast herfilega, og hefur það eflaust átt sinn þátt í að brátt var farið að herða tökin á Danmörku verulega.

Samkvæmt fyrir-stríðs stjórnkerfi Danmerkur, sem enn átti að heita að væri við lýði, var 1943 kosningaár, því síðast hafði verið kosið 1939. Kosningarnar voru haldnar, og var það einsdæmi í hernumdu löndunum. Þjóðverjum til vonbrigða voru úrslitin svipuð og 1939, og danskir nazistar fengu sem fyrr aðeins 3 þingmenn kjörna. Skömmu síðar unnu andspyrnumenn stórt skemmdarverk í Esbjerg. Viðbrögð stjórnvalda við því leiddu til allsherjarverkfalls, sem síðan orsakaði óeirðir víða um land. Hjá Þjóðverjum var nú mælirinn loks fullur, og þann 29. ágúst var danski herinn afvopnaður, ríkisstjórninni vikið frá, herlög sett og landið sett undir beina hernámsstjórn. Danmörk var nú, án neinnar sýndarmennsku, hernumið land.


Danmörk í stríðsvél Þjóðverja

Í öllum löndum sem Þjóðverjar hernámu rofnaði sjálfkrafa útflutingur til landa Bandamanna og þar með hins stóra heims, og viðskipti takmörkuðust við meginland Evrópu. Því voru atvinnuvegirnir strax að miklu leyti komnir í þjónustu þýsku stríðsvélarinnar, hvort sem íbúunum líkaði betur eða verr. Reyndar voru margir Danir bara vel sáttir við þetta og högnuðust stórlega á hernáminu, sérstaklega fyrstu árin.Til dæmis var samið við Þjóðverja um að ýmis mannvirkjagerð fyrir þýska herinn í landinu kæmi í hlut danskra verktaka.

Mest af útflutningi Danmerkur fyrir stríð voru landbúnaðarvörur, landið var t.d. einn stærsti svínakjötsframleiðandi Evrópu. Stór hluti dansks landbúnaðarútflutnings hafði farið til Bretlands, en nú skuldbundu Þjóðverjar sig til að kaupa allar þær afurðir sem Bretar höfðu áður keypt, og kom það sér reyndar mjög vel fyrir þá. 6-10 % heildarneyslu Þjóðverja á kjöti og mjólkurvörum kom frá Danmörku.

Fremur lítið var um þungaiðnað í Danmörku, en þó mátti þar finna t.d. hina miklu vél- og skipasmiðju Burmeister & Wain; og Nordværk, dótturfyrirtæki General Motors. Slíkar verksmiðjur voru afar mikilvægar fyrir þýska stríðsreksturinn, í Nordværk voru t.d. samsettir BMW hreyflar í FW190 orustuflugvélar Þjóðverja. Hátækni-iðnaður var einnig þó nokkur, talsvert var framleitt af ýmiskonar radíoútbúnaði og íhlutum fyrir þýska herinn.

Danmörk sá einnig Þýskalandi fyrir vinnuafli eins og önnur hernumin lönd. Um 100.000 Danir fóru sjálfviljugir til ýmissa starfa í Þýskalandi, þar sem þeir leystu af heimamenn sem kallaðir höfðu verið í herinn. Hvergi í Evrópu fór hærra hlutfall af tiltæku vinnuafli sjálfviljugt til Þýskalands. Varla er þó hægt að kalla þá sem fóru “samverkamenn”, því flest var þetta aðeins ungt fólk sem laðaðist að ágætis kaupi og tækifæri til að komast að heiman og upplifa eitthvað nýtt.


Loftárásir Bandamanna

Eins og sjá má gegndi Danmörk þó nokkru hlutverki í stríðs-efnahag Þýskalands, og því var óhjákvæmilegt að landið yrði fyrir einhverjum loftárásum Bandamanna. Árásir voru gerðar á ýmis skotmörk um allt landið, sérstaklega á samgöngukerfið. Hleðslustöðvar járnbrautalesta voru algeng skotmörk, og að sjálfsögðu hernaðarmannvirki Þjóðverja, t.d. flugvellir og radarstöðvar. Hinar frægu Moskító-vélar Breska flughersins - léttar, liprar og sérlega hraðfleygar tvíhreyfla árásarflugvélar - létu sérlega mikið til sín taka í Noregi og Danmörku. Tvær af frægustu árásum þeirra nokkurstaðar voru á höfuðstöðvar Gestapo í Árósum haustið 1944, og í Kaupmannahöfn vorið 1945. Síðarnefnda árásin varð harmleikur þó markmið hennar næðust. “Shell-húsið” þar sem Gestapo hélt til var gjöreyðilagt, en því miður hittu sprengjur einnig nálægan barnaskóla og yfir 100 manns, mest börn létu lífið.

Þessar árásir voru samkvæmt stefnu Bandamanna varðandi loftárásir á hernumdu löndin. Lítið var gert af stór-árásum háfleygra stórra sprengjuflugvéla eins og á Þýskaland, en þeim mun meira af “hit-n-run” árásum lítilla hraðfleygra véla úr lítilli hæð. Reynt var að hafa árásirnar sem nákvæmastar til að forða saklausum borgurum eins og hægt var. Eins og komið hefur fram tókst það hinsvegar ekki alltaf vel. Að auki kom það fyrir að háfleygir nætur-sprengjuflugflotar Breta á leið til Flensburg eða Kiel slepptu sprengjum sínum yfir Suður-Jótlandi í misgripum. Alls fórust um 300 Danir í loftárásum Bandamanna og 800 særðust, og talin er mildi að ekki hafi verið mun meira.


Danski nazistaflokkurinn

Ein af ástæðum þess hversu létt var tekið á Dönum fyrstu hernámsárin var sú að nazistar, þ.á m. Hitler sjálfur, ætluðu sér að gera Danmörku að “fyrirmyndar verndarríki” í framtíðarskipan Evrópu. Nazísk hugmyndafræði lagði ofuráherslu á yfirburði hins “aríska” kynstofns, og samkvæmt kenningunni átti sá kynstofn hvergi að vera “hreinni” en á Norðurlöndum, með sinni víkinga-sögu og háa hlutfalli ljóshærðs og bláeygðs fólks. Þó framtíðarhugmyndir nazista um Evrópu væru enn aðeins skýjaborgir, var það ljóst að Norðurlönd myndu spila þar stórt hlutverk. Norðurlandabúar áttu að verða stór hluti af hinum nýju landnemum í austri þegar búið væri að losna við íbúana þaðan með einum eða öðrum hætti.

Eins og á öðrum Norðurlöndum var í Danmörku starfandi nazistaflokkur fyrir stríð. Kallaðist hann DNSAP (Danmarks National Socialistisk Arbejds Parti) og hafði lítið fylgi. Ólíkt því með Rússa og kommúnista erlendis, höfðu Þjóðverjar aldrei veitt erlendum nazistum meira en málamynda-stuðning og varla það. Í Noregi var hinn alræmdi Vidkun Quisling leiðtogi hins smáa nazistaflokks, en í Danmörku var það sérvitur læknir að nafni Fritz Clausen. Eins og annarsstaðar skreyttu danskir nazistar sig með hakakross-armböndum í fánalitunum, héldu fánagöngur og slógust við kommúnista, allavega þangað til lögreglan birtist. Nazistaflokkar utan Þýskalands áttu það til að laða helst að sér ýmsa furðufugla og ógæfumenn, og voru hvergi teknir nema mátulega alvarlega. Þetta vissu Þjóðverjar, og til að spilla ekki samskiptum sínum við nágrannalöndin fyrir stríðið, höfðu þeir ekki lagt sig mjög fram við að “útbreiða boðskapinn”.

Við hernámið hugðu danskir nazistar sér gott til glóðarinnar, og héldu að nú væri þeirra tími loks kominn. Það varð þó alls ekki raunin, því Þjóðverjar vildu fyrstu árin fremur vera í góðum samskiptum við dönsk stjórnvöld en að hlaða undir þessa stuðningsmenn sína sem þeir vissu að Danir almennt litu á sem hálfgerða trúða. Það sýnir sig best á því að Þjóðverjar mótmæltu ekki þó danska lögreglan héldi áfram að taka hart á götuólátum í þessum kauðum eftir hernámið. Þó að DNSAP yki félagatal sitt úr 5000 á hernámsdaginn uppfyrir 20.000 árið 1942 meðan enn leit út fyrir Þjóðverjar myndu hafa sigur í stríðinu, komst flokkurinn sem slíkur aldrei til neinna verulegra áhrifa. Þó er alls ekki þar með sagt að Þjóðverjar hafi ekki nýtt sér þessa stuðningsmenn sína þegar líða tók á stríðið.


Samverkamenn heimavið og erlendis

Danskir samverkamenn Þjóðverja á hernámsárunum voru mun fleiri en einungis þeir sem gengu í DNSAP. Fljótlega eftir innrásina í Sovétríkin fóru Þjóðverjar að fiska eftir sjálfboðaliðum í öllum hernumdu löndunum til að taka þátt í því sem þeir kölluðu “Krossferðina gegn kommúnismanum”. Útlendingahersveitir voru stofnaðar innan Waffen-SS og í þær gengu menn af ýmiskonar ástæðum, ekki endilega af trú á nazismann.

Opinberlega var aldrei stofnuð sér-dönsk sveit innan Waffen-SS, en það helgaðist eingöngu af sérstöðu landsins meðal hernumdu landanna. Í staðinn var stofnað svokallað “Frikorps Danmark”, sem að nafninu til var ekki hluti af Waffen-SS heldur al-dönsk sjálfboðaliðasveit. Foringi hennar var alræmdur nazisti að nafni Christian Frederik von Schalburg, sem síðar féll og varð mikil hetja í augum danskra nazista. Í raun var þetta eins og hver önnur útlendingahersveit Waffen-SS, enda barðist hún undir þeirra stjórn. Hún klæddist sömu þýsku búningum og aðrar útlendingahersveitir, með SS merkinu og þjóðfána síns lands.

Flestir Frikorps-menn voru nazistar og aðrir vandræðaseggir, og létti Dönum almennt þegar þeir fóru á austurvígstöðvarnar 1952. Þeir komu hinsvegar heim aftur ári síðar og fannst sér ekki vel tekið, og leiddi það til ofbeldisverka víðsvegar um landið. Þegar dönsku ríkisstjórninni var síðan vikið frá árið 1943 var Frikorps leyst upp og fengu liðsmenn þess þá nýjan starfa innanlands, sem uppljóstrarar og leigu-fantar fyrir hernámsyfirvöld. Þeir gengu ýmist til liðs við svokallaða Schalburg-sveit eða öryggislögregluna Hipo, þar sem þeir gengust svo upp í þjónkun sinni við hernámsliðið að þeir slógu það oft út í hrottaskap.

Dönum sem kusu að berjast áfram á austurvígstöðvunum fremur en að snúa heim, var flestum skipað í svonefnda Wiking-deild Waffen-SS, en þar voru fyrir Norðmenn og jafnvel nokkrir Svíar. Liðsmenn Wiking-deildar gátu sér orð sem einhverjir al-hörðustu bardagajaxlar Waffen-SS, og var þá mikið sagt. Sárafáir sneru heim í stríðslok, enda voru þeir ekki vongóðir um hvað biði þeirra þar. Þeir kusu fremur að mæta örlögum sínum í lokaorustunni í rústum Berlínar.


Ógnaröld

Frá ágúst 1943 til stríðsloka varð sífellt ófriðlegra í Danmörku. Andspyrnan sótti stöðugt í sig veðrið, og fór hikaust að myrða menn sem grunaðir voru um að vera uppljóstrarar fyrir Þjóðverja, oft án mikilla sannana. Alls voru um 350 manns myrtir á þennan hátt. Á móti sýndi hernámsliðið sífellt meiri grimmd. Hin fræga leynilögregla þeirra Gestapo fór að láta til sín taka, og tók á fórnarlömbum sínum af þeim sadisma sem hún var fræg fyrir. Þjóðverjar tóku 182 Dani af lífi eftir formlegum dauðadómum, en margir í viðbót voru einfaldlega látnir hverfa.

Innlendir hjálparmenn Þjóðverja þóttu síðan jafnvel verri, sérstaklega eftir að danska lögreglan lagði niður störf árið 1944. Schalburg menn gengu í hópum um götur, fullir haturs útí landa sína, og var vissara að verða ekki fyrir þeim. Hipo menn voru færri og skipulagðari. Þeir áttu nú að heita hin formlega lögregla Danmerkur í umboði hernámsyfirvalda, en þeir hikuðu ekki við að skjóta grunaða andspyrnumenn á útá götu um hábjartan dag. Eitt frægasta fórnarlamb danskra samverkamanna var presturinn og leikritaskáldið Kaj Munk, sem þeir myrtu árið 1944.Samanlagt er talið að Schalburg og Hipo hafi myrt vel yfir 200 manns á þessum tíma.

Vorið 1944 lá við að uppúr syði þegar Þjóðverjar fóru að svara skemmdarverkum andspyrnunnar á hergagnaverksmiðjum með sínum eigin gagn-skemmdarverkum. Gamlar sögulegar byggingar eins og Danska postulínsgerðin og Stúdentagarðurinn í Kaupmannahöfn voru sprengdar í loft upp, og 25. júní gengu Schalburg menn berserksgang í skemmtigarðinum Tívolí og lögðu hann í rúst. Almenningur hafði nú fengið nóg og Kaupmannahöfn lamaðist í allsherjarverkfalli og götuóeirðum. Um tíma leit út fyrir að Þjóðverjar myndu berja ólætin niður með skriðdrekum og fallbyssum, en sem betur fer tóku menn sönsum áður en til þess kom.


Björgun danskra gyðinga

Gyðingar í Danmörku voru um 7000 árið 1940. Fyrri ár hernámsins tókst dönskum stjórnvöldum að halda yfir þeim hlífiskildi, en sá skjöldur hvarf í einu vetfangi þegar Þjóðverjar tóku öll völd árið 1943. Gestaposveitir á vegum Adolfs Eichmans komu til landsins í september það ár í þeim tilgangi að safna saman gyðingum og flytja í fangabúðir. Átti helst að ná þeim öllum í einni stórri rassíu. En þeir gripu í tómt. Fréttir af rassíunni fyrirhuguðu höfðu lekið út, og flestir gyðingar voru með aðstoð vina komnir í felur og biðu færis á að flýja til Svíþjóðar. Aðeins náðust 472, og flestir þeirra komust lífs af úr fangabúðunum.

Sú saga var lífseig, að þegar til stóð að Þjóðverjar létu alla gyðinga bera armband með Davíðsstjörnunni, hafi Kristján konungur svarið að hann skyldi þá sjálfur bera slíkt armband í reiðtúrum sínum um Kaupmannahöfn. Þessi saga er ósönn og á uppruna sinn í áróðri Bandamanna. En hún er engu að síður táknræn fyrir þá fórnfýsi og mannúð sem danskur almenningur sýndi gyðingum. Margar sannar sögur eru til af fólki sem faldi ókunnuga gyðinga inn á heimilum sínum vikum saman meðan unnið var að því að koma þeim úr landi.


Maí 1945 – Friðurinn brestur á

Þegar líða tók á vorið 1945 var ljóst að endalok stríðsins voru skammt undan, en í Danmörku var eftirvænting fólks kvíðablandin. Enn var þýskt hernámslið með alvæpni í landinu, og óvíst hvort Bandamenn (eða jafnvel Rússar) myndu gera innrás í landið og gera það að vígvelli. Þegar stríðinu lauk loks með uppgjöf Þjóðverja í byrjun maí, voru Bandamenn ekki enn komnir til Danmerkur. Nokkur óvissa ríkti hjá hernámsliðinu hvort það ætti að bíða eftir her Bandamanna og gefast upp fyrir þeim, eða afhenda vopn sín dönsku andspyrnunni. Reyndar varð framkvæmdin á þessu upp og ofan, og alger ringulreið ríkti í landinu í nokkra daga.

Í þessari ringulreið varð fjandinn laus. Andspyrnumenn reyndu hvarvetna að taka völdin, og hófu að “gera upp reikningana” við hina hötuðu samverkamenn. Hernámsliðið hélt sér að mestu til hlés, en samverkamenn þeirra reyndu í ofboði að hlaupa í felur og/eða komast úr landi. Í Kaupmannahöfn og fleiri borgum ríkti hrein skálmöld. Svo mikið var um skipulagslítil ofbeldisverk hefndarmorð að yfirstjórn andspyrnunnar gaf út hvatningu til almennings um að reyna að hemja tilfinningar sínar og viðhalda hefðbundinni virðingu Dana fyrir lýðræðislegum lögum og reglu.

Víst er að margir samverkamenn þóttu þarna uppskera það sem þeir höfðu til sáð, en því miður var einnig þó nokkuð um að í “réttlætisæði” sínu myrtu gikk-glaðir andspyrnumenn fólk sem lítið eða ekkert hafði til saka unnið. Meðal þeirra voru tveir Íslendingar: Guðmundur Kamban leikritaskáld, og Karl Jón Hallsson, 17 ára menntaskólanemi. Faðir Karls og eldri bróðir höfðu reyndar verið samverkamenn og voru síðar dæmdir fyrir það eins og fleiri Íslendingar, en það er saga sem ekki verður rakin hér.

Á næstu dögum fór breskur her að tínast til landsins til að tryggja friðsamlega uppgjöf þeirra Þjóðverja sem ekki höfðu þorað að gefast upp fyrir andspyrnumönnum, og smám saman var komið á lögum og reglu. Eftir fimm löng ár var þessu erfiða tímabili í sögu Danmerkur loks lokið.

Eftirmálinn

Þessi grein hefur fjallað um hernám Danmerkur, þar sem sæmilegur friður hélst fyrstu tvö árin uns ástandið fór stig-vernsnandi. En ekki má gleyma því að hernám Noregs hófst með blóðugum átökum, og var allt frá byrjun mun grimmilegra. Þó tiltölulega litlar skemmdir yrðu á efnahagslegum innviðum þessara landa, skyldi maður ætla að skemmdirnar á þjóðarsálinni yrðu mun verri og langvinnari. Það sýnir e.t.v. best móralskan styrk þessara frændþjóða okkar, hversu fljótar þær voru að ná sér eftir ósköpin. Á næstu árum héldu bæði löndin áfram á þeirri braut sem þau höfðu markað sér fyrir stríðið, og urðu ásamt Svíþjóð fyrirmyndir annara landa þegar kom að góðri þjóðfélagsskipan - “The Scandinavian Model”.

Í báðum löndunum (eins og í Hollandi og Belgíu) var hlutleysisstefnunni hent á haugana, með mun minni pólitískum átökum en hér urðu. Svíar voru nógu sterkir efnahagslega, hernaðarlega og ekki síst diplómatískt, til að hafa komist upp með hlutleysið í Seinni heimsstyrjöldinni. En Danir og Norðmenn sáu hversu gjörsamlega einskisnýtt það hafði verið þeim, og urðu af þeirri illu reynslu að sætta sig við raunveruleikann á eftirstríðsárunum og ganga í NATO.


Óvinsælir Íslendingar

Hér á landi höfðu menn í samanburði lifað í vellystingum undir hernámi Bandamanna. Þann 17. júní 1944, á meðan harðir bardagar geisuðu víðsvegar í Evrópu og hrein ógnaröld ríkti í Danmörku, var hér stofnað lýðveldi með hátíðlegri athöfn á Þingvöllum. Frá Amalíuborg sendi Kristján X hugheilar en tregafullar hamingjuóskir í loftskeyti.

Það hefur mikið verið þagað um það hér, en Dönum sárnaði að Íslendingar skyldu ekki bíða með sambandsslitin þar til eftir stríðið. Ekki bætti það úr fyrstu mánuðina eftir stríðslok þegar íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir því með kjafti og klóm að fá lausan úr dönsku fangelsi vel þekktan íslenskan samverkamann Þjóðverja. Sá hafði verið í Waffen-SS og síðan orðið þekktur í Danmörku sem áróðursfulltrúi m.a. við danska ríkisútvarpið. Dönsk stórnvöld gáfu loks eftir og létu manninn lausan, enda varla annað hægt, því hann var jú sonur forseta Íslands! Um þetta var að mestu þagað í íslenskum fjölmiðlum á þeim tíma, en í Danmörku var þetta mál salt í sár sambandsslitanna, og var munað í áratugi. Það þarf því engan að undra að á eftirstríðsárunum hafi Íslendingar ekki beint verið með vinsælustu mönnum í Danmörku.




Smávegis um heimildir:

Eins og kom fram í upphafi greinar, var hún “inspíreruð” af sýningu á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn. Mest af þeim upplýsingum sem hér koma fram eru úr bók sem gefin var út samhliða sýningunni:

Spærretid. Hverdag under besættelsen 1940-1945
Ýmsir höfundar. Nationalmuseet, 2005.

Heimasíða sýningarinnar:
http://spaerretid.natmus.dk/

Ég hvet alla söguáhugamenn sem verða í Köben á næstunni til að kíkja á þessa sýningu og Nationalmuseet almennt. Aðeins 5 mínútna rölt frá Ráðhústorginu.


Stutta en skilmerkilega grein Þorsteins Thorarensen um hernám Noregs og Danmerkur má finna sem aukaefni í teiknimyndabókinni Andspyrnan sem Fjölvaútgáfan gaf út 1978.


Um Íslendinga sem viljandi eða óviljandi flæktust inn í þessa atburði má lesa í :

Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja. Endurminningar Björns Sv. Björnssonar
Eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Iðunn, 1989

Berlínar-Blús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb nazista.
Eftir Ásgeir Guðmundsson. Skjaldborg, 1996
_______________________