Hernám Danmerkur - fyrri hluti Greinarhöfundur var nýlega á ferð í Kaupmannahöfn og varði næstum heilum degi í Nationalmuseet, Þjóðminjasafni Danmerkur. Þar er nýbyrjuð áhugaverð sýning um hernámsárin. Það tók mig um tvo klukkutíma að skoða þessa sýningu, svo áhugaverð þótti mér hún. Ég áttaði mig á að hér á landi hafa menn ekki mikið leitt hugann að þessu efni, og hér var komið efni í næstu grein, sem hér fer á eftir:

Sjónarhorn Íslendinga

Hernám Þjóðverja á Danmörku í Seinni heimsstyrjöld er nátengt Íslandssögunni. Upphaf þess í apríl 1940 markaði í raun endalok konungsveldisins hér, því að samgöngur rofnuðu. Auk þess urðu margir Íslendingar innlyksa í Danmörku, og enn meira svo þegar Bretar hernámu Ísland mánuði síðar. Flestum þeirra var þó leyft að fara heim með hinni frægu Petsamo-ferð farþegaskipsins Esju, en aðrir kusu að vera um kyrrt í von um að ástandið lagaðist fljótlega, á einn veg eða annan. Sumir þessara “eftirlegu-Íslendinga” fengu á næstu árum illt orð á sig fyrir nazistaþjónkun, sem þeir þurftu í stríðslok að gjalda fyrir, hvort sem það var verðskuldað eða ekki.

Hugmyndir Íslendinga um hernám Danmerkur hafa því óhjákvæmilega oftast mótast af sögum þessa fólks. Minna hefur hér verið rætt um hvernig Danir sjálfir uplifðu þessa hrikalegu tíma. Íslendingar upplifðu sjálfir fremur ljúft hernám Bandamanna á nákvæmlega sama tíma, og með því mestu umbrotatíma Íslandssögunnar. Jafnframt þessu urðu sambandsslitin við Danmörku, og margir vildu sem minnst af “danskinum” vita í mörg ár eftir það. Því hefur hin grimmilega hernámssaga Danmerkur ekki fengið alla þá athygli hér sem hún kannski ætti skilið.


Norðurlönd og styrjaldarhættan

Árið 1938 höfðu Danmörk, Noregur og Svíþjóð náð sér uppúr verstu erfiðleikum heimskreppunnar og voru á góðri leið með að verða mestu velsældarlönd Evrópu. Og öll tóku löndin vaxandi spennu í álfunni með varfærinni ró. Þeim hafði öllum tekist, hverju fyrir sig, að halda hlutleysisstefnu sinni í Fyrri heimsstyrjöldinni; hví skyldi það ekki verða eins núna ef til stríðs kæmi? Ekkert norrænt varnarbandalag, sem í dag kynni að þykja rökrétt var gert. Hlutleysisstefnan var allsráðandi.

Norðmenn og Finnar treystu varnir sínar eftir bestu getu og lönd þeirra voru ákjósanleg til varna. Svíar áttu sömuleiðis stórt og fremur strálbýlt land, en voru að auki nokkuð öflug þungaiðnaðarþjóð sem hafði efni á mjög góðum landvörnum. Eins og kom í ljós þegar leið á stríðið voru þeir líka slungnir í samningum við stórveldin og fylgdu þeirri stefnu að betra væri að bogna svolítið en bresta.En Danir, með sitt litla og greiðfæra land, urðu að sætta sig við að þeir gætu lítið gert ef stórveldi réðist á þá.

Við upphaf stríðsins voru Norðurlönd sannarlega milli steins og sleggju. Í vestri voru Bretar, í suðri Þjóðverjar og í austri Rússar. Þeir síðastnefndu réðust á Finnland fljótlega eftir að stríðið hófst. Vakti árásin gríðarlega reiði á hinum Norðurlöndunum (varð m.a. til þess að margir áður dyggir kommúnistar rifu flokksskírteini sín). En hlutleysisstefnunnar vegna gátu hvorki Danir, Norðmenn né Svíar gengið svo langt að veita Finnum beina hernaðaraðstoð, jafnvel þó þeir hefðu viljað eða getað. Hinsvegar voru Bretar reiðubúnir að veita slíka aðstoð, þó ekki alveg af óeigingjörnum ástæðum væri. Til að útskýra ástæðurnar fyrir þýsku hernámi Danmerkur, er nauðsynlegt að skoða fyrst atburði í Noregi.


Narvíkur-leiðangur Breta og “Weserübung”, 9. apríl 1940

Winston Churchill forsætisráðherra Breta var “Risk”-spilari fram í fingurgóma, og þegar hann leit á kortið af Norðurlöndum þóttist hann sjá þar góðan leik á borði. Ef hann gæti talið Norðmenn og Svía á að leyfa sér að veita Finnum hernaðaraðstoð gegnum Narvík-Kiruna járnbrautina, gæti hann í leiðinni lokað fyrir járngrýtisflutninga til Þjóðverja. Þjóðverjar keyptu mikinn hluta af járngrýti sínu frá námum í Norður-Svíþjóð og fluttu það með járnbraut yfir til Narvíkur í Noregi, þar sem því var hlaðið á skip og siglt í norskri og síðan danskri landhelgi suður til Þýskalands.

Þessir flutningar fyrir framan nefið á flota þeirra fóru að sjálfsögðu óskaplega í taugarnar á Bretum, enda urðu brot þeirra á hlutleysi Noregs sífellt tíðari þegar leið á árið 1940. Bresk herskip skutust innfyrir landhelgismörk Noregs og sökktu þýskum flutningaskipum eða hertóku þau.

Hvorki Norðmönnum né Svíum leist á að hleypa breskum her inní lönd sín, jafnvel þó í góðum tilgangi ætti að vera gagnvart frændþjóðinni Finnum. Slíkt væri klárt brot á hlutleysinu, og myndi nær örugglega kalla þýska innrás yfir löndin. Churchill varð því ekki af þessari ósk sinni, og þessi ráðagerð varð hvort eð er að engu þegar Finnar gáfust loks upp og sömdu frið við Rússa. Churchill var engu að síður ákveðinn í að stöðva járngrýtisflutninganna, og Bretar fóru því að undirbúa innrás í Noreg. Þeir vissu ekki að í Berlín voru menn einnig orðnir pirraðir á ástandinu og með svipuð plön á prjónunum.

Innrásarátælun nefnd “Weserübung” hafði þá verið í bígerð í nokkurn tíma. Hún miðaði fyrst og fremst að hernámi Noregs. Ekki aðeins vildu Þjóðverjar tryggja öryggi Narvíkur-leiðarinnar, heldur yrðu Noregsstrendur líka einhverjar bestu flotabækistöðvar sem hugsast gætu fyrir kafbátahernaðinn á Norður-Atlantshafi. Í upphafi var ekki ráðgert að ráðast inn í Danmörku, en við nánari skoðun þótti það vissara til að tryggja flutningaleiðirnar til Noregs.

Að morgni 9. apríl 1940 vöknuðu íbúar Kaupmannahafnar við miklar flugvéladrunur. Þegar þeir litu upp sáu þeir tugi þýskra sprengjuflugvéla sem flugu lágt yfir borginni. Einhverjar þeirra voru að dreifa pappírsmiðum, og á þeim mátti lesa á slæmri “skandinavísku” að þýski herinn hefði neyðst til að taka að sér varnir landsins gegn yfirgangsstefnu Breta. Skömmu síðar birtust þýskar sérsveitir úr lestum skipa í höfninni og úr flugvélum á Kastrup-flugvelli.

Á sama tíma var tugþúsundaher studdur skriðdrekum og stórskotaliði að fara yfir þýsku landamærin norður í Jótland. Gegn þessu ofurefli áttu Danir með sinn smáa her engan möguleika. Ekki voru heldur allar sprengjuflugvélarnar yfir Kaupmannahöfn hlaðnar pappírsmiðum, mótstaða hefði aðeins þýtt tilgangslaust mannfall og eyðileggingu. Danska ríkisstjórnin ákvað enda þegar að veita enga mótspyrnu, og hinn aldni Kristján X konungur bað þjóðina í ávarpi að sýna yfirvegun og stillingu. Danmörk var nú hernumið land.

Af “Weserübung” í heild er það að segja að hún þykir einhver best útfærða og jafnframt ein áhættusamasta hernaðaraðgerð stríðsins. Hún kom Bretum (sem sjálfir voru að fara af stað til innrásar í Noreg) gersamlega í opna skjöldu. Þegar þeirra lið komst loks til Noregs voru Þjóðverjar þegar komnir og búnir að hreiðra um sig víða. Urðu harðir bardagar, en svo fór að lokum að bæði Bretar og Norðmenn sjálfir urðu að láta undan ofureflinu. Eins og Danmörk lá nú Noregur einnig undir hæl nazista.


Danir og hernámið

Fyrstu árin var hið þýska hernám Danmerkur með mun mildara móti en víðast hvar annarsstaðar. Danir höfðu ekki veitt hernáminu mótstöðu, og Þjóðverjar reyndu því að haga málum svipað og Bretar hér á landi. Þeir sögðust vera í landinu sem “varnarlið” sem ekki myndi skipta sér af innanríkismálum. Danska ríkisstjórnin sat áfram óbreytt, og konungurinn flúði ekki land líkt og gerðist í Noregi. Danski herinn og flotinn voru ekki afvopnaðir.

Að sama skapi reyndi almenningur eins og hægt var að halda áfram sínu daglega lífi. Jú, það mátti sjá þýska hermenn á götunum. Borgir voru myrkvaðar og loftvarnaæfingar haldnar. Fjölmiðlar voru ritskoðaðir (af dönskum stjórnvöldum að kröfu Þjóðverja) og veðurfréttir voru ekki lengur lesnar í útvarpi. En þrátt fyrir þetta kom hernámið ekki stórlega við lífskjör almennings fyrstu mánuðina. Danir nutu eftir sem áður einna bestu lífskjara í Evrópu.

Það er þó ofmælt að allt hafi verið í ljúfalöð á þessum tíma. Vísir að danskri andspyrnu gegn hernáminu hófst þegar á fyrstu vikunum. Oftast var þar um að ræða táknræn mótmæli eða hrekki, sem ekki sköðuðu Þjóðverja neitt en fóru í taugarnar á þeim. Sem dæmi má nefna vinsælar prjónahúfur sem litu út eins og merki RAF, Breska flughersins, blá rönd yst, svo hvít, og rauður depill í miðjunni. Þetta og ýmislegt í svipuðum dúr fór mjög í taugarnar á Þjóðverjum, og angruðu þeir dönsk yfirvöld með sífelldu nöldri um að gera eitthvað við svona ósvífni. Oft var áhugalaus dönsk lögregla látin “skrifa niður” slíka hrekkjalóma.

Eins og annarsstaðar fóru danskir kommúnistar blint eftir “Moskvu-línunni”, og höfðu fyrir vikið bakað sér miklar óvinsældir heimafyrir strax árið 1939 þegar þeir afsökuðu innrás Rússa í Finnland. Ekki urðu þeir neitt vinsælli þegar þeir (samkvæmt griðasáttmála Hitlers og Stalíns) virtust fremur styðja Þjóðverja í stríðinu en Breta, jafnvel eftir hernámið. Þjóðverjar héldu ekki beinlínis hlífiskildi yfir þeim, en þeir voru þó “ósnertanlegir” dönskum yfirvöldum allt til 22. júlí 1941 þegar Þjóðverjar réðust á Sovétríkin. Þá varð mjög skyndilegur og harkalegur viðsnúningur, og dönsku lögreglunni var ekki aðeins heimilað heldur beinlínis skipað að handtaka kommúnista. Hvað svo sem lögreglunni fannst um Þjóðverja, var þetta skipun sem hún framfylgdi með ánægju. Dönsk stjórnvöld héldu kommúnistum í fangabúðum í Horseröd, þar sem margir þeirra kvörtuðu undan illri meðferð. Í framhaldinu voru samt margir kommúnistar afhentir Þjóðverjum og létu lífið í Saschenhausen fangabúðunum og fleiri slíkum stöðum.

Í framhaldinu verður fjallað um síðari hluta hernámsins, þegar Þjóðverjar köstuðu grímunni og settu Danmörku undir jafn grimmilega hernámsstjórn og annarsstaðar. Einnig skoðum við hliðar hernámsins, t.d. efnhagslegt hlutverk Danmerkur í stríðsrekstri Þjóðverja, danska nasista og samverkamenn, og hina síharðnandi andspyrnu Dana þegar líða tók á stríðið og ógnaröldina sem hún leiddi loks af sér. Loks verður fjallað um stríðslokin, þegar versta ofbeldisalda í sögu Danmerkur gekk yfir og fjöldi manns, þar á meðal tveir saklausir Íslendingar, létu lífið.
_______________________