Við Afríkustrendur, þar sem nú er Túnis, stóð hin mikla verslunarborg Karþagó. Hún réð flestum eyjum og ströndum við vestanvert Miðjarðarhaf. Róm og Karþagó háðu þrjár miklar styrjaldir sín í milli og höfðu Rómverjar ávallt sigur. Síðustu styrjöldinni lauk með því að Rómverjar hertóku Karþagó árið 146 f.Kr. og lögðu hana í rúst.

Í öðru púnverska stríðinu hélt Hannibal hershöfðingi Karþagómanna með her frá Spáni yfir Pýreneafjöll, Alpana og til Ítalíu. Herinn flutti með sér stríðsfíla auk hesta og mikilla birgða. Þetta var mikil áhættuför sem kostaði miklar fórnir, m.a. fórust flestir fílarnir.

Þrátt fyrir tjón sitt sigraði Hannibal hvert rómverska herliðið á fætur öðru. Mikil skelfing greip um sig í Rómaborg þegar hrópað var á götunum: “Hannibal er við borgarhliðin.” En í stað þess að ráðast á Róm héldu Karþagómenn til S-Ítalíu þar sem Hannibal vann sinn frægasta sigur við Cannae árið 216 f.Kr. Karþagómenn bókstaflega eyddu rómverskri hersveit sem var næstum því tvöfalt stærri en þeirra eigin her.

En Rómverjar gáfust ekki upp þrátt fyrir þessar ófarir. Stríðið dróst á langinn og að lokum
varð Hannibal að snúa heim til að verja Karþagó gegn rómverskum her sem stigið hafði á land í Afríku. Þar laut hann í lægra haldi fyrir Rómverjum í fyrsta skipti árið 202 f.Kr.