Zimbabwe Hér á eftir kemur grein sem ég vann í Landafræði 303 í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, með smávægilegum breytingum þó.

Árið 1923 tók Bretland yfir stjórn Suður Ródesíu. Árið 1961 var svo skrifuð stjórnarskrá sem fól hvíta manninum að sjá um stjórnartaumanna. Árið 1965 lýsti stjórn landsins einhliða yfir sjálfstæði. Bretar voru lítt hrifnir af þessum ráðahag stjórnvalda og viðurkenndu ekki sjálfstæði landsins á þeim grundvelli að þeir vildu auka kosningaréttindi þeldökks meirihluta íbúa landsins, sem í þá tíð bar nafnið Ródesía. Refsiaðgerðir Sameinuðu Þjóðanna gegn stjórnvöldum og uppreisnir skæruliða leiddu til frjálsra kosninga árið 1979 og að lokum sjálfstæðis landsins árið 1980 sem Zimbabwe. Robert Mugabe var kjörinn fyrsti forsætisráðherra landsins árið 1980 og hefur verið einráður þar síðan þá en með þeirri breytingu að hann gerðist forseti árið 1987 og hefur gegnt því hlutverki síðan þá. Árið 2000 ákvað Robert Mugabe að endurúthluta landinu með það að meginmarkmiði að þeldökkir bændur fengju í raun nánast allt land sem tilheyrt hafði hvíta manninum. Þetta olli miklum mótmælum meðal hvítra og endaði með miklum blóðsúthellingum þar sem hvítir bændur voru myrtir í stórum stíl í svokölluðum stjórnarsamþykktum þjóðernishreinsunum. Hann réttlætti þessar aðgerðir með því að halda því fram að hvítir bændur myndu brjóta niður efnahag landsins og stela frá innfæddum. Sannleikurinn var hins vegar sá að í þessum aðgerðum beið efnahagurinn mikla hnekki sem varð þess valdandi að mikill skortur varð á nauðsynjavörum í landinu. Mugabe hundsaði öll boð og bönn alþjóðasamfélagsins og hafði rangt við þegar hann varð endurkjörinn forseti í kosningum árið 2002. Mótmælendur og ýmsir vinnandi hópar boðuðu til verkfalls árið 2003 til þess að verða þess valdandi að hann legðist í helgan stein snemma, en það stoðaði ekkert og sveitir hans héldu áfram að brjóta niður öll fjandsamleg mótmælaöfl.

Þessar aðgerðir hafa valdið því að alþjóðasamfélagið lítur nú stjórn hans hornauga. Það má því segja að hann sé kominn á “svarta lista” Sameinuðu Þjóðanna yfir mannréttindaafbrotamenn og er því engu skárri en sjálfir Saddam Hussein og Adolf Hitler. Það sem hins vegar veldur því að hann er ekki jafnsýnilegur og t.d. Hitler er að þessir atburðir eiga sér stað í Afríku sem er ekki jafn nálæg okkur vesturlandabúum og kannski hafa stórveldi heimsins ekki jafn mikilla hagsmuna að gæta í þessu landi.

Ég tel að nýlendustefnan hafi haft stórvægileg áhrif á landið í því ljósi að til að byrja með hafi efnahagur landsins blómstrað undir stjórn hvíta mannsins en um leið skapað frjósaman jarðveg fyrir ákveðið hatur sem beindist gagnvart hvítum stjórnvöldum. Það varð svo aftur til þess að maður á borð við Robert Gabriel Mugabe hlaut kosningu og gerði vægast sagt róttækar breytingar á stjórn landsins eins og má lesa um hér að ofan.

Menn geta hins vegar ávallt verið vitrir eftirá og hver veit til dæmis hvernig ástatt væri í landinu ef hvíti maðurinn hefði aldrei séð sér hag í að nýta sér landið. Það verður hins vegar ekki farið nánar út í slíkar vangaveltur og við vonum að Zimbabwe megi líta bjartari framtíð.