Bandarísk einangrunarstefna og endalok hennar, Seinni hluti Fyrri heimsstyrjöldin

Það var allt annað en sjálfgefin eða auðveld ákvörðun fyrir bandaríska ráðamenn að hefja þáttöku í Fyrri heimsstyrjöldinni. Hafa ber í huga að þrátt fyrir gífurlegan framleiðslumátt og fólksfjölda í Bandaríkjunum, voru Evrópuveldin ennþá “aðal-spilararnir” í heimsmálunum, og voru máttugri hernaðarlega. Að vísu áttu Bandaríkjamenn nokkuð öflugan flota; en landher á evrópskan mælikvarða áttu þeir hreinlega ekki til, þar sem lítil sem engin þörf var fyrir hann. Bandaríski landherinn var á þeim tíma 100.000 manna léttvopnað lið sem hafði það hlutverk helst að hafa eftirlit með “bandíttum” á mexíkósku landamærunum.

Ólíkt því hjá okkur Íslendingum, var “ævarandi hlutleysi” fullkomlega raunhæfur kostur Bandaríkjamanna í byrjun “Stríðsins mikla”, og sá kostur sem þótti rökréttastur. Segja má að nánast engum hafi langað að blandast inní þennan leðjuslag Evrópuveldanna. Hvorki “gömlum og grónum” Bandaríkjamönnum sem alist höfðu upp við afskiptaleysið af heimsmálunum, né “nýbúum” sem flúið höfðu Evrópu og reynt að hefja nýtt líf.

Því er mjög oft haldið fram að þetta hafi allt breyst árið 1915 þegar breska farþegaskipinu “Lusitania” var sökkt af þýskum kafbáti, og er þeim atburði oft gefin svipuð þýðing og árásin á Perluhöfn síðar. Það sem gerðist var að skipinu var sökkt og á annað hundrað bandarískir farþegar fórust. En túlkun á sögulegu mikilvægi þessa atburðar er mjög umdeild. Í dag er helst hallast að þeirri skoðun að valdamiklir “afskiptasinnar” hafi blásið þetta atvik upp og notað til að reka áróður fyrir sínum málstað, fremur en að umsvifalaust hafi blossað upp reiði almennings yfir því.

En hvort sem það var upp-blásið eður ei, hafði “Lusitana” atvikið þó vissulega einhver áhrif á næstu tveimur árum. Samskipti Bandaríkjanna við Bretland og Frakkland höfðu alltaf verið meiri en við Þýskaland, og óhjákvæmilegt var að bandarísk skip á leið yfir hafið yrðu fyrir árásum þýskra kafbáta. Burtséð frá áróðri “afskiptasinna”, breyttist pirringur almennings útí Þjóðverja smám saman í reiði, og árið 1917 gat Wilson forseti með sæmilegri samvisku lýst yfir stríði við Þýskaland.

Skömmu síðar steig bandarískur hermaður í fyrsta skipti á land í Evrópu. Bandaríkin voru sein af stað í stríðsreksturinn á vesturvígstöðvunum. Ekki vantaði mannaflann, en tíma tók að þjálfa hann og vopna, og ferja hann síðan yfir Atlantshafið. Þurftu Bandaríkjamenn allt til stríðsloka að reiða sig á Breta og Frakka varðandi ýmsan útbúnað, t.d. fallbyssur og flugvélar. (Skýrasta dæmið um þetta er líklega að bandarískir hermenn báru breska hjálma út stríðið, og síðan allt til 1942).

Það er umdeilt hversu mikið tilkoma Bandaríkjamanna breytti gangi stríðsins, en talið er að það hafi meira verið í fundarherbergjum herforingjanna en í skotgröfunum. Þýsku herforingjarnir óttuðust þetta nýja milljónalið sem nú var stefnt gegn þeim, og tóku því aðrar ákvarðanir en þeir hefðu annars gert. Með öðrum orðum: Bandarískir hermenn háðu enga úrslitabardaga í Fyrri heimsstyrjöld, en nærvera þeirra hafði þó mikil áhrif á gang mála og flýtti eflaust fyrir uppgjöf Þjóðverja.


Millistríðsárin

Það ríkti hvergi nein gleði þegar Fyrri heimsstyrjöldinni lauk í nóvember 1918. Vissulega voru menn fegnir að þessu hrikalega stríði væri lokið, en jafnvel fyrir “sigurvegarana” var fátt annað til að gleðjast yfir. Milljónir lágu í valnum og hið gamla skipulag Evrópu lá í rúst, og ekkert nýtt skipulag til. Ekki bætti úr að á sama tíma herjaði spænska veikin um lönd og lagði milljónir í viðbót í gröfina.

Viðbrögð Bandaríkjamanna, hárra sem lágra, við gangi mála við lok Fyrri heimsstyrjaldar voru fyrst og fremst svekkelsi. Hermennirnir höfðu verið fylltir upp af áróðri um að þeir færu í stríðið sem frelsandi hetjur til að bjarga Evrópu undan “villimennsku keisarans (þýska)”, en lentu svo í þriggja ára gömlum leðjuslag sem enginn heimamanna vissi lengur um hvað snerist. Ráðamennirnir, með Wilson forseta fremstan í flokki, töldu sig hafa farið útí stríðið til að stuðla að “nýrri heimsskipan” þar sem sjálfsákvarðanaréttur þjóða yrði virtur, og “Þjóðabandalag” sett á stofn.

Það kom í ljós á friðarráðstefnunni í Versölum að Bretar og sérstaklega Frakkar ætluðu sér sem sigurvegarar að haga málum eins og þeim sýndist, og skilaboðin sem Wilson fékk voru “Takk fyrir hjálpina, en nú getum við séð um þetta sjálfir”. Wilson reyndi hvað hann gat til að bæta úr málum, en þegar Bandaríkjaþing felldi aðild landsins að Þjóðabandalaginu, var þjóðin búin að kveða upp sinn dóm um Evrópu og umheiminn allan. Bandaríkin skyldu framvegis huga að eigin málum, og ekki láta evrópsk konungsveldi og innlenda hergagnaframleiðslu-skósveina þeirra plata sig útí fleiri tilgangslausar styrjaldir, sem í þessu tilfelli höfðu aðeins gert illt verra.

Þannig að aftur drógu Bandaríkin sig algerlega útúr gangi alþjóðastjórnmála. Hinn mikli landher Bandaríkjanna var aftur smækkaður niður í gamla landamæraliðið. Flotinn og agnarsmár flugherinn fengu það hlutverk eitt að verja strendur Bandaríkjanna gegn lítt hugsanlegum innrásarmönnum. Vanaleg viðbrögð fólks við fréttum af einhverjum átökum útí heimi voru “Okkur kemur þetta ekkert við”.

Ekki má heldur vanmeta menningarlega þáttinn í styrk einangrunarstefnunnar. Á þessum árum fór útvarp að ná almennri útbreiðslu, og með því sér-amerísk alþýðumenning. Úr útvarpinu stranda á milli fór að streyma búgí-vúgí og djass, lýsingar á baseball-leikjum, fréttir af gangsterum í Chicago, auglýsingar á Coca-Cola. Bandarísk þjóðarvitund efldist um allan helming, “The American Way of Life” var að verða til. Bandaríkin urðu heimur útaf fyrir sig, meðan stríðshrjáð Evrópa var enn hálf-lömuð og reyndi að átta sig á nýrri heimsmynd. Kreppan mikla sem skall á uppúr 1930 breytti þessu ástandi í raun sáralítið þó gósentíðin væri búin. Bandaríkin og Evrópa voru nú meira en nokkru sinni áður “Nýji og Gamli Heimurinn”.

Einangrunarstefnan var því aldrei sterkari en á þessum millistríðsárum. Þegar ófriðlega fór að horfa í Evrópu aftur með uppgangi nazista í Þýskalandi, var viðkvæðið í Bandaríkjunum “Þeirra vandamál, kemur okkur ekkert við”. Rétt var það að kreppu-vandamálin heimafyrir voru gríðarleg, og naut Franklin D. Roosevelt forseti víðtæks stuðnings í róttækum aðgerðum sínum til að leysa þau. En í hvert sinn sem hann reyndi að brydda uppá utanríkismálum rak hann sig á steinvegg. Bandaríkjamenn vildu ekki, og ætluðu ekki aftur að láta plata sig inní Evrópumál, punktur.

Eftir Seinni heimsstyrjöldina og allt fram á þennan dag, hafa verið brögð að því að talsmenn einangrunarsinna séu útmálaðir ýmist sem einhverskonar öfgamenn, eða í besta falli “nytsamir sakleysingjar” vel meinandi en trúgjarnt fólk sem lét erlend einræðisöfl hafa sig að fíflum. Auðvitað voru misjafnir sauðir í mörgu fé, og vissulega voru meðal einangrunarsinna fólk með vægast sagt vafasamar stjórnmálaskoðanir. En flestir virðast þó hafa verið ósköp venjulegt fólk sem í einlægni hafði þá trú að Bandaríkjunum kæmu erlend styrjaldarátök ekkert við.

Samtökin “America First” voru stærst og öflugust þeirra sem prédikuðu hlutleysi og einangrun. Þegar mest varð voru um 800.000 manns skráð í samtökin, og þeirra á meðal voru frægir og virtir menn eins og þingmaðurinn Burton K. Wheeler, Gerald R. Ford sem síðar varð forseti, og rithöfundarnir Sinclair Lewis og Gore Vidal. Frægasti talsmaður samtakanna var þó Charles Lindbergh, flugkappi. Eins og flestir aðrir skipti hann um skoðun eftir árásina á Perluhöfn, en hann hafði þá löngu bakað sér hreina óvild Roosevelts forseta. Hann hafði einnig látið ýmislegt klaufalegt útúr sér opinberlega, og mannorð hans hlaut varanlegan skaða.

Seinni heimsstyrjöldin

Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst í september 1939 var staðan í Bandaríkjunum sú að Roosevelt vildi allt gera til að styðja vesturveldin Bretland og Frakkland, en meirihluti almenningsálits og sterk stjórnmálaöfl bundu hendur hans. Líkt og Wilson áður, þurfti Roosevelt að stíga lítil og varleg skref til að geta sýnt stuðning við vesturveldin í verki.

Einangrunarstefnan var sérstaklega sterk á fyrstu mánuðum stríðsins, á meðan “platstríðið” (Phoney War) stóð yfir. Allan veturinn 1939-40 gerðist nánast ekki neitt, herir Þjóðverja og vesturveldanna sátu bara við landamærin og biðu. Útlit var fyrir að ef eitthvað gerðist yrði það svipað og í Fyrri heimsstyrjöldinni, áralangur leðjuslagur. En með vorinu fóru Þjóðverjar loks af stað og tókst öllum að óvörum að mala Frakka á einum mánuði. Bandaríkjamenn gátu heyrt fréttamanninn William L. Shirer í beinni útsendingu frá París lýsa athöfninni þegar Frakkar gáfust formlega upp. Þá stóð Bretland eitt eftir andspænis stríðsvél nazista, og Bandaríkjamenn gátu nú einnig fylgst með “Orustunni um Bretland” í lýsingum annars útvarpsmanns, Edward R. Murrow.

Við þessa atburði vöknuðu nú margir Bandaríkjamenn upp við vondan draum og æ fleiri komust á þá skoðun að líklega yrði landið að skerast í leikinn bráðlega. Roosevelt tókst að fá samþykkt svonefnd “Láns- og leigulög” sem heimiluðu víðtæka hernaðaraðstoð við Breta gegn greiðslu, sem í sumum tilfellum fól í sér yfirtöku á breskum herstöðvum í Karíbahafi og víðar. Árið 1941 tóku Bandaríkjamenn að sér vernd skipalesta á vestanverðu Norður-Atlantshafi, sem fól í sér að bandarískum herskipum var heimilað að ráðast á þýska kafbáta á svæðinu. Auk þess tóku Bandaríkin að sér hervernd Grænlands og Íslands.

Við lestur erlendra bóka tekur maður eftir því að bandarísk hervernd Íslands þykir mun merkilegri atburður í sögu Seinni heimsstyrjaldar en breska hernámið árið áður, sem sjaldnast er minnst einu orði á. Þykir þetta vera eitt af stærstu skrefum Roosevelts í þeirri viðleitni sinni að koma hinum enn formlega hlutlausu Bandaríkjum í stríðið.

Þrátt fyrir allt þetta, var einangrunarstefnan enn sterk síðla árs 1941. Bandaríkjamenn almennt voru ekki enn tilbúnir til að taka fullan þátt í Evrópustyrjöldinni, þrátt fyrir samúð með Bretlandi og nú einnig Sovétríkjunum. Í október var frumvarp Roosevelts um afnám laga sem kváðu á um hlutleysi Bandaríkjanna, fellt í þinginu. Enn virtist ekkert útlit fyrir að Bandaríkin breyttu grundvallar-afstöðu sinni í bráð. En nú urðu atburðir á Kyrrahafi til þess að allt breyttist í einni svipan.

Það hafði verið grunnt á því góða með Bandaríkjunum og Japan allt frá því um 1930 þegar þeir síðarnefndu hófu hernaðaraðgerðir sínar í Kína. Bandaríkjamenn litu á Kína sem vinaland sitt, en voru þó hvergi nærri tilbúnir í meiriháttar átök útaf því, og samræmdist það reyndar vel stefnu þeirra varðandi Evrópu. En þeir gerðu það sem þeim þótti í sínu valdi standa. Þeir efldu flota sinn á Kyrrahafi og bjuggu hann undir hugsanleg átök við Japani, og þegar þeir færðu heimahöfn flotans frá San Diego til Perluhafnar á Hawaii-eyjum voru það greinilega ekki svo óbein skilaboð til Japana. Að auki settu þeir viðskiptabann sem kom sér afar illa fyrir Japani, sem höfðu áður keypt mest af eldsneyti sínu frá Bandaríkjunum.

Í nóvember 1941 grunaði bandarískum stjórnvöldum að til einhverra tíðinda gæti farið að draga á Kyrrahafi, en þegar það síðan gerðist að morgni 7. desember, gerðist það svo snöggt og af þvílíku umfangi að menn urðu gersamlega agndofa. Japanir réðust á Perluhöfn með yfir 300 flugvélum, og á sama tíma á Filipseyjar.

Á síðustu árum hafa komið fram kenningar um að Roosevelt hafi vitað nákvæmlega hvað til stæði, en ekki aðhafst neitt því það þjónaði hans hagsmunum að tjón yrði sem mest, til að vekja sem allra mesta hneykslunar- og reiðiöldu meðal almennings. Þetta hljómar harla ótrúlega, enda hefur enginn virtur sagnfræðingur stutt þessa kenningu. Það er vitað að Roosevelt vissi að “eitthvað” væri í vændum á Kyrrahafi, en nákvæmlega “hvað” vissi hann líklega ekki frekar en aðrir.

Hvað sem því líður er það víst að 7. desember 1941 er líklega örlagaríkasti dagur í sögu Bandaríkjanna. Reiði almennings blossaði skiljanlega upp og einangrunarstefnan hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þó er sagt að Hitler hafi gert Roosevelt mikinn greiða með fljótfærnislegri stríðsyfirlýsingu sinni nokkrum dögum seinna, því líklega hefði annars verið erfitt að sannfæra bandarískan almenning um nauðsyn þess að fara líka í stríð við Þýskaland þegar Japan var aðal-óvinurinn.

Nú voru Bandaríkin af fullum þunga orðin beinn þáttakandi í heimsmálunum, og þó líklega hafi fæstir vitað það þá, komin inn á braut sem ekki varð aftur snúið af. Hin hefðbundna bandaríska einangrunarstefna var dauð, þó ekki yrði það alveg ljóst fyrr en eftir stríðið.

Framlag Bandaríkjanna í stríðsrekstur bandamanna í Seinni Heimsstyrjöld var gríðarlegt. Þó manntjón þeirra væri minna en flestra annara aðila og skemmdir heimafyrir engar, lögðu þau til nánast ótæpilegan mannafla og framleiðsla þeirra á hergögnum og öðrum nauðsynlegum varningi var meiri en í nokkru landi öðru. Sovétríkin komust næst þeim, en kerfi þeirra og skipulagi var í samanburði stórlega ábótavant, jafnvel þó tillit sé tekið til þess gífurlega tjóns sem þau urðu fyrir í upphafi stríðs.

Margir hafa lengi haldið því fram að framlag vesturveldanna almennt, og þá sérstaklega Bandaríkjanna, til sigursins á öxulveldunum sé stórlega ofmetið. Helst má af þessum röddum skilja að Rússar hafi í raun sigrað Þjóðverja nánast einir síns liðs. Það er reyndar rétt að Sovétmenn báru meginþungann af hernaðarstyrk Þjóðverja, og sú hergögn sem vesturveldin sendu þeim voru flest annars flokks. Það sem oft gleymist er hinsvegar að þessi annars flokks hergögn voru notuð með ágætis árangri á stöðum þar sem ekki var þörf fyrir betra, og losuðu í leiðinni fyrsta flokks innlend hergögn til notkunar í fremstu víglínu. Að auki sendu Bandaríkjamenn Rússum milljónir tonna af matvælum og ýmiskonar nauðsynlegum varningi, auk 500.000 jeppa og vörubíla, sem var ómetanlegt á víðáttum austurvígstöðvanna. Á sama tíma voru svermar af breskum og bandarískum sprengjuflugvélum að draga verulega úr framleiðslumætti Þjóðverja. Vel má vera að Rússar hefðu marið sigur án alls þessa, en það hefði í öllu falli orðið nokkrum mánuðum eða jafnvel árum síðar.


Eftirstríðsárin - Upphaf Kalda stríðsins

Þegar Seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945, átti enginn von á því að Bandaríkin myndu einangra sig aftur. Framlag þeirra til stríðsrekstursins hafði sem áður sagði verið gríðarlegt, þannig að engin hætta var á því að þeim yrði aftur ýtt til hliðar í heimsmálunum eins og eftir síðasta stríð. Heimsmyndin í stríðslok gerði slíkt líka óhugsandi. Bandaríkin voru einfaldlega orðin lang-öflugasta veldi heims, með minnsta stríðs-tjónið, mestu framleiðslugetuna, og langsamlega mesta fjármagnið. Að auki áttu þau öflugasta flota og flugher heims, svo ekki sé minnst á kjarnorkusprengjuna sem þau sátu ein að næstu árin.

Gömlu Evrópuveldin voru í raun búin að vera. Þýskaland lá gersigrað í rjúkandi rústum. Frakkland var að sleikja sár sín eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum 1940, og átti langt í að jafna sig. Bretland, þó það reyndi að bera sig vel, hafði orðið fyrir miklu tjóni og var auk þess nánast gjaldþrota, enda fór hið áður stórbrotna nýlenduveldi þeirra nánast strax að hrynja.

Þrátt fyrir gífurlegt stríðs-tjón sitt, voru Sovétríkin óumdeilanlega orðin næst-öflugasta veldi heims. Þau höfðu ráð allrar Austur-Evrópu í höndum sér, og voru að auki komin í hagstæða stöðu í austurlöndum fjær. Og áttu tvímælalaust öflugasta landher veraldar. Það sem þau skorti í fjármagni unnu þau upp með kommúnískri hugmyndafræði sinni, sem þá átti milljónir dyggra fylgismanna um allan heim.

Þegar þessi nýja heimsmynd rann smám saman upp fyrir fólki, varð það dagljóst að útilokað var að Bandaríkin drægu sig aftur inní skel. Síðasti naglinn í kistu einangrunarstefnunnar var rekinn árið 1947, þegar Truman forseti samþykkti að Bandaríkjamenn myndu yfirtaka skuldbindingar Breta í Grikklandi. Þar höfðu Bretar síðan í stríðslok veitt stjórnvöldum hernaðar- og efnahagsaðtoð í stríði þeirra við skæruliða kommúnista, en treystu sér ekki lengur til þess. Í sama tilefni setti Truman fram nýja “kenningu” sem við hann var kennd, og kvað á um að framvegis myndu Bandaríkin af berjast gegn kommúnisma hvar sem hann dúkkaði upp í heiminum. Kalda stríðið var hafið.



Eins og sagði í upphafi greinarinnar, er nútímafólk orðið svo vant því að líta á Bandaríkin sem allt-umlykjandi heimsveldi að það er hætt að taka eftir því. Stærstur hluti þess sem við sjáum í bíói og sjónvarpi er bandarískt efni og mikið af þeirri tónlist sem við heyrum í útvarpi allan daginn. Við drekkum Coca-Cola, og við fáum okkur skyndibita á McDonalds og Subway. Það er hinn menningarlegi þáttur heimsveldisins, en við Íslendingar þurfum ekki annað en að skreppa á eina alþjóðaflugvöllinn okkar til að sjá líka eina af herstöðvum þess. Það er því áhugavert að hugsa til þess að í rúmlega hálfa aðra öld vildi þessi þjóð sem minnst afskipti hafa af umheiminum.
_______________________