Bandarísk einangrunarstefna og endalok hennar, Fyrri hluti Í dag eru Bandaríkin orðin heimsveldi sem oft er líkt við Rómaveldi til forna, og það er sá veruleiki sem heimurinn lifir við í dag. Reyndar hafa Bandaríkin verið allsráðandi í hinum vestræna heimi síðan 1945, en eftir lok Kalda stríðsins hafa þau nú orðið “eina risaveldið”. Það gleymist oft að þetta var alls ekki alltaf svona, og raunar var það lengi svo að Bandaríkjamenn vildu sem minnst afskipti hafa af umheiminum, og lifa óáreittir í skjóli tveggja úthafa. Hvernig og hvenær varð þessi breyting á þjóðarsál þessa stóra lands? Best er að rekja söguna frá upphafi:


Í upphafi

Bandarísk einangrunarstefna átti rætur sínar strax í fyrstu evrópsku landnemunum sem settust að á austurströnd N-Ameríku síðan á 17. öld. Þessir landnemar voru fólk sem fannst á sig hallað í heimalandinu vegna trúarskoðana, og átti von á að fá að vera í friði í nýja heiminum. Fjölmennastir voru Bretar og Hollendingar, en einnig kom fólk frá Þýskalandi og jafnvel norðurlöndunum. Á næstu öldum ollu þó ýmsar hræringar því að öll strönd N-Ameríku frá Flórída til Maine, og evrópskir íbúar hennar, lentu undir stjórn bresku krúnunnar. Á miðri 18. öld skiptist strandlengjan og innhéruð hennar í 13 breskar nýlendur. Þessar nýlendur voru þó alls ekki al-breskar. Þó bresk-ættað fólk réði flestu voru þarna einnig fyrrgreind þjóðabrot í bland, þannig að í raun var búið að mynda vísi að amerískri þjóð. Ekkert í líkingu við skoðanakannanir er til frá þessum tíma, en flestum ber saman um að “royalistar”, ameríkanar hollir Bretakonungi, hafi verið í minnihluta.

Þessar 13 nýlendur Breta í Norður-Ameríku slitu sig formlega undan valdi krúnunnar með sjálfstæðisyfirlýsingunni árið 1776, og stofnuðu Bandaríki Norður-Ameríku. Ein af aðalástæðum uppreisnarinnar var óánægja innfæddra ráðamanna með að vera sífellt á einhvern hátt blandað inní átök “móðurlandsins” hinum megin hafsins, átök sem voru fæddum og uppöldum ameríkubúum fjarlæg og óviðkomandi. Mesta hitamálið var skattlagning, ameríkumenn sökuðu bresku krúnuna um að skattpína sig til að borga fyrir stríðsrekstur í Evrópu, án þess að fá einu sinni fulltrúa á breska þingið fyrir vikið.

Frelsisstíð Bandaríkjanna stóð í sjö ár (1776-83). Það var reyndar ekki al-amerískt stríð, því nýlendurnar fyrrverandi nutu veglegrar aðstoðar Frakka í baráttu sinni gegn Bretum, sem einnig réðu málaliða frá meginlandi Evrópu. Frægir eru t.d. “húsararnir” þýsku sem gerðu herjum George Washingtons miklar skráveifur uns þeir voru loks yfirbugaðir.

Tilvera Bandaríkja Norður-Ameríku var tímabundið tryggð við lok stríðsins, þegar Bretar neyddust til að játa sig sigraða og afsala formlega yfirráðum í norður-amerísku nýlendunum 13. Á næstu áratugum voru Bandaríkin síður en svo afskiptalaus um heimsmál, því öll Evrópu-stríð smituðust sjálfkrafa yfir hafið þar sem Evrópuveldin áttu enn nýlendur. Bandaríkjamenn stóðu í ýmsu stappi, misstu m.a. höfuðborg sína í hendur Breta norðan úr Kanada árið 1814. En í heildina juku veldi sitt í álfunni stórlega á þessum tíma. Þeir keyptu hið gríðarmikla Louisiana-svæði af Frökkum 1803, og Flórída af Spánverjum 1819. Í báðum tilfellum þótti seljendunum skárra að missa þessar lendur til Bandaríkjanna fyrir peningasummu, en að missa þær hvort eð er óbættar og þá jafnvel til Breta.


Monroe-kenningin

Árið 1817 tók James Monroe við forsetaembætti. Hans er helst minnst fyrir “kenningu” (doctrine) sína, mjög almenn og víðtæk langtíma-stefnumarkmið. Í kenningunni fólst í fyrsta lagi að Bandaríkin skyldu framvegis forðast öll bandalög við erlend stórveldi “til langframa”, þannig yrði samningstöðu í einstökum málum alltaf haldið opinni. Jafnframt skyldu Bandaríkin aldrei láta fljækja sér inní stríðsátök í öðrum heimsálfum. Þessu var fylgt alveg fram að Fyrri heimsstyrjöld.

Í öðru lagi áskildu Bandaríkin sér rétt til íhlutunar í öll deilumál og stríðsátök í vesturheimi, þar eð þau snertu bandaríska hagsmuni með beinum hætti. Í þessu fólst að Bandaríkin myndu, ef þeim þætti ástæða til, hlutast til um sjálfstæðisbaráttu Suður-Ameríkuríkja, þannig að í raun var þetta viðvörun til allra Evrópuveldanna um að fara sér hægt í vesturheimi, því þar myndu Bandaríkin framvegis verða “veldið”. Þessu var strax framfylgt með viðurkenningu S-Ameríkuríkja um leið og þau urðu sjálfstæð, og hefur sem augljóst er verið fylgt eftir af hörku alla tíð síðan.

Með þessari “kenningu” var framtíðarstefnan mótuð. Á næsta mannsaldri héldu Bandaríkin enn áfram útþenslu sinni í álfunni. Texas og Kalifornía voru tekin með hervaldi af Mexíkó 1845. Afskipti Bandaríkjamanna af hinum stóra heimi takmörkuðust við Kyrrahafið, þar sem þeir smám saman eignuðu sér Hawaii-eyjar, og sendu herflota til að þröngva Japönum til að opna land sitt fyrir viðskiptum.

Borgarastyrjöldin skall á 1861, og þar voru það norðurríkin sem fóru með löglegt umboð Bandaríkjanna allra gagnvart umheiminum. Evrópuveldin voru að mörgu leyti hallari undir suðurríkin, en þorðu þó ekki fyrir nokkurn mun að styggja norðanmenn um of. Í fyrsta lagi voru viðskiptahagsmunir miklir gagnvart norðurríkjunum, og á mikilvægari sviðum en baðmullarviðskiptin við suðrið. Í öðru lagi, hvað Breta varðaði, voru norðurríkin í aðstöðu til að ógna Kanada hernaðarlega. Það sýnir aukinn styrk Bandaríkjanna á þessum tíma að Borgarastyrjöldin var útkljáð án nokkurra formlegra afskipta Evrópuveldanna. Slíkt hefði verið óhugsandi 40 árum fyrr.


Bandaríkin smitast af Imperíalisma

Eftir Borgarastyjöldina áttu Bandaríkin í fyrstu nóg með sína eigin uppbyggingu og útþenslu yfir þvera Norður-Ameríku til að geta tekið nokkurn þátt í því nýlendukapphlaupi stórveldanna sem nú var að hefjast. Á meðan Bretland, Frakkland, og að minna leyti Þýskaland lögðu undir sig heiminn, voru Bandaríkin smám saman að leggja undir sig Norður-Ameríku stranda á milli, auk þess sem Alaska var keypt af Rússum 1867. Líkt og hjá evrópsku stórveldunum fól þetta í sér skelfileg hermdarverk á frumstæðari samfélögum sem fyrir voru, en einnig stórvirki á sviði skipulagningar og verktækni.

Jafnframt því að Bandaríkin náðu stranda á milli, urðu þau mesta iðnveldi heims. Samanburður á kola- stál- olíu-, og ekki síst matvælaframleiðslu Bandaríkjanna og Evrópu-veldanna frá 1870-1914 segir allt sem segja þarf. Í þjóðarframleiðslu fóru Bandaríkin fram úr helstu keppinautunum Bretlandi og Þýskalandi nokkru fyrir aldamótin 1900.

Á þessum tíma fóru að heyrast raddir innan Bandaríkjanna um að landið ætti nú að fara að gera skurk í því að “tryggja sér sína réttmætu stöðu” í heiminum, þ.e.a.s að taka þátt í nýlendukapphlaupinu, eignast nýlendur í fjarlægum heimsálfum. Lítt var hlustað á þessar raddir í fyrstu, og þótti andmælendum það vera algerlega óviðeigandi að land sem hafði á sínum tíma brotist undan nýlenduoki færi sjálft að stofna nýlendur. Var þetta viðtekin skoðun þar til atburðir á Karíbahafi leiddu til þess að gerð var skammvinn undantekning á þessari óskrifuðu reglu.

Viðskiptahagsmunir á Kúbu (sem þá hafði verið spænsk nýlenda síðan á 16. öld) leiddu árið 1898 til alvarlegrar deilu milli Bandaríkjanna og Spánar. Í fyrstu leit út sem að friðsamleg lausn fyndist, en í einu fyrsta “fjölmiðlafári” sögunnar var bandarískt almenningsálit æst upp í stríð gegn Spáni. Spánn var þá löngu orðið annars-flokks veldi, og Bandaríkamenn völtuðu yfir þá. Tóku ekki bara Kúbu og Púertó Ríkó, heldur einnig Fillipseyjar og allar aðrar “spænskar” eyjar á Kyrrahafi.

Vanalega er litið á Spænsk-Ameríska stríðið (og þá sérstaklega yfirtöku Fillipseyja) sem undantekningu, einskonar síðbúið Imperíalisma-kast Bandaríkjanna. Eitt er víst að Bandaríkin fóru fljótlega aftur í sitt sama far, og gerðu sig ekki líkleg til mikilla afskipta af heimsmálum utan vesturheims það sem eftir lifði þessa tímabils sögunnar. Theodore Roosevelt var sáttasemjari í Japansk-Rússneska stríðinu 1905, og vonuðust margir til að þar væri hann að setja gott fordæmi um utanríkisstefnuna framvegis. En örlögin áttu þó eftir að verða önnur.

Í næstu grein mun ég fjalla um þáttöku Bandaríkjanna í Fyrri heimsstyrjöld, harða einangrunarstefnu millistríðsáranna og endalok hennar eftir Seinni heimsstyrjöldina.
_______________________