Smá fróðleikur um seinni heimsstyrjöldina..

Oft var átökunum síðustu mánuði ársins 1939 líkt við “gervistríð”. Fyrst eftir að Pólland féll var lítið barist á landi. Öðru máli gegndi á höfunum. Þar var barist af slíkri hörku að svo virtist sem styrjöldin yrði bæði langvinn og mannskæð.
Tæpum 10 klukkustundum eftir að Neville Chamberlain, forætisráðherra Breta, tilkynnti að styrjöld væri hafin, sökkti þýskur kafbátur breska farþegaskipinu Athenia. Af 1400 farþegum, sem margir hverjir voru að flýja styrjöldina í Evrópu, fórust 112, og meðal þeirra voru 28 Bandaríkjamenn.
Næstu vikurnar sökktu sæúlfar Hitlers, eins og þýsku kafbátarnir voru jafnan kallaðir, hverju kaupskipinu á fætur öðru og ollu Bretum miklu tjóni. En Þjóðverjar sökktu líka nokkrum breskum herskipum. Í september sökktu þeir flugmóðurskipinu Courageous og orrustuskipinu Royal Oak tæpum mánuði síðar.
Verðmætatjónið var gífurlegt en menn urðu agndofa þegar fréttir bárust af afdrifum áhafna og farþega skipanna. Á þeim stutta tíma sem leið frá því að tundurskeytin hæfðu skipin og þar til þau sukku, fórust margir þeirra sem lifðu sprenginguna er þeir klemmdust milli stálþilja, brenndust til ólífis af gufu úr rifnum kötlum eða drukknuðu í sjó sem flæddi inn í skipin. Ekki tók betra við ef eldur kom upp í skipunum og sjórinn umhverfis var þakinn logandi olíu.
Þó að tjónið af tundurskeytunum væri mikið fórust líka mörg skip á segulduflum sem kafbátar, skip og flugvélar Þjóðverja lögðu víða meðfram ströndum Bretlands. Auk þess sökktu Graf Spee og önnur herskip Þjóðverja fjölda skipa á fjarlægari slóðum.
Um áramótin var skipatjón Bandamanna orðið geigvænlegt. Á fjórum mánuðum höfðu þeir misst 215 skip af völdum tundurdufla, kafbáta, flugvéla, og herskipa - samtals 748.000 lestir og tvö af stærstu herskipum Breta. Þá höfðu rúmlega 1500 manns látið lífið og þrátt fyir hlé á bardögum á landi virtist styrjöldin á hafinu ætla að verða langvinn.

Ég tek það fram að heimildir eru fundnar í bókinni “Orrustan á Atlantshafi” eftir Barrie Pitt og ritstjóra Time-life bóka, sem Jón O. Edwald íslenskaði. :)