Mér finnst eiginlega vera of lítið ritað um íslenska sagnfræði hér á þessum vef:)Mín skoðun á því er sú að það er búið að vera að troða í okkur íslenskri sögu frá því að við vorum í 4.bekk, ef ekki fyrr. Svo að ég held að flestir séu búnir að fá sig fullsadda af íslenskri sagnfræði. En áhuginn kemur aftur hjá sumum og enn aðrir halda sínum áhuga þrátt fyrir allt.
En ég ákvað í ljósi þess að lítið er um greinar hérna á huga sem snerta okkar ástkæru fósturjörð að láta hér inn grein, eða fyrirlestur, sem ég gerði um Jón Þorláksson.
Jón var einn af okkar mestu skáldum á 18. öld og fyrrihluta 19.aldar. Síðari tíma skáld, á borð við Björn Thorarensen (sem meðal annars var frumkvöðull á sviði leikritaritunar), Jónas Hallgrímsson og Bjólu-Hjálmar hafa sótt fyrirmyndir í ljóðagerð og þýðingar Jóns.
Njótið vel :)


Jón Þorláksson á Bægisá(1744-1819).

Séra Jón Þorláksson fæddist í Selárdal í Arnarfirði árið 1744. Foreldrar hans voru þau Þorlákur Guðmundsson og Guðrún Tómasdóttir. Þegar Jón var fimm ára gamall var faðir hans dæmdur frá prestsembætti vegna þess að hann mætti til messu óhóflega drukkinn. Þá brá hann á það ráð að flytjast í Ísafjarðarsýslu með fjölskylduna í eftirdragi, og gerðist þar sýslumaður. Hann gegndi því embætti í tvö ár en því næst lá leið þeirra til Vestmannaeyja þar sem sama embættisskylda tók við. Loks varð hann svo lögsagnari, eða með öðrum orðum staðgengill sýslumanns í Árnessýslu. Eftir komu þeirra suður byrjaði Þorlákur búskap, fyrst í Múlakoti og síðan á Teigi í Fljótshlíð. Jón Þorláksson var á sínum yngri árum oftast kenndur við Teig, en síðar meir við Bægisá. (J.R.H, Með þjóðskáldum við þjóðveginn, bls 81).
Jón var vel gáfum gæddur og þegar foreldrum hans varð það ljóst var hann fljótlega sendur að Skálholti til mennta. Þremur árum síðar lauk hann stúdentsprófi, aðeins nítján ára gamall. Að loknu stúdentsprófi gerðist hann skrifari hjá Magnúsi Gíslasyni, amtmanni, og þegar hann lést þjónaði Jón tengdasyni Magnúsar, Ólafi Stefánssyni amtmanni. Þessir tveir menn voru helstu valdamenn í landinu á þessum árum. Fimm árum síðar, eða árið 1768, vígðist hann til prests í Saurbæjarþingi í Dalasýslu, þá var hann 24 ára að aldri. Fljótlega eftir komu sína þangað kynntist hann heimasætunni á nærlægum bæ, Jórunni Brynjólfsdóttur. Þau felldu hugi saman og vonuðust til þess að mega giftast. Föður hennar, Brynjólfi bónda í Fagradal á Skarðsströnd, leist nú ekkert of vel á þessa ráðagerð og meinaði þeim að eigast. Hann sagði að sér finndist þessi klerkkjáni ekki vera neitt sérstaklega búmannlegur og því allt annað en álitlegt mannsefni. Brynjólfur var vel efnaður, miðað við þjóðarinnar hag á þessum tímum, og hafði því nokkur völd. (E.J, Íslensk bókmenntasaga 1550-1950, bls 54 og J.H.R, Með þjóðskáldum við þjóðveginn, bls 81-82).
En tvær ástfangnar mannverur láta sér nú yfirleitt lítið segjast, og eftir einhvern tíma var komið barn í spilið. Árið 1770 var Jón svo sviptur kjóli og kalli fyrir þetta brot sitt, en tveimur árum síðar fékk hann embætti sem prestur á Stað í Grunnavík. En enn virtist óheillakráka svífa yfir Jóni greyinu, því að stuttu eftir það fæddi Jórunn annað barn og kvað það vera undan séra Jóni komið; og þar fauk hempan í annað sinn.

Árið 1773 var sofnuð hin svonefnda Hrappseyjarprentsmiðja, og fyrir áeggjan góðra manna sem vel var til Jóns, fékk hann vinnu þar. Á þessum stað vann hann sín fyrstu bókmenntaafrek, og árið 1774 kom út fyrsta bókin sem Jón skrifaði. Þar hafði hann þýtt kvæði eftir norska skáldið Kristian Tullin og eitthvað af kvæðum eftir hann sjálfann fylgdu með.
Enn og aftur verður Jón svo ástfanginn og í þetta sinn er sú heppna Margrét Bogadóttir, dóttir Boga Benediktssonar stórbónda þar í Hrappsey og eiganda Hrappseyjarprentssmiðju. Þau giftast síðan, setja upp bú í Galtardal á Fellsströnd og eiga saman eina dóttur. En hjónabandið er ástlaust og Margrét hefur ekki áhuga á því að flytjast með Jóni að Bægisá í Eyjafirði árið 1788, þegar honum býðst að gerast þar prestur. En Jón flyst nú samt norður og tekur til við prestsstörf í þeirri sókn sem áður er getið, en án þess þó að skilja við Margréti á löglegan hátt. (J.H.R. Með þjóðskáldum við þjóðveginn, bls 82-83).
En líklega var Jón Þorláksson þekktastur fyrir ljóð sín og þýðingar. Hann var upplýsingamaður, afkastamikill þýðandi og brautryðjandi að sama skapi. Hann þýddi meðal annars verkin: Tilraun um manninn eftir enska skáldið Alexander Pope, Paradísarmissi eftir John Milton og Messíasarkviðu eftir þýska skáldið Klopstock. Ensku verkin þýddi hann úr dönsku en studdist jafnframt við þýskar þýðingar.
Á síðustu æviárum Jóns heimsóttu enskir menntamenn skáldið á Bægisá. Þá undraði mjög hversu svo fátækt skáld gæti afkastað miklu og sáu til þess að hann var sæmdur nokkrum verðlaunum.
Á aldar-ártíð séra Jóns, árið 1919, kom út úrval af frumortum kvæðum hans og þýðingum og sá dr. Jón Þorkelsson um þá útgáfu.

Eftir sextíu og eins árs aldur varð Jón gigtveikur og fótlamur. Hann sat þó sem fastast á prestastólnum að Bægisá allt til dauðadags árið 1819, en kvennamennska hans og fátækt fylgdu honum alla ævi. (E.J Íslensk bókmenntasaga 1550-1950, bls 55-56 og S.E. bls 277-279).

Að lokum læt ég fylgja hérna með eina vísu sem Jón orti um fátækt sína, og er hún svohljóðandi:

Fátæktin var mín fylgikona
frá því eg kom í þennan heim,
við höfum lafað saman svona
sjötigi vetur, fátt í tveim, -
hvort við skiljum nú héðan af
hann veit, er okkur saman gaf.
(J.R.H, Með þjóðskáldum við þjóðveginn, bls 83).

Heimildaskrá.

E.J. Erlendur Jónsson. 1977. Íslensk bókmenntasaga 1550-1950. Askur, Reykjavík.
J.R.H. Jón R Hjálmarsson. 2003. Með Þjóðskáldum við þjóðveginn. A’B, Rv.
S.E. Stefán Eiríksson. 1961. Íslensk bókmenntasaga 874-1960. Snæbjörn Jónsson, Rv.