Eftir að Vilhjálmur Bastarður hertogi af Normandí vann sigur á Haraldi Guðvinssyni í bardaganum við Hastings 1066 var endi bundinn á veldi Engil-Saxa í Englandi og Normannir tóku við valdataumunum. Að vísu sat Edgar II í tvo mánuði eftir Harald og var hann þannig síðasti ,,enski” konungur Englands þótt það geti verið umdeilanlegt og ætla ég ekki að fara út í dýpri pælingar um það hér og nú. Veldi Normanna stóð frá 1066 til 1159 þegar Plantagenetsættin einnig þekkt sem Anjouættin komst til valda, tæknilega séð var um að ræða Normanna en Hinrik II Plantagenet var sonarsonur Hinriks I.
En þá skulum við snúa okkur að sögu Normanna á þessum einum mesta valdastóli Evrópu.

Vilhjálmur I Bastarður/Sigursæli

Vilhjálmur fæddist 1027 og var óskilgetinn sonur Róberts hins Mikilfenglega hertoga af Normandí og hjákonu hans Herlevu af Falasíu. Á íslensku hefur sú hefð skapast að kalla hann Vilhjálm bastarð vegna þessarar staðreyndar, þetta er einnig gert í frönsku en minna í ensku þar sem hann er þekktur sem Vilhjálmur hinn sigursæli vegna sigurs síns á Engilsöxum, en þess má til gamans geta að Vilhjálmur var sá síðasti sem réðst inn í England og hafði sigur ef að ég man rétt. Fyrstu sex ár ævi sinnar ólst Vilhjálmur upp hjá móður sinni í Falasíu en við lát föður síns erfði hann hertogatignina og varð hertogi af Normandí. Vegna ungs aldurs hertogans nýja fór hins vegar sérstakt ráð aðalsmanna með völdin til að byrja með. Þau tólf ár sem þannig var einkenndust af miklum óstöðugleika og ófriði í hertogadæminu en uppreisnir og vígaferli voru nær daglegt brauð og vald hertogans dvínaði svo um munaði. Árið 1047 sótti Vilhjálmur hins í sig veðrið á austustu svæðunum og með dyggri aðstoð Hinriks I Frakklandskonungs vann hann öll svæði sín til baka af hinum uppreisnargjörnu barónum. Næstu ár fóru síðan í það að tryggja vald sitt í gegnum hjónabönd, bandalög, stríð og hótunum.

Árið 1066 hafði Normandí náð eins konar sjálfstæði frá Hinriki I og deilurnar um ensku krúnuna gáfu Vilhjálmi gullið tækifæri til þess að sigla yfir Ermasundið og berjast við Engil-Saxa. En eins og sagði i grein minni um Engil-Saxa hafði Játvarður III staðið í illdeilum við tengdaföður sinn Guðvin jarl af Wessex og reyndi að ná bandalagi við Normandímenn árið 1051 með því að lofa Vilhjálmi krúnunni eftir sinn dag. Ekki er þó vitað með vissu hvort þetta var innantómt loforð af hendi Játvarðs eða þá fölsk krafa frá Vilhjálmi, en á þessum tíma var ekki sjálfsagt að konungdómur gengi í erfðir heldur var það sérstakt ráð skipað klerkum og barónum sem skipaði konunga. En hvað með það, um síðir náðist friður milli Játvarðs og Guðvins og Haraldi syni Guðvins var lofað krúnunni sem hann fékk síðan við lát Játvarðs. Til þess að gera langa sögu stutta lenti Vilhjálmur á suður-hluta Englands með skip sín seinni hluta árs 1066 og bar sigur eins og áður sagði. Klerkarnir og aðallinn streittust fyrst í stað á móti og vildu heldur fá Engil-Saxneskan konung en á jóladag 1066 var Vilhjálmur bastarður hertogi af Normandí krýndur konungur Englands fyrstur Normanna.

Í kjölfarið blossuðu upp minni uppreisnir sem Normannir hrundu á bak aftur og árið 1072 var England að fullu komið undir Vilhjálm bastarð og sameinað að nýju. Vilhjálmur refsaði uppreisnarmönnum með því að gera upptækar lendur þeirra og færa þær til Normannskra bandamanna sinna. Til þess að lýsa hörku Normanna er gott að taka dæmi af uppreisnum í kringum York en þær voru barðar niður með því að Normannir eyddu öllu matarkyns í grenndinni og bjuggu þannig til nokkurs konar hungursneyð. Við þennan atburð, þ.e. landvinninga Normanna varð kannski ein mesta breyting á enskri sögu, en í stað þess að skipta engil-saxneskum lögum í heild sinni út fyrir normönsk þá bjó Vilhjálmur til nokkurs konar samblöndu af siðum meginlandsins og heimamanna og varð það til þess að þessir nýju siðir náðu mun meiri hljómgrunni og festu sig betur í sessi en annars hefði orðið. Ein helsta breytingin sem Vilhjálmur gerði í stjórnskipulagi landsins var sú að hann kom á lénsskipulagi að fransksri fyrirmynd. Þetta lénsskipulag lýsti sér í því að þorp og höfuðból fengu nokkuð frjálsar hendur í innansveitarmálum í staðinn fyrir að gegna herþjónustu og greiða skatt til konungs en þetta skipulag varð til þess að treysta konungdæmið enn betur í sessi en áður hafði verið. Þá fengu sýslumenn enn meiri völd þar sem þeir sáu um að rétta í sakamálum fyrir konung, innheimta skatta og voru meira og minna ábyrgir fyrir því að halda friðinn í sýslum sínum. 1085 fyrirskipaði Vilhjálmur gerð ,,dómdagsbókarinnar” en í hana voru skráðar upplýsingar um alla stóreignamenn í þeim tilgangi að meta eignir þeirra og áætla skatta á þá. Þessi bók er merkileg heimild um þær lendur er hún náði yfir en til þess að leggja enn meiri áherslu á það hversu mikil uppstokkunin á Englandi var eftir valdatöku Vilhjálms þá voru aðeins tveir engil-saxneskir barónar sem héldu landi sínu óskertu tuttugu árum eftir valdatökuna eða 1086.

En það var fleira sem Vilhjálmur bastarður lét stokka upp en hann flutti inn Ítala til þess að taka við erkibiskupsstöðunni í Kantaraborg sem hét Lanfranc og átti hann að endurskipuleggja ensku kirkjuna. Vilhjálmur lét einnig byggja fjölda kastala í þeim tilgangi að treysta varnir landsins og koma skipulagi á þær, einn þekktasti kastali Vilhjálms sem enn stendur er án efa Tower of London, sem er vinsæll ferðamannastaður í Lundúnum og geymir m.a. krúnudjásnin ómetanlegu. Einnig urðu landvinningar hans til þess að franska varð tungumál aðalsins næstu 300 árin. Vilhjálmur lést 9. september 1087 í St. Gervais klaustrinu nærri Rouen vegna sára sem hann hlaut í bardaganum um Mantes. Hann er grafinn í St. Stephen's sem er í Caen, Normandí.

Vilhjálmur II Rúfus

Vilhjálmur II Rúfus tók við völdum af föður sínum Vilhjálmi I bastarð árið 1087, en hann var annar sonur Vilhjálms og konu hans Matthildi af Flandri. Elsti sonur Vilhjálms bastarðs Róbert hafði fallið úr náðinni eftir ósætti við föður sinn. Hann komst hins vegar aftur í náðina og við lát Vilhjálms bastarðs skipti hann veldi sínu þannig á milli sona sinna að Róbert fékk hertogadæmið, Vilhjálmur fékk England og yngsti sonurinn Hinrik fékk 5000 silfurskildinga. Alla tíð var frekar mikið ósætti á milli bræðranna sérstaklega Róberts og Vilhjálms, en Róbert gerði tilkall til ensku krúnunnar, og telja fræðimenn líklegt að það ósætti hafi leitt til þess hversu illa sagan hefur dæmt Vilhjálm Rúfus. Nafngiftina fékk hann líklega vegna rauðs hárlits síns og hversu uppstökkur hann var.

Báðum megin Ermasundsins áttu barónar miklar lendur og lentu á milli í valdatafli bræðranna Róberts og Vilhjálms. Fyrst í stað voru þeir hikandi að taka afstöðu en fljótlega fóru menn að standa með Róberti vegna skapofsa og hörku Vilhjálms. Róbert lét hins vegar aldrei sjá sig á Englandi og þess vegna náði Róbert að kæfa uppreisnina í fæðingu, hefði Róbert hins vegar ómakað sig við að skreppa yfir sundið er mjög líklegt að hann hefði náð völdunum frá bróður sínum og sameinað Normandí og England undir sömu stjórn á ný. Eftir þetta fór Vilhjálmur að renna hýru auga til Normandí og mútaði barónum þar til stuðnings við sig og gróf þannig undan valdi bróður síns. Það fór síðan svo að 1096 seldi Róbert Vilhjálmi Normandí fyrir 10.000 skildinga til þess að fjármagna ferð sína til landsins helga í fyrstu krossferðinni, hann náði síðan Normandi aftur á sitt vald við fráfall Vilhjálms árið 1100. Vilhjálmur Rúfus var fégráðugur maður og beitti öllum brögðum við að ná sem mestum peningum í fjárhirslur sínar, t.d. gekk hann mjög hart fram í skattheimtu með upptökum eigna o.s.frv. Þá kom hann á erfðafjárskatti og fór að heimta skatta af kirkjunni og fyrir vikið var hann lítt virtur og liðinn af kirkjunnar mönnum og í rauninni hafði hann svipaða skoðun á kirkjunni. Þetta er einmitt önnur ástæða þess að hans er ekki vel minnst í samtímafrásögnum þar sem þær voru nær allar skrifaðar af munkum. 2. ágúst ári 1100 fékk Vilhjálmur Rúfus ör í augað þegar hann var við veiðar og lést i kjölfarið. Því var haldið fram að Hinrik bróðir hans sem var við veiðar með honum hafi fyrirskipað að örinni yrði skotið í hann og Vilhjálmur myrtur á þann hátt en eins er ekki ólíklegt að þarna hafi aðeins verið á ferðinni slysaskot.

Hinrik I

Þar sem Vilhjálmur Rúfus lést barnlaus tók yngri bróðir hans Hinrik I við stjórnartaumum eftir hans dag. Hann var þekktur undir viðurnefninu ljón réttlætisins. Hinriks er fyrst og fremst minnst vegna; takmörkunar konungsvaldsins, umbætur hans á stjórnkerfinu, þess hvernig hann sameinaði ríki föður síns aftur og síðast en ekki síst fyrir að nefna dóttur sína sem erfingja að krúnunni. Hinrik var fæddur einshvers staðar á milli maí 1068 og maí 1089 í Yorkshireskíri og var yngsti sonur foreldra sinna. Vegna þess að hann var yngstur var talið ólíklegt að hann yrði kóngur og fékk hann því umfangsmikla menntun til þess að ryðja leið hans að stöðu biskups, biskup varð hann hins vegar aldrei en varð hins vegar fyrsti konungur Normanna sem talaði lýtalausa ensku. Eldri bræður hans gerðu þann samning með sér að ef þeir féllu frá barnlausir myndi ríki föður þeirra verða sameinað undir Hinriki.

Þegar að Vilhjálmur lést 1100 var Róbert bróðir þeirra að snúa til baka úr krossferðinni en vegna langrar fjarveru sinnar var það Hinriki auðvelt verk að snúa barónunum á sitt vald og var hann krýndur konungur Englands í Westminster 5. ágúst. Stuttu seinna leiddi hann Charter of Liberties í lög og innsiglaði þannig stuðning aðalsins í eitt skipti fyrir öll en þarna var á ferðinni eins konar undanfari Magna Carta. Í nóvember kvæntist Hinrik Edith dóttur Malcoms III Skotlandskonungs og fékk þannig engil-saxneskt blóð inn í ættina. Þetta féll normannska aðlinum hins vegar ekki í geð og úr varð að drottningin nýja breytti nafni sínu í Matthildu við brúðkaupið. 1101 reyndi Róbert að gera innrás í ríki bróður síns en með Altonsáttmálanum féllst Róbert á að viðurkenna Hinrik sem konung og snúa aftur til Normandí. Hins vegar treysti Hinrik ekki bróður sínum betur en það að 1105 sendi hann innrásarlið yfir sundið til Normandí og gjörsigraði bróður sinn 1106. Róbert var fangelsaður og ríki Vilhjálms bastarðs endurreist. Hinrik eignaðist fjögur börn með Matthildu áður en hún lést 1118 og árið 1121 kvæntist hann síðan í annað skiptið, nú dóttur greifans af Louvain, Adelísu hjónaband þeirra var hins vegar barnlaust. Hinrik I á einnig met í óskilgetnum börnum, en hann viðurkenndi faðerni sitt á 25 börnum utan hjónabands. Þrátt fyrir þetta mikla barnalán lifði hvorugur sona hans og Matthildu föður sinn og því var úr vöndu að ráða þegar kom að því að finna sér erfingja. Hinrik tók þá til þess ráðs að fá barónanna til þess að viðurkenna Matthildu dóttur sína sem erfingja sinn.

Þegar Hinrik lést síðan 1135 úr matareitrun sviku barónarnir hins vegar loforð sitt þegar Matthilda giftis inn í Anjou ættina sem að var erkióvinur Normanna. Í staðinn var bróðursonur Hinriks Stefán af Bólóníu krýndur konungur. Borgarastyrjöld braust hins vegar út þegar Matthilda tók þessu ekki þegjandi og var það leyst 1153 þegar Stefán tilnefndi Hinrik son Matthildu sem erfingja sinn.

Stefán I

Stefán fæddist í Blois í Frakklandi 1096 og var sonur Stefáns greifa af Blois og Adelu konu hans sem var dóttir Vilhjálms bastarðs. Stefán varð greifi af Mortain 1115 og 1125 kvæntist hann Matthildu dóttur greifans af Bólógníu. Ég hef nú þegar sagt frá því markverðasta í stríði Matthildu dóttur Hinriks I og Stefáns og er því ekki að endurtaka það hér. Fátt annað markvert gerðist á valdatíma hans og sagan hefur dæmt hann sem veikann konung. Hann lést í Dover 1154 og tók Hinrik hertogi af Anjou við stjórnartaumunum eftir hans dag.

Á þessum tímapunkti komust Anjoumenn eða Plantagenetsmenn eins og þeir eru oftast kallaðir í Bretlandi til valda á Englandi og því verða hér þáttaskil í konungssögu Englands. Tímabili Anjoumanna verður gert skil í næstu grein minni sem mun vonandi birtast von bráðar.