Konungdómur i Englandi á sér langa sögu, en almennt er talað um að upphafspunktur hans verið 4. apríl árið 871 þegar Alfreð mikli var krýndur í Kingston-upon-Thames. Frá honum kom síðan löng röð Engil-Saxneskra kónga sem ríktu þar til árið 1066 að Normanar komust til valda, að vísu ríktu víkingakóngar inn á milli eða frá árinu 1013 til og með ársins 1042. Hér á eftir ætla ég að fjalla um þetta tímabil í konungssögu Bretlands. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ekki er víst að öll nöfn séu rétt þýdd hjá mér og sum þeirra þýði ég ekki og bið ég fólk að afsaka þetta vinsamlegast.
Á fyrri hluta hinna svo kölluðu myrku alda, á fimmtu og sjöttu öld eftir krist, voru á Englandi fjöldi samfélaga undir leiðsögn höfðingja og smákónga með mjög óljós landamæri. Eftir að síðustu rómversku hersveitirnar fóru frá eyjunni 408 e.kr. þurftu þessi samfélög sjálf að verja landamæri sín og lendur fyrir innrásarherjum norðan frá Skotlandi, vestan frá Írlandi og Wales og austan frá meginlandi Evrópu. Einn af þessum smákóngum var hinn goðsagnakenndi Artúr konungur sem í dag hefur þá stöðu að vera eins konar tákn breskrar mótstöðu gegn innrásarherjum, hvort sem þar voru á ferðinni Germanir, Englar, Saxar, Juttar eða hvaða annar þjóðflokkur. Mjög gróft á litið var Englandi skipt upp í sjö svæði sem síðar urðu sjálfstæð konungsríki en þau voru; Norðhumbría, Mersía, Austur-Anglía, Essex, Kent, Sussex og Wessex. Allt voru þetta ríkuleg landbúnaðarsvæði en Kent og Wessex voru þá í mestu álitum sökum suðlægrar legu sinnar og tempraðs loftslags. Þessi tvö svæði auk Norðhumbríu voru fyrst til þess að taka upp kristni og græddu mjög á stjórnunarlegri og fræðilegri þekkingu trúboðanna sem settust að á svæðunum og skipulögðu trúarstarfið, því að af þeim lærðu þeir óhjákvæmilega.
Aðalfreður í Norðhumbríu var fyrstur konunga til þess að taka upp hinn nýja sið og hvatt var til menntunar meðal þegnanna. Hátindur Norðhumbríu var á sjöundu öld þegar Oswy konungur reyndi að sameina allt svæðið sem eina heild undir sinni stjórn. Í Austur-Anglíu reyndi Raðvaldur að gera slíkt hið sama og veldi hans og áhrif má skýrt sjá í því hvernig útför hans fór fram, en hann var jarðsettur að víkingasið og brenndur með langskipi sínu og fjársjóði. Árið 1939 var þessi fjársjóður grafinn upp og kom þá í ljós hversu háþróuð menning ættflokka Bretlands á sjöunda öld í rauninni var.

Á áttundu öld var það Mersía sem var hvað háþróuðust meðal svæðanna en landamæri þess náði allt til Wales, en Offa konungur þeirra lét grafa gríðarlega skurði meðfram landamærunum að Wales svo Walesverjar kæmust ekki yfir. Hann var gífurlega víðsýnn maður og gerði viðskiptasamning við Karlamagnús þar sem samið var um gangkvæm viðskipti milli Englands og meginlandsins. Og þá er komið að Alfreði mikla sem var konungur í Wessex og barðist hetjulega gegn innrásarherjum víkinga á níundu öld og gerði Wessex þannig að miðdepli veldis Engil-Saxa á Englandi

Alfreð Mikli (871-899)

Alfreð mikli fæddist í Wantage í Berkshireskíri árið 849 og var fimmti sonur Aðalúlfs af Wessex og Ósbúrgu konu hans. Alfreð komst til valda í skugga árása víkinga á þorp víðsvegar um England sem byrjuðu í kring um 790. Þegar þarna var komið við sögu höfðu þessar árásir leitt til þess að víkingar höfðu lagt undir sig nokkuð víðfemt svæði, en það svæði náði yfir suðurhluta Norðhumbríu, Austur-Anglíu og Mersíu. Árið 870 lögðu víkingar síðan til atlögu við eina sjálfstæða Engil-Saxneska konungdæmið sem eftir var, Wessex en herir Wessex voru undir stjórn Alfreðs og eldri bróður hans Aðalrauðs. 871 fór fram mikill bardagi milli Engil-Saxa og víkinga við Ashdown, Engil-Saxar töpuðu þeim bardaga og Aðalrauður féll. Alfreð var aðeins 21. árs gamall og orðinn konungur Engil-Saxa í Wessex. Hann var hins vegar þrjóskur maður og bardagaglaður mjög og var orðinn leiðtogi andspyrnu gegn víkingur á Suður-Englandi. Snemma árs 878 tóku víkingar Chippenham með leifturárás og ætluðu sér að stýra þaðan landvinningum sínum. Þegar þarna var komið hafði Alfreð aðeins lífvarðarsveit sína og lítinn her til umráða og neyddist til þess að beita eins konar skæruliðaárásum, eða s.k. ,,hit and run” árásum og Alfreð hörfaði til Somerset. Alfreð tók til við að byggja rammbyggt virki og réð til sín menn frá Hampshire, Wiltshire og Somerset og byggði upp hreyfanlegan her til þess að gera skæruliðaárásir gegn víkingum. Í maí 878 fór fram mikilvægur bardagi við Edington sem lyktaði með sigri Alfreðs, þessi atburður varð snúningspunktur í stríðinu við víkinga. Alfreð var ljóst að hann gæti ekki rekið víkingana út úr Englandi öllu og gerði þess vegna friðarsamninga við þá, en samkvæmt þeim fengu víkingar að halda eftir svæðum sínum í norður- og austur-Englandi, svokölluðum danalögum. Alfreð gerði sér hins vegar einnig grein fyrir að það þyrfti að byggja upp öflugar varnir fyrir England og þess vegna gifti hann aðra dóttur sína til jarls í Mersíu og hina til greifans af Flæmingjalandi og sjálfur tók hann sér konu frá Mersíu. Þarna komst á bandalag til varnar stranda Englands. Alfreð lagði mikla áherslu á fræðimennsku í ríki sínu, en hann var sjálfur bæði læs og skrifandi og þýddi meðal annars fjölda rita úr latínu. Alfreð var einnig rammkristinn og góður vinur Gregoríusar páfa. En í hans valdatíð var fjöldinn allur af ritum þýdd úr latínu á engil-saxnesku og saga Englands frá því fyrir daga rómverja var m.a. skrifuð að hans skipan. Alfreð mikli byggði upp sterkt og öflugt ríki í Wessex sem gerði það að verkum að Wessex átti eftir að gegna lykilhlutverki í sameiningu Englands undir einn konung, en afkomendur hans á konungsstóli áttu eftir að sölsa undir sig lendur hinna Engil-Saxnesku konunganna á Englandi.

Sonur Alfreðs Játvarður hinn eldri ríkti eftir föður sinn frá 899-924 og hafði faðir hans þjálfað hann rækilega til þess að taka við þessum miklu skyldum. Játvarður var mikill hermaður og og sigraði víkinga i norðhumbríu árið 910 við Tettenhall og var í kjölfarið viðurkenndur af Jórvík, sem hafði verið höfuðvígi víkinga á Englandi. 921 gengust Skotar og konungarnir í Strathclyde honum á hönd. Með herkænsku og mikilli skipulagningu útbreiddi hann ensk áhrif víða og er það að mörgu leyti að þakka bandalagi hans við Mersíu en systir hans var gift konunginum þar og svo virðist sem hún hafi ríkt þar eftir dauða eiginmanns síns. Játvarður lést 924 og hafði þá náð að skipuleggja ríki sitt auk þess sem hann myndaði bandalög við Skota, víkinga og Bretaníumenn. Aðalsteinn tók við af föður sínum 924 og var fyrsti konungurinn til þess að vera krýndur á konungssteini í Kingston-upon-Thames árið 925. Margir halda því ranglega fram að hann hafi verið fyrstur til að ríkja yfir öllu Englandi en hann var engu að síður mikill hermaður og vann mikla sigra bæði í Wales og Cornwall. En þekktastur er hann þó kannski fyrir ósigur sinn gegn sameinuðum her Skota, Walesverja og víkinga í bardaganum við Brunanburh árið 938. Hann lést árið 940Edmundur I tók við af hálfbróður sínum Aðalsteini árið 940. Hans helst afrek var að berja niður uppreisn Mersíuvíkinga. Hann var síðan myrtur í veislu árið 946 aðeins 25 ára gamall og hafði þá ríkt í sjö ár. Edred bróðir hans tók við af honum og ríkti frá 949 til 955. Hann þurfti einnig að berjast við uppreisnar víkinga í norðri og ól syni sína Edví og Edgar til þess að taka við af sér. Edví tók við af föður sínum árið 955, aðeins þrettán ára og var krýndur af Óda, erkibiskup af Kantaraborg, á sama stað og Alfreð mikli ríflega hundrað árum áður. Hann glataði Norðhumrbríu og Mersíu eftir uppreisnir þar og lést áður en hann varð tvítugur.

Edgar varð konungur í Mersíu og danalögum árið 957 og varð síðan konungur Englendinga við fráfall bróður síns 959. Fráfall Edvís bægði líkast til frá yfirvofandi borgarastyrjöld milli þeirra bræðra. Edgar var ekki krýndur fyrr en 973 og fór sú athöf fram í Bath, þá var eiginkona hans fyrsti makinn til þess að vera krýnd drottning yfir Englandi. Undir stjórn hans varð mikil uppvakning á klaustrum og voru fjöldamörg ný klaustur reist í landinu auk nýrra biskupsdæma. Hann setti í fyrsta skipti lög sem náðu yfir allt ríkið og mynt hans var gild alls staðar í ríkinu. Þetta varð til þess að styrkja ríkjasambandið enn frekar en áður hafði verið. Hann lést óvænt 975 33 ára að aldri og var jarðsettur í Glastonburyklaustri í Somerset.

Við óvænt fráfall Edgars urðu miklar deilur milli þeirra sem studdu syni hans Játvarð eða Aðalrauð til valda. Svo fór að eldri sonurinn Játvarður var myrtur í Corfekastala í Dorset af fylgismönnum bróður síns og fékk viðurnefnið píslarvottur. Aðalrauður hinn ótilbúni tók við krúnunni 979 aðeins sjö ára gamall eftir morðið á bróður sínum. Á valdatíð Aðalrauðs varð bróðir hans að einskonar merkisbera óróa í landinu og kirkjan, sem var óvinveitt Aðalrauð, gerði hann að konunglegum píslarvotti. Aðalrauður náði ekki að vinna sér inn traust þegna sinna og 1002 fyrirskipaði hann að allir víkingar í landinu skyldu myrtir til þess að koma í veg fyrir hugsanlegt valdarán. Aðalrauður var lítill hermaður og treysti á hertogann af Normandí til þess að sinna því fyrir sig. Hann mútaði einnig víkingum til þess að gera ekki árásir á landið en það mistókst hrapalega og 1013 flúði Aðalrauður til Normandí og Sveinn tjúguskeggur tók við völdum í landinu. Sveinn þessi var danskur konungssonur og Knútur sonur hans fór til Englands eftir dauða Aðalrauðs og gerði tilkall til krúnunnar.

Þegar Sveinn lést 1014 sneri Aðalrauður aftur en lést sjálfur árið 1016. Edmundur II járnsíða gerði hins vegar einnig tilkall til ensku krúnunnar eftir lát Aðalrauðs og ríkti frá apríl til nóvembers 1016 þegar hann lést en þar áður höfðu Edmundur og Knútur barist um völdin.

Knútur Mikli (1016-1035)

Knútur hinn mikli var eins og áður sagði sonur Sveins tjúguskeggs og komst til valda eftir baráttu við Edmund járnsíðu. Hann tryggði völd sín með því að kvænast Emmu, ekkju Aðalrauðs og seinna varð hann einnig konungur í Danmörku og Noregi og landstjóri í Slésvík og Pómeraníu. Þarna hafði hann skapað norðlægt stórveldi en sökum tíðrar fjarveru sinnar frá Englandi lét hann enska og danska jarla í landinu um að stjórna því en allur infrastrúktur landsins hélst engu að síður óbreyttur. Knútur var fæddur í Danmörku en móðir hans var Gunnhildur dóttir Miezko I af Póllandi en bæði voru þau kristin og var Knútur því af þriðju kynslóð kristinna manna þótt faðir hans væri rammheiðinn allt sitt líf, kristnin féll Knúti hins vegar vel í geð of fór hann m.a. í pílagrímsferð til Rómar. Hann fylgdi föður sínum í innrásina í England og er faðir hans lést 1014 var hann valinn konungur Englands, hann sneri hins vegar aftur til Danmerkur þegar Aðalrauður sneri heim og tók við stjórnartaumum í landinu. 1015 gerði Knútur aðra innrás í England og barðist af hörku móti Aðalrauði og seinna syni hans Edmundi II. Í október 1016 gjörsigraði Knútur Edmund við Ashingdon, Essex. Í kjölfarið hittust þeir félagar í eyju í miðri Severnánni og sömdu um að skipta landinu á milli sín. Mánuði seinna lést Edmundur hins vegar og Knútur varð konungur yfir landinu öllu. Til að innsigla völd sín kvæntist hann ekkju Aðalrauðs, Emmu dóttur Ríkharðs óttalausa hertoga af Normandí. 1017 skipti hann Englandi upp í fjórar sýslur að dönskum sið og skipaði jarl yfir hverja þeirra. Þetta fyrirkomulag hélt síðan næstu aldir. 1018 varð hann konungur í Danmörku við lát bróður síns Haraldar II og 1028 réðst hann inn í Noreg og náði þar völdum. Völd hans héldust þó ekki lengi þar og Magnús II tók þar við stjórnartaumum eftir byltingu og Norska konungsveldið var endurreist. Konráð II keisari hins heilaga rómverska heimsveldis var vinveittur Knúti og við brúðkaup sonar Konráðs og dóttur Knúts fékk Knútur yfirráð yfir Slésvík og Pómeraníu. Knútur lést 12. nóvember 1035 og var grafinn í Winchester.

Synir Knúts skiptu veldi hans á milli sín þannig að Knútur fékk Danmörku en Haraldur hérafótur fékk England. Þegar Haraldur lést 1039 varð Knútur konungur í báðum ríkjunum. Knúti hafði verið ætlað að ríkja á Englandi frá byrjun til þess að tryggja friðsamleg samskipti við Normani, en móðir hans var eins og áður sagði þaðan. Þetta gekk hins vegar ekki eftir þegar Knútur varð upptekinn af málum í Danaveldi og eins og áður sagði tók hann ekki við völdum þar fyrr en eftir dauða bróður síns. Hann lést 1042 og þar með lauk konungsetu Dana á Englandi. Við honum tók Játvarður III en hann var sonur Aðalrauðs og Emmu og því hálfbróðir Knúts. Þar sem Knútur dó barnlaus og Játvarður átti enga bræður á lífi og hann var því óumdeilanlegur konungur Englands. Játvarður var alinn upp í útlegð í Normandí og samúð hans með normönum skapaði óvild við Guðvin jarl af Wessex, Játvarður giftist að vísu dóttur Guðvins en hjónabandið varð barnlaust. Þessi spenna milli konungs og jarls skapaði mikla krísu á árunum 1050-1052 þegar Guðvin safnaði liði gegn kóngi. Með liðstyrk frá jörlunum af Mersíu og Norðhumbríu sendi Játvarður Guðvin hins vegar í útlegð og bannfærði konu sína frá hirðinni, hann notfærði sér einnig þetta valdatóm í landinu til þess að skipa Normani í áhrifastöður. Sagt er að Játvarður hafi lofað Vilhjálmi hertoga af Normandí stöðu konungs eftir sinn dag en fjandsamlegar móttökur enska aðalsins við þeirri frétt varð til þess að Játvarður fór í bandalag við Harald son Guðvins og nefndi hann erfingja sinn á banabeði. Síðustu fimmtán ár veldistíma Játvarðar einkenndust af miklum friði og velmegun fór rísandi sökum mikilla umbóta í landbúnaði. Hann var gríðarlega trúaður og lét m.a. reisa Westminster Abbey þar sem hann var síðann grafinn árið 1066. Daginn eftir dauða Játvarðs lét Haraldur krýna sig konung í Westminster Abbey aðallega vegna þess að hann var ekki vitund konungborinn auk þess sem Vilhjálmur af Normandí gerði kröfu til krúnunnar á móti honum. Hann ríkti aðeins í tíu mánuði árið 1066 en sannaði sig sem klókan herforingja á þeim tíma. Sem dæmi hrakti hann innrás Norðmanna í England og mannfallið í þeim bardaga var svo gríðarlegt að Norðmenn þurftu 25 skip til þess að flytja hina föllnu heim. Á sama tíma hafði Vilhjálmur hins vegar bundið skip sitt við bryggju í Sussex og hélt því fram að Haraldur hafi staðfest sig sem erfingja Játvarðs árið 1064. Voru í liði Vilhjálms um 2000 manns á 300 hestum og 100 skipum. Haraldur sendi her sinn upp á 2000 manns suður til móts við Vilhjálm en bar ósigur við Hasting í einum frægasta bardaga enskrar sögu. Haraldur sjálfur féll í bardaganum þegar hann fékk ör í augað og var síðan veginn með sverði normana. Vilhjálmur lét síðar reisa kirkju á staðnum þar sem Haraldur féll og standa rústir Battley Abbey enn þann dag í dag, en steinhella merkir nákvæmlega staðinn þar sem Haraldur féll. Edgar II kom af stað uppreisn gegn Normönsku innrásinni og náði völdum í tæpa tvo mánuði en var síðan sigraður af Vilhjálmi.
Með sigri Vilhjálms á engilsöxum 1066 hófst skeið Normana á konungsstóli og mun ég því láta staðar numið hér. Grein um valdaskeið Normana mun hins vegar vonandi birtast innan tíðar.