Stríð og friður (en sú klisja að velja svona nafn) Ég hef löngum verið að pæla í þessum “stríð er aldrei réttlætanlegt” málflutningi, meðal annars er grein þess efnis á Heimspeki áhugamálinu núna. Það er alveg ótrúlega algeng skoðun nútildags að hernaður sé alltaf af hinu slæma, og að eina leiðin til friðar sé að afvopnast. Mig langar aðeins að hugsa þetta mál, útfrá sagnfræðilegum grunni.

“Ofbeldi leysir engan vanda” heyri ég sagt. Málið er nú ekki alveg það einfalt. Seinni heimstyrjöldin var t.d. næstum óumflýjanleg, af því að Versalasamningarnir eftir fyrri heimsstyrjöldina voru svo ótrúlega harðir gagnvart Þjóðverjum að þeir hlutu á endanum að brjóta þann samning. Var bara spurning um hvenær og hvernig, ekki hvort.

Að sama skapi var það nauðsynlegt af Bretum, Rússum og að lokum Bandaríkjunum að fara í stríð við Hitler, þarsem hann hafði margsannað að hann bar enga virðingu fyrir samningum og var í þokkabót að fremja alls kyns voðaverk í Evrópu sem varð að stöðva.

En ef maður leitar í rót vandans, þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir seinni heimstyrjöldina annaðhvort með sanngjarnari samningum eftir þá fyrri, eða með því að koma í veg fyrir þá fyrri. Sem hefði þó verið erfitt því að Evrópa var gjörsamlega á suðupunkti með alls kyns leynileg hernaðarbandalög til og frá og enginn var í rónni og enginn þorði að vera fyrstur til að hætta að byggja upp her, og að lokum verður það þannig að þú getur ekki haft nema svo og svo stóran her nema þú annaðhvort hættir að byggja hann upp, eða þú farir að nota hann.

Að sama skapi hefði mögulega mátt koma í veg fyrir þessa spennusöfnun ef Bismark hefði farið öðruvísi að því að sameina Þýskaland u.þ.b. 50 árum fyrr, ef ég man rétt. Hann gerði það með því að fara í stríð þvers og kruss, við Danmörk, og seinna Frakkland, eftir að pólitískar umleitanir höfðu brugðist áratugum saman. Og sannfærði þannig stóran hluta Þjóðverja um að viðræður væru svosem allt í lagi stundum, en þegar mikið lægi við eða illa gengi þá væri hernaður svarið. Þannig var Bismark í raun rótin að báðum heimsstyrjöldum, en það er ómögulegt að segja til um hvernig heimurinn væri ef þetta hefði ekki farið svo. Gleymum því ekki að heimstyrjaldirnar höfðu ekki bara slæmt í för með sér, fyrir utan tækniþróunina sem varð, þá kenndu þær okkur hvað stríð eru slæm og að við ættum að forðast þau, enda gerast stríð ekki lengur milli helstu þátttakenda heimsstyrjaldnna, nú eru þeir allir meira og minna vinir. Heldur aðallega við þjóðir sem tóku aldrei þátt í heimstyrjöldunum, eða þeirra á milli. Eitt stærsta skrefið í jafnréttisbaráttu kvenna kom einnig á þessum tíma, því að þegar karlarnir fóru á vígvöllinn, eiginlega langflestir þeirra þegar mest var, þá þurftu þær að taka við á vinnumarkaðnum heima á hinum ýmsu sviðum til að halda hjólunum gangandi og sýndu þarmeð í eitt skipti fyrir öll að konur eru vel hæfar til að vinna sömu vinnu og karlar. Ofan á þetta allt bætist það að Seinni heimsstyrjöldin batt endanlega lokahnút á kreppuna miklu, sem var að fara alveg með Bandaríkin og mörg Evrópuríki (sérstaklega Þýskaland)

Hatur á Gyðingum fékk einnig þvílíka útrás á þessum tíma að þó svo það sé eiginlega of skelfilegt til að hugsa sér dauða alls þessa fólks, þá leiddi það samt til betri lífshátta fyrir þá Gyðinga sem lifðu af, ótrúlega fáir myndu í dag segjast vera á móti Gyðingum, en fyrir seinni heimstyröldina var það frekar normið en hitt að vera á móti þeim.

Nú er auðvitað farið að skína í það að afkomendur þessara helstu fórnarlamba seinni heimstyrjaldarinnar eru ekkert öðruvísi en við hin, alveg jafn misgóð og misslæm. Helsta dæmið er auðvitað vitleysisgangurinn í Ísrael. Sem aftur er fullkomið dæmi um stríð sem koma mætti í veg fyrir ef menn væru ekki með hausinn uppi í rassinum á sér og væru tilbúnir til að fókusa á eitthvað annað en trúarbrögð og það hverjir eigi rétt á landi sem er löngu hætt að vera þess virði sem hefur verið fórnað í þess nafni.

Íraksmálið hefur vissan aðdraganda, Bandaríkin eru um margt háð ólíu frá miðausturlöndum, og beita í því skyni sínum áhrifum til að tryggja að olía haldi áfram að koma þaðan (annað væri í raun heimska, þarsem þeir gætu ekki meikað það án þessarar olíu). Þessvegna var það mikilvægt að vernda Kúvæt, eins og þeir höfðu lofað að gera, þegar Saddam Hussein réðist á það. Mestmegnis til að missa ekki andlitið gagnvart öðrum þjóðum á svæðinu sem seldu þeim einnig olíu meðal annars gegn loforði um vernd ef til þess kæmi.

Svo að fyrra Persaflóastríðið er býsna hreint og klárt dæmi um “Við lofuðum að verja þá ef ráðist væri á þá, og þið réðust á þá.” Og ekki beint hægt að vera fúll yfir því, nema maður vilji fara út í hvurs lags ríkisstjórnir og valdhafa þeir voru búnir að lofa að vernda. Eins og með heimsstyrjaldirnar endaði fyrra Persaflóastríðið með Írak í ástandi sem var hvorki fugl né fiskur og það blasti við að það gæti ekki verið þannig til frambúðar. Munurinn felst í því að það var ekki Írak sem byggði sig upp og fór í stríð til að endurheimta það sem hafði verið tekið af þeim, enda heimurinn búinn að læra sína lexíu eftir að horfa á Þýskaland. Svo að Bandaríkjamenn gerðu hlut sem verður seint full útrætt hvort hafi verið rétt eða rangt, en þeir fóru eins og allir vita og luku verkinu sem þeir hófu fyrir 10 árum.

Nú höfum við stöðu í Írak sem er engan vegin ásættanleg, Bandaríkin eru að rembast við að vera hersetulið án þess þó að vera vondi karlinn, hinir ýmsu hópar frá nágrannalöndum eru að grípa gæsina og ráðast á þá meðan þeir eru í höggfæri. Alls kyns áhrifahópar og menn eru að reyna að komast yfir eins mikinn skerf af kökunni og þeir geta meðan allt er í upplausn, og jafnvel sumir eru að beita sínum áhrifum til að tilraun Bandaríkjanna til að koma á einhvers konar virkandi samfélagi í Írak mistakist, bara til að þeir geti ekki sagt “Hey, þetta fór þó allt vel að lokum” þegar upp er staðið, alveg burtséð frá því hvað er best fyrir Írakana sjálfa. Svo er það hitt að Bandaríkin vilja hafa stjórn í Írak á endanum sem er þeim allavega nokkuð velviljuð, sem skarast soldið á það að langflestir Írakar treysta þeim ekki bofs, og ótrúlega margir hata þá í tætlur. Hvernig getur ríkisstjórn sem er þeim velviljuð komið út úr frjálsum kosningum í landi sem er þeim ekki velviljað?

Fyrir mitt leiti trúi ég því að Bush hafi trúað því sem hann sagði um gereyðingarvopn, þ.e.a.s. ég trúi ekki að þetta hafi verið vísvitandi blekking, því hann hlyti að hafa vitað hvernig það liti svo út ef þeir væru ekki með þannig vopn eftir að hann sagði það. Annars skiptir það ekki öllu máli í mínum huga, það sem skipti máli er að innrás í Írak og fjarlæging Saddams Hussein var með því skárra sem hægt var að gera, úr því sem komið var, auðvitað hefði bara átt að ljúka þessu 1991-1992 en ekki láta þetta fólk bíða í millistigsástandi í áratug. Ef maður mætti fara enn lengra aftur í tímann væri e.t.v. réttara að lofa ekki að vernda Kúvæt, sem kannski breytir ekki miklu því það er ósanngjarnt gagnvart Kúvæt að láta Hussein vaða yfir þá, og ósanngjarnt gagnvart Írökum að leyfa Hussein að halda ófram að vaða yfir þá. Þetta er þessi klassíska spurning, hvenær hefur maður rétt á að grípa inní til að hjálpa einhverjum, sem e.t.v. hefur ekki áhuga á að þiggja hjálp frá manni. Svarið virðist vera, frá Bandaríkjanna hálfu. “Þegar maður á sjálfur hagsmuna að gæta á svæðinu”. Svo að maður ætti að fara varlega í að setja þá í of mikinn hetjuljóma. Jafnvel þó svo maður komist að þeirri niðurstöðu, eins og ég, að það sem þeir gerðu hafi verið nokkurn veginn óumflýjanlegt. Því að þegar öllu er á botninn hvolft þá gerðu þeir það sem þeir gerðu til að hjálpa sjálfum sér, þó svo á endanum gæti farið svo að fleiri græði á því.

Sumir virðast halda að Ísland eigi ekki að hafa neinn her, ekki að vera í NATO og vera hlutlaust í öllum deilum. Og þar finnst mér vera galli í ráðagerðinni. Hlutleysi er alls ekki það sama og vopnleysi, ef maður er óvarinn og hlutlaus, er mjög auðvelt fyrir hvern sem er að hertaka mann ef hann ber ekki virðingu fyrir því að maður vill standa fyrir utan deilurnar. Einnig koma stundum upp deilur þar sem annar aðillinn er augljóslega verri en hinn, og finnst mér þá aumingjaskapur að þykjast ekki sjá muninn í nafni friðar(aftur tek ég seinni heimsstyrjöldina sem dæmi)

Friðarstefna færir manni ekki frið nema allir fylgi henni, annars verður maður bara auðvelt skotmark.

Mergurinn málsins er að stundum þarf að grípa til vopna, það er óumflýjanlegt að einstaka sinnum komi upp brjálæðingar eða hópar sem taka engum sönsum og ráðast á hvað sem fyrir verður. Það hefur gerst áður og mun gerast aftur. Þá þarf að koma til þess að fólk sem er tilbúið til að leggja sig í hættu til að vernda þá sem þeim þykir vænt um geri það sem gera þarf til að bjarga því sem bjargað verður. Hvar værum við t.d. í dag ef Bretar hefðu ekki ákveðið að standa upp á móti Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni. Þeir gerðu það því þeir vissu að það væri rétt að gera það, ekki af því að þeir héldu að þeir myndu græða mikið á því. Því miður eru fæstar stríðsyfirlýsingar svona göfugar. Flest eru stríð annaðhvort háð til að skemma fyrir öðrum, eða til að græða sjálfur. Hvort sem það er í nafni þjóðernishyggju, trúarbragða eða heimspeki. Að mínu mati eru einu stríðin sem eru réttlætanleg stríð sem eru háð eingöngu í varnarskyni, og stríð sem eru háð til þess að stöðva brjálæðinga sem svífast einskis og níðast á sínum eigin borgurum eða fólki sem þeir hernema.

Fer allt vel að lokum í Írak? Munu Ísraelar og Palestínumenn taka hausana útúr rössunum? Mun Al-quada átta sig á því að BNA eru ekki Satan heldur bara eiginhagsmunaseggir og að vandamál Araba felast frekar í gölluðu stjórn- og efnahagskerfi? Tíminn mun leiða það í ljós.
Betur sjá augu en eyru