Hrafnagaldur Óðinns Ég veit ekki alveg hvort þetta á heima hérna en veit bara ekki hvar annarsstaðar það ætti að fara.
Allavegana, undanfarið hef ég mikið verið að stúdera kvæðið Hrafnagaldur Óðinns og ákvað að skella hugmyndum mínum um það hér inn ásamt kvæðinu (athugasemdir innan sviga eru pælingar mínar um kenningar og heiti) og þætti mjög gaman að heyra hvað þið haldið.
Kvæðið er talið ritað á 13. eða 14. öld og er því talsvert yngra en Eddukvæðin þó af öllu virðist greinilegt að höfundur þess hefur þekkt þau vel og líklega líka Snorra-Eddu ef marka má sumar kenningarnar. Það fannst varðveitt á nokkrum skinnhandritum og hefur enn ekki verið skipað með Eddukvæðunum þó mér finnist það alveg eiga heima með þeim.
Fullu nafni heitir kvæðið Hrafnagaldur Óðinns - Forspjallskvæði, sem gefur til kynna að það lýsi upphafinu eða inngangi að einhverju.
Textinn styður það líka að vissu leyti þar sem það lýsir óöld í heiminum sem verður til þess að Óðinn sendir nokkur goð að leita ráða hjá dís nokkurri sem nefnd er mörgum mismunandi nöfnum s.s Iðunn, Jórunn, Nauma ofl. Hún er sögð vera álfa ættar og er líklega einhverskonar völva. Hún getur hinsvegar ekkert ráðlagt þeim og endar kvæðið á því að þeir koma heim í veislu og segja farir sínar ekki sléttar. Undir lok veislunnar biður Óðinn alla að hugsa upp ráð fyrir Æsina. Í lokavísu kvæðisins er líst þegar nýr dagur rennur upp og Heimdallur blæs í Gjallarhornið.

Hrafnagaldur Óðins

Alföður orkar
álfar skilja
vanir vitu
vísa nornir
elur íviðja
aldir bera
þreyja þursar
þrá valkyrjur

Ætlun æsir
illa gátu
veður villtu
vættar rúnum;
Óðhræris skyldi
Urður geyma
máttk at verja
mestum þorra

Hverfur því Hugur
himna leitar,
grunar guma
grand ef dvelur;
þótti er Þráins
þunga draumur,
Dáins dulu (dvergur)
draumur þótti

Dugur er með dvergum
dvína, heimar
niður að Ginnungs
niði sökkva;
oft Alsviður
ofan fellir,
oft af föllnum
aftur safnar.

Stendur æva
strind né röðull,
lofti með lævi
linnir ei straumi
mærum dylst
í Mímis brunni
vissa vera;
vitið enn, eða hvað?

Dvelur í dölum
dís forvitin,
Yggdrasils frá
aski hnigin;
álfa ættar
Iðunni hétu,
Ívalds eldri (Faðir dverganna sem gerðu
yngsta barna. skíðblaðni)

Eirði illa
ofankomu,
hárbaðms undir
haldin meiði;
kunni síst
að kundar Njörva, (jötunn, faðir Nóttar)
vön að værri
vistum heima.

Sjá sigtívar
syrgja Naumu
viggjar að véum;
vargsbelg seldu,
lét í færast,
lyndi breytti,
lék að lævísi,
litum skipti.

Valdi Viðrir (óðinn?)
vörð Bifrastar
Gjallar sunnu
gátt að frétta,
heims hvívetna
hvert er vissi;
Bragi og Loftur
báru kviðu.

Galdur gólu,
göndum riðu,
Rögnir og Reginn
að ranni heimis;
hlustar Óðinn
Hliðskjálfu í;
leit braut vera
langa vegu.

Frá enn vitri
veiga selju
banda burður
og brauta sinnar;
hlýrnis, heljar,
heims ef vissi
ártíð, æfi,
aldurtila.

Né mun mælti,
né mál knátti
Gefjun greiða,
né glaum hjaldi;
tár af tíndust
törgum hjarnar,
eljunfaldin
endurrjóða.

Eins kemur austan
úr Élivágum (eiturár)
þorn af akri
þurs hrímkalda,
hveim drepur dróttir
Dáinn allar (dvergur eða hjörtur)
mæran of Miðgarð
með nátt hverri

Dofna þá dáðir
detta hendur,
svífur of svimi
sverð áss hvíta; (Heimdallur er hinn hvíti áss og sverð er
rennir örvit kenning fyrir höfuð hans)
rýgjar glyggvi, (rýgr = kona)
sefa sveiflum
sókn gjörvallri

Jamt þótti Jórunn
jólnum komin,
sollin sútum,
svars er ei gátu;
sóttu því meir
að syn var fyrir,
mun þó miður
mælgi dugði.

Fór frumkvöðull
fregnar brauta,
hirðir að Herjans (óðinn)
horni Gjallar; (Heimdallur)
Nálar nefa (Nál er Laufey, móðir Loka)
nám til fylgis, (loki)
greppur Grímnis (Bragi)
grund varðveitti.

Vingólf tóku
Viðars þegnar,
Fornljóts sefum
fluttir báðir;
iðar ganga,
æsi kveðja
Yggjar þegar (Óðinn)
við ölteiti.

Heilan Hangatý (óðinn)
heppnastan ása,
virt öndvegis
valda báðu;
sæla að sumbli
sitja día,
æ með Yggjungi (óðinn, Yggr)
yndi halda

Bekkjarsett
að Bölverks ráði (óðinn)
sjöt Sæhrímni (gölturinn sem er étinn)
saddist rakna;
Skögul að skutlum (valkyrja)
skaptker Hnikars (óðinn)
mat af miði
Mímis hornum.

Margs of frágu
máltíð yfir
Heimdall há goð,
hörgar Loka,
spár eða spakmál
sprund ef kenndi,
undorn of fram,
unz nam húma.


Illa létu
orðið hafa
erindleysu
oflítilfræga;
vant að væla
verða myndi,
svo af svanna
svars of gæti.

Ansar Ómi (óðinn)
allir hlýddu:
,,Nótt skal nema
nýræða til;
hugsi til myrgins
hver sem orkar
ráð til leggja
rausnar ásum!”

Rann með röstum
Rindar móður (Rind var ein kona óðins,
fóðurlarður móðir vála)
fenris valla;
gengu frá gildi
goðin, kvöddu
Hropt og Frigg
sem Hrímfaxa fór. (hesturinn sem dró nótt)

Dýrum settan
Dellings mögur (Dagur)
jó fram keyrði
jarknasteinum:
mars of Manheim
mön af glóar,
dró leik Dvalinns
drösull í reið.

Jörmungrundar
í jódyn nyrðra
und rót yztu
aðalþollar
gengu til rekkju
gýgjur og þursar,
náir, dvergar
og dökkálfar.

Risu raknar,
rann álfröðull,
norður að Niflheim
njóla sótti; (njóla = nótt)
upp nam Árgjöll
Úlfrúnar niður,
hornþytvaldur
Himinbjarga.


Kvæðið virðist lýsa upphafi Ragnaraka, þar sem Eddan segir að Heimdallur blási í hornið við upphaf þeirra. Margir hafa hinsvegar viljað halda því fram að mikið vanti aftaná kvæðið þar sem Heimdallur gæti vel verið að blása í Gjallarhornið til að kveða Æsina á fund. Er það einnig í samræmi við það sem undan er gengið. Einnig er ekkert minnst á hrafna í kvæðinu sem er undarlegt þegar virtur er titill þess. Einnig skilur endirinn við okkur svolítið í lausu lofti sem er ekki vanalegt fyrir kvæðabálka af þessu tagi.
En hvað sem því líður er þessi munaðarleysingi mjög fallegt kvæði sem vel á heima með öðrum íslensku fornkvæðunum.
Ég hefði mjög gaman af að heyra hvað ykkur finnst.
Kv
Nishanti
www.blog.central.is/runin