Gamlar götur í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu framhald:
Grein eftir Örn H. Bjarnason

Hvítan hest í hnjúkinn ber
hálsinn reynir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
þá er fært um Stórasand.

Skreið var afar mikilvæg útflutningsvara sérstaklega þegar stríð geisaði suður í Evrópu. Hún var notuð til að fæða heilu herina. Það má nærri geta að t.d. 30 ára stríðið hefur verið mikill hvalreki fyrir Íslendinga. Skreið var næringarrík og auðveld í meðförum. Vaðmál var líka góð verslunarvara. Hlý föt hljóta herir Napóleons að hafa þurft í Rússlandsförinni. Það er kalt í Rússlandi á veturna og margir króknuðu í sókn Napóleons að Moskvu.

Undir lok nítjándu aldar fer Þorvaldur Thoroddsen Stórasand. Hann segir Sandinn skiptast í fjóra parta. Sá fyrsti nær að Ólafsvörðum, annar að Beinakerlingu, en þá fer að halla norður af. Þriðji nær að Grettishæð og sá fjórði að Sandkvísl.

Ólafsvörður heita svo eftir Ólafi Hjaltasyni biskupi á Hólum í Hjaltadal sem uppi var á sextándu öld. Hann hafði verið á ferð um Stórasand er dimmviðri skall á. Lét hann þá sveina sína hlaða vörður til að þeir mættu halda á sér hita.

Einnig lá leið um Fljótsdrög í Kráksskarð fyrir norðan Krák á Sandi og þaðan um Djöflasand á Hveravelli. Þarna fór undirritaður fyrir fáeinum árum með Borgfirðingum og nokkrum útlendingum hringinn í kringum Langjökul.

Ferðir norður í Húnaþing og hringinn í kringum Langjökul
Í þessari grein eru mínar eigin ferðir ekki í brennidepli þó að ég hafi farið margt af því sem hér er til umfjöllunar. Samt læt ég hér fljóta með dagleiðir í tveimur hestaferðum, sem ég fór árið 1996 og 1997.

Ferð hringinn í kringum Langjökul í júlí 1996:
Á lausum blöðum með dagsetningunni 17.júli það ár sé ég þessa athugasemd: “Dauðkvíði fyrir þessari ferð hringinn í kringum Langjökul. Að maður skuli vera að leggja það á sig að hossast á hestbaki í 9 daga og éta kramdar samlokur úr vasa sér.” Ekki bætti úr skák að á korti hafði ég séð nöfnin Djöflasandur og Dauðsmannsgil á leiðinni úr Kráksskarði að Hveravöllum. Svo var það þokan. Ef yrði nú þoka og engar vörður þarna. Við kæmumst örugglega aldrei alla leið.

Á þessu sama blaði stendur dagsett 18. júlí: “Þvoði sokka og nærbuxur.” Svo hófst ferðin og voru dagleiðir þessar:



23. júli Hurðarbak í Reykholtsdal að Húsafelli.
24. júlí Frá Húsafelli í Álftakrók.
25. júlí Úr Álftakrók í Fljótsdrög.
26. júlí Úr Fljótsdrögum um Kráksskarð á Hveravelli.
27. júlí Frá Hveravöllum um Þjófadali að Hvítárvatni.
28. júlí Frá Hvítárvatni austan við Bláfell í Fremstaver og að Geysi.
29. júlí Frá Geysi um Kóngsveg að Hjálmsstöðum í Laugardal.
30. júlí Frá Hjálmsstöðum um Klukkuskarð í Karl og Kerlingu undir Skjaldbreið og í Gatfell.
31. júlí Úr Gatfelli um Tröllháls á Okveg hjá Brunnum að Rauðsgili og niður Bugana hjá Reykjadalsá að Hurðarbaki.


Eftir að við höfðum öll hasast í lag gekk ferðin ljómandi vel.

Og svo er það ferð úr Borgarfirði norður í Húnavatnssýslu árið 1997.

23. júlí Frá Húsafelli í Álftakrók.
24. júlí Úr Álftakrók í Haugakvíslarskála.
25. júlí Frá Haugakvíslarskála að Hnjúki í Vatnsdal. Gist í Galtanesi í Víðidal.
26. júlí Hvíldardagur og ekið um Vatnsnesið. Gist í Galtanesi.
27. júlí Frá Hnjúki í Vatnsdal um Þingeyrar og Þingeyrarsand hjá Borgarvirki að Galtanesi.
28. júlí Frá Galtanesi að Bjargarstöðum í Austurárdal.
29. júlí Frá Bjargarstöðum að Úlfsvatni.
30. júlí Frá Úlfsvatni að Húsafelli.
31. júlí Frá Húsafelli niður Bugana hjá Reykjadalsá hjá Giljafossi að Hurðarbaki í Reykholtsdal.

Það er engin leið að lýsa þeim hughrifum sem maður verður fyrir í svona hestaferð. Það er líkt og einhvers konar sprenging verði í sálinni, hreinsun sem maður býr að lengi á eftir.

Þarna uppi á heiðunum blasti við okkur Tröllakirkja í vestri og Eiríksjökull og Eiríksnípa þangað sem Eiríkur útilegumaður í Surtshelli flýði undan byggðamönnum. Þeir náðu að höggva af honum annan fótinn en lifandi slapp hann: “Með annan fótinn fór ég burt fáir munu eftir leika,” eins og þessi Eiríkur mun hafa ort. Þarna sást líka Krákur á Sandi. Og mikið var gott að koma í skálann hjá Úlfsvatni eftir langan dag á hestbaki. Drottinn minn dýri, kaffisopinn á meðan þreytan var að líða úr manni.

Kvöldfagurt var þarna við vatnið og veiðisælt mun það vera enda leituðu útilegumenn gjarnan þangað. Frá því segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er Hafliða á Aðalbóli í Austurárdal lenti saman við útilegumann á Úlfsvatni.

Löngum þótti reimt þarna í gamla skálanum en okkur létu draugar í friði nema hvað einn sá til þess að sprakk á trússbílnum þannig að kvöldmatnum seinkaði.

Úr því ég minnist á útilegumenn þá rifjast upp fyrir manni hversu margir urðu auðnuleysinu að bráð þegar svarf að þjóðinni. Þá var gott fyrir þetta fólk að leita í matarkistuna þarna uppi á heiðunum, glænýr silungur í forrétt og lambakjöt í aðalrétt. Margur stórborgarflækingurinn sem sækir sér súpudisk í góðgerðareldhúsin hefði ugglaust þótt sér vel borgið á Arnarvatnsheiðinni, nema hvað svo kom veturinn, sauðfé allt komið til byggða og vötn ísilögð. Þá var ekki gaman lengur. Hvílíkt heljarmenni hlýtur Fjalla-Eyvindur ekki að hafa verið að lifa af við þessar kringumstæður.

Úr því minnst er á Fjalla-Eyvind má geta þess að Sigurður Sigurðsson landsþingsskrifari frá Hlíðarenda stakk upp á því, að Eyvindi yrði gefnar upp sakir gegn því að hann aðstoðaði við að vísa á leiðir milli Suður- og Austurlands. Hann hefði örugglega verið góður leiðsögumaður á þessum slóðum.

Ég minntist hér að ofan á Jón heitinn Helgason. Ég hef smám saman verið að átta mig á því hvílíkur atgervismaður hann hlýtur að hafa verið, að sitja inni á safni áratugum saman að rannsaka gömul handrit. Þá held ég að sé auðveldara að hossast Okveginn á hestbaki eða ríða hringinn í kringum Langjökul a.m.k. í björtu veðri.

Andleg vinna hlýtur að vera ótrúlega lýjandi til lengdar. Kunningi minn sagði mér eitt sinn að Sigurður heitinn Nordal hafi ekki farið á fætur fyrr en klukkan þrjú á daginn. Hann skrifaði í rúminu og hafði fjöl ofan á sænginni fyrir skrifborð. Hann treysti sér ekki til að sitja uppi við og skrifa samtímis.

Sveitungi Snorra í Reykholti og Jóns Helgasonar Flosi Ólafsson á Bergi í Reykholtsdal skrifar sitjandi. Hann er líka vel að manni ekki síst eftir að hann lét gera við hjartað í sér. Það varð ég vitni að þegar við fórum ríðandi hringinn í kringum Langjökul saman. Annar kunningi minn hefur sagt mér, að allir afkastamiklir rithöfundar hafi góða matarlyst. Flosi hefur góða matarlyst.

Þetta sá ég á Hveravöllum í júlí 1996. Matarbíl okkar hafði seinkað og kom ekki fyrr en undir lágnætti. Þar sem við vorum stödd þarna banhungruð nasaði Flosi uppi kjötsúpu hjá Fáksfólki í næsta skála. Rjóður og mettur og sæll reytti hann af sér nokkrar skemmtisögur. Út á það fengum við hin líka kjötsúpu. Svona halda listamenn í sér líftórunni.

Fleiri hafa verið svangir á Hveravöllum. Fræg er sagan um Magnús sálarháska sem gerði tilraun til að liggja úti þar. Hans fyrsta verk var að stela lambi eins og útilegumenn eiga að gera. Lambið sauð hann í hver en því miður sökk það nema hvað lungun flutu upp. Fyrstu vikuna lifði Magnús á lungunum, aðra vikuna á eigin munnvatni , en þriðju vikuna á Guðsblessun einni saman. Það fannst honum áberandi verst.

Það segir sig nokkuð sjálft að frásögn þessi er ekki kanínur sem ég hef galdrað upp úr eigin hatti, heldur hef ég víða leitað fanga þó að ég láti heimilda ekki alltaf getið. Traustustu heimildir mínar tel ég vera Sýslu- og sóknalýsingar frá því um miðja 19. öld. Annað er samtíningur úr ýmsum áttum stutt þeirri reynslu, sem ég hef fengið í eigin ferðum. Þar sem ég hef ekki farið sjálfur á hestbaki finnst mér ég oft vera dálítið eins og úti á rúmsjó.

Þegar ég var unglingur í brúarvinnu var verkstjóri minn Leópold Jóhannesson síðar veitingamaður í Hreðavatnsskála. Hann kenndi okkur strákunum að saga spýtur eftir máti. Við áttum alltaf að nota sömu spýtuna sem mát, en ekki taka nýja og nýja. Þá myndaðist skekkja, sagði hann. Eins er með heimildir. Frumheimildin er öruggust, en þegar einn hefur eftir öðrum verður frásögnin afbökuð og skæld.

Mörgum á ég upp að una varðandi heimildir, en einum vil ég þakka sérstaklega. Það er Jónas Hallgrímsson listaskáldið góða. Hann vann manna ötullegast að því að láta gera Sýslu- og sóknalýsingarnar. Sjálfur var Jónas duglegur ferðamaður. Á bak við það sem virðast vera áreynslulaus ljóð hans lá djúp þekking og ást á náttúru þessa lands. Ísland var ekki bara í hausnum á honum, það var í öllum skrokknum, út í hvern taugaenda.

Það er til siðs í ferðalýsingum að hæla eldabuskunni og fararstjóranum. Ferðir þær sem ég minntist á hér að ofan voru farnar undir leiðsögn Ólafs Flosasonar á Breiðabólsstað í Reykholtsdal, en um matinn sá konan hans Beta. Þau hjónin þurfa ekki á mínu hrósi að halda. Ferðir þeirra mæla með sér sjálfar.

Og gaman er að ferðast með Borgfirðingum. Þar í sveit geta nánast allir sagt skemmtisögur. Sjálfur hef ég líka reynt mig við skemmtisögur. Í fyrra skiptið var í Fljótsdrögum árið 1996, kvöldið áður en við riðum um Kráksskarð á Hveravelli. Það mislukkaðist hjá mér.

Árið eftir þann 31. júlí í kveðjukvöldverði að Hurðarbaki í Reykholtsdal sagði ég aðra skemmtisögu. Hún var um Magnús sálarháska og lungun, munnvatnið og Guðsblessunina. Það mislukkaðist líka og kenni ég því um, hversu maturinn var girnilegur hjá Betu og Ásthildi á Hurðarbaki. Síðan hef ég ekki reynt mig við skemmtisögur.

Hér á undan er minnst á Garða-Björn sem var samferða Tryggva Gunnarssyni frá Reykjavík til Akureyrar. Synir hans voru m.a. séra Björn í Laufási og Hjörleifur bóndi á Hofstöðum á Snæfellsnesi, mætur maður á sinni tíð.

Hjörleifur þessi hafði gaman af að segja ferðasögur og góða frásagnargáfu var hann sagður hafa haft. Stundum gleymdi hann sér hins vegar og urðu sögurnar þá ef nokkuð lengri en sjálft ferðalagið. Þetta reyndi mjög á áheyrendur og aðeins þrekmestu menn náðu að hlusta á sögurnar allt til enda.

Ég vil síður falla í sömu gryfju og Hjörleifur og læt þess vegna þessari ferðasögu minni um Mýra- og Borgarfjarðarsýslu lokið að sinni. Öllum þakka ég samfylgdina líka þeim, sem kunna að hafa gefist upp í einhverri keldu eða heiðarbrekkunni.

Ritað árið 2001