Gamlar götur í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu

Eftir Örn H. Bjarnason

Austurstræti og Laugavegur geyma margvíslegar minningar en svo er einnig um gamlar reiðgötur.Um Síldarmannagötur fóru t.d. Hólmverjar yfir að Hvammi í Skorradal. Í Biskupsbrekku skammt frá Brunnum andaðist Jón biskup Vídalín. Á Tvídægru lenti Kolbeinn ungi í hrakningum eins og sagt er frá í Sturlunga sögu. Þorvaldsháls heitir svo vegna þess að Þorvaldur einn af Hellismönnum var drepinn þar.

Svona mætti lengi telja en svo mikið er víst að land án sögu er flatt. Það er mannlífið og síkvikar minningar um það fólk sem ferðaðist um þetta land sem gefur því dýpt.

Í þessari grein verður leitast við að lýsa stuttlega reiðleiðum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Farið verður fljótt yfir sögu því ef kafað er um of er hætta á að afvegaleiðast. Ég mun lýsa gömlum leiðum en síður hirða um reiðstíga meðfram vegum. Ég held raunar að því fé sem er til ráðstöfunar í reiðvegagerð væri á margan hátt betur varið í að týna grjót úr gömlum reiðgötum og endurreisa vörður. Persónulega finnst mér ekki eftirsóknarvert að vera með nefið nánast í útblástursrörum bifreiða ótilneyddur og kýs frekar að þræða fornar reiðgötur fjarri alfaraleið.

Leiðir úr Hvalfjarðarbotni
Ég ætla að hefja ferðina í Hvalfjarðarbotni. Þaðan blasir við í Þyrli skarð sem heitir Reiðskarð. Í það liggur leið um Síldarmannabrekkur og á Síldarmannagötur yfir að Sarpi eða Vatnshorni í Skorradal.
Þegar í fornöld hétu göturnar þessu nafni. Það bendir til þess að síldveiðar hafi verið stundaðar í Hvalfirði. Menn hafa getið sér þess til að veiðarnar hafi farið þannig fram, að hlaðinn hafi verið garður þvert yfir voginn og hann notaður við ádrátt þegar fjaraði út. Leifar af þess háttar garði hefur fundist í Grafarvogi í Reykjavík.

Eins og að ofan greinir fóru Hólmverjar Síldarmannagötur að Hvammi í Skorradal og stálu þar yxn Þorgrímu smiðkonu og ráku suður á hálsinn. Uxarnir snéru hins vegar á Hólmverja vegna fjölkyngi Þorgrímu og komust aftur heim í Hvamm. Frá þessu er sagt í Harðar sögu og Hólmverja.

Á einum stað lýsir séra Friðrik Friðriksson ferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðarmótin september-október 1887. Þeir fóru Síldarmannagötur en villtust af leið og komust við íllan leik niður utan við Þyril í staðinn fyrir að fara um Reiðskarð og um Síldarmannabrekkur fyrir vestan Brunná. Með séra Friðriki voru m.a. Steingrímur frá Gautlöndum og Guðmundur Guðmundsson.

Þeim var fylgt upp á brúnina af manni frá Vatnshorni, en þegar þeir komu upp á heiðina var farið að skyggja og vegur aðeins slitróttar götur. Götunum týndu þeir brátt og einnig leiðarmerkjum sem þeim hafði verið sagt frá. Þoka skall á og þeir lentu út í forarflóa og hestana þurftu þeir hvað eftir annað að draga upp úr keldum.

Seinna komu þeir á brún og héldu þar ráðstefnu. Ákveðið var að senda Steingrím og Guðmund á undan til að kanna móinn, óþarfi að fórna öllum ef þarna skyldi vera hengiflug. Séra Friðrik kaus að doka við.

Tvímenningarnir komu brátt aftur og töldu óhætt að fara þarna niður. Á var þarna á vinstri hönd og fyrst gekk allt ljómandi vel, leiðin greiðfær, en seinna komu þeir þar sem áin rann í gljúfri. Þeir urðu að fara um mjóa skeið þar sem einn hestur rétt náði að fóta sig. Þar selfluttu þeir hestana um einstígi og niður komust þeir heilu og höldnu.

Síðast liðið sumar stóð til að endurreisa vörður á Síldarmannagötum og veit ég ekki betur en að það hafi verið gert. Þetta er þarft framtak og öðrum til eftirbreytni.

Ef farið er inn Botnsdal liggur þar leið yfir að Efstabæ í Skorradal, Grillirahryggjaleið. Farið er fáfarinn slóða upp frá bænum Stóra-Botni upp Svartahrygg og eftir Grillirahrygg. Síðan niður með Skúlagili í áttina að Efstabæ.

Upp úr Botnsdal að sunnanverðu liggur leið um Leggjabrjót. Farið er um Hrísháls fyrir ofan Brynjudal og hjá Sandvatni og Biskupskeldu þar sem hinn eiginlegi Leggjabrjótur er. Síðan ofan í Öxarárdalinn og þaðan í Skógarhóla á Þingvöllum. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en Tunna var víst meri.

Leggjabrjótsleið er sæmilega vörðuð enda eins gott. Í sumar leið fór undirritaður ásamt Ólafi Flosasyni á Breiðabólsstað í Reykholtsdal og nokkrum útlendingum þessa leið. Við lentum í svo blindri þoku að vart grillti í næstu vörðu. Ef leiðin hefði ekki verið vörðuð hefðum við hæglega getað villst illilega. Sandvatn rann svo að segja saman við þokuna og við sáum það ekki fyrr en við vorum nánast komin út í það.

Við komum úr Reykholtsdal, Hálsaleið. Hjá Háafelli í Skorradal lentum við óþarflega þéttu kjarri, en á Síldarmannagötum var vandræðalaust. Frá Þingvöllum riðum við Uxahryggi, en þar lentum við í nokkrum keldum fyrir norðan Reyðarvatn. Annars er þar skemmtilegri leið og betra en að hlunkast niður akveginn um Lundarreykjadal. Ekki held ég að þarna sé samt farandi fyrr en líða tekur á sumarið og farið að þorna um.

Áður en ég segi skilið við Hvalfjarðarbotn lángar mig að segja frá því, að Þorgríma smiðkona frá Hvammi í Skorradal hafði ágirnd á hringnum Sótanaut. Svo var einnig um Þorbjörgu kötlu í Kötlugróf. Þessum hring var talin fylgja ógæfa en þær skeyttu því engu og háðu einvígi um hann. Í Hvaðfjarðarbotni fundust þær svo dauðar kerlingarnar allar rifnar og bútaðar í sundur. Hjá kumlum þeirra þótti að sögn löngum reimt.
En svo haldið sé áfram Hálsaleiðina þá er farið úr Skorradal yfir í Lundarreykjadal hjá Háafelli og komið niður hjá Hóli. Einnig er hægt að fara upp frá Grund í Skorradal um Mávahlíðarsneiðina yfir í Lundarreykjadal. Um Lundarreykjadal var farið Bugana hjá Grímsá niður að Götuási.

Sunnan megin við Skorradalsvatn liggja ágætar götur niður að Stóru-Drageyri. Þar hafa hestamenn aðstöðu.

Upp úr Skorradal í áttina að Brunnum er farinn línuvegur og þá komið ofarlega á veginn sem liggur upp úr Lundarreykjadal.

Um Gagnheiði
Ekki langt frá Þverfelli í Lundarreykjadal er bærinn Gilstreymi. Þaðan liggur leið um Gagnheiði yfir að Svartagili í Þingvallasveit, Gagnheiðarvegur.

Í Sturlungu er sagt frá för Órækju og Sturlu um Gagnheiði á Þingvöll ásamt fimm hundruð manna liði. Leiðin þarna er styttri milli byggða en ef farið er Uxahryggi.

Sá hryggilegi atburður gerðist á Gagnheiði árið 1629, að tveir menn fóru að vetrarlagi upp úr Skorradal. Þeir ætluðu í Þingvallasveit og fóru um ís yfir Eiríksvatn. Þar misstu þeir annan hesta sinna ofan í. Seint og um síðir tókst þeim að ná hestinum upp. Þeir blotnuðu mikið á höndum og fótum. Til að reyna að halda á sér hita drukku þeir brennivín. Seinna lentu þeir í mikilli ófærð, gáfust upp og sofnuðu. Þegar þeir vöknuðu aftur gátu þeir ekki gengið heldur nánast skriðu á fjórum fótum niður að Svartagili.

Séra Engilbert Nikulásson var þá prestur á Þingvöllum. Hann var sagður heppinn læknir og sagaði hann af þeim fæturna. Þeir bræður lifðu síðan við örkuml langa ævi. Hjá Eiríksvatni er eyðibýlið Vörðufell, en þar byggðist afkoman m.a. á silungsveiði í vatninu.

Hálsaleið yfir í Reykholtsdal
Milli Lundarreykjadals og Flókadals er farið hjá Lundi Lundarsneiðina svonefndu fyrir vestan Hrafnatjarnir og komið niður að Hrísum í Flókadal. Eftir að þorna tekur á sumrin er þetta ágæt leið, en snemmsumars fyrir nokkrum árum lá hestur svo íllilega í þarna rétt eftir að komið var upp á hálsinn, að mannafla þurfti til að ná honum upp.

Lundar er getið í Njáls sögu. Þar segir: ”Síðan riðu menn heim af þingi. Þeir bræður riðu vestur til Reykjadals, Höskuldur og Hrútur og gistu að Lundi. Þar bjó Þjóstólfur sonur Bjarnar gullbera. Regn hafði verið mikið um daginn og höfðu menn orðið votir og voru gerðir langeldar.”

Prestssetur var á Lundi og kirkja frá fornu fari enda bærinn nánast á krossgötum. Þarna mættust Hálsaleið og leiðin um Bugana niður með Grímsá. Einnig leið norðan megin við Grímsá og hjá Reyðarvatni og í Brunna, líka leiðin nokkurn veginn eins og bílvegur liggur upp á Uxahryggi í dag.

Í Sturlungu er sagt frá því að Hámundur Gilsson hafi búið á Lundi ásamt Þorvarði presti. Hámundur var þingmaður Þórðar Sturlusonar. Þá bjó á Oddsstöðum Þórður rauður. Hann var þingmaður Kolbeins Tumasonar. “Hann var gildur bóndi,” segir í Sturlungu.

Frá Hrísum í Flókadal lá leið um Brennistaðagötu yfir Geirsá á vaði hjá Götufossi rétt fyrir ofan Ljótunarstillur, en þær heita í höfuðið á Ljótunni, sem var húsfreyja á Hæli á seinni hluta nítjándu aldar. Út frá Brennistaðagötu lá svonefnd Kúagata til norðausturs í áttina að Mógröfum og Mógrafamýri fyrir norðan ásinn. Mór var fluttur eftir þessari götu.

Fyrrum var bóndi á Hæli, sem ég man ekki í svipinn hvað hét. Hann þótti glúrinn og efnaðist ágætlega. Eitt sinn fór hann af bæ ásamt barnungum syni sínum að sækja við. Viðarraftana setti hann á klyfjahesta og strákinn þar ofan á. Á leiðinni dottaði karlinn og vaknaði ekki fyrr en heima undir bæ. Stráksi var þá ekki lengur með. Farið var að leita að honum og fannst hann fljótlega og hafði ekki orðið meint af. Seinna var karlinn spurður út í þetta atvik. “ Já,slæmt hefði mér þótt að missa strákinn,” sagði hann þá, “frekar hefði ég viljað missa einn raft og jafnvel tvo.” Bæjarins Hæls er getið í landamerkjalýsingu frá árinu 1392, en á miðöldum var þar hálfkirkja.

Frá Brennistöðum lá leiðin yfir hálsinn að Kópareykjum í Reykholtsdal, gömul kirkjuleið yfir í Reykholt. Þegar Ketill blundur bjó í Þrándarholti hafði hann sitt annað bú á Kópareykjum. Yfir Reykjadalsá var farið um Tíðavað og síðan yfir Tíðamel í Reykholt.

Hér fyrr meir þegar ég var strákur í sveit á Hæli í Flókadal þótti það ágæt skemmtun að ríða til kirkju að Reykholti á sunnudögum. Guðmundur afabróðir minn söng þar í kirkjukórnum. Hann leyfði okkur krökkunum á bænum iðulega að fara með sér ríðandi yfir hálsinn. Fallegur var grái hesturinn hans Kjói og Guðmundur kunni að halda honum vel til á hýruspori. Þetta var öflugur, lendmikill klárhestur með tölti.

Nú vilja sumir rífa þessa litlu sveitakirkju. Það er komin ný kirkja í Reykholti og sú gamla þykir ekki nógu fín til að standa við hlið hennar. Ef þetta verður ofan á er það enn eitt stórslysið í minjasögu þjóðarinnar.

Sagt er að Snorri Sturluson hafi hugsað sig vel um áður en hann kaus að setjast að í Reykholti. Hann hefur sjálfsagt ályktað eins og hótelhaldari gerir í dag, vildi vera miðsvæðis. Þannig hugsaði Vigfús í Hreðavatnsskála þegar hann var að ígrunda hvar hann ætti að hafa veitingahús. Lengi var ekki vitað hvort leiðin norður yrði um Holtavörðuheiði.

Og miðsvæðis var Snorri. Ef horft er frá Reykholti sést að einmitt þannig var því farið. Bærinn stendur nánast á krossgötum. Handan við Reykjadalsá upp með Rauðsgili blasir Okvegurinn við fjölfarin hraðbraut fyrri tíma. Einnig Hálsaleið upp hjá Kópareykjum.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 er teiknuð leið um Skáneyjarbungu. Handan við Hvítá eru Fróðastaðir og þar hjá Fróðastaðavað. Þaðan lá leið um Norðtungu og Grjótháls. Frá Grjóthálsi lágu síðan leiðir ýmist norður Holtavöruheiði eða um Bröttubrekku vestur í Dali eða um Sanddal yfir í Reykjadal.

Frá Fróðastaðavaði lá líka leið að Hurðarbaki, þaðan svo um Tíðaskarð í Reykholt, gömul kirkjuleið. Fróðastaðavað þótti nokkuð djúpreitt en fá slys urðu þar. Mun Guðmundur góði biskup hafa vígt það. Fyrir þá athöfn á hann að hafa sagt: “Stundin er komin en manninn vantar.” Í sömu andrá kom maður ríðandi hinum megin árinnar. Hann hleypti hesti sínum á bólakaf og drukknaði. Geta má þess að sumir halda að Fróðastaðavað sé sama og Steinsvað sem sagt er frá í Sturlungu.

Eftir að Guðmundur góði vígði vaðið hafa engir drukknað þar. Vigdís Jónsdóttir í Deildartungu var þó hætt komin þar eitthvað í kringum 1860. Hún var þarna á ferð ásamt fleira fólki og losnaði frá hesti sínum úti í miðri á. Loft komst í pils hennar og flaut hún niður ánna. Einn samferðamaður hennar fór fyrir hana neðar í ánni greip hana í straumiðunni og hífði hana upp á hest sinn. Hún var þá meðvitundarlaus.

Deildartunga þótti ágæt jörð og dætur bænda þar gengu óðfluga út. Sigurður tvíburabróðir afa míns krækti í Vigdísi þaðan þó ekki þessa Vigdísi sem flaut niður Hvítá. Þau bjuggu á Oddsstöðum í Lundarreykjadal.

Og þarna í Reykholti sat stórhöfðinginn Snorri Sturluson í miðjum samgönguvefnum í héraðsríki sínu og spann sinn valdavef, en um leið brá hann snöru um eigin háls. Sjálfsagt hefur höfundur Heimskringlu vitað hvað beið hans, en verið reiðubúinn að greiða það gjald fyrir völdin sem á hann hlóðust. Þó var Snorri ekki talinn kjarkmikill maður að ráði þegar eigið skinn var í húfi. Hann bjó yfir vitsmunalegu áræði en ekki líkamlegum kjarki. Vel hefur Snorri kunnað við sig í Reykholti því að þar bjó hann frá 1206 til 1241 er hann var drepinn þar á staðnum. Í kirkjugarðinum þarna er svonefndur Sturlungareitur. Þar er Snorri talinn grafinn.

Leiðir frá Reykholti lágu líka um Breiðabólsstað yfir í Hálsasveit. Eins Bugana niður með Reykjadalsá í Kálfsnes eða um Kroppsmela. Skammt frá bænum Ásgarði er Ferðamannavað á Reykjadalsá. Sömuleiðis Bugana upp með Reykjadalsá hjá Auðsstöðum og Giljafossi að Húsafelli. Frá Húsafelli var stutt á leiðina um Tvídægru norður í Miðfjörð og Arnarvatnsheiðarveg norður í Víðidal eða Vatnsdal, en út frá honum lá Skagfirðingavegur um Stórasand.

Leiðir lágu niður með Flóku og Hvítá og þar yfir á vaði eða ferju og vestur með Múlum hjá Grímsstöðum. Þaðan var stutt á Löngufjörur eða um Ölduhrygg vestur undir jökul. Reykholt var svo sannarlega staðurinn til að búa á.

Mörgum hefur verið það ráðgáta hvernig Snorri fór að því að skrifa þessar bækur sem hann skrifaði, ekki tæknilega séð þetta með að 100 kálfskinn eða guð má vita hvað þurfti í hverja bók. Heldur framsetningin, málið, setningarnar. Það fer stundum bókstaflega um mann við lesturinn.
Hver er eiginlega skýringin? Snorri var menntaður, en það voru svo margir. Hann var ágætum gáfum gæddur, en það voru líka ótal aðrir m.a. margir kotbændur um allt land. Hann var efnaður en það voru ýmsir aðrir líka. Hvað var það þá?

Ég hef þá kannski fánýtu skoðun að staðsetningin þarna í Reykholti hafi ráðið þar miklu um. Það er tvennt sem rithöfundur þarf til að ná árangri. Það er samneyti við annað fólk, alls konar fólk nema kannski helst aðra rithöfunda. Svo er það einveran. Of mikil mannblendni kæfir alla listræna sköpun og enginn getur skrifað í tómarúmi einsemdar.

Þarna í Reykholti fann Snorri þetta gullna jafnvægi. Ég ætla að tilfæra aðeins eina setningu: “Kringla heimsins sú er mannfólkið byggir er mjög vogskorin; ganga höf stór úr útsjónum inn í jörðina.” Þarna er engu við að bæta og ekkert ofsagt. Kannski samdi Snorri líka Egils sögu og þá rifjast upp þessi ljóðlína úr Sonatorrek: “Mjög erum tregt tungu að hræra.”

Sagt er að Snorri hafi verið anstyggilegur við sína nánustu. Það má vel vera. Rithöfundar, sérstaklega þeir bestu, hafa sjaldan verið gjaldgengir í sunnudagaskóla þessa heims. Hlutverk þeirra er að lýsa refjalaust því sem þeir sjá og heyra, en ekki að vera öðrum til eftirbreytni um vammlaust líferni. Ófullkomleiki þeirra er höfuðverkur þeirra sjálfra og hinna sem hafa slysast til að búa með þeim. Við hin getum bara verið þakklát fyrir að þeir skuli hafa verið eins og þeir voru.

En svo við hverfum að Brunnum hjá Hallbjarnarvörðum. Þær heita svo eftir Hallbirni tengdasyni Tungu-Odds er bjó á Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Frá viðureign þeirra segir í Landnámu.

Hallbjörn vildi flytja austur í Rangárvallasýlu en konan hans ekki. Tungu-Oddur heyrði þau rifast inni í bæ, en fannst óþægilegt að hlusta á þau. Hann brá sér því út á tún. Konan sat við sinn keip og þá þreif Hallbjörn til hennar vafði síðu hárinu um vinstri hönd sér en með þeirri hægri seildist hann í sax og hjó af henni höfuðið. Því næst stökk hann í hnakkinn og þeysti af bæ og sennilega farið Okveg. Tungu-Oddur safnaði hins vegar liði og veitti honum eftirför. Þeir náðu honum við Hallbjarnarvörður og drápu hann.

Leiðir um Brunna
Frá Hallbjarnarvörðum lágu leiðir ýmist um Okveg niður hjá Giljum eða Rauðsgili eða um Kaldadal í Húsafell. Einnig lá leið á Þingvöll hjá Víðikerjum og Tröllhálsi um Kluftir. Skessubásavegur lá af Kaldadalsvegi og fyrir norðan Skjaldbreið á Hlöðuvelli.

Geta má þess að álitið er að kveikjan að ljóði Jónasar Hallgrímssonar Fjallið Skjaldbreiður hafi orðið til er hann lá einn í tjaldi hjá Brunnum eftir að hafa orðið viðskila við ferðafélaga sína eftir rannsóknarferð að Skjaldbreið.

Okvegur lá eins og fyrr segir til uppsveita Borgarfjarðar niður að Giljum í Hálsasveit eða Rauðsgili. Vermenn fóru oft þessa leið en einnig voru sauðir frá all mörgum bæjum vestan Hvítár reknir þarna og til Reykjavíkur. Sauðirnir voru ferjaðir yfir Hvítá. Vermenn fóru gjarnan út af Okveginum fyrir norðan Skurði og stefndu þaðan til efstu bæja í Lundarreykjadal, fóru um ofanverðan Skorradal og síðan Síldarmannagötur í Hvalfjörð.

Í Sýslu- og sóknalýsingum yfir Borgarfjarðarsýslu frá 1854 er þess getið að engar vörður hafi verið á Okveginum og mörg ár síðan hann var ruddur.

Í Harðar sögu er sagt frá för Grímkels goða er hann ríður úr Þingvallasveit um Ok og neðri leið hjá Augastöðum. Hann er að fara að Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Þar segir: “Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla, en utan um Arnarbæli og upp Laugardal og svo heim. Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti, því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tugir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn. Þeir riðu um Gjábakka svo um Kluftir og um Ok; svo neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólsstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu.”

Hér má geta þess að Jón Helgason prófessor og forstöðumaður Árnasafns fæddist á Rauðsgili. Hann gaf m.a. út ljóðabókina Úr Landsuðri. Þar er að finna kvæðið Á Rauðsgili. Það hefst svona:

Enn ég um Fellaflóann geng
finn eins og titring í gömlum streng.
Hugan grunar hjá grassins rót
gamalt spor eftir lítinn fót.

Fellaflóinn er rétt fyrir sunnan Okveg ekki langt frá Rauðsgili.

Þegar ljóðabókin Úr landsuðri kom út urðu margir undrandi. Daglega hafði Jón tamið sér nokkuð hrjúfa framkomu, en ljóðabókin endurspeglaði hins vegar næmar tilfinningar. Það hafði þá allan tímann verið aðeins þunnt skæni milli þessara tveggja manna, vísindamannsins og skáldsins.

Kannski átti hann ýmislegt sameiginlegt með sveitunga sínum Snorra í Reykholti þó að ríki annars væru jarðir og völd á Þjóðveldisöld uppi á Íslandi, en hins rykfallin handrit og orð á gulnuðu blaði í Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Árið 1973 kom ég í Árnasafn. Þá sat Jón Helgason á stól frammi á stigapalli með bók í hendi og reykti pípu. Athugult var augnaráðið rétt eins og hann biði eftir því að vera ávarpaður að fyrra bragði. Ég lét það eiga sig en gekk aftur út í borgina með “þys sinn og læti.” En myndin af Jóni með bók í hendi hélt áfram að vera í hausnum á mér. Þarna sat hann á stigapalli úti í Kaupmannahöfn og gat ekki farið heim aftur, vildi það ekki. Handritin áttu hug hans allan

Frá Brunnum lá líka eins og fyrr segir gömul leið um Kaldadal. Skömmu áður en Jón biskup Vídalín andaðist í Biskupsbrekku skammt frá Brunnum á hann að hafa kastað fram þessari vísu:

Herra guð í himnasal
haltu mér við trúna;
Kvíði ég fyrir Kaldadal
kvölda tekur núna.

Einhvern veginn finnst mér þessi vísa skjóta skökku við vegna þess að biskupinn var á leið vestur að Stað á Ölduhrygg á Snæfellsnesi að jarða mág sinn Þórð Jónsson. Hvaða erindi átti hann þá um Kaldadal? Beinast lá við að fara niður Lundarreykjadal og síðan yfir Hvítá á vaði eða ferju. Þaðan svo hjá Gufá og yfir Langá og leiðina vestur með Múlum og Ferðamannaveg um Hagahraun og síðan yfir Hítará “undir Bælinu.” Nema kannski að Kaldidalur sé talinn byrja fyrr en hjá Brunnum.

En Kaldadal kveið hann. Raunin varð líka sú að farið var með lík hans um Skessubásaveg sem liggur út frá Kaldadalsvegi og um Hellisskarð í Skálholt. Þar var meira jafnlendi en ef farið hefði verið um Kluftir og fór betur um líkið. Og Kaldadal fór hann þó að stutt væri. Kannski hefur hann grunað að hverju stefndi. Banamein hans var ginklofi en það mun vera einhvers konar stjarfi í kjálkaliðum.

Um Kaldadalsveg var áður fjölfarið til efstu bæja í Borgarfjarðarhéraði. Hann liggur milli jöklanna Oks og Langjökuls. Að tilstuðlan Fjallvegafélagsins var vegur um Kaldadal ruddur árið 1830 en það er fyrsti fjallvegur sem ruddur er á landinu.

Frá Þingvöllum til Húsafells um Kaldadal eru um 70 km en frá Hofmannaflöt sem er undir Meyjarsæti var talinn 12 tíma lestagangur til Húsafells.

Skúlaskeið stórgrýttur tröllavegur er á þessari leið. Um það orti Grímur Thomsen samnefnt kvæði. Það fjallar um Skúla nokkurn sem dæmdur hafði verið til lífláts á Alþingi. Honum tókst að forða sér á viljaháum, öflugum hesti sínum, sem Grímur nefnir Sörla. Á Skúlaskeiði barði hesturinn grjótið en dró ekki af sér og skilaði Skúla skjótt yfir. Þar drógust eftirreiðarmenn hans hins vegar afturúr. Í kvæði Gríms er þessi hending:

Hann forðaði Skúla undan fári þungu
fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður;
og svo með blóðga leggi, brostin lungu
á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.


Fyrir lausríðandi mann var talið eðlilegt að fara leiðina um Kaldadal milli byggða á 9 klt. Á nítjándu öld var þarna fjölförnust leið milli Suður- og Norðurlands.

Tryggvi Gunnarsson fyrrum bankastjóri Íslandsbanka segir frá því í endurminningum sínum að hann hafi hitt Garða-Björn í Reykjavík árið 1858. Björn var þá húsmaður á Bessastöðum. Hann var fæddur árið 1822. Faðir hans var Björn Ólafsson bóndi á Tungufelli í Lundarreykjadal frá 1817 til 1823, en það ár lést hann. Afi hans var Ólafur Ísleifsson í Botni í Hvalfirði “laglega efnaður,” og dugandi bóndi. Móðir Garða-Björns var Ellisif Ísleifsdóttir frá Englandi í Lundarreykjadal. Björn var á leið í hestasöluferð norður í land.

Þeir Tryggvi lögðu af stað frá Reykjavík um nóttina með 45 hesta og voru aðeins tveir saman. Í einum áfanga fóru þeir frá Reykjavík um Þingvelli og Kaldadal að Kalmanstungu. Í öðrum áfanga riðu þeir norður á Blöndubakka en í þriðja áfanga fóru þeir alla leið til Akureyrar. Ég er ekki duglegur í kílómetrareikningi en svo mikið er víst að þetta er óravegur í aðeins þremur áföngum. Þetta segir í ferðasögu Tryggva.
Hérna er eitthvað málum blandið þó að þeir hafi vafalaust farið hratt yfir.

Í dagbók sinni segir Tryggvi Gunnarsson að þeir hafi kvöldið 17. júlí riðið á Brúsastaði í Þingvallasveit. Um Kaldadal og í Kalmanstungu fóru þeir 18. júlí. Yfir Stórasand um Skagfirðingaveg og á Blöndubakka fara þeir 19. júlí. Þann 20. júlí fara þeir að Mælifelli í Skagafirði. 21. júlí að Steinsstöðum, en 22. júlí fer Tryggvi svo einn að Hálsi í Fnjóskadal. Þetta eru rúmir 5 dagar, en þrír áfangar eru þetta engan veginn.

Leiðina að norðan frá Hálsi í Fnjóskadal hafði Tryggvi farið einn sins liðs á 6 dögum. Á leiðinni frá Kalmanstungu að Hrauntúni í Þingvallasveit hafði hann hitt um 100 manns, sem var á leið í kaupavinnu norður í land. Kaldidalur hefur svo sannarlega verið fjölfarin leið á nítjándu öld.

Garða-Björn líka nefndur bóka-Björn af því að hann átti svo margar bækur, var á sinni tíð talinn sterkasti maður á Íslandi. Hann bjó á Breiðabólsstað á Álftanesi. Um skeið var hann leiðsögumaður ferðamanna um landið. Í þeim hópi þótti hann betri en blávatnið. Hann giftist dóttur séra Hjörleifs á Skinnastað einni af hinum “syngjandi systrum” sem svo voru nefndar. Séra Hjörleifi fannst hún allt of góð fyrir þennan víðreista hestasölumann og húsmann á Bessastöðum. Björn gerði sér þá lítið fyrir og nam hana á brott. Þetta var kallað brúðarránið og var frægt. Ekki kom séra Hjörleifur á heimili dóttur sinnar fyrr en Björn tengdasonur hans var dáinn.

Kunningi minn sá eitt sinn nokkur sýnishorn af afkomendum Björns við jarðaför. Þar voru innan um heljarmenni að sjá og jakkafötin utan á þeim virkuðu snolluð og hrammar á stærð við potthlemm stóðu fram úr ermunum. Margar liðleskjur sem lenda í því að bera kistu úr kirkju kjósa að stökkva á miðjuna. Þar reynir minnst á. Afkomendur Björns sterka eru engir miðjumenn.

Fleiri dugandi ferðamenn voru frá Tungufelli í Lundarreykjadal. Um 1770 bjó þar Eiríkur Hafliðason. Á sinni tíð var hann talinn sá maður sem rataði best um öræfin milli Suður- og Norðurlands. Sprengisandsleið þekkti hann en það var fátítt. Á Alþingi við Öxará árið 1770 var Eiríkur fenginn til þess að skrá lýsingu á leiðinni upp úr Þjórsárdal, norður Sprengisand og í byggð í Þingeyjarsýslu.

Margir óttuðust útilegumenn í þá daga, en útilegumannabyggð héldu menn vera á öræfunum sunnan Herðubreiðar. Fáir vissu nánar um þessa byggð. Eitthvað vissi Nikúlás sýslumaður Magnússon, sá sem drekkti sér í Nikúlásargjá á Þingvöllum þó um byggðina, en einhverra hluta vegna varðist hann allra frétta.

Yfirvöld höfðu augastað á öðrum manni að vísa sér á þessa útilegumannabyggð. Þetta var tughúslimurinn Arnes Pálsson gamall kunningi Fjalla-Eyvindar og Höllu, en hann sat í hegningarhúsinu við Arnarhól upp á vatn og brauð. Hann var líka ófáanlegur að tjá sig um málið. Það fór ekki svo lítið í taugarnar á höfðingjunum við Öxará að geta ekki fengið brotaliminn í lið með sér.

En svo við hverfum að Kalmanstungu. Sá bær stendur í tungunni sem verður milli Norðlingafljóts að norðan og Hvítár að sunnan. Á veturna var bærinn mjög einangraður og oft þurfti að tefla á tæpasta vaðið til að komast yfir árnar til næsta bæjar.

Á sumrin var öðru máli að gegna enda ferðir þá tíðar um Kaldadal og Arnarvatnsheiði og Skagfirðingaveg um Stórasand eða Tvídægru. Þá var Kalmanstunga í þjóðbraut.

Í Norðurferðavísum yrkir Jón “lúsi” svona:

Öll var lestin orðin treg
undir böggum þungu.
Rákum við svo ruddan veg
rétt að Kalmanstungu.

Kalmanstungu er getið í Landnámu en þar bjó Kalman. Þar segir að “hann drukknaði í Hvítá, er hann hafði farið suður í Hraun að hitta frillu sína, og er haugur hans á Hvítárbakka fyrir sunnan.” Ekki hefur hann talið eftir sér að tefla á tæpasta vaðið í það sinnið. Kalman þessi var suðureyskur að ætt.

Kaldadalsvegar er ekki getið í fornsögum heldur eingöngu talað um Bláskógarheiði. Ekki er vitað hversu víðtæk sú nafngift var, hvort hún átti við Kaldadal, Uxahryggi, Okveg og Gagnheiði eða kannski aðeins einhverja af þessum leiðum.

Fleiri en Jón Vídalín yrkja dapurlega um Kaldadal. Einn lúinn ferðalangur orti þessa vísu:

Ég þó lýist áfram skal
urð og mela ganga.
Kleifa ég norður Kaldadal,
kalt er mér um vanga.

Önnur vísa og öllu hressilegri var kveðin af Jóni “lúsa.”

Tókum hrossin tíu og þrjú,
trússum á sem halda.
Frímóðugir förum nú
að feta dalinn kalda.

Þann 7. ágúst árið 1792 fór sá eljusami ferðamaður og náttúruskoðari Sveinn Pálsson um Kaldadal. Hann hafði orðið veðurtepptur í Þingvallasveit í tvo daga. Hann lýsir Skúlaskeiði sem stórgrýtisurðum. Beinakerlinguna á Kerlingarmelum minnist hann á en hún er ein með frægari Beinakerlingum á landinu.

Í sumar leið fór undirritaður í bíl um Kaldadal. Út úr Beinakerlingunni stóðu lítil bréfsnifsi. Engan legg sá ég þarna en það var siður að setja vísurnar í legg. Ég las á nokkra miðana en þar var allt á útlensku. Vonandi er landinn ekki orðinn svo afhuga þessari gömlu hefð að enginn treysti sér til að skilja eftir rímaða vísu í orðastað Beinakerlingar. Ein gömul þess háttar og nokkuð blautleg og tæpitungulaus var ort til Hólabiskups. Seinni hluti hennar er svona:

Geðið mitt hann gladdi sjúkt,
gamla hressti kæru.
Hvað hann gerði það hægt og mjúkt
hafi hann þökk og æru.

Ýmsar fleiri þekktar Beinakerlingar eru á landinu m.a. hjá Skagfirðingavegi á Stórasandi.

Ekki er hægt að skilja svo við Kaldadal að ekki sé minnst á Egilsáfanga. Hann er um það bil 5 km norður af Brunnum. Egilsáfangi er daldrag með nokkrum uppsprettum. Þarna var áningarstaður Egils nokkurs bónda af Norðurlandi. Hann fór skreiðarkaupaferðir suður á hverju sumri og lá þarna við með lest sína.Í hvert skipti missti hann hest ofan í einhverja kelduna. Þótti þetta ekki einleikið.

Í Fanntófelli sem gengur suður úr Oki var talin tröllabyggð og þarna sem Egill beitti hestum sínum voru engjar þeirra. Hagatollurinn var nokkuð ríflegur eða eitt hross á sumri.

Þetta gekk svona í 18 sumur en eitthvað hafa tröllin verið farin að dasast á togstreitunni við Egil því að 19. sumarið missti Egill engan hest. Hann hafði unnið þráteflið á þrjóskunni einni saman, en fleiri skreiðarferðir fór hann ekki.

Kaldidalur liggur eins og fyrr segir að Húsafelli. Á meðan enn var Alþingi á Þingvöllum við Öxará var lang fjölmennasta þingleiðin af Vesturlandi og Vestfjörðum um Kaldadal og Uxahryggi eða fyrir Ok. Í hlíðarendanum fyrir ofan Húsafellsskóg er Skagfirðingaflöt. Þar tjölduðu skreiðarkaupamenn m.a. þeir sem komu Skagfirðingaveg um Stórasand.

Á Húsafelli bjó séra Snorri Björnsson (1710-1803). Hann þótti kunna ýmislegt fyrir sér, jafnvel göldróttur. Hjá draugaréttinni í túninu á Húsafelli á hann að hafa kveðið niður 18 drauga eða voru þeir kannski 81. Skálholtsstóll átti skógarítak í Húsafellsskógi, en svo stórtækir voru þeir á stundum að séra Snorri skar á klyfjarnar á hestum þeirra.

Lengi vel smíðuðu Húsafellsmenn kvarnir sem notaðar voru til að mala korn um allan Borgarfjörð og víðar. Efnið í þær sóttu þeir upp að Hádegisfellum og Hafrafelli. Þangað lá svonefndur Kvarnavegur upp Geitland fyrir norðan Kot. Einnig fengust þeir við legsteinagerð.

Í Geitlandi var byggð fyrrum en hraun rann yfir hana. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að nokkuð af túninu á kirkjustaðnum hafi staðið út undan hrauninu og töldu menn sig vita hvar kirkjan hefði staðið Eitt sinn ætlaði maður nokkur að grafa upp kirkjuna. Þar sem hann var að höggva hraunskorpuna yfir kirkjumænirnum varð honum litið í átt til Kalmanstungu. Bærinn stóð þá í björtu báli. Hann hljóp þá eins og fætur toguðu heim að bæ og ætlaði að bjarga fólkinu þar út, en þegar þangað kom reyndist enginn eldur vera. Þá hætti hann við að grafa upp kirkjuna í Geitlandi, taldi þetta vera áminningu um að hann væri að storka örlögunum.

Í sumar leið er ég í keyrði um á þessum slóðum fékk ég það hvað eftir annað á tilfinninguna að ég væri að aka inn í málverk eftir Ásgrím Jónsson. Rétt við veginn voru hríslur nákvæmlega eins í málverkunum hans. Ásgrímur dvaldi oft sumarlangt í Húsafelli.

Úr því að við erum stödd á þessum slóðum er ekki úr vegi að minnast á Þórisdal. Margar rannsóknarferðir hafa verið farnar að leita hans. Ein slík ferð var farin árið 1644. Séra Helgi Grímsson frá Húsafelli í Borgarfirði og séra Björn Jónsson frá Snæfoksstöðum í Grímsnesi fóru slíka könnunarferð og fundu dalinn. Lengi var talið að í Þórisdal væri útilegumannabyggð, en prestarnir tveir sannreyndu að svo var ekki.

Í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1980 segir að Þórisdalur sé allt svæðið milli Geitlandsjökuls og Þórisjökuls vestan við Prestahnúk og austur að Skerslum. Mun ég taka það sem gott og gilt.

Í Grettis sögu er Þórisdals getið og að Grettir hafi búið þar um hríð hjá þursinum Þóri. Þórir átti tvær dætur og glettist Grettir stundum við þær. Það fannst þeim góð tilbreyting frá fásinninu með karli föður sínum. Í Þórisdal gerði Grettir sér skála.

Fé var óvenju vænt þarna í dalnum, sagði hann. Ein ærin bar þó af. Hún var mókollótt og með dilki og skar Grettir dilkinn. Eftir þetta fór ærin upp á þak á skála hans á hverju kvöldi og jarmaði. Þetta kom við kviku hjá honum og hann gat ekki sofið. Þarna kemst Grettir næst því í sögunni að vera algjörlega mennskur.

Víða í Grettis sögu kemur fram fólska Grettis og grimmd, en þarna lýsir sér viðkvæmnin. Það er stutt milli viðkvæmni og grimmdar, varla meira en eins og lús veltir sér um hrygg. Að lokum fannst Gretti vistin í dalnum daufleg og yfirgaf hann. Hann kom norðan við miðjan Skjaldbreið, reisti þar hellu og gerði rauf í hana. Gil það sem kemur úr Þórisdal sagði hann sjást ef auga er lagt við raufina. En hvar skyldi nú þessi hella vera?

Minnst var hér að ofan á Skessubásaveg. Hann lá yfir Fífilvelli og hjá Sköflungi fyrir norðan Skjaldbreið og á Hlöðuvelli.

Árið 1253 fóru þeir Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson upp úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið og um Miðdalsfjall í Miðdal í Laugardal. Þeir hafa sennilega farið Skessubásaveg, en hafa svo sem alveg eins getað hafa farið hjá Gatfelli og þar á Eyfirðingaveg eða um Kluftir og í gegnum Goðaskarð á Eyfirðingaveg.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 sést leiðin um Skessubásaveg teiknuð milli Hrúðurkarla og Þórisjökuls. Ekki er talið að það fái staðist enda sú leið nær ófær á hestum. Hvað sem því líður þá er kort Björns á margan hátt ágætt reiðleiðakort þó að ónákvæmt sé enda götur allar á hans tíð eingöngu reiðleiðir. Ódýr ljósprentun af þessu korti í fjórum hlutum fæst hjá Landmælingum Íslands. Eins er það til í kortabók á bókasafninu í Norræna húsinu og á lesstofu Borgarbókasafnsins. Þessi sama kortabók geymir líka gömul herforingjaráðskort í mælikvarðanum einn á móti hundrað þúsund. Á þessum kortum eru reiðleiðir sýndar með ágætlega breiðum línum.

Leiðir úr Hvalfirði og vestur um
En svo við förum aftur yfir í Hvalfjörð þá er upp frá bæjunum Brekku og Bjarteyjarsandi lægð í fjallið jafnan nefnt Brekkuskarð en hét áður Álftaskarð. Um þetta skarð fóru Hólmverjar í einni af ránsferðum sínum yfir í Svínadal.

Fyrir neðan Brekku liggur með firðinum Svínasandur en þar á samkvæmt frásögn Harðar sögu að hafa verið slátrað þeim svínum er rænt var í Svínadal.

Aðra ferð fóru Hörður og Geir eftir jól ásamt fjörutíu manns um Álftaskarð og Svínadal og þaðan í Skorradal. Þeir leyndust um daginn en fóru til sauðahúsa um nóttina. Þaðan ráku þeir áttatíu geldinga sem Indriði átti uppi hjá Vatni. Er þeir nálguðust Geldingadragann brast á aftakaveður með snjókomu. Forustusauðirnir mæddust og vildi Geir þá hætta við allt saman. Hörður tók þá forustusauðina í sitt hvora hendi og dró þá upp Geldingadragann. Þannig er nafnið til komið.

Áfram höldum við í vestur. Þar lá leið um Ferstikluháls og Dragann. Þessa leið nefnir Konrad Maurer Hálsveg og fór hann hana árið 1858. Um Geldingadragann lá gamla póstleiðin norður í land yfir Andakílsá á brú skammt frá Skorradalsvatni um Hestháls að Hvítárbrú.

Rétt hjá bænum Draghálsi lá leið upp Grafardalinn fram á miðja Botnsheiði. Hún mætti Síldarmannagötum nokkuð fyrir sunnan Sjónhól. Þarna rölti Sveinbjörn heitinn Beinteinsson allsherjargoði frá Draghálsi sér einhverju sinni upp að Tvívörðu, sagði hann mér. Rímur hans hafa sennilega oftar en ekki orðið til á gönguför.

Frá Draghálsi lá önnur leið um Þjófadal austan við Dragafell yfir að Haga í Skorradal en sá bær hét áður Svangi. Fram á síðustu ár bjó þar Þórður í Haga og náði hann háum aldri. Hann hafði þá sérvisku að fá sér staup af víni á hverjum degi, en hafði ekki fundið á sér í sextíu ár.

Enn vestar er Skarðsheiðarvegur, var þar farið um Heiðarskarð hjá Miðfitjahól. Tvær skessur bjuggu í hömrum þeim sem eru fyrir vestan Miðfitjar. Þeim þótti notalegt að sitja á Miðfitjahól á kletti sem heitir Skessusæti. Lengi vel var ekki hægt að fara Skarðsheiðarveg út af þessum skessum. Þær gerðu bæði mönnum og skepnum ýmsar skráveifur.

Eitt sinn átti bóndinn á Grund í Skorradal erindi suður fyrir Skarðsheiði. Heiðina sjálfa fór hann til baka. Á leiðinni hitti hann skessuna, en ekki segir af viðureign þeirra, nema hvað um kvöldið kom bóndi heim og dró á eftir sér dauða hryssu sem hann hafði riðið að heiman. Mjög var af honum dregið og lagðist hann í rúmið. Viku seinna var hann dáinn.

Eftir þetta var öllum óhætt að fara Skarðsheiðarveg. Nokkrir sem áttu leið þarna um skömmu seinna sáu útsparkaða jörð og blóðidrifna slóð sem lá vestur yfir fjallið upp í helli í ómanngengum hamri. Á þessu skildist þeim að skessa og bóndi hefðu drepið hvort annað. Ekki ber þó öllum saman um þetta. Sumir segja að kirkjuklukkur hafi verið hengdar upp við Miðfitjahól. Skessurnar þoldu ekki að heyra klukknahljóminn og flæmdust í burtu. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það nema hvað þarna er skemmtileg göngu- og reiðleið.

Hestamenn sem fara um Skarðsheiðarveg ættu að minnast þess að þeir eiga bóndanum á Grund eða kirkjuklukkunum það að þakka að þarna er farandi í dag.

Í Sýslu- og sóknalýsingum yfir Borgarfjarðarsýslu frá 1854 er þess getið að leið hafi legið frá Akranesi yfir Leirárvog og upp með Leirárvogi og Leirá yfir Skarðsheiði. Vel byggð brú úr grjóti og jörð var á þessari leið úr Vogum á Akranesi og út á fjörur.

Eins segir þar að leið hafi legið um Fiskilækjarmela og til Hafnar og í gegnum Hafnarskóg milli fjalls og fjöru inn með Andakílsá. Hjá Fiskilæk var vönduð brú.
Sjófang sóttu menn landveg út á Akranes ekki síður en út undir Jökul. Var þá ýmist farinn Skarðsheiðarvegur eða með Hafnarfjalli í gegnum Hafnarskóg. Um Grunnafjörð var farið á fjöru.

Landleiðin alla leið til Reykjavíkur lá oftast um Hestháls, Geldingadragann, Svínadal og inn í Hvalfjarðarbotn. Þaðan svo um Reynivallaháls, Sandfellsgötu og Svínaskarð, sem er milli Móskarðshnúka og Skálafells.

Sýslu- og sóknalýsingar þær sem hér er vitnað í liggja enn í handriti oní kjallara úti í Þjóðarbókhlöðu eða lágu þar þegar ég fór þangað fyrir þremur til fjórum árum síðan að glugga í þær. Ég skil ekkert í því að ekki skuli fyrir löngu vera búið að gefa þær út. Þær eru ómetanleg heimild um lifnaðarhætti fólks á miðri nítjándu öld.

En svo við förum í Borgarnes þá er þar skrúðgarður í Skallagrímsdal. Þar er Skalla-Grímur sagður heygður ásamt hesti sínum. Það var eins gott að koma sæmilega ríðandi til Valhallar. Norðar í bænum er hesthúsahverfið. Þar fyrir ofan sést móta fyrir gamalli reiðleið meðfram klettunum. Ef ekki væru girðingar væri hægt að fara ríðandi alla leið í Svignaskarð. Síðan frá Svignaskarði t.d. Brúnavatnsgötu um Langavatnsdal og Sópandaskarð vestur í Dali.

Þessa götu frá Borgarnesi í Svignaskarð hef ég ekki séð en mér finnst það alveg þess virði að kanna hvort ekki sé hægt að opna hana, setja hlið á girðingar og hvað nú þyrfti að gera.

Í Andakíl og Bæjarsveit voru helstu leiðir þessar: Frá hinum gamalkunna áningarstað Mannamótsflöt lá leið hjá Hesti og Kvíastöðum og niður undir Hvanneyri. Síðan áfram að Hvítárvöllum nokkurn veginn eins og akvegurinn liggur í dag.

Á Hvítá var byggð brú hjá Hvítárvöllum árið 1928. Fram að því hafði verið lögferja í Ferjukoti, sem stendur handan árinnar. Eins á Ferjubakka og Hamraendum. Fram eftir öldum voru kaupstefnur haldnar á Hvítárvöllum. Í Egils sögu er þess getið að Böðvar sonur Egils Skallagrímssonar hafi drukknað á heimleið af kaupstefnu að Hvítárvöllum. Af því tilefni orti Egill Sonatorrek. Þarna hafa verið gríðarlega miklir flutningar yfir Hvítá sérstaklega eftir að vatnsgatan kom á Ferjukotssíkið. Hvítá var strax á 17. öld leigð laxveiðimönnum. Netaveiði var mikil í ánni og laxinn sérstaklega verkaður til útflutnings.

Brú var gerð yfir síkið nokkur hundruð metra leið. Notaður var lurkahrís neðst, síðan torfi bætt ofan á og loks sett grjót. Eftir því sem undirlagið sökk meira þeim mun meira var bætt við af grjóti svo aftur grjót og meira grjót. Þetta var feikn mikið mannvirki enda þarna um fimm metrar niður á fast.

Þess má geta að á átjándu öld gekk Hvítárvalla-Skotta ljósum logum þarna. Hún var mjög íllskeytt og var henni m.a. kenndur stórbruni sem varð á Hvítárvöllum árið 1751. Þar bjó þá Sigurður Jónsson sýslumaður. Páll sonur hans gekk mjög fram í því að bjarga fólki úr brunanum og náði m.a. út foreldrum sínum. Hann gætti hins vegar ekki nægilega vel að sjálfum sér og brann inni.

Hvítárvalla-Skotta var talin sending frá óvinum Hvítárvallahjóna. Annars voru prestar í mestu uppáhaldi hjá henni og glettist hún við marga þeirra. Fjósamenn drap hún líka af og til að gamni sínu, sömuleiðis búpening. Hún var óþarflega lífsseig.

Gauldrég de Boilleu hét franskur barón. Hann þótti frábær cellóleikari og framaferill á listabrautinni blasti við honum. Auglýstur hafði verið konsert með honum en á síðustu stundu ákvað hann að mæta ekki. Hann hafði yndi af að leika á celló en hafnaði frægðinni, kaus lífið fram yfir listina.

Árið 1898 keypti baróninn Hvítárvelli og gerðist þar umsvifamikill bóndi. Í Reykjavík reisti hann 40 kúa fjós neðarlega þar sem nú er Barónsstígur. Vélbát hafði hann í förum upp Hvítá og eitt sinn voru Einar skáld Benediktsson og kona hans gestir þar um borð. Þeir voru góðir saman Einar og hann, báðir bjartsýnismenn með bakslögum.

Mörgum reyndist þessi örgeðja heimsmaður auðveld bráð í viðskiptum. Smásaxaðist því á fjármuni hans, en ævi sína endaði hann í járnabrautaklefa í Englandi. Hann hafði sent kúlu í gegnum hausinn á sér. Í vasa hans fannst aleigan, eitt penní.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er getið um fornmannahaug hjá Hvítárvöllum. Þar á að vera gamalt hafskip með miklum fjármunum í, sem engum hefur tekist að komast yfir.

Á árunum 1905-1930 var mikill flutningur með vélbátum upp Hvítá allt til ósa Þverár, en á 30 ára tímabili þar á undan var dregið í flotum upp ána. Í Fóstbræðra sögu segir frá því að Þorgeir Hávarsson, sem hafði verið hirðmaður Ólafs konungs kom á skipi sínu upp Hvítá og Norðurá þangað sem kallað er Þorgeirshróf. Þaðan fór hann vestur í Reykhólasveit að selja vörur þær sem hann hafði meðferðis frá útlöndum.

Af Fossatúnsmelum lá leið niður með Grímsá að Hólmavaði og sunnan ár hjá Skjólhól að Hvítárvöllum. Farið var með Hvítá og Flóku um Bæjarsveit. Frá Varmalæk að Hvítárbakka, Stafholtsey og Langholti lá leið þvert yfir flóana en hjá Langholti var þrautavað yfir Hvítá.
Sumir telja að Haugsvað eða Haugsendavað sem getið er í Eyrbyggju og Heiðarvíga sögu sé sama og Langholtsvað. Þar mættust sinn hvoru megin Hvítár Snorri goði á Helgafelli með 480 manns eftir drápið á Víga-Styr mági hans og Þorsteinn Gíslason bóndi á Bæ í Bæjarsveit með yfir 500 manna lið. Þorsteinn og hans menn voru á suðurbakka árinnar.

Njósnarar Borgfirðinga höfðu pata af komu Snorra og héldu þeir vörð við öll vöðin á Hvítá allt til sjávar svo hann kæmist ekki yfir. Snorri þorði ekki annað en að hopa en sumarið eftir laumaðist hann að næturþeli með 15 manns og drap Þorstein en hann hafði lítinn mannafla til varnar heima við á Bæ.

Í Grettis sögu er sagt frá reið Grettis frá Hvítárvöllum upp eftir Borgarfirði á hryssu frá Bakka. Hann reið upp með Hvítá fyrir neðan Bæ síðan að Flóku og fyrir ofan Kálfsnes. Það er greinilegt að hann hefur þekkt bestu reiðgöturnar.

Í Njáls sögu segir frá því að Glúmur og Hallgerður langbrók hafi búið á Varmalæk. Þjóstólfur fóstri hennar var þar líka. Glúmi og Hallgerði kom alla jafna ágætlega saman, en eitt sinn skarst í odda með þeim og slæmdi hann þá til hennar hendi.

Hallgerður sagði Þjóstólfi frá þessu atviki án þess að ætlast til að hann gerði eitthvað sérstakt í málinu enda var Glúmur eina ástin í lífi hennar fram til þessa og kannski alla tíð.

Nokkru seinna fór Glúmur í sauðaleit suður af Þverfelli í Lundarreykjadal. Þjóstólfur fór á eftir honum og drap hann þar sem heitir Glúmsgil. Fyrir þetta fólskuverk lét Hallgerður drepa Þjóstólf.

Síðar flutti Hallgerður frá Varmalæk og lét jörðina í hendur bróður Glúms í skiptum fyrir Laugarnes. Þjóðsagan segir að þar hafi hún endað daga sína samanber Hallgerðarleiði.

Ekki eru örlaganornirnar komnar þarna nema skammt á veg að spinna sinn vef. Seinna í Njáls sögu gerast afdrifaríkari atburðir sem rekja má að nokkru til skapferlis Hallgerðar.

Eitt sinn var Hrútur föðurbróðir hennar í heimsókn hjá Höskuldi bróður sínum á Höskuldsstöðum í Laxárdal. Þeir bræður sátu á tali saman en Hallgerður lítil telpa að leika sér á gólfinu. Þá segir Hrútur við bróður sinn: “Hvaðan eru þjófsaugu komin í ættir vorar?” segir hann. Þeir sem lesið hafa Njáls sögu vita til hvers þessi árátta hennar leiddi.

Um Hvítársíðu
Frá Varmalæk bregðum við okkur fram í Hvítársíðu. Í Sýslu- og sóknalýsingum frá 1840 segir að leið hafi legið eftir allri Hvítársíðunni framhjá Sámsstöðum og Háafelli að Síðumúla. Þaðan svo yfir Síðumúlaháls fyrir Múlann sem kallað var og síðan í Stafholtstungur og ofan að Þverá, vestur yfir hana að Norðtungu og síðan vestur yfir Litlu-Þverá nálægt Höfða í Þverárhlíð.

Frá Kalmanstungu og að Fljótstungu liggur Tíðagata. Þar sem hraunið er hæst liggur gatan örstutt vestur af nokkuð samsíða þjóðveginum.

Í hrauninu við Norðlingafljót á móti líparítskriðunni Rauðukúlu liggur svonefnd Prestagata skáhallt yfir hraunið að Litlafljóti. Um Hvítá var farið á Hundavaði ofan við Hundavaðsfossa eða Oddavaði og á Prestagötu. Þarna var alfaraleið.

Leiðir frá brúnni yfir Hvítá hjá Ferjukoti
Ef farið er um brúna yfir Hvítá hjá Ferjukoti skammt frá kappreiðasvæðinu Faxaborg hjá Þjóðólfsholti og haldið áfram yfir síkisbrúna og síðan yfir þjóðveg eitt, þá er komið að eyðibýlinu Gufá. Þaðan liggur ágæt leið upp með Gufá framhjá Stangarholti og yfir Langá á vaði gegn litlum flugvelli sem þarna er. Svolítið ofar er Lækjarósvað hjá Litla-Fjallslæk og enn ofar á móts við Grenjar er Sveðjuvað.

Í Egils sögu segir: “Síðan riðu þeir Þorsteinn suður um mýrar fyrir ofan Stangarholt og suður til Gufár og ofan með ánni reiðgötur. Og er hann kom niður frá Vatni (dálítið lón út úr Gufá ofan við Ölvaldsstaði) þá sáu þeir fyrir sunnan ána naut mörg og mann hjá.”

Bæjarins Grenjar er getið í Egils sögu en þar bjó Atli landseti Þorsteins Egilssonar, en sjálfur beitti Þorsteinn stóði sínu á Langavatnsdal. Hann átti sel þar sem heitir Skallagrímssel og mun hann hafa látið hlaða garð milli Gljúfurár og Langavatns. Enn sjást einhverjar leifar þessa garðs.

Um tíma voru Grenjar í eigu Odds Einarssonar Skálholtsbiskups. Hann keypti jörðina af Ólafi Teitssyni sem nefndur var Grenjaláfi. Grenjaláfi varð síðar djákni og kirkjuvörður í Skálholti. Bærinn fór í eyði árið 1984.

Fræg er sagan um Grenja-Sigga. Hann átti kirkjusókn að Stafholti. Einn vetur mætti hann ekki til kirkju. Tveir menn voru sendir til að lumbra á honum fyrir vanræksluna, en Siggi var þá óvart dauður úr hor, greinilega búinn að taka út næga hirtingu í bili.

Frá Grenjum liggur leið að Múlakoti í Norðurárdal. Farið er yfir Sveðjuvað á Langá og um Grísatungu norðan Valbjarnarmúla hjá Grunnvatni og Gufárvatni, inn á veg við Selborg og eftir honum vestur.

Einnig liggur leið frá Grenjum um Grenjadal vestan Langár og að Langavatni. Neðan til við miðjan dalinn var fyrrum bærinn Grenjadalur. Laust fyrir miðja 17. öld bjó þar Þorbjörn Sveinsson kallaður Grenja-Tobbi. Eitt sinn stal hann tveimur ám. Fyrir þetta var hann dæmdur til að hýðast og brennimerkjast samkvæmt dómi á Þingvöllum við Öxará árið 1672.

Seinna var Grenja-Tobbi svo dæmdur fyrir galdra. Dómurinn hljóðaði upp á líflát og var hann brenndur á Þingvöllum 4. júlí árið 1677. Þetta var síðasta galdrabrennan á Íslandi.

Frá Grenjum og vestur að Hítará liggur leið sem nefnd hefur verið Með Múlum hjá Grímsstaðamúla og Svarfhólsmúla. Síðan um Hagahraun Ferðamannaveg svonefndan að vaðinu á Hítará þar sem heitir undir Bælinu. Næsti bær fyrir vestan Hítará er Moldbrekka. Þar var vinsæll áningarstaður þ.e. hann var vinsæll hjá ferðamönnum, en ferðamenn voru ekki vinsælir hjá bóndanum þar. Annar góður áningarstaður var hjá Skeiðbrekkum við Kaldá.

Úr því að við erum stödd þarna við vaðið á Hítará skal þess getið að handan árinnar blasir við Fagraskógarfjall. Þar hafðist Grettir Ásmundarson við í 3 ár sekur skóggangsmaður. Ofan úr fjallinu gat hann fylgst með mannaferðum og erfitt að sækja að honum. Þarna útbjó hann sér fylgsni að ráði Björns Hítdælakappa á Hólmi í Hítardal.

Á einum stað í Grettis sögu segir Björn við hann: “Er þar bora í gegnum fjallið og sér það neðan frá veginum, því að þjóðgatan liggur niðri undir, en sandbrekka svo brött fyrir ofan að fáir menn munu upp komast ef einn maður röskur er til varnar uppi í bælinu.”

En svo við höldum áfram með Múlum þá er fyrst komið að Grímsstöðum undir Grímsstaðamúla. Þar er ágæt beit og gistiaðstaða. Á Grímsstöðum fæddist og ólst upp Haraldur Níelsson prófessor í guðfræði. Biblían sem kom út árið 1908 var að verulegu leyti eftir hans þýðingu. Næst á eftir Jóni Vídalín, hinum stundum nokkuð stranga biskupi í Skálholti, var hann talinn mestur ræðuskörungur í kennimannastétt. Hann var áhugamaður um sálarrannsóknir.

Ekki alveg eins strangur er Guðni staðarhaldari á Grímsstöðum í dag. Þó varð ég vitni að því fyrir tveimur arum, að hann lét reiðskó einnar hestakonu fljúga út á hlað. Henni hafði orðið það á að setja óhreina skóna á ofn í einu herberginu. Ekki skulu menn láta þetta litla atvik fæla sig frá að gista á Grímsstöðum.

Frá Grímsstöðum að Álftártungu lá svonefndur Kirkjuvegur hjá Kirkjuvegslæk.

Í vestur frá Grímsstöðum er farið hjá Hraundal en um hann liggur leið að Langavatni. Þar heitir á parti a.m.k Neðrivallastígur. Farið er hjá Hraundalsrétt og inn Bæjarfjallið að Veitá. Innrivallastígur er þarna á leiðinni en hann er fáfarinn. Síðan er farið um Langavatnsmúla en upp hann er dálítið pauf. Við Langavatn er leitarmannakofinn að Torfhvalsstöðum.

Í Landnámu segir að Bersi goðlauss Bálkason hafi numið Langavatnsdal. Á öldinni sem leið var nautum beitt á dalinn en eitt sumar fundust þau öll dauð í vatninu. Engin skýring fannst á þessu.

Árið 1811 fluttust í Langavatnsdal Sæmundur nokkur með fjölskyldu sína mæðgur sem báðar hétu Guðrún og barnungum syni sínum Páli. Sæmundur reisti sér bæ á hinu gamla bæjarstæði Borgar. Í febrúar 1813 sloknaði eldurinn í bænum og fór bóndi að sækja eld að Grísatungu býli sem er löngu komið í eyði. Það var næsti bær við en þó langt þangað. Hann villtist fram á Staðartungu og varð þar úti.

Um vorið varð matarlaust hjá þeim mæðgum og stálu þær hesti frá Tungu í Hörðudal. Hestinn átu þau. Upp komst um þetta athæfi þeirra og var farið með þau til sýslumannsins sem bjó í Síðumúla í Hvítársíðu, Péturs Ottesen.

Á Fróðastöðum næsta bæ við Síðumúla var strákur 12-13 ára, Daniel Jónsson. Hann var staddur í Síðumúla þegar komið var með þær mæðgur og strákinn. Honum rann það til rifja hversu mæðgurnar voru eymdarlegar og ómanneskjulega með þær farið af þeim sem komu með þær. Mæðgurnar voru dæmdar til híðingar en sakir æsku slapp strákurinn. Þeim var síðan vísað á sveit sína sem var Skeiðahreppur. Svona hélt bændasamfélagið öllu í heljargreip sinni. Að menn skuli hafa þurft að beita svona hörku sýnir að þetta þjóðfélagsform var búið að ganga sér til húðar. Harðstjórn er veikleikamerki.

Fyrir Svartadauða 1402-1404 á að hafa verið mikil byggð í Langavatnsdal. Sagt er að allt fólkið hafi dáið úr pestinni utan ein kona Bjartey að nafni. Hún flutti í Hvalfjörð þar sem heitir að Bjarteyjarsandi.

Borg þjónuðu Hítardalsprestar. Einn þeirra hét Guðmundur. Hann varð úti í Gvendarskarði á leið heim til sín.

Úr Langavatnsdal yfir í Laugadal liggur leið um Sópandaskarð. Í bók sinni Einn á ferð og oftast ríðandi eftir Sigurð Jónsson frá Brún segir hann frá ferð um Sópandaskarð ásamt frænda sínum. Ég nenni ekki á bókasafnið að fletta því upp, en mig minnir að það hafi verið Búi heitinn Petersen.

Ég man vel eftir Búa og aðallega það hversu mjór hann var. Hann var jafn mjór og Bogi heitinn Eggerts var mikill allur. Lítið festi mótvindur á Búa. En þeir fóru sem sagt ofan í Laugadal. Um það segir Sigurður. “Lagði ég á brúna folann því Pyttla átti að vera örugg um forustuna gamall Hörðdælingur og kunnug en leiðin stóðlaus um sinn sökum hálendis og lítils grasvegar.”

Sigurður fór hestasöluferðir úr Reykjavík alla leið á Vestfirði með rekstur sem hann seldi úr og keypti inn í á leiðinni. Bók hans um þetta hrossabrall er klassískt rit um hestamennsku um miðja tuttugustu öld en Sigurður stóð traustum fótum í alda gamalli hefð hestamanna í Húnaþingi.

Leið lá frá Munaðarnesi í Langavatnsdal hjá Hreðavatni, Jafnaskarði og eyðibýlinu Múlakoti og Grísatungu og að leitarmannakofa Borghreppinga við Langavatn. Komið var í sjálfan dalinn austan við Langavatn hjá Beylá.

Skarðheiðarvegur vestari eða Heiðarvegur eins og hann er oftast nefndur liggur meðfram Gljúfurá um Staðartungu, yfir vað á Langá. Það er skammt frá ármótum og heitir Heiðarvað. Þaðan svo niður í byggð hjá Hraundal í Álftaneshreppi. Þetta er gömul skreiðarkaupaleið sem var farin úr uppsveitum Borgarfjarðar er bændur sóttu skreið út undir Jökul í skiptum fyrir búvörur.

Í Heiðarvígasögu er sagt frá Þórhalla bónda á Jörfa og för hans um Skarðsheiðarveg með allt sitt hyski og hafurtask á níu klyfjahestum. Hann var að flýja undan yfirgangi Víga-Styrs. Hann sat hins vegar fyrir Þórhalla í heiðarbrekkunum og felldi hann.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson nefna Skarðsheiði vestari í ferðabók sinni, eins Kristian Kålund í bók sinni Íslenskir sögustaðir sem kom út árið 1877. Á Íslandskorti sínu frá árinu 1844 sýnir Björn Gunnlaugsson þarna leið.

Eins og fyrr segir fóru bændur vestur undir Jökul að sækja skreið. Á sumrin var farið ýmist Með Múlum eða Skarðsheiðarveg. Sumir höfðu hins vegar þann háttinn á að fara vetrarveg svonefndan. Lagt var af stað um sumarmál á meðan klaki var enn í jörðu og þá beint af augum yfir freðnar mýrar og foræði. Brandur Daníelsson bóndi á Fróðastöðum í Hvítársíðu hélt lengst uppi slíkum ferðum og voru nokkrir bændur með honum í förum. Ár hvert fór hann að heiman mánudaginn fyrstan í sumri.

Vetrarvegar er getið í Sturlunga sögu. Þar segir: “Nær veturnóttum reið Þorgils Böðvarsson skarði heiman og með honum fylgdarmenn hans og ætlaði að ríða út á Snæfellsnes. Reið hann til Borgar um kvöldið, bjó þar þá Loftur biskupsson. Voru þeir Þorgils tólf saman; var þar allvel við þeim tekið. Mýrar lágu ílla; mátti þó tyllast á vetrarbrautum. Þaðan reið Þorgils út um daginn til Brekku.”

Vetrarvegar er líka getið í Egils sögu. Þorsteinn hafði verið að líta eftir Grísatungugarðinum og var á heimleið. Einn manna hans kom þá hlaupandi og sagði húsbónda sínum frá því að hann hefði verið upp á Einkunnum í fjárleit “er ég sá,” sagði hann, “í skóginum fyrir ofan veturgötu að skinu við tólf spjót og skildir nokkrir.”

Í Íslenskir sögustaðir eftir Kålund segir: “Orustuhóll er á leiðinni út á Álftanes, grasivaxinn að mestu. Alllangan spöl neðar á vetrarveginum er Grímshóll þar sem sagt er að Grímur sé jarðaður.”

Um Holtavörðuheiði
En svo bregðum við okkur upp í Norðurárdal. Þar lá leið norður Holtavörðuheiði. Þarna var eini fjallvegurinn sem fær var að vetri til milli Suður- og Norðurlands. Þetta var nefnt “að fara sveitir” gagnstætt því “að fara fjöll” en þá var farið um austurheiðarnar, Tvídægru, Arnarvatnsheiði, Grímstunguheiði eða um Stórasand.

Farið var hjá Sveinatungu og komið niður fyrir framan Mela í Hrútafirði. Vegur þarna var víða grýttur og blautur og ílla ruddur. Heiðin sjálf frá Fornahvammi var talin ein þingmannaleið eða 37.5 km. Sunnan til var sæluhús, lítill torfkofi. Ekki var hægt að setja hesta þar inn og lágt var það og loftlaust. Árið 1848 segir séra Þórarinn Kristjánsson sæluhús þetta vera nýbyggt. Mun það hafa verið byggt af Mýramönnum en kostað af Mýra-, Húnavatns og Skagafjarðarsýslu. Séra Þórarinn segir það hafa kostað “ærna peninga.” Það segir nokkuð um efnahagsástandið í landinu á þeim tíma.

Valdimar Erlendsson síðar læknir í Danmörku segir í endurminningum sínum frá ferð skólapilta úr Þingeyjarsýslu til Reykjavíkur. Með honum voru Jóhann Sigurjónsson frá Laxamýri, Benedikt Sveinsson og Haukur Gíslason. Valdimar segir skólapilta ýmist hafa gist á Melstað eða Melum í Hrútafirði og síðan í Sveinatungu. Ferðin tók níu daga, þannig að dagleiðir hafa verið nokkuð langar.

Í Njáls sögu segir frá því er Njáll leggur á ráðin um ferð Gunnars á Hlíðarenda til Hrúts föðurbróður Hallgerðar er bjó í Laxárdal. Gunnar fór í dulargervi Kaupa-héðins. “Þú skalt ríða til Norðurárdals,” segir Njáll við Gunnar. “og svo til Hrútafjarðar og til Laxárdals og til þess er þú kemur á Höskuldsstaði. Þar skalt þú vera um nótt og sitja utarlega og drepa niður höfði.” Þarna hefur Gunnar farið Holtavörðuheiði og síðan Laxárdalsheiði nema hann hafi stytt sér leið og farið Sölvamannagötur sem lágu upp frá Fjarðarhorni í Hrútafirði og mættu leiðinni um Laxárdalsheiði rétt fyrir vestan sýslumörk Stranda- og Dalasýslu.

Á Holtavörðuheiði hitti Vatnsenda-Rósa fyrrum ástmann sinn Pál Melsted (1791-1861) amtmann. Það munu hafa verið einu samfundir þeirra eftir að hún flutti frá Ketilsstöðum á Völlum og voru þau þá bæði farin að reskjast. Hún var búsett sunnan heiðar og á leið í kaupavinnu norður í land. Höktandi þumlungaðist hún eftir gömlum götuslóða, slitin manneskja.

Páll kom úr gagnstæðri átt hnarreistur í skínandi einkennisbúningi. Aldrei hafði Rósa sagt hnjóðsyrði um þennan mann en nú náði beiskjan yfirhöndinni og hún kastaði fram þessari vísu:

Man ég okkar fyrri fund,
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.

Það sveið undan þessu beitta vopni lítilmagnans og amtmaðurinn sat álútur hest sinn suður Holtavörðuheiði. Við Hæðarstein var áð og þar höfðu fylgdarsveinar amtmannsins í laumi yfir vísuna. Þar með var hún greipt í þjóðarsálina.

Í landi Hvamms í Norðurárdal er Langagata og einnig Tæpagata. Hvamms leiðar er getið í Bandamanna sögu og mun þar vera átt við þingstað í landi Hvamms. Þar segir: “Líður af veturinn og er vora tekur fer Hermundur til Hvamms leiðar og er hann ætlaði utan þá segir hann að þeir munu snúa ofan til Borgar og brenna Egil inni.”

Leiðir vestur í Dali
Um Bröttubrekku lá gamla póstleiðin vestur í Dali. Ferðar um hana og Karlsháls er getið í Sturlunga sögu. Þar segir: “Skildust þeir við það, að Snorri fór vestur í fjörðu, en Þórður fór leið sína vestur á Skógarströnd og svo inn til Dala. Fann Þórður menn sína alla að Höfða við Haukadalsá. Riðu þeir þá manni miður en hálfur sjötti tugur suður um Bröttubrekku og suður yfir Karlsháls um nóttina og svo upp eftir Kjarrárdal og komu fram drottinsmorgun við sólarroð til Fljótstungu svo að enginn maður varð var við reið þeirra um héraðið. Riðu þeir drottinsdagskvöldið á Arnarvatnsheiði.” Ekki sé ég Karlsháls á herforingjaráðskorti en þar er Karlsdalur og eyðibýlið Karlsbrekka. Sennilega hefur Þórður farið um Karlsdal.

Þetta er knöpp lýsing en samt nógu skýr til þess að samtímamenn höfundar, þeir sem á annað borð voru á ferðinni vissu nákvæmlega við hvað var átt. Í fornsögunum eru leiðarlýsingar ekki ítarlegar. Þar er viðfangsefnið fyrst og fremst samskipti fólks að svo miklu leyti sem vopnaskak getur talist samskipti.

Á öðrum stað í Sturlungu er Bröttubrekku getið, en Sturla Sighvatsson á Sauðafelli hafði þar hestvörð árið 1238, svo að einhver herhlaup hafa þá verið í gangi.

Frá Króki í Norðurárdal liggur leið um Sand. Farið er fram Sanddal hjá Sanddalstungu og yfir í Reykjadal í Miðdölum. Þessarar leiðar er getið í Chorographica Islandica sem Árni Magnússon skráði í byrjun 18. aldar. Hins vegar sýnir Björn Gunnlaugsson hana ekki á korti sínu. Hún kemur heldur ekki fram á herforingjaráðskortum sem teiknuð eru í byrjun 20. aldar.

Þarna hefur því ekki verið alfaraleið, en í réttum á haustin mun hafa verið farið með fjárrekstur úr Fellsendarétt og yfir í Sanddalinn. Nú er talsvert farið um Sand bæði af Íslendingum og eins skipulagðar ferðir með útlendinga. Fallegt er að sjá niður í Reykjadalinn þaðan sem hæst ber.

Leiðir um Tvídægru og Arnarvatnsheiði
En svo ég hverfi aðeins á heiðar upp þá lá leið um Tvídægru norður í Miðfjörð um Núpdælagötur. Farið var frá Kalmanstungu um Þorvaldsháls Arnarvatnsheiðarveg eða Stórasandsleið eins og líka heitir. Yfir Norðlingafljót var farið á Núpdælavaði, sem er rétt fyrir ofan Bjarnafoss.

Síðan lá leiðin fyrir vestan Úlfsvatn og hjá Þorvaldsvatni. Þar mættust leiðir úr dölum Miðfjarðar, Austurárdal, Núpsdal og Vesturárdal. Algengast var að koma niður í Núpsdal, en þar hétu Lestamannagötur.

Niður í Austurárdal var komið hjá Aðalbóli og svo var leið niður í Vesturárdal. Að Miðfjarðará var farið með Austurá, Núpsá og Vesturá.

Frá Kalmanstungu að Aðalbóli eru um 50 km og fór Bensi á Aðalbóli stundum vetrarveg þarna á milli þegar mýrar, fen og vötn voru ísilögð að spila lomber við bóndann í Kalmanstungu. Þeir voru hressir karlarnir í gamla daga.

Á Tvídægru er vettvangur frásagna m.a. í Heiðarvíga sögu. Árið 1014 urðu þarna snörp átök milli Húnvetninga og Borgfirðinga, svonefnd Heiðarvíg. Kom þar við sögu Víga-Barði Guðmundsson sem kenndur var við Ásbjarnarnes en sá bær stendur við Hópið í Vestur-Húnavatnssýslu.
Þessi sami Barði mun að sögn seinna hafa búið um sig í Borgarvirki sem er klettaborg milli Vesturhóps og Víðidals. Borgfirðingar sátu þar um virkismenn og ætluðu að svelta þá inni. Tók Barði það þá til bragðs að kasta út nokkrum sláturskeppum, lét eins og hann hefði mistekið þá fyrir steina. Borgfirðingar töldu þá einsýnt að í virkinu væri gnægð matar og létu undan síga.

Hvergi er Borgarvirkis getið í Heiðarvíga sögu. Þetta með sláturskeppina er því munnmælasaga. Enginn veit með vissu hver lét gera Borgarvirki, en sumir hallast að því að það sé héraðsvirki frá landnámsöld.

Á Sturlungaöld fóru menn í stórflokkum um Tvídægru. Í Sturlunga sögu segir að Kolbeinn ungi hafi farið upp úr Núpsdal með sex hundruð manna lið á leið í Reykholt í Borgarfirði. Um morguninn þegar lagt var af stað var krapadrífa og urðu menn all votir. Þegar á daginn leið tók að frysta. Ýmsir glímdu til að halda á sér hita. Að lokum voru menn orðnir svo lopnir að þeir gátu ekki haldið á vopnum sínum, sem er bagalegt fyrir vígamenn. Sumir frusu í hel en aðra kól og lifðu við örkuml eftir það.

Arnarvatnsheiðarvegur lá um Þorvaldsháls yfir Norðlingafljót á Helluvaði og í Álftakrók. Þaðan hjá Arnarvatni mikla yfir Skammá og Suðurmannasandfelli. Fyrir norðan Haugakvíslardrög mættust leiðir annars vegar ofan í Víðidal og Grímstunguheiðarvegur sem lá ofan í Vatnsdal. Grímstunguheiðarvegur var einnig nefndur Biskupavegur og var hann lagður á árunum 1860-1870. Um tíma dvaldi Grettir við Arnarvatn og hafði þar bát og net.

Í Sturlunga sögu er ferðar getið um Arnarvatnsheiði. Þar segir: “Nú er frá því að segja að Þórður reið á Arnarvatnsheiði drottinskvöldið og reið þá annan dag vikunnar allt að byggðinni í Vatnsdal; var þá tekinn fyrst bær í Haukagili og hafði hann þá fréttir að heima væru bændur allir í dalnum.”

Þórður hefur farið yfir Norðlingafljót sennilega hjá Hæðarsporði um Helluvað og síðan Arnarvatnsheiðarveg hjá Suðurferðamannasandfelli á Grímstunguheiðarveg öðru nafni Biskupagötur og um þær ofan í Vatnsdal. Hann virðist hafa haldið á spöðunum, en þess ber að gæta að hér áður fyrr þótti það ekkert tiltökumál að fara 80 km á dag jafnvel einhesta. Menn höfðu þá annað reiðlag, létu hestinn mikið valhoppa og gengu sjálfir inn á milli m.a. upp brekkur. Það var hvíld bæði fyrir mann og hest.

Á öðrum stað í Sturlungu er getið ferðar um Arnarvatnsheiði. “Þeir höfðu hestakost lítinn,” segir þar, “og fórst þeim seint; en þeir Bergur riðu ákaft norður eftir heiðinni og gátu tekið njósnarmenn Nikuláss hjá Grímstungumannaseljum; voru þeir þegar bundnir og barðir mjög.” Það hefur ekki verið eftirsóknarvert að vera njósnari í þá daga frekar en endranær og óskiljanlegt að menn skuli hafa sótt í þannig starf, erilsamt alla jafna og svo njósnarar barðir ofan á allt annað.

Út frá Arnarvatnsheiðarvegi lá rétt fyrir norðan Skammá leið um Stórasand nefndur Skagfirðingavegur. Í Sýslu- og sóknalýsingum frá árinu 1873 yfir Húnavatnssýslu fjallar Björn Brandsson m.a. um Auðkúluheiði. Þar segir hann orðrétt: “Suðurferðamannavegur liggur nú fram Sléttárdal, fram með Gilsá svo fram Gilsvatnsás að Áshildarlæk, svo vestur að Helluvörðuás, þá fyrir vestan Friðmundarvatn og Eyjavatn og svo fram yfir Vatnsdalsá skammt fyrir framan Bótarvatn til Stórakróks svo með Ströngukvísl og austan við Þjófakvísl er fellur í hina og svo fram á Sand og þar á Skagfirðingaveg suður Stórasand að Arnarvatni og þaðan til Kalmanstungu. Jón á Snæringsstöðum lagði þennan veg fyrir aldamótin 1800.” Af Skagfirðingavegi lágu leiðir ofan í Vatnsdal, Svínadal og Blöndudal.

Ég tilfæri þetta hér til að sýna hvílík náma þessar samtímaheimildir eru. Styðjist menn við þær um leiðarlýsingar lenda þeir síður á villigötum.

Í Ferðabók sinni (1791-1797) minnist Sveinn Pálsson á ferð um Stórasand 2. október. Ég hef oft furðað mig á því hversu lengi fram eftir hausti margir þessara gömlu landkönnuða voru á ferðinni um hálendið.

Sveinn lagði af stað frá Sauðafelli. Þeir hrepptu storm og hrakviðri, en snjór var nýleystur. Hestarnir sukku í aurbleytu næstum upp í hné. Þeir höfðu lagt af stað kl.11 um morguninn en kl. hálf níu um kvöldið voru þeir komnir að Tjaldhól við Skammá en hún rennur í Arnarvatn mikla.

Rokið var svo mikið að þeir gátu með engu móti tjaldað. Þess í stað notuðu þeir tjaldið fyrir ábreiðu, en voru að öðru leyti óvarðir fyrir regni og stormi. Þetta veður hélst alla nóttina. Varla getur þetta talist skemmtiferð og það fer um mann hrollur við lesturinn.

Skreiðarferðir fóru Skagfirðingar suður Stórasand. Í Mælifellshnúk er stór fönn í hestlíki lengi fram eftir vori. Þegar snjóhestur þessi var rofinn um bógana töldu Skagfirðingar óhætt að ríða Skagfirðingaveg um Stórasand en Skagfirðingavegur lá upp frá Gilhaga í Skagafirði. Vísa tengd þessu er svona:

Hvítan hest í hnjúkinn ber
hálsinn reynir klakaband.
Þega