Gamlar götur í Dalasýslu

Eftir Örn H. Bjarnason


“Ef inni er þröngt tak hnakk þinn og hest,” stendur einhvers staðar. Hvað sem þessu líður þá er það svo, að margir borgarbúar kjósa í auknum mæli að kljást við náttúru þessa lands á þess eigin forsendum, hrjóstrugt landslag og misjöfn veður, ekki af nauðsyn heldur sjálfviljugir. Uppi í óbyggðum eigum við griðland þar sem við getum fundið kröftum okkar viðnám.

Leiðir frá Búðardal
En svo ég snúi mér beint að efninu þá ætla ég að hefja ferð þessa um Dalasýslu í Búðardal. Þaðan liggja leiðir í ýmsar áttir. Leið liggur um Lækjarskógarfjörur hjá Kambsnesi og síðan áfram hjá bænum Tungu í Hörðudal og um Laugardal. Úr Laugardal liggur gömul þjóðleið um Sópandaskarð yfir í Langavatnsdal og ýmist suður Grenjadal eða yfir Langá á Heiðarvaði og gömlu skreiðarleiðina um Hraundal. Þarna var farið um Skarðsheiði vestri sem svo var nefnd. Eins liggur frá Langavatni leið um Brúnavatnsgötu að Svignaskarði

Í Laxdæla sögu segir frá því er Þorgils Hölluson fór við tíunda mann ríðandi upp eftir Hörðudal um Sópandaskarð og yfir Langavatnsdal og þaðan um Borgarfjörð þveran. Yfir Norðurá fóru þeir á Eyjarvaði en yfir Hvítá á Bakkavaði skammt frá Bæ í Bæjarsveit. Síðan upp Lundarreykjadal og yfir í Skorradal að Vatnshorni. Þangað komu þeir seint um kvöld. Ætli þeir hafi ekki farið upp úr Lundarreykjadal hjá Hóli og komið niður í Skorradal hjá Háafelli.

Í bók sinni Einn á ferð og oftast ríðandi eftir Sigurð Jónsson frá Brún segir hann frá ferð um Sópandaskarð ásamt frænda sínum. Ég nenni ekki á bókasafnið að fletta því upp, en mig minnir að það hafi verið Búi heitinn Petersen.

Ég man vel eftir Búa og aðallega það hversu mjór hann var. Hann var jafn mjór og Bogi heitinn Eggerts var mikill allur. Lítið festi mótvindur á Búa. En þeir fóru sem sagt ofan í Laugadal. Um það segir Sigurður. “Lagði ég á brúna folann því Pyttla átti að vera örugg um forustuna gamall Hörðdælingur og kunnug en leiðin stóðlaus um sinn sökum hálendis og lítils grasvegar.”

Sigurður fór hestasöluferðir úr Reykjavík alla leið á Vestfirði með rekstur sem hann seldi úr og keypti inn í á leiðinni. Bók hans um þetta hrossabrall er klassískt rit um hestamennsku um miðja tuttugustu öld en Sigurður stóð traustum fótum í alda gamalli hefð hestamanna í Húnaþingi.

Þegar komið er suður úr Sópandaskarði liggur leið í vesturátt upp með Mjóadalsá milli Þrúðufells og Fossmúla fyrir norðan Tröllakirkju og að Hítarvatni. Þar skammt frá eyðibýlinu Tjaldbrekku mætir hún leiðinni um Svínbjúg. Þarna voru áður nokkrir bæir sem nú eru allir komnir í eyði. Að Tjaldbrekku var búið í um 50 ár á síðari hluta 19. aldar.

Leið um Sand til Norðurárdals
Suður til Borgarfjarðar má einnig fara fram Reykjadal í Miðdölum um Sand og niður í Sanddal hjá Sanddalstungu og þaðan áfram t.d. að bænum Króki í Norðurárdal. Þessarar leiðar er getið í Chorographica Islandica sem Árni Magnússon skráði í byrjun 18. aldar. Hins vegar sýnir Björn Gunnlaugsson, sem uppi var um miðja 19. öld hana ekki á korti sínu. Hún kemur heldur ekki fram á herforingjaráðskortum, sem teiknuð voru í byrjun 20. aldar. Þarna hefur ekki verið alfaraleið en í réttum á haustin mun hafa verið farið með fjárrekstur úr Fellsendarétt í Sanddalinn. Nú er talsvert farið um Sand bæði af Íslendingum og eins skipulagðar ferðir með útlendinga.

Úr Haukadal innst er farið upp hjá réttinni og milli Krossbrúnar og Jörfamúla. Þessi leið liggur þvert á leiðina um Sand. Á korti í Áföngum 2, Ferðahandbók hestamanna er gert ráð fyrir leið fram Villingadal vestan við Krossbrún og síðan áfram hvort sem vill ofan í Reykjadalinn eða í Sanddalinn.

Hér að ofan er minnst á útlendinga. Seint þreytist ég á að dást að því hversu dugandi margir þeirra eru á hestbaki. Sumir hafa kannski lítt vanist hestum, en fara samt þrældómsdagleiðir án þess að mögla, sötrandi volgt djús úr plastflöskum. Aftur og aftur kemur sama fólkið og virðist ekki geta án þess verið að hossast á íslenskum hestum um óbyggðir viku, tíu daga á ári hverju. Hingað sækir það þrek til að takast á við erfiði kyrrsetunar í heimalandi sínu.

Hvað okkur Íslendinga varðar þá er ekki sá flækjufótur af mölinni, að hann ekki skáni af samneyti við hross úti í náttúrunni. Þau leiðrétta okkur og gera okkur að betri manneskjum. Það lætur ekkert hross bjóða sér þá framkomu, sem við sýnum hvert öðru t.d. í umferðinni á föstudögum. Við hesta verður að semja ef ekki á ílla að fara. Hundar eru líka ágætir uppalendur. Af þeim getum við lært tillitssemi.

Leiðin um Svínbjúg
En svo við forum aðeins vestar þá liggur upp frá bænum Álfatröðuum í Hörðudal leið fram með ánni Skraumu í Selárdal, en Skrauma er nafn á tröllskessu, sem missti son sinn í ánna. Af því tilefni lagði hún svo á að tuttugu manns skyldu drukkna í henni. Nú munu 19 hafa farist í Skraumu, síðast 1806 þegar feðgar frá Gautastöðum drukknuðu í henni. Ekki virðast hestamenn láta Skraumu skelfa sig, enda er leiðin um Svíbjúg talsvert farin á hestum

Inn frá Selárdal gengur Burstardalur og er farið fram hann. Þegar upp úr Burstardal er komið tekur við nokkuð grýttur hæðarhryggur, sem kallaður er Svínbjúgur eða Bjúgur. Þarna heitir leiðin um Svígbjúg og að sunnanverðu er komið niður að Hítarvatni. Þar er farið með vatninu vestanverðu og tekur þá Hítardalur við. Svínbjúgur deilir vötnum milli Dala- og Mýrasýslu. Einnig er hægt að fara um Svínbjúg upp frá bænum Hóli í Hörðudal.

Eins liggur leið suður yfir upp frá bænum Dunki í Hörðudal og yfir að Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal, Fossavegur svonefndur. Dunkur mun heita svo vegna dunka eða dynkja í Hestfossi, en hann er skammt frá þjóðveginum.

En svo við hverfum aftur að Búðardal þá liggur líka leið þaðan um fjörur inn með Hvammsfirði. Þarna gætir sjávarfalla og best að fara í fylgd kunnugra. Bæði er hægt að fara sandfjöruna, en þegar lágsjávað er þá talsvert utar.

Um Sælingsdalsheiði
Úr Sælingsdal innst liggur leið um Sælingsdalsheiði og niður í Hvammsdalinn annars vegar að Múlabæjum og hins vegar að Staðarhóli þar sem Sturla Þórðarson bjó. Þarna er m.a. sögusvið Laxdælu en Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Þar í gili minnist undirritaður þess að hafa lítill drengur týnt hrafntinnu. Ég var þar sumarlangt á barnaheimili líklega níu ára gamall. Við fengum góðan mat og sváfum í þægilegum rúmum og einu sinni yfir sumarið fengum við sendan pakka úr Reykjavík með súkkulaði og brjóstsykri og rúsínum. Þá var hátíð.

Það var að Sælingsdalslaug sem ég lærði að bíta af mér fyrirmyndarbörnin, en laðaðist þeim mun meira að pörupiltum. Eitthvað hefur eðlisávísunin verið í góðu lagi hjá mér því að fyrirmyndarbörnin urðu að grimmlyndum pappírstígrum, en pörupiltarnir urðu skurðlæknar, húsasmíðameistarar og rennismiðir, nema einhver einn sem lenti á Litla-Hrauni. En eins og konan úr Norðurmýrinni sagði: “Öll erum við jöfn fyrir guði.” Pappírstígrarnir lenda nú líka á Litla-Hrauni og hver veit nema maður eigi sjálfur eftir að verða tugthúslimur upp á vatn og brauð. Leikurinn er ekki búinn fyrr en flautað er af.

Ástæðan fyrir því að ég tala ekki beint vel um pappírstígrana er sú að þeir eru sem óðast að reisa skilti hist og her þar sem á stendur einkavegur. Það er þó bót í máli að ég veit að þeir sem raunverulega eiga þetta land eru þeir, sem unna því og hafa svitnað og tárast og glaðst í viðureign sinni við það. Aðrir eru vörslumenn þess í bili og sumir kannski ekkert alltof lengi.

Geta má þess að í Sælingsdal eru Bollatóftir skammt frá Sælingsdalsá. Þar mun Bolli Þorleiksson sá sem fjallað er um í Laxdælu hafa verið drepinn í hefndarskyni vegna Kjartans Ólafssonar.


Um Haukadalsskarð
Inn úr Haukadal liggur leið um Haukadalsskarð yfir að Melum í Hrútafirði. Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin og er hennar víða getið m.a. í Njáls sögu og Sturlunga sögu. Í Sturlungu stendur eftirfarandi: “En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils Böðvarsson og Vigfúss Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega.”

Um Haukadalsskarð segir hinn merki danski fræðimaður Kristian Kalund í bók sinni Íslenskir sögustaðir: “Austasti bær Haukadals er Skarð, stendur hinum megin ár. Rétt austan við bæinn er alfaravegur sem liggur um Haukadalsskarð upp á fjallheiðina, sem tengir austurenda Haukadals við Hrútafjörð (Melar).” Svo segir hann frá því að Gunnar á Hlíðarenda hafi stefnt Hrúti um fé Unnar, er við hann hafði skilið. Gunnar reið síðan úr Laxárdal og yfir í Haukadal og svo fyrir austan Skarð til Holtavörðuheiðar og heim.”

Fróðlegt væri að vita hvaða leið Gunnar hefur farið austur í Fljótshlíð. Er ekki hugsanlegt að hann hafi farið þvert á Holtavörðuheiði og komið einhvers staðar hjá Hólmavatni og þaðan í Hvítársíðu? Síðan yfir Hvítá á vaði og Kaldadal eða Okveg. Því næst Skessubásaveg hjá Skjaldbreið og Klukkuskarð niður í Laugardal nema hann hafi farið Hellisskarðsleið og komið niður hjá Úthlíð í Biskupstungum. Frá Úthlíð á vaði á Hvítá hjá Bræðratungu, en yfir Þjórsá á Nautavaði. Yfir Ytri-Rangá hefur hann farið á vaði hjá Svínhaga og síðan Kotveg að Keldum og þaðan heim. Þetta eru auðvitað getgátur einar. Gaman gæti verið að fá uppástungu um það hvaða önnur leið kæmi til greina.

Aðrar leiðir úr Haukadal
Fleiri leiðir liggja úr Haukadal. Ein liggur upp hjá Litla-Vatnshorni upp með Prestagili yfir Kvennabrekkuháls að Kvennabrekku í Náhlíð, Prestagötur svonefndar. Prestarnir á Kvennabrekku munu hafa farið ríðandi þessa leið enda var útkirkja að Stóra-Vatnshorni. Frá Litla-Vatnshorni liggur líka leið að Kirkjuskógi og eins frá Saurstöðum um Saurstaðaháls yfir að Kringlu í Náhlíð.

Hér skal þess getið að sá eljusami handritasafnari Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku en ólst upp að Hvammi í Dölum. Líka hitt að skammt fyrir innan Saurstaði í Haukadal er bærinn Jörfi þar sem Jörfagleði var haldin fyrrum. Það var mikil skemmtun og vinsæl af alþýðunni og fékkst margt vinnufólk ekki til að ráða sig í kaupavinnu nema með því skilyrði, að það fengi að sækja Jörfagleðina.

Stundum gerðist Jörfagleðin full blautleg og eftir eina slíka fæddust 18 eða 19 lausaleiksbörn. Tók Jón Magnússon bróðir Árna Magnússonar þá á sig rögg og bannaði þennan gleðskap. Enn sést móta fyrir mörgum samliggjandi reiðgötum að Jörfa. Þar hefur væntanlega margt lífsglatt, eftirvæntingarfullt ungmennið látið hest sinn dansa á hýruspori.

Leiðin um Bröttubrekku
Skammt frá Sauðafelli í Miðdölum liggur leiðin um Bröttubrekku milli Suðurárdals og Norðurárdals. Þarna var gamla póstleiðin. Bent hefur verið á hversu Sauðafell lá vel við samgöngum hér fyrr meir og að þangað söfnuðust völd sem margir áttu leið um. Virtur fræðimaður Helgi Þorláksson hefur skrifað talsvert um þetta efni. Í riti sem Sögufræðslusjóður gaf út árið 1991 segir Helgi í grein sem fjallar um leiðir og völd í Dölum við lok þjóðveldis eftirfarandi:”Í Laxdælu er hermt frá Þórólfi bónda rauðnef á Sauðafelli. Til hans komu tveir menn að kvöldlagi og segir í sögunni um það: “Þar var vel við þeim tekið því þar var allra manna gisting.” Hér er Sauðafelli lýst sem miklum gististað og nánast ferðamannamiðstöð.”

Þeim sem leita að vönduðu efni um gamlar reiðgötur vil ég benda á rit Helga Þorlákssonar Gamlar götur og goðavald. Hún fjallar um fornar leiðir og völd Oddaverja í Rangárþingi. Hestamenn sem ætla að ríða út á Njáluslóðum gerðu margt vitlausara en að lesa þessa bók.

Kjarni þessa máls er sá, að þegar fyrri tíma höfðingjar völdu sér búsetu þá hugsuðu þeir líkt og hótelhaldari gerir í dag. Helst vildu þeir búa sem næst krossgötum. Gott umtal gesta og gangandi kom sér vel og með því að búa við þjóðbraut og gera vel við gistivini sína styrktust völdin. Ég efast um að höfðingjar Sturlungaaaldar hafi kannast við orðið gestanauð, sem fátækt fólk seinna meir mátti þola, sumt svo mjög að það neyddist til að flýja heimili sín og setjast að fjarri alfaraleið.

Á Sauðfelli bjuggu m.a. Sturla Sighvatssn og Hrafn Oddsson, hirðstjóri (1226-1289) en hann var harður í horn að taka og veitti biskupsvaldinu öflugt viðnám. Lega staðarins með tilliti til samgangna hafði mikil áhrif þegar um völd var að tefla. Að hinu hafa menn minna gefið gaum að víða í Hvammssveit var mikil járnvinnsla. Þar var mýrarrauður og skógur til kolagerðar. Sá sem ætlaði sér að ráða yfir stærra svæði varð að getað járnað fjölda hesta til langferða. Jafnframt gat sá sem sat Sauðfell komið í veg fyrir að aðrir gætu nálgast járn í skeifur. Að ofan er greint frá því er Sturla Þórðarson fór ríðandi um Haukadalsskarð með nærri 200 manna lið. Eitthvað hefur nú þurft af af skeifum undir alla hestana. Sturlungar þurftu oft að fara um langan veg að lúskra á óvinum sínum og mældu ekki götur í roðskóm eins og seinna tíðkaðist hjá alþýðunni.

Greiður aðgangur að skreið úti undir jökli hefur sjálfsagt líka haft sitt að segja. Skreið er afar heppilegur matur í hernaði, auveld í meðförum og næringarrík.

Bröttubrekku er getið í Sturlunga sögu. Þar segir: “Skildust þeir við það, að Snorri fór vestur í fjörðu, en Þórður fór leið sína vestur á Skógarströnd og svo inn til Dala. Fann Þórður menn sína alla laugardaginn að Höfða við Haukadalsá. Riðu þeir þá um kvöldið manni miður en hálfur sjötti tugur, suður um Brattabrekku og suður yfir Karlsháls um nóttina og svo upp eftir Kjarrárdal og komu fram drottinsmorgun í sólarroð til Fljótstungu, svo að enginn maður varð varr við reið þeirra um héraðið. Riðu þeir drottinsdagskvöldið á Arnarvatnsheiði.”

Þetta er knöpp lýsing en samt nógu skýr til þess að samtímamenn höfundar, þeir sem á annaðborð voru á ferðinni, vissu nákvæmlega við hvað var átt. Því miður er almennt lítt hirt um leiðarlýsingar í fornsögum enda þar viðfangsefnið fyrst og fremst samskipti fólks.

Frá Þorbergsstöðum í Laxárdalshreppi liggur leið til Hörðudals. Er þá farið um Lækjarskóg og Höfðabólsnes. Hörðudalur gengur suður úr Hvammsfirði. Í Landnámu er sagt að hann sé kenndur við Hörð skipverja Auðar djúpúðgu og gaf hún honum dalinn. Dalurinn klofnar í Vífildal og Laugardal. Hörðudalur er svo líka nafn á sveit, sem nær yfir Hörðudalinn sjálfan, Selárdal og Dunkárdal.
Hjá Vestliðaeyri liggur leið að Dunki.

Út Fellsströnd
En svo við hverfum aðeins norðar þá liggur út Fellsströnd leið frá Kýrunnarstöðum og Teigi og síðan áfram skammt frá sjó að Skorravík og að Staðarfelli. Þar er farið upp fyrir vestan Háhamar og að Flekkudalsá og hjá Orrahól. Síðan áfram út fyrir Klofning. Þá er ekki langt að Skarði á Skarðsströnd.

Leið frá Skarði á Skarðsströnd
Frá Skarði liggur leið um Skarðið yfir að eyðibýlinu Barmi í Búðardal. Þarna eru glöggar reiðgötur. Á leiðinni er dys sem heitir Íllþurrka. Ferðalangar hafa gjarnan þann sið að kasta þremur steinum í dysina til þess að hafa þann sem þar liggur á sínu bandi. Sagnir herma að dysbúi þessi hafi ekki þolað að heyra í kirkjuklukkum og þess vegna kosið sér leg þarna.

Önnur leið liggur frá Skarði út með Grafarfjalli. Þarna er gömul þjóðleið skammt frá aðalveginum.

Að Skarði bjó Ólöf ríka um miðja 15. öld. Hún var gift Birni Þorleifssyni ríka sem drepinn var af Englendingum. Hún hefndi sín grimmilega og tók skip fyrir Englendingum og lét fanga sína erfiða heima í Skarði. Föngum sínum lét hún reisa skála þar sem seinna var hjáleigan Manheimar og var þeirra gætt þar. Aðra lét hún hálshöggva á hól sem nefndur hefur verið Axarhóll.

Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má geta þess að heiman frá Skarði liggur sjávargata að Skarðsstöð en þar þótti ágætur lendingarstaður. Í Árbók Ferðafélags Íslands frá 1947 segir svo: “Vegur lá upp frá Akri yfir fjall hjá Skeggöxl og niður í Skarðsstrandardalina. Var hann fjölfarinn meðan verslun var í Skarðsstöð, en engin við Hvammsfjörð. Önnur leið var upp úr Sælingsdal austan Skeggaxlar til Skarðsstrandar.” Bærinn Akur er spölkorn fyrir vestan Hvammsá.

Frá bænum Búðardal ekki þorpinu liggur leið hjá Hvarfdalsá fyrir neðan Hrossaborgir og komið niður í Hvammssveit milli Rauðbarðaholts og Kýrunnarstaða. Einnig liggur leið fram Búðardal og fyrir norðan og austan Skeggöxl og niður að Hvammi í Hvammssveit.

Eins liggur leið um Villingadal sem sameinast leiðinni úr Búðardal fyrir sunnan Borgir. Úr Villingadal liggur einnig leið yfir í Galtardal.

Leið liggur frá Hallsstöðum um Skeggöxl og þvert á leiðina um Sælingsdalsheiði.

Frá Stórutungu liggur leið um Galtardal og síðan niður Flekkudal að Hallsstöðum.

Um Seljadal liggur leið, sem kemur inn á leiðina um Sælingsdalsheiði.

Út í Dagverðarnes á Fellsströnd utan Klofnings liggja götur. Þar var landmikil jörð, sem að sögn Landnámu dregur nafn sitt af því, að þar snæddi Auður djúpúðga dögurð er hún fór þar um ásamt fylgdarliði sínu. Þetta er nokkuð sundurlaust en ég verð að göslast áfram svo að ég dagi ekki uppi í einhverju dalverpinu.

Hálsagötur og Sölvamannagötur
Frá Magnússkógum liggur leið að Ljárskógarseli. Þar skammt fyrir sunnan greinast leiðir og liggur önnur að Gillastöðum í Laxárdal en hin að Sámsstöðum. Þaðan svo áfram um Laxárdalsheiði og um Sölvamannagötur, sem koma niður innst í Hrútafirði hjá Fjarðarhorni. Leið þesssi nefndist að hluta til a.m.k. Hálsagötur.

Sölvamannagötur heita svo vegna þess að þessa leið fóru menn af norðurlandi að týna söl í Saurbæ. Hólamenn gerðu út stórar lestar þangað vestur. Þessar götur eru lítið farnar í dag, en ástæða er til að endurhlaða vörður þar sem og víða annars staðar. Það yrði þarft framtak ekki síður en gerð reiðstíga meðfram akvegum. Hestamannafélög hvert á sínu svæði ættu að taka sig til og endurhlaða vörður. Þetta býður upp á áhugaverða útivist og stuðlar um leið að því að viðhalda vitneskju okkar um fornar leiðir.

Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má geta þess að á Laxárdalsheiði gerðist það árið 1463 að Einar Þorleifsson hirðstjóri fór þar um ásamt 12 öðrum. Það skall á vonskuveður og sumir örmögnuðust og urðu úti, en tveir riðu steindauðir og helfrosnir niður í Hrútafjörð. Einar sjálfur komst við íllan leik til byggða.

Um Gaflfellsheiði
Frá eyðibýlinu Ljárskógum liggur leið með Fáskrúð fyrir vestan Ljárskógarsel og hjá Hvanneyrum. Síðan meðfram Stikukvísl og um Gaflfellsheiði. Hjá Hvanneyrum er leitarmannakofi Laxdælinga ásamt girðingu.

Frá Fremribrekku í Svínadal liggur leið sem sameinast leiðinni um Gaflfellsheiði fyrir norðan Hrútafell.

Ýmsar götur
Margar fleiri götur mætti nefna, svo sem Ásólfsgötu. Kristian Kalund segir hana liggja upp frá Bjarnastöðum í Staðarhólsdal og niður í Fagradal. Ásólfsgötu er getið í Sturlungu. Þar segir: “Og þriðju nótt hina næstu fyrir þingið fóru þeir Einar Ingibjargarson yfir fjall hið efra og ofan í Traðardal upp frá Staðarhóli; en þeir gerðu tvo menn hið efra um Melárdal og ofan Ásólfsgötu á njósn að vita um naut þau, er komin voru úr Búðardal. Þeir komu á móti þeim Einari í Þverárdal og sögðu að nautin væru nær túni á Staðarhóli.”

Gata heitir gömul fjárrekstrarleið. Farið er upp Vífilsdal hjá bænum Vífilsdal og síðan ofan í Eiðisdal og niður í Hundadal og komið hjá bænum Neðri-Hundadal.

Hafursgötu er getið í Choropraphica Islandica Árna Magnússonar. Hann segir hana liggja frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal að Glerárskógum í Hvammssveit. Árni getur einnig um Hallaragötu sem liggur upp frá Vífilsdal í Hörðudal ofan að Hamraendum, Skörðum eða Bæ í Miðdölum.

Sundavegar er getið í Árbók Ferðafélags Íslands 1997. Þar segir: “Hinn eiginlegri heiðarvegur (á Laxárdalsheiði) liggur beint í austur frá Mýrdalsási um Steinavatnshæðir sunnan við Steinavötn. Þar er vegurinn hæstur og nær þó ekki nema 200 m hæð. Þaðan var haldið yfir Reiðgötuhrygg og yfir Hrómundará niður að Borðeyrarbæ. Annar reiðvegur var fjölfarinn fyrir aldamótin 1900 um Sólheimasund og norðan Laxárvatns. hann nefndist Sundavegur og þótti sumum hann bæði styttri og hallarminni en menn komu samt norður á sömu slóðum og ella.”

Svolítið áður en komið er að Sólheimum í Laxárdal liggur leið upp með Hólmavatnsá upp að Hólmavatni á Hólmavatnsheiði. Á korti Björns Gunnlaugssonar er leið teiknuð alla leið að Prestbakka.

Við bæinn Sólheima er kenndur Sólheima-Móri. Hann var viðskotaíllur og hefði ekki veitt af geðprýðistöflum eins og fást í apótekum í dag. Mörgum gerði hann skráveifur, afvegaleiddi ferðalanga þannig að áður en þeir vissu af voru þeir staddir úti í miðri á eða á ystu nöf og hengiflug fyrir neðan. Sólheima -Móri var ekki vinsæll.

Kannski eru allar þessar sögur um drauga og móra og galdrakindur til þess að minna okkur á að náttúran getur verið viðsjárverð og aðeins í góðu samkomulagi við hana komumst við klakklaust á leiðarenda. Svo er líka til önnur tegund af galdrakindum, en það eru þeir sem geta prangað nánast hvaða bikkju sem vera skal inn á fólk. Hrossaprang er eins og allir vita á nokkuð gráu svæði og hestasölumaður segir ekki alltaf alveg sannleikann. Auk þess er álitamál hvað er góður hestur og hvaða ekki. Góður hestur er í raun sá hestur sem hæfir manni.

Margir hestasölumenn eru þó ágætlega heiðarlegir enda endist enginn í þessu starfi til lengdar nema hann sé það. Byrjanda sem ætlar að fá sér hest vil ég ráðleggja að hafa vanan hestamann sér við hlið og eins að láta dýralækni skoða hestinn. Þetta er sjálfsögð varúðarráðstöfun. Dæmi veit ég um að fólk hefur dreymt um það árum saman að eignast reiðhest. Síðan hefur það farið skakkt af stað og misst móðinn. Þar með fauk dýrmætur draumur út um gluggann. Annars eigum við aðallega að treysta á okkur sjálf því að það erum við sem eigum eftir að nota hestinn. Best er að byrja á lúsþægum hesti minnst átta vetra gömlum, fulltömdum. Svo þegar viðkomandi hefur öðlast öryggi þá getur hann fært sig upp á skaftið.

En hrossaprangarar hafa annars margir verið kúnstugir. Einn slíkur var upp á sitt besta um miðbik fyrri aldar. Hann hafði sérstakt lag á að láta hesta fara vel undir sér, náði fram góðri fótlyftu og hnakkabeygju. Nýríkum heildsölum úr Reykjavík fannst heiður að fá að skipta við hann. Nema hvað þessi vinsæli hestasölumaður hafði þann háttinn á að setja söluhesta á 10mm skeifur að framan og náði þannig fram ágætum fótaburði. Hann var ekki í neinum vandræðum með að selja hestana. Hins vegar brá stundum svo við, að hágengi gæðingurinn var ekki eins fasmikill undir heildsalanum í Reykjavík, sérstaklega ekki eftir að búið var að járna hann á 8mm að framan. Þá vildi hreingengur töltari breytast í skaðræðis lullara.

Nú vildi kaupandinn skila hestinum og var það ekkert mál. “Sjálfsagt vinur,” sagði hrossaprangarinn og tók við hestinum aftur en með afföllum þó. Síðan setti hann hestinn aftur á 10mm skeifur að framan, tuktaði hann svolítið til og seldi næsta heildsala úr Reykjavík. Menn höfðu gaman af þessu vegna þess að hann átti í höggi við liðið sem var að flytja inn nælonsokka eða seldi smygl úr Tröllafossi eða steypustyrktarjárn handa hernum á Keflavíkurvelli.

Og svo eru það hestakaupin. Menn eiga hestakaupahesta sem þeir láta í skiptum fyrir aðra hesta eða peninga. Einn kunningi minn seldi úrtökuhross sokkótt, en fékk jarpan hest lakari í staðinn og sturtubotn í milli. Hann var að hefja sambúð og konan vildi fá sturtubotn. Sokkótti hesturinn var frá Kolkuósi og mikið sá hann eftir honum.

Við sem lifum á skiptiöld ættum að skilja þessa verslunarhætti mæta vel. Við skiptum um eldhúsinnréttingar, flísar á baði, hross, kerlingar og bíla. Aðalatriðið varðandi hross og kerlingar er að þetta sé geðgott, en slíkt er vandfundið og þá er bara að skipta, nema hvað næsta hross er þá kannski mein hrekkjótt, slær og bítur, prjónar eða blindrýkur. Það er galli. Kannski ættum við að slaka aðeins á þessari Paradísarheimtufrekju okkar.

Leiðir í Bitrufjörð
En áfram með smjörið. Þrjár leiðir liggja helstar yfir í Bitrufjörð. Ein er um Gaflfellsheiði og er þá komið niður í Brunngilsdal. Þetta er gömul fjárrekstrarleið. Önnur liggur um Hvolsdal og Brekkudal. Hún kemur líka niður í Brunngilsdal. Svo er það leið upp frá Kleifum í Gilsfirði um Snartartunguheiði og niður í Norðdal.

Nyrsta leiðin er sömuleiðis upp frá Kleifum. Liggur hún fyrir norðan Krossárvatn og niður í Krossárdal. Er þá komið í Bitrufjörð nokkru fyrir norðan Óspakseyri. Að Óspakseyri átti Daði Guðmundsson sýslumaður og bóndi í Snóksdal bú. Hann sótti þangað rekavið og hefur sjáfsagt flutt viðinn á hestum um Gaflfellsheiði. Sá sami Daði fór að Jóni biskupi Aransyni og sonum hans og handtók þá að Sauðafelli. Hann hafði þá í haldi þangað til farið var með þá í Skálholt þar sem öxin beið þeirra. Seinna voru lík þeirra flutt norður að Hólum í Hjaltadal og þegar komið var á Hrísháls þar nyrðra tók Líkaböng að hringja, en það er önnur saga.

Um Gaflfellsheiði segir Árni Magnússon þetta: “Gaflfellsheiði frá Ljárskógum í Laxárdal ofan að Brunngili í Bitru. Hana má einnig ríða upp með Hafragili á Svínadal, upp frá Magnússkógum og Glerárskógum en alltíð ofan að Brunngili.”

Að Ljárskógum ólst upp skáldið og söngmaðurinn Jón frá Ljárskógum, en Jóhannes úr Kötlum ólst upp að Ljárskógarseli. Frá Ljárskógum að Brunngili eru um 35-40 km.

Um margt hefur mér fundist þreytandi að lesa sumar leiðarlýsingar handa hestafólki, vegna þess hversu mjög þær ganga út á að ramba á þetta eða hitt hliðið eða krækja fyrir girðingar. Því miður er þetta óhjákvæmilegt því að ella geta menn lent í ógöngum. Flestum finnst ógeðfellt að grípa til þess fangaráðs sem naglbíturinn er og engan hestamann veit ég gera það nema í algjörri neyð. Segja má að þekking á hliðum og girðingum sé orðin sérstök fræðigrein innan hestamennskunnar. Mér þykir hún nokkuð þurr og hef þess vegna ekki lagt mig eftir henni.

Þegar hugað er að gömlum þjóðleiðum þarf að skoða hvert erindið var. Gamlar skreiðarkaupaleiðir lágu um allt land. Bændur þurftu í kaupstað að sækja vistir og byggingavörur, timbur og annað. Þeir kunnu að velja þær leiðir þar sem best fór á klyfjahestum. Fjárrekstrarleiðir voru margar og ekki endilega þar sem lausríðandi menn kusu að fara. Svo fóru margir fótgangandi t.d. í verið. Vetrarveg fóru menn oft á meðan frost var í jörðu og ekki þurfti að hugsa um mýrarnar, þennan slæma farartálma allra tíma. Sumir fóru árlega í skreiðarferðir seint á veturna t.d. vestur undir Jökul og þá beint af augum um freðnar mýrar.

Nú fer að líða að lokum þessarar greinar en áður langar mig að minnast á hestaferð sem ég fór í júlímánuði árið 1998 vestur í Dali með Borgfirðingum, ýmsu fólki úr Reykjavík og útlendingum. Dagleiðir voru svona:

14. júlí-Frá Reykholti í Reykholtsdal um Kroppsmela niður með Hvítá og yfir Grímsá á Hólmavaði. Þaðan hjá Skjólhól og yfir Hvítá á brúnni hjá Ferjukoti. Hestar geymdir í girðingu skammt handan við síkisbrýrnar.

15. júlí-Hjá eyðibýlinu Gufá og upp með Gufá, en yfir Langá var farið á Lækjarósvaði. Riðið hjá Grenjum og þaðan að Grímsstöðum á Mýrum. Gist þar.

16.júlí-Frá Grímsstöðum var farið um Hraundal og Langavatnsmúla að leitarmannakofanum við Langavatn. Þar var gist.

17. júlí-Frá Langavatni inn Langavatnsdal um Sópandaskarð niður í Laugardal og að Tungu í Hörðudal. Gist á Svarfhóli í Dölum.

18. júlí-Frá Tungu í Hörðudal um Lækjarskógarfjörur og hjá Búðardal. Þaðan svo fjöruna að mestu að Magnússkógum. Þar fóru ýmsir útlendingar úr ferðinni og aðrir komu í staðinn. Ekið í Reykholtsdal og gist þar.

21.júlí-Frá Magnússkógum út Fellsströnd að Staðarfelli. Gist þar.

22.júlí-Frá Staðarfelli að Geirmundarstöðum á Skarðsströnd. Gist á Staðarfelli.

23. júlí-Frá Geirmundarstöðum hjá Skarði og Búðardal í Saurbæ. Gist þar í félagsheimili.

24. júlí-Úr Saurbæ um Sælingsdalsheiði og Sælingsdal að Ljárskógum. Gist í félagsheimilinu Árblik.

25. júli-Frá Ljárskógum hjá Búðardal og að Stóra-Vatnshorni í Haukadal. Gist í félagsheimilinu Árblik.

26. júlí-Frá Stóra-Vatnshorni um Saurstaðaháls niður hjá bænum Kringlu að Svarfhóli. Gist í félagsheimilinu Árblik.

27. júlí-Frá Svarfhóli um Reykjadal og Sand niður í Sanddal og þaðan að Króki í Norðurárdal. Gist á Varmalandi í Borgarfirði.

28.júlí-Frá Króki og hjá Hreðavatni um Kolásinn að Munaðarnesi. Gist á Varmalandi.

29.júlí-Frá Munaðarnesi yfir Norðurá á Hábrekknavaði og hjá Einifelli og bænum Guðnabakka og yfir Hvítá á brúnni hjá Kláffossi. Þaðan hjá Hurðarbaki í Reykholt.

Þetta var eitt af þeim sumrum sem ég lagðist bókstaflega út, var í hestaferðum fram á haust. Ég er alltaf að strengja þess heit, að nú skuli ég ekki láta afvegaleiða mig heldur halda mínu striki, vera ábyrgur, nema hvað ef ég hefði ekki látið afvegaleiða mig, þá hefði ég ekki getað skrifað þessar greinar um hestaferðir. Ég viðurkenni að þegar mér verður hugsað til þess ferðaslarks sem hefur verið á mér undanfarin tuttugu ár þá sundlar mig. Vonandi næ ég einhvern tímann þeim þroska að geta sest niður og spilað bingó eða félagsvist, en bara ekki alveg strax.

Niðurlag
En svo ég fari nú að slá botninn í þetta þá er góð regla að hafa dagleiðir ekki of langar. Hæfileg dagleið að mínu mati er 30-35 km. Þetta ásamt góðu viðurværi og nægri hvíld fyrir bæði menn og hesta er undirstaða velheppnaðrar ferðar.

Önnur regla er sú að fara helst aldrei framúr fararstjóranum. Það ruglar hann í ríminu. Furðu fljótt gerist það, sérstaklega ef þreyta er farin að sækja að, að hann fer að elta þann sem á undan er og þá kannski út í ófæru. Fararstjórn krefst vakandi athygli en sú athygli dofnar fljótt ef aðrir eru komnir fram úr. Þetta hefur ekkert með það að gera hver á að ráða, heldur er þetta fyrirkomulag sem hefur gefist vel um aldir. Á hinn bóginn á sá sem næstur fararstjóranum ríður að vera honum til fulltingis og leiðrétta ef hann er að fara einhverja vitleysu. Þannig er ævinlega best að tveir eða jafnvel fleiri hafi samráð um fararstjórnina, tveir traustir ríði fremst og einn traustur maður aftast.

Fastmótað skipulag hjálpar fólki að komast heilu og höldnu í náttstað. Einstaka menn komast hins vegar upp með að hafa allt lausara í reipunum. Heppnist það þá er það vegna þess, að þeir hinir sömu eru óvenju úrræðagóðir. Fólk sem hefur fengið hefðbundið uppeldi ætti ekki að reyna að líkja eftir náttúrubörnunum, enda hafa fararstjórar af því taginu þá eitthvað í sér sem vegur upp á móti skipulagsleysinu. Það henti einn slíkan að klósetið í leitarmannamannakofanum við Langavatn var bilað. Sænskar kerlingar stóðu allt í kringum hann tipplandi á tánum með samanklemmd hnén. Aðstoðarmennirnir voru að farast á taugum en náttúrubarnið lét ekki fipast. “Því miður, elskurnar mínar,” sagði hann. “Þetta er bara svona, en í staðinn fyrir dauníllt klóset fáið þið þetta rúmgóða, lofthreina “prívat” sem þið sjáið hér allt í kringum ykkur.” Síðan útdeildi hann klósetpappír til hægri og vinstri og kerlingarnar tvístruðust um alla móa. Það var glaður hópur sem settist við matborðið þetta kvöld. Nú hefðu þær aldeilis sögu að segja þegar þær kæmu heim til sín.

En svo ég snúi mér að öðru þá hafa margir þann sið að taka sér einn hvíldardag í t.d. viku ferð og sá dagur þá notaður til þess að skoða sig um. Sé farið í bifreið um Dalasýslu þá er þar margt að skoða. Hægt er að aka út Fellsströndina og Skarðsströnd og þaðan í Saurbæ og Svínadalinn í Hvammssveit. Þá er óvitlaust að enda að Laugum í Sælingsdal og skola af sér ferðarykið í sundlauginni þar.

Vert er að skoða tilgátubæinn að Eiríksstöðum í Haukadal eða bara aka um Dalina og láta landslagið líða hjá. Fallegt er útsýnið víða t.d. út Hvammsfjörð og inn Gilsfjörð. Gefið hefur verið út sérstakt sögukort um Dalasýslu og ekki sakar að hafa það með í för. Allar nánari upplýsingar ættu svo að fást í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Búðardal.

Í dag búum við flest við þokkaleg kjör, en við borð allsnæktana getur orðið leiðigjarnt. Þá getur verið hressandi að taka hnakk sinn og hest og feta í fótspor forfeðranna. Á hestbaki fáum við skemmtilegri hreyfingu en ef við skokkum á einhverju bretti í æfingarstöð eða hjólum og hjólum á niðurnegldu hjóli án þess að vera að fara neitt sérstakt.

Ég hefði viljað hafa umfjöllun þessa ítarlegri en læt greinina gossa eins og hún er. Það er alltaf eitthvað meira sem bæta má við og þegar það er komið þá eitthvað ennþá meira. Eða eins og Binni hestamaður sagði í erfidrykkjunni hans Steingríms frænda míns. “Kúnstin er að vera mátulega kærulaus.” Hann lagði áherslu á mátulega. Það var Steindi frændi sem sagði: “Ef þú ert beðinn um að gera eitthvað, sem þú vilt ekki gera þá skaltu bara gera það nógu ílla, því að þá ertu ekki beðinn aftur.” Steingrímur og Laufey konan hans áttu alltaf góða hesta og nutu þess að ríða út saman. Meira var það ekki í bili.