ég sendi ykkur stutt ágrip um sögu persaveldis, vonandi hafið þið gaman af.
Frá upprisu til falls:
Persar sem eru indóevrópsk þjóð settust að norðan Persaflóa á hálendu svæði með bæði eyðimörkum og hásléttum. Til að byrja með greiddu Persar nágrannaþjóð sinni Medum skatt. Persar og Medar voru skyldar þjóðir og höfðu barist saman við að fella stórveldi Assýríumanna .
Kýros varð leiðtogi Persa um 550 f. kr . og byrjaði þá frægðarsól Persa að skína. Kýros kom með nýjar hugmyndir um hvernig ætti að stjórna heimsveldi, hugmyndir sem gerðu Persum kleift að halda utan um eitt stærsta ríki sögunnar. Kýros náði völdum af konungi Meda og tvinnaði persnesku þjóðina og Meda saman. Þessi valdaskipti hjá Medum urðu þeim síður en svo til óláns því Kýros lét Meda fá áhrifamiklar og mikilvægar stöður bæði í hernum og í stjórnsýslunni.
Kýros byrjaði á því að sigra hið auðuga ríki Lydíu áður en hann snéri sér að sjálfri Babýlon. Babýlon var á þessum tíma ein sú best varða borg sem heimurinn hafði kynnst. Þrátt fyrir það flúði konungur Babýloníumanna þegar Kýros ætlaði sér að gera árás á borgina árið 540 f. kr. þannig að lítið varð um bardaga enda Persar vel skipulagðir hernaðarlega séð. Alllir bjuggust við að Kýros myndi leggja borgina í rúst að hætti Assýriumanna, en sú varð ekki raunin. Kýros innlimaði Babýlon í ríki sitt. Kýros hinn mikli lést árið 529 f. kr. í landamæradeilum við Massagetar.
Kambýses sonur hans tók þá við krúnunni. Hann hélt áfram þenslustefnu föður síns og setti sér að ljúka því sem faðir hans hafði ætlað sér, að sigra Egyptaland. Persneski herinn undir stjórn Kambýses náði að sigra hersveitir faraós við Pelúsion á Súezheiði árið 525 f. kr. og var allri mótspyrnu Egypta þá lokið.
Persaveldi var nú orðið jafn stórt og ríki Assýríumanna á aðeins 25 árum. Kambýses lést svo árið 522 f. kr. á leið heim til Persíu til að stöðva uppreisn þar.
Dareios I varð svo konnungur eftir harða baráttu um hver væri réttmætur erfingi krúnunnnar. Hægt er að þakka Dareios I mikið enda á hann mestan heiðurinn af því hversu lengi Persaveldi hélst saman því hann endurbætti ríkisskipunina til muna og vikið verður að því síðar.
Eftir sigur Persa á Lydíu höfðu nokkur grísk borgríki sem áður voru skattskyld Lydíu fallið Persum í skaut. Grikkjum líkaði ekki að þurfa að lúta Persakonungi og gerðu borgríkinn uppreisn gegn Dareios I árið 499 f. kr. en eftir fimm ára stríðsátök buguðust grísku borgríkin. Persar ætluðu sér að skapa fordæmi úr grísku uppreisnarmönnunum til að forðast frekari vandamál af þeirra hálfu og brenndu borgina Miletos og hnepptu íbúa hennar í þrældóm. Þetta var aðeins byrjunnin á hinu svo kallaða Persastríði milli Persa og Grikkja, því að Aþeningar höfðu sent uppreisnarmönnunum liðsauka og það gat Dareios I Persakonungur ekki sætt sig við. Hann sendi boð til grísku ríkjanna og krafðist þess að þau sýndu honum undirgefni. Eyríkið Egina sá sér leik á borði og lofaði Dareios I udirgefni til að geta haldið verslun áfram á svæði Persa. Aþenumenn og Spartverjar urðu smeykir um að ef Egina gengi Persum á hönd yrði varnarstaða þeirra vonlaus því Egina var á hernaðarlega mikilvægum stað ef að til stríðs kæmi. Þeir sömdu því við Eginu um að ganga til liðs við sig. Dareios I lét ekki bjóða sér meira og sendi flota til höfuðs Aþenu árið 490 f. kr. Í byrjun herfararinnar gekk allt sem skyldi og náðu Persar nokkrum grískum borgum á sitt vald en biðu svo afhroð í bardaga í Maraþonflóa og þurftu að hörfa heim á leið. Nokkrum árum eftir bardagann við Maraþonflóa lést Dareios I.
Eftirmaður Dareios I var Xerxes og var hann staðráðinn í að hefna ófara forvera síns. Árið 480 f. kr réðust Persar aftur á Grikki og voru þeir aftur gjörsigraðir en nú voru Spartar í forustu sigurvegaranna.
Eftir daga Dareios I hófst öld friðar og velmegunar í Austurlöndum og lítið varð um stríð í Persaríki sjálfu, stríðin voru háð utan landamæra ríkisins en er fram liðu stundir byrjaði Persaveldi að hrynja. Því ef þú ætlar að ráða heiminum verður þú að ráða sjónum líka og þar stöðvuðu Grikkir Persa. Grikkir voru engu að síður hræddir um að ef góður herkonungur kæmist til valda í Persíu þá yrði gerð önnur innrás á Grikkland.
Árið 336 f. kr. varð Alexander mikli konungur Makedóníu og Dareios 3. konungur Persa.Grikkir óttuðust Dareios 3. ekki því hann var ekki talinn líklegur til afreka. Alexander var flljótur að ógna grísku borgríkjunum til hlýðni og hélt í stríð við Persa árið 334 f. kr. Alexander og her hans vann hverja orustuna á fætur annari. Árið 331 f. kr. sigraði Alexander Babýlon og var veldi Persa þá hrunið og nýtt heimsveldi að líta dagsins ljós.


Heimildaskrá:
Ásgeir Hjartarson. Mannkynssaga. Fyrsta bindi. Reykjavík.1943.
Frye, Richard N. The Heritage of Persia. London. 1963.
McKay, John P., Hill, Bennett D., Buckler, John og Ebrey, Patricia Buckley. A history of world societies. From Antiquity to 1500. Bindi A. Boston og New York. Vantar útg. Ár.
Montgomery, Hugo. Medelhavsvärldens historia till omkring 400 e. Kr. Stokkhólmur 1978.
Sykes, Percy. A History of Persia. Fyrsta bindi. London. 1951.