Rúnir Rúnir eru forn stafagerð þó nokkuð frábrugðin þeirri stafagerð sem notuð er í hinu vestræna samfélagi nútímans. Norrænar goðsagnir segja frá því hvernig rúnirnar komu til. Þær segja að Óðinn hafi hangið undir rótum Yggdrasils í níu nætur, stunginn síðusári, þar til rúnirnar birtust fyrir framan hann. Hann tók þær upp og féll síðan niður úr trénu. Hávamál segja þetta um atburðinn:


Veit eg að eg hékk
vindgameiði á
nætur allar níu,
geiri undaður
og gefinn Óðni,
sjálfur sjálfum mér,
á þeim meiði
er manngi veit
hvers af rótum renn.


Við hleifi mig sældu
né við horni-gi.
Nýsta eg niður,
nam eg upp rúnar,
æpandi nam,
féll eg aftur þaðan.

Rúnir eru ávallt dregnar með beinum strikum, en það var til þess að auðvelda skurð í tré eða steina. Rúnirnar voru útbreiddar um Evrópu og Norðurlöndin og voru notaðar frá því á annarri öld eftir krist og allt fram á 17. öld , en urðu að víkja fyrir rómanska stafrófinu þar sem það var auðveldara í notkun, ekki síst þegar ekki þurfti lengur að höggva í steina og á tré, heldur var hægt að nota pappír.
Rúnastafrófin eru nokkur, en vinsælast er þó eldra Fuþarkið. Það var notað allt fram til miðalda, en þá tók yngra Fuþarkið við en það hafði færri stafi, 16 í stað 24. Loks kom engilsaxneska rúnastafrófið með 33 stafi. Með því var hægt að gera frekari greinarmun á mismunandi hljóðum tungumálsins. Rétt eins og að rómanska stafrófið heitir eftir fyrstu stöfunum í því, Alfa og Beta (sbr. E. Alphabet), eru rúnastafrófin kölluð Fuþark eftir fyrstu stöfunum sex, Fé, Úr, Þurs, Óss(A), Reið og Kaun. Fuþarki er skipt í þrjár ættir, Freysætt, Hagalsætt (eða Heimdallsætt) og Týsætt en þær skipta máli í sambandi við lestur rúnanna þegar þær eru notaðar til ráðlegginga. Rúnirnar eru ekki alltaf skrifaðar frá vinstri til hægri eins og nútíma ritháttur. Stundum voru þær skrifaðar frá hægri til vinstri, jafnvel að ofan og niður og einstöku sinnum skrifuðu menn þær í runu, svipaðri og í slönguspilinu, sem sagt fyrst frá vinstri til hægri og svo næsta lína frá hægri til vinstri og þar fram eftir götum. Rúnirnar eru skrifaðar eftir framburði, en þannig er því yfirleitt háttað í íslensku. Það er því ekki tiltöku mál að skrifa íslensku á rúnum. Í ensku er það þó aðeins flóknara þar eð ensk stafsetning stangast oft á við hvernig orðið er lesið. Til dæmis er enska orðið ,,thing” (hlutur) skrifaður sem ÞI(ng), en ekki THING.
Orðið Rún er komið af fornri rót sem þýddi leyndardómur sem ekki er óeðlilegt því rúnir voru mikið notaðar við galdra og spádóma. Rúnir voru því notaðar á tvenns konar hátt, annarsvegar sem stafagerð til þess að koma skilaboðum á milli manna og því um líkt, og hins vegar sem máttug tákn til að segja til um framtíðina. Hver rún á sér ekki aðeins heiti og samsvarandi framburðarhljóð heldur líka merkingu og samsvörun í norrænni goðafræði.
Þó að það hafi verið bóklega hliðin á rúnum sem heillaði mig fyrst, verð ég að viðurkenna að eftir heimildavinnu fyrir þessa ritgerð þá heillar galdrahliðin mig líka. Ef við tökum sem dæmi einkennisrún hvers einstaklings; Ég heiti Inga, sem leiðir beint af sér að mín einkennisrún er Ingwaz, en hún hefur framburðarhljóðið ng. Komi þessi rún upp í rúnalestri, með þá einhverskonar spádómstilgang, merkir hún sköpunargáfu, væntumþykju, fjölskylduást, heimili og frjósemi. Komi hún öfug upp merkir hún erfiðisvinnu, strit og erfiði án árangurs. Ég get ekki sagt annað en að þetta lýsi mér ágætlega, ég hef mikla sköpunargáfu og læt mér þykja vænt um allt, en hef hins vegar allt of mikið að gera og því ferst ýmislegt fyrir hjá mér.
Það má því segja að rúnir séu afar spennandi viðfangsefni, hvort sem er fyrir bókaorma eða fólk sem er spennt fyrir andlegum málefnum. Ég get ekki sagt annað en ég hafi lært alveg heilmikið á þessari ritgerðarvinnu og nú get ég haldið áfram að þróa rúnaritunina mína.

Ég vona að þú hafir einnig haft gagn og kannski dálítið gaman af þessu og að þetta hafi veitt einhverja innsýn í hinn margslungna heim rúnanna.

Heimildir:

· Elsa Særún Helgadóttir, vefsíða. 1999. [skoðað 29. nóv. 2003] http://nemendur.ru.is/vefverk/upplt106_1/elsh/index.htm l

· Ingrid Halvorsen, Runes, Alphabet of mystery [vefsíða]. 1998-2003. [skoðað 29. nóv. 2003] http://sunnyway.com/runes/index.html

· Hávamál, erindi 138- 139. vefslóð: http://www.snerpa.is/net/kvaedi/havamal.htm



Myndir teknar af http://fly.to/gungner

)Þessi ritgerð var gerð af mér fyrir Íslensku 303 og kemur hér örlítið breytt)