Selkotsvegur

Eftir Örn H. Bjarnason

Í mörg ár hafa Fáksmenn farið ríðandi á Þingvöll um sumarsólhvörf, svonefnda Jónsmessureið. Lagt er af stað frá Skeggjastöðum í Mosfellssveit á föstudagskvöldi og farin Stardalsleið og framhjá Stíflisdalsvatni. Síðan um Kjósarheiði hjá Selkoti og sem leið liggur hjá Brúsastöðum í Skógarhóla undir Ármannsfelli. Gist er í Skógarhólum og riðið aftur í bæinn á sunnudeginum.

Tilkomumikið er að fylgjast með kannski 70-80 hestum ösla Grjótá og hlykkjast götuna um Dalholt í Selkot. Þar er venjulega áð. Nú er ekkert eftir af þessu gamla fjallakoti í Nyrðridal annað en fáeinar grjóthleðslur. Samt var hér auðugt mannlíf um árabil. Aðeins austar var býlið Melkot og fyrir svartadauða (1402) var búið í Hólkoti, en sá bær stóð sunnan við Kjálkaá, norðanundir Hádegisholti. Melkot var fyrir austan Stóragil og var það í byggð í stuttan tíma í kringum aldamótin 1900.

Selkot stendur eins og fyrr segir í Nyrðridal, en eftir honum rennur Kjálkaá. Innst tekur við svonefnt Gljúfur. Upp með því liggja reiðgötur austur á Þingvöll. Fyrir framan Gljúfrið er Kirkjuflöt, en þar áði fólkið frá Fellsenda, Stíflisdal og Selkoti, Dalbæjunum svonefndu, þegar farið var í Þingvallakirkju. Langur kirkjuvegur hefur það verið.

Á Teignum svonefnda meðfram Kjálkaá var engjastykki, sem spilltist mjög af umferð ríðandi manna. Sjálf er Kjálkaá alla jafna meinleysisleg, en í vatnavöxtum á vorin getur hún sýnt á sér klærnar og á vetrum lokaðist bærinn gjörsamlega inni milli ófærra lækja og áa. Þetta segir í örnefnalýsingu höfð eftir Bjarna Jónssyni, beyki. Þar segir: “Selkot lá mjög afskekkt. Vegir voru erfiðir, ófærir á vetrum. Ár og lækir lokuðu bæinn af á alla vegu á vetrum og í leysingum. Þjrár leiðir lágu frá bænum. Leiðin til Reykjavíkur lá suður yfir Kjálkaá á tveimur vöðum, yfir Grjótá, og síðan aftur yfir Kjálkaá og suðvestur að Sigurðarhól í Stíflisdalslandi. Síðan lá hún vestur yfir Mosfellsheiði.”
“Leiðin í Kjósina lá norðan Stíflisdalsvatns, niður með Stífingum, austan ár, niður með Þórufossi og norður að Hækingsdal.”
“Þriðja leiðin frá Selkoti var raunverulega framhald leiðarinnar úr Kjósinni, þ.e. leið Kjósaringa til Þingvalla, Kjósarheiði. Guðný (dóttir Jóns Bjarnasonar ábúanda í Selkoti 1918-1936) kveðst þekkja það nafn, en þessi leið var aldrei kölluð annað en Heiði þ.e. að fara austur yfir Heiði, frá Selkoti að Kárastöðum, Brúsastöðum og Þingvöllum. Leiðin lá til austurs eða suðausturs frá Selkoti. Þar voru reiðgötur, en faðir Kristrúnar (önnur dóttir Jóns) lagði þar veg eins og þeir voru í þá daga síðustu árin, sem hann var í Selkoti.”

Þess má geta að frá Skálabrekku og upp að Selkoti og Stíflisdal eru gamlar götur, sem liggja um Skálabrekkusökk og upp á milli Hádegisholta. Eins lágu götur frá Heiðarbæ um Vestra-Hádegisholt. Um þessa heiði var mikil umferð hér áður fyrr, sérstaklega í sambandi við réttir á haustin.

Svona rís landið ef við gefum okkur tíma til að skoða það nánar. Þarna eru m.a. eyktarmörk séð frá Selkoti. Austarlega á Hryggnum svonefnda fyrir norðvestan Einbúa eru Dagmálahólar. Þegar sólin er þar yfir er klukkan nákvæmlega 9. Börnin í Selkoti fengu ekki úr í fermingargjöf, en náttúran sá til þess að þau vissu alltaf nokkurn veginn hvað klukkan var. Dalholtin voru líka eyktarmörk. Þau sýndu nón. Fyrir ofan og vestan bæ var svo Miðaftansvarða.

Hér langar mig að skjóta inn í smá atviki, sem gerðist í júlí 1989. Ég og Valdimar kvótabani, Stjáni Mikk og Guðný í Flekkudal komum ríðandi í flagsandi olíukápum með 14 hesta samanlagt inn í þessa kyrrlátu sveitasælu. Ég man ekki hvort var sól eða rigning, rok eða logn. Á hestbaki er alltaf gott veður.

Stjáni hafði skotið undir mig jörpum hesti, fálmandi öflugum á ganginum og það var sláttur á okkur. Þegar við komum yfir Dalholt vildi hins vegar ekki betur til en svo, að jarpi klárinn hnaut í forarvilpu og ég hentist í loftköstum fram af honum ekki minna en 3 hestlengdir. Hausinn á mér vissi í áttina að Þingvöllum, sem var út af fyrir sig ágætt, því að þangað vorum við einmitt að fara, en nýstárlegt þótti mér að sjá Kjósarheiðina ýmist upp á hlið eða á hvolfi.

Eitt sárnaði mig við ferðafélaga mína, en það var að þau byrjuðu að hlæja á meðan ég var enn í loftinu og alls óvíst um lendingarstað minn eða niðurkomu yfirleitt. Ætli hefði ekki komið á þau ef ég hefði steinrotast og jafnvel dáið og þau setið uppi með lík í miðri hestaferð. Það getur verið önugt að sitja uppi með lík á fjallvegum, alls ekki auðvelt að koma þeim af sér. Mér varð ekki meint af fallinu en mig sárnaði.

Þetta var útúrdúr nema hvað í jarðabók Árna og Eggerts er ekki minnst á byggð þarna í Nyrðridal, en á þessum slóðum er mikið um örnefni sem hafa sennilega orðið til á seinni tímum. Þarna er Bjarnabrekka sem Brúsastaðafólkið sló. Torfmýri er fyrir sunnan Dalholtin niðri undir Kjálkaá. Þar var torf rist. Á árbakkanum rétt vestan við bæinn var mótekja. Líf fólksins fyrrum í dalnum endurspeglast í þessum örnefnum.

Á gömlum herforingjaráðskortum frá því rétt eftir aldamótin 1900 er sýnd leið hjá Selkoti, en hversu fjölfarin hún hefur verið í gegnum aldirnar er erfitt að fullyrða nokkuð um. Björn Gunnlaugsson sem teiknar sitt kort fyrir miðja nítjándu öld gerir ekki ráð fyrir leið þarna. Af því má marka, að hann hafi ekki litið á þetta sem fjölfarinn ferðamannaveg.

Sennilega hafa skálholtsbiskupar farið Selkotsveg á leið sinni til Maríuhafnar, en hún var skammt fyrir vestan þar sem Laxá í Kjós rennur til sjávar. Sú höfn var notuð á 14. öld og tóku biskupar þar land þegar þeir komu frá útlöndum og þaðan sigldu þeir gjarnan. Önnur höfn var við Leiruvog “fyrir neðan heiði.” Þó má vel vera að þeir hafi farið frá Þingvöllum í Vilborgarkeldu, en það var þekktur áningarstaður á krossgötum austarlega á Mosfellsheiði. Þaðan svo Þrengslaleið niður með Laxá. Vilborgarkeldu er víða getið m.a. í Ferðabók Sveins Pálssonar og Harðar sögu og Hólmverja, 11. kafla.

Sveinn minnist líka á Stíflisdal. Þann 8. október 1792 fer hann um Nyrðridal. Hann er að koma frá Þingvöllum yfir Kjósarheiði á leið að Meðalfelli í Kjós. Í Ferðabók sinni segir hann: “Kjósarheiði er örstutt en þeim mun verri yfirferðar vegna ótræðisflóa og keldna. Komið er niður í Stíflisdal, sem er fallegt, grösugt dalverpi. Einn bær er þar samnefndur í dalnum.” Engar teljandi torfærur eru á þessari leið í dag.

Ég þreytist seint á að dást að vísindamönnum eins og Sveini Pálssyni. Hann skrifaði þykkar bækur án þess að eygja nokkra von um að fá þær gefnar út. Í dag heimta menn viðurkenningu og hrós fyrir hvað eina, sem þeir inna af hendi. Rithöfundar vilja láta klappa fyrir sér um hver jól og leikarar helst á hverju kvöldi. Það var aldrei klappað fyrir Sveini Pálssyni. Kannski þurfti hann þess ekki með. Fullvissan um að hann hefði gert sitt besta var honum næg umbun.

Bændur í Selkoti
Fyrsti bóndinn í Selkoti var Sigurður Þorkelsson, fæddur á Heiðarbæ í Þingvallasveit árið 1800. Árið 1829 giftist hann Ingveldi Einarsdóttur frá Stíflisdal. Sigurður andaðist í Selkoti árið 1895. Þau hjónin eignuðust 13 börn og komust 9 eða 10 þeirra á legg. Búskap hófu þau í Selkoti árið 1830.

Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, rekur ævi þessa fyrsta bónda í Selkoti ágætlega í bók sinni Verkamenn í víngarði gefin út árið 1962 og vísast hér til frásagnar hans. Guðmundur hitti Svein Abel, síðasta bóndann í Selkoti, árið 1958 og er frásögn hans því sjálfsagt all traust.

Þorlákur Björnsson, sem bjó í Skálabrekku mestallan sinn búskap, bjó í 2 eða 3 ár í Selkoti eitthvað í kringum 1915. Þetta hafði mér tekist að nasa uppi einhvers staðar. Eins að Jón Bjarnason (1888-1976) hefði búið þar frá 1918 til 1936.

Síðasti bóndinn í Selkoti var eins og fyrr segir Sveinn Abel Ingvarsson (1887-1975). Hann var fæddur í Miðdal í Laugardal árið 1887 og stundaði búskap í Selkoti frá 1937 til 1953. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans hét Helga Pálsdóttir. Hún andaðist árið 1949. Seinni konan hét Ragnhildur Lýðsdóttir. Hún dó árið 1953. Þær eru báðar jarðaðar í Selkoti sem og Sveinn.

Eftir að Sveinn hafði misst báðar konur sínar gafst hann upp á að búa í Selkoti. Hann flutti í eitt ár að Kárastöðum, en síðan bjó hann þrjú ár einn í Stíflisdal. Árið 1957 flutti hann aftur að Kárastöðum. Þegar Sveinn eitt sinn var spurður að því, hvers vegna hann hefði látið jarða konur sínar í Selkoti og hvers vegna hann óskaði sjálfur að liggja þar, svaraði hann: “Það er eitthvað við þennan dal…maður vill helst vera kyrr.”

Oft á hestaferðum mínum hef ég áð þarna í Selkoti og stoppið þá stundum dregist á langinn. Það er alveg rétt, dalurinn grípur mann og heldur.

Allt var þetta gott og blessað, en eitthvað vantaði samt inn í. Hvað hét t.d. bóndinn sem kom á eftir Sigurði? Mér fannst ég þurfa að upplýsa þetta. Og þetta sérkennilega nafn, Stíflisdalur. Hvernig er það til komið? Þetta síðar nefnda reyndist auðvelt að upplýsa. Í örnefnalýsingu yfir Selkot stendur svart á hvítu, að stífli merki stöðuvatn. Þá var það ábúandinn.

Þetta hafði byrjað ósköp sakleysislega, ætlaði einungis að skrifa stutta frásögn um Selkot og örnefni þar í kring, en nú var ég farinn að semja spennusögu. Mest var ég þó spenntur sjálfur. Ég fór á Þjóðskjalasafn Íslands og fann þar filmu í litlum kassa með sóknarmannatali yfir Þingvallasveit 1890-1939. Þessari filmu renndi ég í fornfálega sýningarvé, sem þarna var. Hún var svo lasburða, að ég hélt helst að hún væri einhvers konar sýningargripur og henni var snúið með hjóli líkt því sem er á veiðistöngum. Fyrst ætlaði ég ekki að þora að snúa hjólinu, en svo sá ég eldri konu innar í lestrarsalnum með hjólið á sinni vél á fullu. Ég hugsaði með mér, að úr því hún hefði hugrekki til að meðhöndla svona sýningarvél, þá hlyti mér að vera óhætt. Ég byrjaði að snúa hjólinu og blaðsíðurnar úr sóknarmannatalinu komu á skerminn hver af annarri.

Þarna stóð m.a. að Gunnfríður Þorsteinsdóttir, 60 ára, húskona frá Melkoti hefði flutt í Stardal árið 1900. Af því að vélin var svo fornfáleg og eins blaðsíðurnar í sóknarmannatalinu þá fannst mér ég vera farinn að stunda einhvers konar vísindi. Þarna stóð líka að árið 1899 hafi Jón Guðmundsson, vikakarl 65 ára, flutt frá Selkoti að Reykjum í Mosfellssveit. Ég mátti til með að setja þennan Jón inn í minn lærða texta og forða honum þannig frá gleymsku. Svo flutti Ísleifur Jónsson vinnumaður frá Hurðarbaki í Kjós að Selkoti árið 1919. Inn í textann með hann. Meira var þó um vert að árið 1915 flutti frá Selkoti Björn bóndi Guðnason, 37 ára, að Neðra-Hálsi ásamt konu sinni Guðrúnu Guðmundsdóttur, barni Guðmundi Björnssyni og vinnupilti.

Allt var þetta heldur losaralegt, sem mér tókst að snúa út úr sýningarvélinni, en samt í áttina. Eitthvað gæti ég kannski séð í manntalinu frá 1901 eða 1910. Ánægður yrði ég ekki fyrr en ég væri kominn með alla ábúendur. Minna gerði til um eiginkonurnar og vikapilta og þess háttar fólk.

Ekki veit ég hvers vegna ég var að grauta í þessu. Mér kom þetta eiginlega ekki nokkurn skapaðan hlut við. Mér kom það heldur ekki við, að tvívegis hafði Sigurður Þorkelsson, bóndi í Selkoti misst sauðfjárstofn sinn, en ofsaveður mun hafa grandað fénu, hrakið í ána eða vatnið. Lotnu baki byrjaði þessi einyrki alltaf upp á nýtt. Síðustu 30 árin, sem hann lifði var hann nærri alblindur, en gekk samt til allra búverka. Aldrei var klappað fyrir Sigurði í Selkoti.

Leitin hélt áfram og einn daginn var ég að blaða í bókum á Borgarbókasafninu að leita að svo sem ekki neinu sérstöku. Þá rakst ég á bókina Sunnlenskar byggðir, 3. bindi. Þar var þá á bls. 234 yfirlit yfir ábúendur í Selkoti frá upphafi. Mig létti. Á eftir Sigurði hafði komið Jón Magnússon og Ingveldur konan hans 1890-1907. Ólafur Halldórsson og Magnea Bjarnadóttir konan hans 1907-1914. Björn Guðnason og Guðrún Guðmundsdóttir 1914-1915. Þorlákur Björnsson og Jóhanna Guðmundsdóttir 1915-1917. Jón Bjarnason og Guðrún Einarsdóttir 1918-1939. Og síðan Sveinn Abel og konunar hans Helga og Ragnhildur 1936-1953.

Textanum í bókini fylgdi mynd af Selkoti, útihúsum og íbúðarhúsi. Fyrir framan húsið var fullorðið fólk og krakkar í fötum frá því svona 1940 og einhvers konar kassabíll. Á húsinu var flaggstöng og Bæjargilið í baksýn. Með stækkunargleri tókst mér að sjá númerið á bílnum. Það var R-356. Á þessum bíl hafði verið þjösnast yfir Grjótá og Kjálkaá, fólkið sennilega í skemmtiferð.

Niðurlag
Ég hef þá trú að Selkot eigi aftur eftir að komast í byggð. Það verður ekki eingöngu gert með haka og skóflu eða fljótvirkum vinnuvélum. Þar munu líka koma til skjalana örnefnin. Þau verða eitt beittasta vopn okkar er við stígum skrefið inn í nýja landnámsöld. Þá mun þessi setning kannski aftur heyrast í Nyrðridal:
“Nennirðu ekki að sækja kýrnar út á Teig?” Eða: “Hrossin eru handan við Dalholt.”

Nú þegar er þetta landnám hafið. Ungt fólk í þéttbýli er að kaupa jarðir víða um land. Margir láta það vera eitt sitt fyrsta verk að útvega sér loftmyndir af þessum jörðum og merkja inn á þær örnefni. Ég trúi því að við eigum eftir að endurreisa Prestsvörðu, Brandsvörðu, Stóruvörðu og Miðaftansvörðu.

Aftur mun lágfóta smjúga um Skollhóla. Teigurinn og Bjarnabrekka verða slegin á ný og einir mun vaxa á Einiberjaflöt. Kannski munu þeir á Þingvöllum nýta aftur slægjuítak á Neðri-Kjálkum. Kynslóðin sem hefur upplifað tómleika alsnægtana er að komast til manns. Sú kynslóð mun endurskapa landið, kynslóðin sem hefur lifað af kverkatak ofdekurs. Hún mun sjá til þess, að aftur vaxi nýbirki við Fífugil vestan í Kjálkanum. Þegar sér þess merki, að hún sé byrjuð að leita uppruna síns.

Grein þessi er að nokkru leyti skrifuð í þessum hefðbundna eyðibýlisstíl, Þetta: “Hún var með eina tönn í munninum og svo kom vorið.” Til þess að gera það nú ekki endasleppt vil ég bæta því við, að þegar Guðmundur Daníelsson kom í Selkot ásamt Sveini Abel árið 1958, þá stóð gamla íbúðarhúsið enn uppi. Á veggjum hengu myndir af Jesú ríðandi á ösnufola, Hallgrími Péturssyni og Jónasi Hallgrímssyni, en að öðru leyti var allt galtómt. Ég legg ekki meira á ykkur. Hitt vill svo kannski gleymast, að í dag er Selkotsvegur ein fjölfarnasta reiðleið landsins. Þar dansa gjarnan gæðingar tuttugu í dúsíninu um sumardag.

Og ekki megum við gleyma þögninni, er umlykur þann sem er einn á ferð á hestum þarna í Nyrðridal. Á slíkum augnablikum slær hjarta manns í takt við náttúruna. Áin niðar, friðar og ekkert virðist geta grandað manni. Sá kann allt sem leggja kann hlustir við þögninni.