Aðdragandi seinni Heimsstyrjaldarinnar

Inngangur

Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina gerðust margir skrítnir
og slæmir hlutir og margir mismunandi þættir spiluðu inn í
byrjun stríðsins. Nýjir leiðtogar komust til valda, nýjar og
róttækar hugmyndir skutu upp kollinum, kreppa geisaði og
margt fleira. Í þessari ritgerð mun ég leitast við að skýra frá því
hvernig heimurinn dróst inn í stríð og hvernig illmenni eins og
Hitler gátu náð völdum og haft slík áhrif á samtímafólk sitt og
mannkynssöguna alla.

Versalasamningurinn

Versalasamningurinn var friðarsáttmáli sem gerður var í
Versölum árið 1919 en hann endaði líka fyrri heimsstyrjöldina
opinberlega. Samningurinn sem átti að hindra frekari stríð, var
mjög ósanngjarn. Woodrow Wilson, þáverandi forseti
Bandaríkjanna, hafði lagt fram friðaráætlun sem bauð
Þjóðverjum milda friðarskilmála. Honum varð ekki að ósk
sinni um mildan frið heldu knúðu leiðtogar Breta og Frakka
fram vilja sinn um að halda Þýskalandi niðri í eitt skipti fyrir öll.
Þýskalandi var einu kennt um fyrri heimsstyrjöldina, það þurfti
að borga miklar stríðsskaðabætur og her þess var
snarminnkaður. Það missti flota sinn og flugher og herinn
mátti bara hafa 100.000 atvinnuhermenn auk þess sem mikil
landsvæði voru tekin af því. Auðvitað var þetta mikið áfall fyrir
efnahag Þýskalands sem átti svo mikið undir
hergagnaframleiðslu. Sérstaklega þar sem á seinni árum
hafði það fyrst tekið þátt í vopnakapphlaupinu fyrir stríð og
síðan tekið mikinn þátt í stríðinu sjálfu. Þegar kreppan skall
svo á urðu Þjóðverjar illa úti, þá vantaði einhvern til að kenna
um og auðvitað varð það Versalasamningurinn enda átti hann
töluverða sök.


1925-1930
kommúnismi, nasismi og kreppa

Þann 16. janúar árið 1925 hrifsaði Stalín svo völdin í
Rússlandi og 18. júlí sama ár var bók Adolfs Hitlers, “Mein
Kampf” eða “barátta mín” gefin út en í henni var mikil áhersla
lögð á nasisma og hafði hún umtalsverð áhrif. Þann 16.
janúar árið 1928 greip Stalín aftur til róttækra aðgerða og
sendi alla keppinauta sína í útlegð. Kommúnistinn mikli var
að setja sig og sína nánustu ofar öllum. Þann 24. október
1929, svarta fimmtudaginn, varð martöð verðbréfasala að
veruleika þegar verðbréfamarkaðurinn í Wall Street hrundi og
kreppan fór á skrið.

1930-1935
Nýr leiðtogi

Á árunum 1930-1939 var kreppan í algleymingi og hver sá
sem gat bjargað fólki úr fátækt og atvinnuleysi varð kóngur.
Þessa örvæntingu nýttu nasistar sér til að ná völdum í
Þýskalandi. Í september árið 1930 bættu nasistar við sig 107
þingsætum í kosningum og urðu þar með næststærsti
flokkurinn á eftir sósíaldemókrötum. Vegna vaxandi
efnahagsöngþveitis í landinu í kjölfar kreppunnar litu margir til
nasistaflokksins til að mynda styrka stjórn.
Árið 1933 dró svo verulega til tíðinda þegar Adolf Hitler varð
ríkiskanslari Þýskalands og þar með pólitískur leiðtogi
landsins. Þrátt fyrir þessa stöðu voru aðeins 2 af 11
ráðherrum stjórnarinnar nasistar, hinir voru hægrisinnaðir
þjóðernissinnar sem töldu sig geta deyft áhrif öfgafullra
skoðanna nasista. Tæpum mánuði eftir þennan atburð varð
stórbruni í ríkisþinghúsinu (Reichstag) í Berlín. Þrátt fyrir að
ungur Hollendingur hefði verið tekinn fastur sökuðu nasistar
kommúnista, aðalandstæðinga sína, um verknaðinn. Þessir
tveir hópar höfðu átt í götubardögum og mikið gagnkvæmt
hatur ríkti enda voru þeir alveg á sitthvorum pólnum hvað
stjórnarskoðanir varðar. Nasistar notuðu þetta tækifæri til að
afnema ýmis borgaraleg réttindi svo sem tjáningarfelsi, til að
snúa á pólitíska andstæðinga sína. Sama ár gengu bæði
Japanar og Þjóðverjar úr Þjóðabandalaginu sem var
alþjóðasamtök stofnuð til að tryggja friðinn eftir fyrri
heimsstyrjöld sem náðu þó aldrei verulegum áhrifum.
Á “nótt hinna löngu hnífa” árið 1934 losaði Hitler sig við enn
fleiri andstæðinga. Forystumenn Stormsveitanna, SA
(Sturmabteilung) eða Brúnstakka voru drepnir þessa nótt
vegna þess að Hitler taldi þá vera að brugga sér launráð.
Þegar SA hafði verið knésett var Hitler allsráðandi innan
nasistaflokksins.
Einnig lét hann taka af lífi aðra andstæðinga stjórnarinnar. Í
misheppnaðri tilraun til að hrifsa völdin í Austurríki myrtu
nasistar forsætisráðherra landsins, Engelbert Dollfuss.
Sjálfstæði Austurríkis stóð á brauðfótum er nasistar héldu
áfram að þrýsta á um sameiningu Austurríkis og Þýskalands.
Hindenburg, forseti Þýskalands dó í ágúst og Hitler gerði sig
að Foringja (Führer) og Ríkiskanslara (Reichskanzler). Í
kosningunum sem fylgdu í sama mánuði samþykktu meira
en 90% Þjóðverja aðgerðir hans. Á þessu eina ári, 1934 hafði
vald Hitlers vaxið gífurlega og þar sem hann hafði nú allt vald í
Þýskalandi og einnig stuðning fólksins gat hann farið að huga
að landvinningum og útþenslu þriðja ríkisins svokallaða,
Þýskalands.

1935-1937
Skipt í lið

Árið eftir, 1935, nánar tiltekið 16. mars byrjaði Hitler að brjóta á
Versalasamningnum. Hann innleiddi herskyldu í Þýskalandi
og stuttu síðar stofnaði hann einnig flugher, Die Luftwaffe og
gerði þar með öllum ljóst að hann ætlaði sér alls ekki að virða
gerða samninga. Hann hélt því samt fram að markmiðið væri
bara 50,000 manna her. Seint sama ár setti Hitler lög sem
sögðu til um að gyðingar mættu ekki gegna opinberum
embættum og ekki giftast út fyrir sinn hóp. Þetta var bara lítill
hluti af þeim lagabálki sem Hitler hafði samið um stöðu
gyðinga í Þýskalandi. Hitler er þarna farinn að einangra
gyðinga, þeir voru ekki lengur hluti af þjóðinni. Þetta sama ár
gerðu Frakkar og Sovétmenn með sér samning sem kvaddi á
um gagnkvæma aðstoð yrði annað landið fyrir árás. Þetta
sýnir hversu hrædd löndin voru við útþenslu þriðja ríkisins.
Einn atburður enn þetta ár hafði áhrif. Þann annan október
réðust Ítalir, undir stjórn fasistans Benito Mussolini á Eþíópíu
og gjörsigruðu illa vopnaða Eþíópíumenn með lofthernaði,
efnavopnum og skriðdrekum. Refsingar Þjóðabandalagsins
gagnvart Ítölum höfðu engin áhrif og tveimur árum seinna
sögðu Ítalir sig úr bandalaginu.
Árið 1936 tóku þýskar hersveitir Rínarlönd sem höfðu verið
hlutlaust svæði frá 1919. Þessi atburður olli Frökkum
nokkrum áhyggjum en Bretar létu ekkert í sér heyra. Áfram
héldu Þjóðverjar að skapa vandræði þegar þeir undirrituðu
samninga við Ítali annars vegar og Japana hins vegar, en
báðir samningarnir beindust gegn kommúnistum. Þar með
komust Öxulveldin af stað. Þetta sama ár braust út
borgarastyrjöld í Spáni, þar sem fasistar gerðu uppreisn gegn
lýðræðisstjórninni. Fasistana leiddi hershöfðinginn
Franciscos Franco. Bretar og Frakkar ásamt fleri þjóðum lýstu
yfir hlutleysi en Þjóðverjar og ítalir hjálpuðu fasistum með
hergögnum og liði. Rússar og alþjóðahersveitirnar
(sjálfboðaliðar) hjálpuðu aftur á móti lýðveldissinnum. Stríðinu
lauk 1.apríl 1939 með sigri fasistanna.
Japanskar sveitir hófu stórsókn í Kína árið 1937, þær
hernumu Peking og vörpuðu sprengjum á Sjanghæ. Í
desember tóku þær svo Nanking en í þessu öllu féllu um
250,000 manns. Hersveitirnar héldu síðan áfram inn í Kína.
Þarna sýndu Japanir hversu mikið þeir vildu breiða út veldi sitt
enda var það ein helsta ástæða þess að þeir unnu með
Þjóðverjum. Á meðan var Stalín að draga óvini sína fyrir
sýndarrétt en þeir voru alltaf skotnir að réttarhöldunum
loknum. Stalín var greinilega ekki sá sterki og óbugandi
leiðtogi sem hann þóttist vera því margar af þessum aftökum
byggðust á ofsóknarbrjálæði Stalíns en ekki rökstuddum
sönnunum á svikum.


1938
Útþenslan byrjar fyrir alvöru

Árið 1938 innlimuðu Þjóðverjar bæði Austurríki og
Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu. Þegar Þjóðverjar tóku
Austurríki var innrásarliðinu fagnað á götum úti, ekki síst
vegna þess að Hitler var austurrískur. Þetta var samt enn eitt
brotið á Versalasamningnum og var nú farið að fjúka í marga
ráðamenn í Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum. Ástæðan
fyrir því að enn hafði ekkert verið gert var einfaldlega sú að það
voru ekki allir ráðamenn jafn tilbúnir til að etja þjóð sinni stríð
og Hitler. Þess vegna var aðeins staðið hjá og mótmælt en nú
var kominn tími aðgerða. Þegar Þjóðverjar í Súdetahéruðum
Tékkóslóvakíu fóru að krefjast sjálfstjórnar tók Hitler undir
með þeim og nýtti sér þessa stöðu til að auka þrýsting á
tékknesku stjórnina. Í september héldu Frakkar, Bretar, Ítalir
og Þjóðverjar ráðstefnu í München þar sem þetta mál var rætt
og var niðurstaðan sú að Þjóðverjar skyldu fá héruðin. Í
framhaldi af þessu hernumu Þjóðverjar, Pólverjar og
Ungverjar sinn hlutann hver af Tékkóslóvakíu og þurrkuðu
landið þar með eiginlega út. Með því að gefa Þjóðverjum
Súdetahéruðin þóttist forsætisráðherra Breta hafa “tryggt frið
um vora daga”. Þó var sá fyrirvari á að Þjóðverjar skyldu ekki
halda þessari þenslu áfram því þá myndu Bretar og Frakkar
þurfa að beita valdi til að stöðva þá.
Árið 1938 átti annar mikilvægur atburður sér stað. Hin
svokallaða Kristalnótt eða Kristallnacht. Þessa nótt var ráðist
að sölubúðum og alls kyns atvinnustarfsemi gyðinga og voru
þær rændar og/eða rústaðar. Einnig voru margir gyðingar
barðir til óbóta og hundruð bænahús gyðinga brennd.
Ástæðan fyrir nafgiftinni Kristalsnótt var sú að það voru svo
rosalega margar rúður brotnar og dreifðust glerbrotin út um
allt. Þetta var hámark gyðingaofsóknanna fyrir stríðið sjálft.
Þetta ár var líka kjarnaklofnunin uppgötvuð af
geislaefnafræðingunum Otto Hanz og Fritz Strassmann.
Þessi uppgötvun átti eftir að leggja línurnar fyrir endanleg lok
stríðsins þegar Bandaríkjamenn sprengdu tvær
kjarnorkusprengjur yfir japönsku borgunum Hiroshima og
Nagasaki sjötta og níunda ágúst. Var þetta gert til að þvinga
fram uppgjöf Japana og enda stríðið á Kyrrahafi. Þess má
geta að þetta var í fyrsta skiptið sem kjarnorkusprengjum var
beint gegn fólki og vonandi það síðasta.


1939
Stríðið skellur á

Árið 1939, árið sem stríðið hófst var atburðaríkt. Strax
snemma í apríl hernámu Ítalir Albaníu og efldu yfirráð sín við
Adríahaf. Þann 22.maí gerðu Þjóðverjar og Ítalir með sér
bandalag en þessi tvö lönd áttu eftir að veita mestu
mótspyrnuna gegn Bandamönnum seinna meir. Bandamenn
sigruðu þó Ítali árið 1943 og þar með voru Ítalir með þeim í
liði. Hitler og Stalín gerðu með sér griðasáttmála þann 23.
ágúst sem þýddi það að Sovétmenn höfðu snúið baki við
samningi sínum við Frakka. Reyndar varð þessi samningur
aðeins til þess að kaupa tíma. Þegar leið á stríðið réðust
Þjóðverjar á Sovétríkin með það takmark í huga að reka
Sovétmenn sem voru “af óæðri kynstofni” alla leið til Síberíu
eða í það minnsta yfir Úralfjöll. Ástæðan var sú að Hitler
fannst Þjóðverja vanta “Lebensraum” -lífsrými eða
olnbogarými. Þjóðverjar voru þá stöðvaðir við borgina
Stalíngrad við ána Volgu en þegar þar var komið sögu höfðu
Sovétmenn gengið aftur í lið með bandamönnum.
1.september 1939 réðust Þjóðverjar svo inn í Pólland og
beittu þá hinu svokalla Leifturstríði eða Blitzkrieg. Þeir
gjörsigruðu pólska herinn á þremur vikum enda var
geysilegur munur á herjunum tveimur. Aðeins tveimur dögum
eftir innrásina, eða þriðja september, lýstu Bretar og Frakkar
yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Breskir hermenn sáust þó ekki
í Póllandi fyrr en mikið seinna enda voru lítil átök á fyrstu
mánuðum stríðsins.

Víti til varnaðar

Með þessu öllu hafði heimurinn hrakist út í heimsstyrjöldina
síðari sem átti eftir að heimta mörg mannslíf og valda
ómælanlegum þjáningum. Það má til dæmis hugsa það sem
svo að fyrir hverjar 5,000 manneskjur sem dóu, þjáðust í það
minnsta aðrar 25-30,000 aðrar manneskjur sem voru
fjölskylda þessa fólks. Það verður aldrei hægt að gera sér í
hugarlund hversu mikið þetta stríð kostaði og þess vegna
verður aldrei hægt að bæta það. Það eina sem hægt er að
gera er að reyna að læra af reynslunni. Þessi ár mega aldrei
gleymast og því síður lexíurnar sem fólkið sem lifði stríðið
lærði, það var erfitt að læra þær. Það sem er jafn mikilvægt að
gleymist ekki er það sem ég vil koma á framfæri í þessari
ritgerð, aðdragandanum. Við verðum að vita hvað það er sem
getur leitt til slíkra hörmunga og vara okkur á því svo þetta
endurtaki sig aldrei.



Heimildaskrá:
20.öldin. Mesta umbreytingaskeið sögunnar í máli og
myndum.
Höf.: Simon Adams, Viv Croot, Margaret Crowther, Will Fowler,
Ann Kramer, Dan McCausland, ATH. Rowland-Entwistle,
Helen Varley, Philip Wilkinson.
Vaka-Helgafell 1999

Samferða um söguna
Höf.: Bengt Åke Häger
Mál og Menning í samvinnu við Námsgagnastofnun 1993

LIFE World War 2
Ritstjórn: Richard B. Stolley
A Bulfinch Press Book
Little, Brown and Company 2001
Endless Power? This is Perfect! - Bryan Fury