Iðufundur í apríl 1262

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Oft hef ég hent Sturlungu út í horn og heitið því að líta aldrei framar í þá nafnasúpu. Svo áður en ég veit af er ég kominn með hana aftur mér í hönd. Það er engu líkara en að sá sem einu sinni hefur orðið henni handgenginn láti hún seint alveg í friði. Fyrir þann sem vill skoða gamlar reiðleiðir er hún auðvitað hrein náma, enda spannar athafnasvið hennar nánast allt landið. Í þessari grein ætla ég að fjalla um Iðufund eða kannski öllu fremur um leiðir sem farnar voru þangað.

Aðdraganda Iðufundar má rekja til þess að Þorvarður Þórarinsson lét drepa Þorgils skarða á Hrafnagili árið 1258. Það var talin fólskuleg aðför og á líkinu fundust 22 sár þar af sjö blæðandi. Sighvatur Böðvarsson (1230-1266) á Stað á Snæfellsnesi var bróðir Þorgils og vildi hann hefna hans. Ferð hans að Iðu 1262 var þó fyrst og fremst farin til að reyna að ná sáttum og höfðu þeir Þorvarður mælt sér mót að Laugarási við Iðu 3. apríl. Áður hafði fyrir milligöngu Vigfúsar Gunnsteinssonar, sem sat á Sauðafelli og Sturlu Þórðarsonar borist sáttarboð frá Þorvarði. Þeir Vigfús og Þorvarður höfðu hitst að Keldum á Rangárvöllum um veturinn.

En snúum okkur að ferð Sighvatar frá Stað. Við vitum að hann kemur við í Reykholti í Borgarfirði. Sturlu Þórðarson, föðurbróður sinn, hittir hann við Hallbjarnarvörður nálægt Brunnum. Þaðan fer hann um Klukkuskarð niður í Laugardal. Úr Laugardal fer hann í Skálholt og að Laugarási. Viðfangsefni mitt er aðallega að reyna að finna líklegustu leiðina milli þessara staða.

Fyrst verður manni á að spyrja hvers vegna hann velur einmitt þennan tíma árs til fararinnar? Til þess geta legið ýmsar ástæður. Ein er sú að ferðir um Snæfellsnes og Mýrasýslu voru oft erfiðar að sumarlagi. Gerðu það mýrarnar. Áður en frost var farið úr jörðu var hins vegar víða hægt að fara nokkuð beint af augum. Þetta var kallað að fara vetrarveg. Um vegi þarna fyrir vestan segir Kảlund á einum stað: “Allar þessar sveitir hafa frá öndverðu verið íllræmdar fyrir afleita vegi og fram til síðustu tíma varð naumast farið með hesta nema meðfram sjó, eftir árbökkum eða þá upp undir fjöllum…”

Ég hef áður lýst ferð frá Stað á Ölduhrygg í Reykholt og mun þess vegna sleppa því hér. Þó má geta þess að Sighvatur hefur væntanlega farið niður að Straumfirði og um Stakkahamarsfjöru og Hausthúsafjöru að Snorrastöðum. Síðan meðfram fjöllunum yfir Hítará og Langá og þaðan sem leið lá í Reykholt.

Frá Reykholti í Laugardal
Í Reykholti réðust þeir í för með honum Hallvarður gullskór og Egill Sölmundarson. Þeir fara væntanlega upp hjá Rauðsgili og um Okveg að Hallbjarnarvörðum. Þar koma á móti þeim Sturla og Vigfús. Í Sturlungu segir að þeir Vigfús, Egill og Hallvarður fari til Þingvalla, en Sighvatur og Sturla “riðu suður til Laugardalsskarða.” Hér er átt við Klukkuskarð, en á þá leið er farið suður frá Kerlingu undir Skjaldbreið inn Langadal í skarðið sjálft. Þaðan innan við Hrossabrún og um Fagradal niður að Hjálmsstöðum í Laugardal.

Ekki er hægt að fullyrða hvaða leið Sighvatur og Sturla fara að Kerlingu. Vera má að þeir hafi farið Skessubásaveg fyrir norðan og austan Skjaldbreið. Eins geta þeir hafa farið hjá Gatfelli og þar á Eyfirðingaveg að Kerlingu eða um Kluftir á Eyfirðingaveg. Samt er eins og lesa megi út úr frásögninni, að þeir hafi skilið við þá sem fóru til Þingvalla við Hallbjarnarvörður. Sé það rétt þá hafa þeir farið Skessubásaveg, en hann sveigir af Kaldadalsvegi og liggur austur með Hrúðurkörlum og norðan Skjaldbreiðarhrauns.

Síðan heldur frásögnin áfram: “Tók þá veður að þykkna og gerði á drífu og þvínæst fjúk; gerðist þá færð íll. Lögðust þá fyrir bæði menn og hestar af óveðri. Þeir lágu úti um nóttina í skörðunum en veður rauf upp í mót degi. Fóru þeir þá suður af heiðinni og voru drottinsdag í Laugardal, en riðu mánudag í Skálholt.”

Sjálfsagt hefur leiðin um Klukkuskarð ætíð eitthvað verið farin milli Borgarfjarðar og uppsveita Árnessýslu. Þess er getið í Sturlungu að árið 1242 ríður Þórður kakali “suður um heiði Skarðaleið til Laugardals þar til hann kom í Tungu til bús Gissurar.” Þarna fer Þórður um Klukkuskarð. Ekki er þessi leið þó gallalaus, því að hjá hluta hennar getur reynst erfitt að komast í vatn og eins er þarna all langt milli byggða.

Úr Laugardal í Skálholt
Ekki er ósennilegt að úr Laugardal hafi þeir farið um Reykjavað yfir Brúará, en það er skammt frá Syðri-Reykjum í Biskupstungum. Sveinn Pálsson minnist á þetta vað í Ferðabók sinni og í Sýslu- og sóknalýsingu frá árinu 1840 er líka sagt frá því. Þar segir: “Úr Torfastaðasókn er ýmist farið yfir Brúará til Miðdalssóknar á áðurnefndu Miklaholtsnesvaði eður hjá Syðrireykjum og þegar vöxtur er í ánni verður að fara yfir hana á trébrú, sem er á henni uppi í Úthliðarsókn.” Þess má geta að Brúará er ein af vatnsmestu bergvatnsám á landinu.

Á gömlu herforingjaráðskorti má sjá að leiðin frá Syðri-Reykjum hefur legið meðfram Hveralæk á leið sem lá ofan frá Úthlíð, hjá Miðhúsum og Brekku um Tjarnarheiði og hjá Torfastöðum í Biskupstungum í Skálholt. Komið var á þessa leið fyrir sunnan Tjarnartjörn. Ósennilegt er að þeir hafi farið á Miklaholtsnesvaði, en það mun hafa verið hjá Böðmóðsstöðum. Það vað var talið slæmt vegna dýpis og straums. Hafi þeir engu að síður farið þar yfir Brúará, þá hafa þeir komið hjá Miklaholti og á ofangreinda leið hjá Torfastöðum. Geta má þess að Brúará var ekki reið nema þegar lítið var í ánni, vegna þess hvað hún gat verið vatnsmikil og straumþung.

Á öðrum stað í Sturlungu er verið að ræða um ferð Auðuns kolls í Skálholt. Sagt er að hann hafi hlaupið Lyngdalsheiði þvert til Lyngdals og austur fyrir ofan Svínavatn. Á Þórustöðum fær hann hest og ríður til Eskidalsvaðs. Brúará var þá svo mikil að hann varð að synda yfir og hljóp hann síðan heim í Skálholt. Kannski er þetta með vatnsmagnið í ánum skýringin á því, hvers vegna Sighvatur og Þorvarður völdu þennan árstíma til fundarins. Í byrjun apríl hafa árnar væntanlega verið tiltölulega vatnslitlar, sérstaklega jökulárnar.

Á einum stað í Njáls sögu segir frá ferð Þorgeirs skorargeirs. Þar segir: “riðu síðan allir saman til þess er þeir komu til Reykja í Biskupstungu.” Og aðeins seinna: “Riðu þeir þá vestur yfir Brúará.” Þarna hafa þeir greinilega farið um Reykjavað.

En aftur að ferð Sighvatar. Ekki tók Sigvarður Skálholtsbiskup vel á móti þeim Sighvati: “Þótti honum þeir draga flokka á staðinn.” Þeir fengu ekkert hey hjá honum og engan beina. Neitaði hann líka með öllu að vera viðstaddur fundinn við Iðu.

Fundurinn við Iðu
Þorsteinn Skeggjason og Jón kárin báru þær fréttir í Skálholt að Þorvarður væri kominn til Iðu og fóru þeir Sighvatur þá þangað. Hófust nú miklar samningaumræður, sem enduðu m.a. með því að “Þorvarður skyldi gjalda Sighvati sex tugi hundraða; skyldi vera þriðjungur í gulli og brenndu silfri, annar í gripum sæmilegum og dugandi löndum, hinn þriðji í þeim gripum, er ekki væri minna en tíu aura verður.” Jón usti sem sakaður var um víg Þorgils skyldi fara utan og aldrei koma aftur til landsins. Þorvarður var hins vegar ekki gerður landrækur. Gaf hann Sighvati silfurker, skarlatskyrtil og fingurgull.

Eftir fundinn fór Þorvarður austur yfir ár en Sighvatur var um nóttina í Skálholti. Hann var þá hestlaus og falaðist eftir hesti hjá biskupi, en fékk synjun. Hann keypti þá hest af Katli presti. Síðan segir: “Voru þeir Sighvatur þar um daginn og átu þar náttverð þrír; lét biskup gefa þeim að drekka. Reið Sighvatur út til heiðar um kvöldið og varð fátt að kveðjum með þeim biskupi, en hann kom heim til Staðar föstudaginn langa.”

Ferðin heim
Ekki er vitað hvaða leið Sighvatur hefur farið heim, en ekki er ósennilegt að hann hafi farið svipaða leið og hann kom. Hann leggur af stað frá Skálholti að kvöldi 4. apríl og er kominn heim að Stað 7. apríl. Dagleiðir hafa því greinilega verið mjög langar og það er ekki eins og maðurinn hafi verið vel ríðandi með þennan eina hest frá Katli presti.

Sighvatur varð ekki langlífur. Hann andaðist úr sótt suður við Rauðahaf árið 1266 og var þá í Jórsalaferð.