Eftir að hafa lesið Brennu- Njáls sögu eru fáar persónur í sögunni sem sitja jafn þægilega eftir í kollinum eins og Gunnar Hámundason. Gunnar er kynntur í 19. kafla, og er strax ljóst að þarna er komin ein eftirminnilegasta persóna bókarinnar, og áræðanlega ein sú eftirminnilegasta af Íslendingasögunum öllum.

Faðir Gunnars var Hámundur Gunnarson, og foreldrar hans voru Gunnar Baugsson og Hrafnhildur Stórólfsdóttir. Þau bjuggu á Gunnarsholti. Móðir Gunnars Hámundasonar var Rannveig Sigfúsdóttir. Gunnar átti nokkur systkini. Þar ber fyrst að nefna Kolskegg, sem var “mikill maður og sterkur, drengur góður og öruggur í öllu”, einsog segir í Njálu. Annar bróðir Gunnars hét Hjörtur og einnig átti hann bróðurinn Orm sem var laungetinn. Systir Gunnars hét Arngunnur. Gunnar bjó að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þannig er Gunnari lýst í Njálu:

“Hann var mikill maður vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel. Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.” (Brennu- Njáls saga, kafli 19)


Ég held að það sé erfitt að toppa þessa lýsingu á Gunnari og afréð ég því að láta Njálu sjálfa gera það. En um leið og þessar setningar sem lýsa Gunnari svo vel voru lesnar, tók sagan, a.m.k. í mínu tilviki allt aðra stefnu. Við lestur fyrstu kaflana á undan hafði maðir aðeins misst athyglina og á vissum tíma, stundi maður yfir því sem maður kallaði algera steypu. En þegar Gunnar frá Hlíðarenda kemur til sögunar verður sagan mun athyglisverðari og meira spennandi. Kannski var það vegna þess að lengi hefur maður heyrt bræður, foreldra eða félaga tala um þennan Gunnar frá Hlíðarenda án þess að geta tjáð sig nokkuð með. Nú fengi maður loksins að komast að því hver þessi merki maður Íslandssögunar væri.

Það var greinilegt að þarna var á ferðinni maður sem átti svo sannarlega eftir að láta til sín taka, og sú varð raunin, hann er í brennideplinum svo til sleituleist allt þar til hann er felldur í 77. kafla, og reyndar hefur hann áhrif í sögunni síðar meir, þótt dauður eigi að vera. Gunnar Hámundason er minn maður í sögunni og maður setur sjálfan sig í hlutverk hans í huganum. Það sýnir bara hvað þessi persóna smitar út, að bókstafir á bréfsnipli geti fengið mann til að líða einsog maður sé í miðjum bardaga fyrir löngu síðan ef maður bara leggur örlítið aftur augun og meltur það sem maður var búinn að vera að lesa. Þetta er líkt og mjög góð bíómynd, ef svo má að orði komast. En nóg um það.
Gunnar fer utan í 29. kafla eftir að hafa fengið ráðgjöf hjá góðvini sínum Njáli, sem sagði að Gunnar kæmi vel til baka. Bróðir hans Kolskeggur var með í för og leggjast þeir í víking eftir að hafa fengið liðsafla og skipafla, fyrst hjá Hallvarði og síðan hjá Ölvir. Síðan er miklum bardagasenum lýst og fær Gunnar mikinn fjársjóð í hendur sínar á svipstundu. Hann vingast bæði við Danakonung og Noregskonung og fara miklar gjafaskiptir þar á. Eftir að hafa dvalið yfir vetur hjá Hákoni jarli Noregskonungs heldur hann heim til Íslands.

33. kafli er stór fyrir Gunnar Hámundason. Hann ríður til þings með Kolskeggi bróður sínum og Hallvarði. Þar hyttir hann ,,draumaskvísuna”, Hallgerði dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Var þar á ferð mikill kvenskörungur og fór vel á milli Gunnars og hennar, og svo fór sem fór að hann bað hennar. Þarna hallaði ég örlítið augunum og glotti fljótt undir tönn, því að þessi kafli minnti mig heldur betur á Neistaflug 2002, segi ekki meira um það! En Gunnar hélt strax til Njáls ráðgjafar síns, sem einnig var staddur á þingi, og sagði honum þessar miklu gleðifréttir. En Njáli karlinum leist ekkert á, og þótti mikill harmur í því að Hallgerður myndi setjast að á Hlíðarenda við hlið Gunnars. Og svo fór sem fór að Gunnar og Hallgerður eru gefin saman. En nýja sæta og fína konan hans Gunnars átti eftir að verða honum örlagarík. Hallgerði og konu Njáls lendir saman og í kjölfar koma þrælavígin svokölluðu. Margir vinnumenn er drepnir, bæði á Hlíðarenda og Bergþórshvoli, þar sem Njáll og kona hans Bergþóra bjuggu. Gunnar hafði treyst konu sinni fyrir búinu og treyst henni til að vera til friðs á meðan að hann væri á þingi, en henni tókst það ekki.

Eftir þrælavígin er þrællinn Melkólfur kynntur til sögunnar, var hann í vinnu hjá Gunnari og Hallgerði. En þessi Melkólfur gerði ansi stóran skandal að viðurlægji Hallgerðar. Hallgerður sendir þrælinn að Kirkjubæ og segir honum að stela smjöri og osti þar og kveikja síðan í útibúrinu. Otkell hét maður sá er bjó á Kirkjubóli, og átti hann vin sem hét Skamkell og þótti hann illgjarn og lyginn. Þegar Gunnar kemur heim af þingi þá ber Hallgerður bæði smjör og ost á borð og Gunnar sem vissi að slíkt ætti ekki að vera til á bænum spyr hana hvaða þetta komi. Hún svarar að honum komi það ekki við og hann megi vel éta matinn þaðan sem þetta komi. Þá reiddist Gunnar mjög og lýstur hana kinnhest. Hún segist mundu launa honum kinnhestinn þótt síðar verði. En bændur að Kirkjubóli komast að því að stuldurinn og íkveikjan hafi verið verk Hallgerðar konu Gunnars. Nú komu þó nokkrir næstu kaflar þar sem málaferlum og vígum Gunnars er lýst. Þess má geta að Njáll var búinn að sjá fyrir dauða Gunnars, og Gunnar spurði hann hvort að dauða hans væri komið áður en hann hélt til vígaverka sinna.

Eftir að Gunnar og bróðir hans Kolskeggur hafa vegið marga menn, er Gunnar gerður útlægur og skyldi hann fara utan í þrjá vetur. Ef Gunnar færi ekki væri hann réttdræpur. Gunnar bjóst til brottferðar og ríður meðfram Markafljóti en skyndilega snerist hugur hans með utanferðina. Í Njálu segir:

“…Þeir ríða fram að Markarfljóti. Þá drap hestur Gunnars fæti og stökk hann af baki.
Honum varð litið upp til hlíðarinnar og bæjarins að Hlíðarenda. Þá mælti hann: ”Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ (Brennu- Njáls saga, kafli 75)


Þegar þetta fréttist skipuleggur Mörður Valgarðsson og félagar hans aðför að Gunnari, og ákveða að taka Sám af bænum áður. Hundurinn fann greinilega að ekki var allt með felldu og greip í nára Þorkels (sem var bóndi á næsta bæ og hafði verið fenginn nauðugur í verkið) og reif á hol. Þeir drápu þá hundinn. Gunnar vaknaði við ýlfrið í hundinum og vissi strax að eitthvað mikið væri í aðsigi. Og er þá komið að síðustu stundum Gunnars frá Hlíðarenda. í 77. Kafla er vígi Gunnars lýst. Mörður og félagar gera nokkrar atlögur að Gunnari en Gunnar varðist vel með boga sínum og felldi að mig minnir tvo menn en særði þeim mun fleiri. En þvi miður þá varð Gunnar fyrir því óláni að bogastrengur hans slitnaði. Þegar hann varð fyrir því tjóni biður hann um lepp úr hári Hallgerðar. Í Njálu segir:

Hann mælti til Hallgerðar: ”Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér.“
”Liggur þér nokkuð við?“ segir hún.
”Líf mitt liggur við,“ segir hann, ”því að þeir munu mig aldrei fá sóttan meðan eg kem boganum við.“
”Þá skal eg nú,“ segir hún, ”muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur."
(Brennu- Njáls saga, kafli 77)

Má í raun segja að þarna hafi Hallgerðir dauðadæmt bónda sinn Gunnar. Gunnar varðist vel og frækilega og særði margan manninn allt þar til að hann féll niður af mæði. Var hann stunginn svo mörgum sárum, þannig að lokum var hann liðinn. Víg Gunnars spurðist út og var hann mörgum mönnum mikill harmdauði, einkum Njáli.

Nú hef ég rekið sögu Gunnars í gegnum Brennu- Njáls sögu. Þá held ég að það sé kominn tími aðeins á það að athuga hvernig persóna hann Gunnar Hámundarson var. Fyrir það fyrsta skal frá því segja að það eru tvær persónur sem eru virkilega miklir áhrifavaldar í lífi Gunnars.

Njáll Þorgeirsson. Hann var sonur Þorgeirs gollnis Þórólfssonar og móðir hans hét Ásgerður. ,, Hann var lögmaður svo mikill að engi var hans jafningi, vitur og forspár, heilráður og góðgjarn og varð allt að ráði það er hann réð mönnum, hógvær og drenglyndur, langsýnn og langminnigur. Hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom.” Svo segir í Njálu. Gunnar treysti vel og mikið á Njál vin sinn og í ófá skipti leitaði hann til hans og spurði hann ráða. Njáll var alltaf með svar á reiðum höndum og beinti honum alltaf rétt. Erfitt er að segja hvernig fyrir Gunnari hefði farið ef ekki hefði verið fyrir Njál.

Hallgerður Höskuldsdóttir. Hallgerður átti tvö hjónabönd að baki þegar hún kvæntist Gunnari. Hafði hún svo til orðið fyrsta manni sínum að bana, en ekki öðrum. Svo virðist sem Gunnar hafi orðið yfir sig hrifinn þegar hann sá Hallgerði í fyrsta skipti og var ekki lengi að biðja um hönd hennar. Var það í eitt af fáum skiptum sem hann hafði ekki spurt Njál álits á fyrir. Gunnar lét Hallgerði ekki ráðskast með sig og svaraði henni fullum hálsi. En einsog allir vita eftir lestur Njálu að þá átti Hallgerður stóran þótt í dauða Gunnars, til að hefna fyrir kinnhest þann sem hann hafði slegið hana áður.

Gunnar var stríðsgarpur mikill og góður í flestu því sem hann tók að sér. En hann virðist vera svolítið óviss stundum í hvorn fótinn hann eigi að stíga og leitaði mjög oft, einsog áður sagði, til Njáls. Eftir utanför sína var hann dýrkaður og dáður hér á landi, og eignaðist marga vini sem hann leysti jafnan út með gjöfum, oftar en ekki ránsfengnum frá útlöndum. En það má kannski segja það, að ákafi hans að vera ekki minni maður og láta aldrei undan hafi kannski orðið hans banamein. Eflaust eru margir búnir að velta því fyrir sér hvers vegna hann fór ekki aftur úr landi þegar hann var dæmdur í útlegð. Mín skoðun er sú, að hann var jú heiðinn, hann vildi ábyggilega ekki deyja ellidauða og þótti meiri sæmd í því að verjast og berjast frekar en að flýja.

Gunnar var án efa einn af merkari mönnum Íslandssögunnar og hann verður ábyggilega ræddur yfir matarborðunum vel og lengi. Lýk ég þar með frásögn minni af Gunnari Hámundasyni frá Hlíðarenda.
Glory Glory…