Komintern og íslenzkir kommúnistar - IV. hluti Stefnan mótuð í Moskvu: Komintern og íslenskir kommúnistar
á þriðja og fjórða áratug 20. aldar.

eftir Hjört J. Guðmundsson

IV. hluti

Deilur um afstöðuna til sósíaldemókrata

Árið 1932 upphófust deilur innan Kommúnistaflokks Íslands um stefnu flokksins, einkum um afstöðuna til sósíaldemókrata. Skiptust menn í tvær fylkingar, þá sem töldu að kenning Kominterns, um að sósíaldemókratar væru þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar, ætti ekki að öllu leyti við á Íslandi og hina sem vildi að skilyrðislaust væri fylgt stefnu Kominterns. Þing Kominterns 1928 hafði m.a. lýst því yfir að afhjúpa þyrfti auðvaldsþjónkun sósíaldemókrata og berjast gegn þeim án miskunnar. Var allt samstarf við flokka sósíaldemókrata bannað. Helsti forystumaður fyrri hópsins var Einar Olgeirsson, en Brynjólfur Bjarnason, annar af helstu leiðtogum íslenskra sósíalista til fjölda ára, leiddi síðari hópinn og munu einkum ungir menn, sem nýkomnir voru úr þjálfun flokksskóla Kominterns í Moskvu, hafa fylgt honum að máli. Þegar deilurnar stóðu sem hæst greip Komintern í taumana og úrskurðaði að afstaða Brynjólfs og félaga væri sú rétta og náðu þeir þar með undirtökunum í flokknum. Helstu andstæðingar þeirra voru í framhaldinu annað hvort reknir úr flokknum eða neyddir til hlýðni.

Eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi 1933 var stefna Kominterns frá 1928 tekin til endurskoðunar að hluta. Var þá lögð áhersla á samfylkingu „að neðan“, þ.e. við óbreytta flokksmenn og aðra stuðningsmenn sósíaldemókrata. Eftir þessu fóru íslenskir kommúnistar og fóru fram á samfylkingu með Alþýðuflokknum bæði 1933 og 1934 um afmörkuð hagsmunamál verkalýðsins og um varnir gegn yfirgangi fasista.

Deilurnar innan Kommúnistaflokks Íslands enduðu ekki fyrr en eftir að alger stefnubreyting hafði átt sé stað á 7. þingi Kominterns 1935 þar sem samfylkingarstefnan gegn fasismanum varð ofan á í anda þess sem Einar Olgeirsson og félagar höfðu áður talað fyrir. Var þá flestum þeim, sem reknir höfðu verið úr flokknum, boðin innganga á ný. Eftir deilurnar var þó ljóst að tilraunin til að sveigja Kommúnistaflokk Íslands frá réttlínu Kominterns hafði misheppnast og tök sambandsins á flokknum höfðu styrkst.

Það sem eftir leið fjórða áratugnum höfðu Komintern og Sovétríkin reglulega hönd í bagga varðandi afstöðu íslenskra kommúnista til hinna ýmsu málefna, bæði innanlands sem utan. Þannig má nefna afstöðuna til hugmynda um sjálfstæði Íslands, afstöðuna til sitjandi ríkisstjórna hverju sinni o.s.frv. Ljóst er að stefna Kommúnistaflokks Íslands tók nokkurn veginn breytingum í takt við geðþótta ráðamanna í Moskvu og í stjórnar Kominterns. Sama er að segja um afstöðuna til hreinsana innan Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og Kominterns á þriðja en þó einkum fjórða áratugnum. Lögðu íslenskir kommúnistar ævinlega trúnað á þær skýringar sem bárust um málin frá Moskvu.

Þegar borgarastyrjöldin á Spáni hófst tóku íslenskir kommúnistar upp hanskann fyrir lýðræðisöflin gegn fasistum, enda voru Sovétríkin eina stórveldið sem það gerði á meðan Þýskaland og Ítalía studdu fasista. Borgarastyrjöldin varð þó til þess að þjappa andfasistum á Íslandi enn meira saman en áður.

Íslenskir kommúnistar tóku strax afstöðu gegn samningi Hitlers og Chamberlains, forsætisráðherra Bretlands, í München 1938, þar sem hluti Tékkóslóvakíu var afhentur Þýskalandi á silfurfati. Á sama tíma lofaði t.a.m. Morgunblaðið Chamberlain fyrir lofsamlegar aðgerðir í þágu friðarins. Íslenskir kommúnistar vöruðu einnig við yfirvofandi styrjöld á meðan að flestir lögðu ekki trúnað á það.

Sama ár, 1938, varð klofningur í Alþýðuflokknum og gengu fjölmargir menn úr flokknum, undir forystu Héðins Valdimarssonar, og gengu til liðs við kommúnista. Var þá stofnaður nýr flokkur, Sósíalistaflokkurinn, og var Héðinn kjörinn formaður. Var flokkurinn, ólíkt forvera sínum, ekki beinn aðili að Komintern.

Griðasáttmáli Hitlers og Stalíns 1939, um skiptingu Austur-Evrópu í áhrifasvæði, kom meðlimum hins nýja Sósíalistaflokks mjög í opna skjöldu og vissu þeir ekki fyrst í stað hvernig taka ætti á þeim málum. Fyrirmæli, um breytta og jákvæðari afstöðu til Þýskalands, komu síðan frá Komintern og tóku íslenskir sósíalistar mið af því og fögnuðu sáttmálanum. Samfara því var samfylkingarstefnan gegn fasismanum gefin upp á bátinn. Olli bæði þetta, svo og innrás Sovétmanna inn í Finnland sama ár, miklum deilum innan Sósíalistaflokksins sem enduðu með klofningi. Eftir það höfðu kommúnistar tögl og haldir í flokknum.


Réttlætingin

Um leið og Kommúnistaflokkur Íslands gekk í Komintern 1930 varð hann sjálfkrafa samherji annarra kommúnistaflokka sem aðild áttu að sambandinu, þ.á.m. Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Íslenskir kommúnistar litu á baráttu sína sem lið í baráttu verkalýðshreyfingarinnar um allan heim. Töldu þeir útilokað að verkalýðurinn gæti sigrast endanlega á auðvaldinu án sameiginlegrar baráttu hans á alþjóðlegum mælikvarða og að án samstarfs við verkalýð annarra landa yrðu allar tilraunir íslensks verkalýðs, til að verða forystuafl á Íslandi, brotnar á bak aftur. Ennfremur verður ekki betur séð en að allar stefnubreytingar og aðgerðir hafi verið réttlætanlegar í hugum íslenskra kommúnista ef þau skilaboð komu frá Moskvu að þær væru verkalýð heimsins og framgangi sósíalismans til hagsbóta. Þannig má nefna að í hugum kommúnista var innrás Sovétríkjanna í Finnland réttlætanleg þar sem hún væri liður í að styrkja stöðu Sovétríkjanna gagnvart fyrirhugaðri árás Þýskalands á þau.
Í ráðstjórnarskipulaginu var að finna kjarna þess framtíðarþjóðfélags sem íslenskir kommúnistar hugðust koma á hér á landi. Sovétríkin voru í hugum kommúnista draumsýn þeirra kynslóða „… sem erjað höfðu þessa jörð til að afla herrum sínum auðs og valda.“ Loksins hafði alþýðan snúið þeirri þróun sér í vil og komið á fót sínu eigin ríki. Kommúnistar um allan heim litu svo á, allt frá því byltingin í Rússlandi var gerð 1917, að tilvist Sovétríkjanna væri forsenda þess, og í raun eina von þess, að áframhald yrði á sigrum sósíalismans í heiminum. Einar Olgeirsson segir svo frá:

„Þótt afturhaldsöflunum hefði ekki tekist að koma byltingarstjórninni á kné þá vissum við að þau ólu stöðugt með sér óskir um að geta afmáð Sovétríkin, þennan fyrsta vísi að sósíalísku ríki á jörðinni. Það var þess vegna eðlilegt að kommúnistar um allan heim gerðu það að veigamiklu baráttumáli að slá skjaldborg um Sovétríkin og andmæla níðinu um þau …“

Sem fyrr segir stefndu íslenskir kommúnistar að því að Ísland yrði hluti af fyrirhuguðu heimsríki kommúnista. Sú afstaða til umheimsins verður ekki skilin nema með skírskotun til alþjóðahyggjunnar. Í samskiptum sínum við Komintern og Sovétríkin voru íslenskir kommúnistar ekki bundnir af þeim reglum og siðvenjum sem þegnum íslenska ríkisins var ætlað að fylgja í skiptum við erlend stjórnvöld. Kommúnistar litu svo á að þeir hefðu engum skyldum að gegna gagnvart ríki borgaranna, íslenska ríkinu. Andstæðingar þeirra sökuðu þá um landráð og óþjóðhollustu, en kommúnistar höfðu það að engu þar sem í þeirra hugum voru þeir fyrst og fremst hluti hins alþjóðalega verkalýðs, en ekki íslensku þjóðarinnar. Með því að vera hollir sinni stétt litu kommúnistar svo á að þeir væru hollir sínu landi, framtíðarlandinu: Sovét-Íslandi. Í þeirra hugum voru þeir hinir sönnu ættjarðarvinir en borgararnir óþjóðhollir í þeim skilningi að þeir vildu selja landið í hendur alþjóðlegu auðvaldi.


Niðurstöður

Væntanlega er ljóst að hér er á ferðinni hápólitísk umfjöllunarefni og í samræmi við það er ekki sama hvaða rit eru skoðuð hvaða póll er tekinn í hæðina. Í ritgerðinni hefur þó verið reynt að gefa sem besta og hlutlausasta mynd af umræddri atburðarrás eins og kostur er í stuttri yfirferð.

Eins og getið er í inngangi ritgerðarinnar er það mál manna að íslenskir kommúnistar hafi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar mótað stefnu sína í utanríkis- svo og innanríkismálum meira eða minna eftir forskrift frá ráðamönnum í Moskvu. Ljóst er þó að ákveðnir aðilar í röðum kommúnista gerðu ítrekaðar tilraunir til meira sjálfstæðis í stefnumótun en heimilt var samkvæmt reglum Kominterns. Bindingin við Komintern og Sovétríkin settu slíkum mönnum, svo og í raun kommúnistum sem heild, miklar takmarkanir á sjálfstæðri stefnumótum og ekki bætti úr skák að reglur Kominterns voru meira eða minna algildar en tóku ekki mið af aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Skilaboð frá Komintern, um það hvaða stefna væri “rétt”, hafði þannig ætíð útslagið meðal íslenskra kommúnista.

Það er því ljóst að undirgefni forystumanna íslenskra kommúnista, gagnvart ráðamönnum í Moskvu, var meira eða minna alger og að réttlæting þeirra á þeirri undirgefni stafaði fyrst og fremst af þeirri nær óbilandi trú að stjórnvöld í Moskvu vissu best hvað væri verkalýðsbaráttu heimsins fyrir bestu hverju sinni.


Heimildaskrá:

Arnór Hannibalsson: Moskvulínan: Kommúnistaflokkur Íslands og Komintern. Halldór Laxness og Sovétríkin. Reykjavík. 1999.
Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu: samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Reykjavík. 1992.
Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1980.
Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1983.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum 1926-1930. Reykjavík. 1979.
Ingólfur Á. Jóhannesson: Úr sögu kommúnistaflokks Íslands. Reykjavík. 1980.
Þorleifur Friðriksson: Gullna flugan: saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál í krafti fjármagns. Reykjavík. 1987.
Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934. Reykjavík. 1979.

(Þessi grein er í fjórum hlutum vegna lengdar. Fyrri hlutarnir hafa verið birtir áður hér á áhugamálinu.)
Með kveðju,