Komintern og íslenzkir kommúnistar - I. hluti Stefnan mótuð í Moskvu: Komintern og íslenskir kommúnistar
á þriðja og fjórða áratug 20. aldar.

eftir Hjört J. Guðmundsson

I. hluti

Inngangur

Það mun vera alkunna að íslenskir kommúnistar létu Sovétríkin og Komintern (Alþjóðasamband kommúnista) móta stefnu sína, einkum í utanríkismálum, meira eða minna á þriðja og fjórða áratug 20. aldarinnar. Deilt hefur þó verið nokkuð um það hversu umfangsmikil þau áhrif hafi verið og að hvað miklu marki hægt sé að segja að íslenskir kommúnistar hafi rekið sjálfstæða stefnu gagnvart þessum aðilum.

Fjöldi rita hefur verið gefinn út um þetta efni, þá ekki síst eftir að Sovétríkin liðu undir lok og fræðimenn tóku að rannsaka gagnasöfn í fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu. Má þar t.a.m. nefna bækur eins og Liðsmenn Moskvu eftir þá Árna Snævarr og Val Ingimundarson, sem gefin var út árið 1992, og Moskulínan eftir Arnór Hannibalsson frá árinu 1999.

Í ritgerðinni hér á eftir er ætlunin að gera grein fyrir aðdraganda þess að Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður, deilunum innan Alþýðuflokksins og einkum aðkomu Komintern að þeim málum á þriðja áratug 20. aldarinnar. Í framhaldi af því er síðan ætlunin að reyna að gera grein fyrir áhrifum Komintern og Sovétríkjanna á stefnu kommúnista, þá einkum utanríkisstefnu þeirra, á þriðja og fjórða áratug aldarinnar eins og kostur er í stuttri ritgerð. Að lokum verður reynt að leggja mat á það hversu mikil þau áhrif voru, hvort undirgefni íslenskra kommúnista hafi verið alger og hvernig þeir réttlættu þessi áhrif.

Rannsóknarspurning ritgerðarinnar er því fyrst og fremst hvernig íslenskir kommúnistar réttlættu áhrif Sovétríkjanna og Komintern á utanríkisstefnu sína og hvort undirgefni þeirra gagnvart þessum aðilum hafi verið alger.

Rétt er að geta þess að kommusetning og stafsetning í beinum tilvitnunum hefur verið færð til nútímalegs horfs. Augljósar stafsetningarvillur í beinum tilvitnunum hafa að sama skapi verið leiðréttar.


Upphaf skipulagðrar kommúnistasamtaka á Íslandi

Rekja má upphaf skipulagðra kommúnistasamtaka á Íslandi til haustsins 1921 þegar Ólafur Friðriksson, þáverandi ritstjóri Alþýðublaðsins, kom heim frá Rússlandi eftir að hafa setið 3. þing Alþjóðasambands kommúnista, Komintern. Hafði hann með sér rússneskan dreng að nafni Nathan Friedmann. Skömmu eftir heimkomu Ólafs skarst í Odda með honum og íslenskum heilbrigðisyfirvöldum vegna augnsjúkdóms sem drengurinn hafði. Urðu í kjölfarið miklar deilur sem enduðu með því að Friedmann var tekinn með valdi úr vörslu Ólafs og sendur úr landi.

Stuðningsmenn Ólafs litu á aðgerðir yfirvalda sem stjórnmálaofsóknir og álitu ennfremur að forysta Alþýðuflokksins hefði brugðist á örlagastundu og ofurselt þá yfirvöldum. Forysta Alþýðurflokksins leit hins vegar svo á að um væri að ræða tvo kosti, annað hvort að taka upp valdbeitingu gagnvart yfirvöldum eða að hlýða settum lögum. Síðari kosturinn var valinn og var Ólafi vikið frá ritstjórn Alþýðublaðsins. Ennfremur lýsti forystan því yfir að athafnir Ólafs í „drengsmálinu“ væru Alþýðusambandinu með öllu óviðkomandi. Vakti þessi afstaða forystunnar óánægju meðal róttækra manna innan Alþýðuflokksins. Daginn eftir þá yfirlýsingu létu yfirvöld til skarar skríða og voru Ólafur, og hans helstu fylgismenn, fangelsaðir.

Eftir að Ólafur og stuðningsmenn hann voru látnir lausir úr fangelsi stofnuðu þeir félag sem þeir nefndu Áhugalið alþýðunnar og varð fyrsti vísir að skipulögðum kommúnistasamtökum á Íslandi. Leit Ólafur á félagið sem leynilegan kommúnistaflokk sem stefna ætti að því að ná yfirráðum í Alþýðuflokknum með því að grafa undan forystu flokksins í kyrrþey. Átti félagið að vera eins konar lið vinstrimanna innan flokksins og tryggja vinstriarmi hans sigur yfir þeim hægrimönnum sem álitnir voru hafa svikið málstaðinn með frávikningu Ólafs sem ritstjóra Alþýðublaðsins.

Haustið 1922 kastaðist alvarlega í kekki á milli kommúnista og sósíaldemókrata í Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur, stærsta stjórnmálafélaginu innan Alþýðusambandsins. Þá höfðu borist boð frá Alþjóðasambandi kommúnista um að félagið sendi einn fulltrúa á fjórða þing þess. Var lagt til að Ólafur Friðriksson yrði sendu og var sú tillaga samþykkt. Af þeim sökum gengu margir hægrimenn úr félaginu og stofnuðu nýtt félag, Jafnaðarmannafélag Íslands. Bæði félögin voru þó áfram aðilar að Alþýðuflokknum.

Þegar þessir atburðir gerðust voru íslenskir kommúnistar orðnir mjög fráhverfir stefnu Alþýðuflokksins. Með tilkomu Sovétríkjanna varð mikill hugmyndafræðilegur klofningur innan flokksins. Klofningurinn ágerðist eftir því sem sósíaldemókratar urðu hliðhollari borgaraöflunum sem voru holdgervingur auðvaldsins að mati kommúnista. Kom forskriftin, að afstöðunni til sósíaldemókrata, að miklu leyti frá Komintern.

Tæpum mánuði eftir að Jafnaðarmannafélag Íslands var stofnað var Félag ungra kommúnista sett á laggirnar, þann 3. nóvember 1922, og tveimur árum síðar var Samband ungra kommúnista myndað þar sem stofnað hafði verið félag utan Reykjavíkur. Sótti Félag ungra kommúnista um aðild að Alþýðusambandinu á þingi þess um haustið sama ár. Fóru hægrimenn í Alþýðuflokknum fram á það að umsókn félagsins yrði hafnað og var tillagan samþykkt eftir hörð orðaskipti.

Komintern hafði töluverð afskipti af átökunum í Alþýðuflokknum og af vinstri armi hans. Áleit sambandið að ágreiningur vinstrimanna á Íslandi „… spillti fyrir lífsskilyrðum kommúnistahreyfingarinnar.“ Var því sendur hingað til lands erindreki frá sambandinu árið 1924 sem mun hafa verið ætlað að sinna hlutverki eins konar sáttasemjara í deilunum.

Næstu ár var reynt með ýmsu móti að halda vinstri arminum saman í Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur, en engu að síður dró stöðugt í sundur á milli Ólafs Friðrikssonar og kommúnista og fór félaginu sífellt hrakandi samfara því. Á árunum 1924-1926 mögnuðust enn deilurnar innan Alþýðuflokksins og var bersýnilegt að kommúnistar ætluðu sé að losna undan meirihlutavaldi sósíaldemókrata í flokknum.


Heimildaskrá:

Arnór Hannibalsson: Moskvulínan: Kommúnistaflokkur Íslands og Komintern. Halldór Laxness og Sovétríkin. Reykjavík. 1999.
Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu: samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Reykjavík.1992.
Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1980.
Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1983.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum 1926-1930. Reykjavík. 1979.
Ingólfur Á. Jóhannesson: Úr sögu kommúnistaflokks Íslands. Reykjavík. 1980.
Þorleifur Friðriksson: Gullna flugan: saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál í krafti fjármagns. Reykjavík. 1987.
Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934. Reykjavík. 1979.

(Þessi ritgerð er það löng að ég sá mig knúinn til að skipta henni í fjóra hluta. Síðari hlutarnir munu birtast hér á næstunni.)
Með kveðju,