Grettir stelur Söðulkollu

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Ekki veit ég hvernig stendur á því, að í hvert sinn sem ég tek mér einhverja Íslendingasöguna í hönd finnst mér að atburðirnir sem sagt er frá séu dagsannir. Þeir eru jafnvel raunverulegri en veruleikinn í kringum mig. Raunar má saga verða ansi lýgileg til þess að hún jafnist á við margt það ótrúlega, sem er að gerast í dag. Ekki hefði mig t.d. órað fyrir því, þegar ég unglingur var að vinna hjá Vegagerðinni við að gera rimlahlið uppi í Hvalfirði, að þeir ættu eftir að gera göng undir fjörðinn. Bara rimlahliðið fannst mér þá vera talsvert mannvirki. Svo ég tali nú ekki um að í dag aka strætisvagnar um götur höfuðborgarinnar knúnir vetni. Veruleikinn er lýginni líkastur.

En snúum okkur að Grettis sögu. Hún hefur lengi verið mér einkar kær eða alveg frá því, að ég kynntist henni strákur í Landkotsskóla. Þar kenndi fröken Guðrún mér íslensku. Í ellefu ára bekk endursagði hún kafla úr Grettis sögu einu sinni í viku og við nemendur hennar sátum með opinn munninn og steinþögðum á meðan hún sagði frá. Hún kunni þá list líkt og höfundarnir gömlu að segja sögu.

Þrátt fyrir öll strákapörin og oft grimmd seinna meir þá hafði ég ávallt mikla samúð með Gretti. Hann var eitthvað svo einn alltaf og fékk alla upp á móti sér. Var grimmdin í eðlinu eða mátti kenna uppeldinu um eða var hann smám saman hrakinn út í óhæfuverkin? Varla hefur hann fæðst alvondur. Hvað sem því líður má slá því föstu, að ekki var útlegðardómurinn mannbætandi.

Grettir kemur til landsins
Best að láta þetta liggja milli hluta og segja frá þeim tíðindum er Grettir kemur út í Hvítá í Borgarfirði síðsumars. Þar fréttir hann að faðir hans sé látinn, búið að drepa bróður hans og hann sjálfur gerður sekur um allt land á Alþingi það sumar. Þetta er árið 1016 og Grettir þá rétt um tvítugt. Áður eða árið 1011 hafði hann verið gerður sekur fyrir víg Skeggja í þingreið og skyldi þá vera utan í þrjá vetur. Ekki virtist hann kippa sér upp við þessar nýjustu fréttir, en hitt fannst honum verra að ekki var tiltækur nægilega góður hestur handa honum. Þeir vildu vera vel ríðandi þá ekki síður en í dag.

Leiðin frá Völlum að Deildartungu
Grettir hyggst fara norður að Bjargi í Miðfirði til Ásdísar móður sinnar. Eina nóttina leggur hann af stað frá Völlum. Hann bregður yfir sig svörtum kufli og fer í burtu með leynd af því að hann vill ekki að kaupmenn verði þess varir. Fótgangandi fer hann upp hjá Þingnesi og að Bakka (Hvítárbakka). Á Bakka bjó þá Sveinn nokkur, gildur bóndi og glaðvær, er átti merina Söðulkollu. Grettir hafði engin umsvif og lagði við merina. Síðan reið hann upp með Hvítá fyrir neðan Bæ í Bæjarsveit, yfir Flóku og upp á reiðgötur fyrir ofan Kálfanes.

Þegar Sveinn á Bakka fréttir þetta tekur hann hest og ríður á eftir Gretti, en Grettir ríður áfram upp hjá Kroppi (Stóra-Kroppi). Þar hittir hann mann er Halli heitir, sem er á leið til skips hjá Völlum. Þá kvað Grettir þessa vísu:

Segðu í breiðar byggðir,
bráðlyndr, að þú fyndir
uppi allt hjá Kroppi,
álmþollr, Söðulkollu.
Þar var staddr á steddu,
strjúk allmikinn, Halli,
drengr, sá er drýgir löngum
dufl, í svörtum kufli.

Halli þessi ríður ofan í Kálfanes þar sem hann hittir Svein frá Bakka. Hann segir Sveini að hann hafi hitt mann er sagðist ríða Söðulkollu eins og fram kemur í vísunni.

Athyglisvert er að skoða þessa lýsingu á reiðleiðinni. Hún kemur nánast alveg heim og saman við reiðgöturnar eins og þær eru farnar í dag. Höfundur Grettis sögu hefur sjálfsagt oft farið þarna sjálfur. Hún er raunar svo nákvæm að manni dettur helst í hug, að hann hafi verið Borgfirðingur. Í Íslendingasögum er ekki mikið um svona nákvæmar leiðarlýsingar.

Grettir ríður nú áfram og kemur í Deildartungu. Þar stendur kona úti á hlaði og kastar Grettir þar fram annarri vísu. Í henni segir m.a. að hann muni gista á Gilsbakka í Hvítársíðu. Það er eins og Grettir vilji játa á sig verknaðinn og milda hann þannig enda var hrossaþjófnaður í gamla daga litinn mjög alvarlegum augum og varðaði þungri refsingu.

Frá Deildartungu að Gilsbakka
Eltingaleikurinn heldur áfram, Grettir á undan og Sveinn á eftir. Svo segir í Grettis sögu: “Reið hann nú eftir byggðinni. Sá jafnan hvor annars ferð. Veður var bæði hvasst og vott. Grettir kom á Gilsbakka um daginn og er Grímur Þórhallsson vissi það fagnaði hann honum harðla vel og bauð honum með sér að vera. Hann þekkist það. Hann lét lausa Söðulkollu og sagði Grími hversu hún var til komin.”
Það sem er athyglisvert við þetta er hversu vel Gretti er tekið á Gilsbakka þó svo að hann sé dæmdur útlagi. Eins hitt hversu léttleikinn í frásögninni er mikill líkt og verið sé að segja frá saklausum strákapörum.
Ekki er ósennilegt að þeir hafi farið hjá Hurðarbaki og yfir Hvítá á Fróðastaðavaði ekki langt frá Síðumúla og síðan riðið með bæjum fyrir norðan Hvítá. Þegar Sveinn kemur að Gilsbakka sté hann af baki og sér þá meri sína. Hann kvað þá þessa vísu:
Hverr reið hryssu vorri?
Hver verðr raun á launum?
Hverr sá hvinn hið stærra?
Hvað mun kuflbúinn dufla?
Grettir var þá farinn af vosklæðum sínum og heyrði stökuna:
Heim reið eg hryssu að Grími.
Hann er gildur hjá kotmanni.
Þat mun eg launa litlu.
Láttu okkur vera sátta.
“Satt skal jafnt vera,” sagði bóndi, “og er fulllaunuð hrossreiðin.”
Sveinn gistir á Gilsbakka um nóttina og virtust báðir hafa haft gaman af þessari uppákomu. Vísur þær sem kveðnar voru af þessu tilefni voru nefndar Söðulkolluvísur. Morguninn eftir reið Sveinn svo aftur heim að Bakka og skildu þeir sáttir.
Frá Gilsbakka norður í Miðfjörð
Um ferð Grettis frá Gilsbakka og norður að Bjargi segir þetta í Grettis sögu: “Reið Grettir nú norður Tvídægru og svo til Bjargs og kom þar á náttarþeli; var fólk allt í svefni utan móðir hans.” Grettir hefur væntanlega farið yfir Norðlingafljót á Núpdælavaði, en síðan fyrir vestan Úlfsvatn þar sem Úlfsvatnsá rennur. Norður af Tvídægru var helst um tvær leiðir að velja, sú vestari Núpdælagötur lá niður í Núpsdal. Hin leiðin var Austurárdalsvegur sem lá niður í Austurárdal hjá Aðalbóli og síðan sem leið lá að Bjargi.
Heimkoma Grettis er dapurleg og í mikilli mótsögn við þann léttleika, sem ríkir yfir frásögninni er hann fer um Borgarfjörð. Hann gengur að rekkju móður sinnar en hún spyr hver þar sé. Hann segir til sín. “Ver velkominn frændi,” segir hún, “en svipul verður mér sonaeignin; er sá nú drepinn er mér var þarfastur, en þú útlægur gerður og óbótamaður, en hinn þriðji er svo ungur að ekki má að hafast.”
Niðurlag
Ekki verður þessi saga rakin lengra hér en aðeins bent á, að það kom snemma í ljós að Grettir var lítið gefinn fyrir algeng sveitastörf. Hann var ekki gamall þegar hann vængbraut heimagæsina og snéri kjúklingana úr hálsliðnum heima á Bjargi af því honum fannst þeir svo bágrækir. Þó svo að hann hefði ekki verið dæmdur útlagi, þá hefði hann sennilega aldrei orðið móður sinni að miklu liði við bústörfin.
Enn á Grettir eftir að lifa í mörg ár. Hann er svo drepinn ásamt Illuga bróður sínum norður í Drangey haustið 1031. Ósjálfrátt koma upp í huga mér við lestur bókarinnar hendingar úr ljóði Einars Benediktssonar Grettisbæli:

Hann ætíð var gæfunnar olnbogabarn,
úthýstur, flæmdur um skóg og hjarn,
en mótlæti mannvitið skapar.
Það kennir, að réttur er ranglæti er vann,
og reyndi það nokkur glöggvar en hann,
að sekur er sá einn, -sem tapar?

Einar kunni að lifa sig inn í hlutskipti lítilmagnans.