Sælir veriði hugarar.
Með þessari grein ætla ég að fræða ykkur um það sem fram fór á Hornafirði á stríðsárunum. Vonandi reynist þessi ritgerð gagnleg og fræðandi. Þetta er reyndar ritgerð sem ég skrifaði fyrir stuttu, en ætti ekki að skipta neinu, nema í henni er inngangur lokaorð.

Inngangur

Seinni heimsstyrjöldin byrjaði með innrás Þjóðverja í Pólland
1. september 1939. Svo lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði á hendur Þjóðverja. Rúmlega sjö mánuðum eftir innrásina í Pólland réðust Þjóðverjar inn í Danmörku og Noreg.
Til að styrkja stöðu sína á Norður -Atlantshafi hertóku Bretar Ísland 10. maí 1940. Settar voru upp bækistöðvar víða um land og þar á meðal á Hornafirði. Í þessari grein ætla ég að fjalla um Hornafjörð á stríðsárunum.

Hernámsárin á Hornafirði

Sumarið 1940 komu Bretar og könnuðu lendingarskilyrði á Suðurfjörum við Hornafjörð. Þeir töldu aðstæður góðar fyrir flugbraut og komu þar upp eldsneytisbirgðum fyrir flugbáta. Á Suðurfjörum var gert flugskýli og tvær flugbrautir. Aðal framkvæmdir Bretanna hófust um áramótin 1942-1943 þegar yfirmenn breska hersins komu og tóku land á leigu fyrir bragga. Síðan, fáeinum dögum seinna, var byrjað á að koma með byggingarefni á staðinn og byrjað að reisa braggana sem mynduðu litlar þyrpingar. Margir Hornfirðingar fengu vinnu hjá Bretum við að byggja bragga, leggja vegi og margt fleira.
Fyrstu Bandaríkjamennirnir komu til Hornafjarðar í nóvember 1942 og voru það alls 128 menn. Svo seinna, í janúar 1943, komu 179 menn til viðbótar og komu þeir með loftvarnarbyssur, einnig komu 19 mennn frá herspítalaliði og reistu sjúkraskýli á fjörunum.
Sumarið 1942 hófu Bandaríkjamenn að byggja ratsjárstöð undir Vestrahorni. Í nóvember var stöðinn fullgerð og fullmönnuð með 50 hermönnum. Reksturinn hófst 2. desember. Ratsjárstöðinni var ætlað að fylgjast með þýskum flugvélum.
Árið 1943 um vorið fóru hermenn að týnast burt frá Hornafirði og voru aðeins nokkrir breskir hermenn eftir í ratsjárstöðinni og nokkrir í braggahverfinu. Þegar mest var af hermönnum voru þeir um það bil 450 árið 1943 en strax árið eftir aðeins nokkrir tugir. Alls voru reist 97 hernaðarmannvirki á Hornafirði. Seinni hluta árs 1944 var byrjað að rífa braggana og selja byggingarefnið. Meðal annars var reist samkomuhús af Ungmennarfélaginu Sindra úr bröggunum. Var það kallað Sindrabraggi eða Bragginn og var aðal samkomuhúsið á Höfn þar til Sindrabær var vígður árið 1963.

Fyrsta loftárásin

Fyrsta loftárásin sem gerð var á Ísland var gerð á Hornafjörð 2. ágúst 1942. Þá varpaði þýsk sprengjuflugvél tveimur sprengjum á braggahverfið inni í landi, en hvorug hitti marks. Eitt hús laskaðist aðeins eftir að önnur sprengjan fór nálægt því en var þó ennþá nothæft. Þýska vélin lét einnig vélbyssukúlum rigna yfir braggahverfið, enginn mannskaði varð þó af þessari árás.

Áhrif á daglegt líf

Á styrjaldarárunum var nær allur fiskur sem veiddist hér fluttur út til Bretlands, þannig að útgerðarmenn högnuðust mikið á því. Sigling lítilla fiskibáta yfir hafið með fisk til Bretlands var þó aldrei hættulaus. Mörg íslensk skip voru skotin niður af kafbátum og herflugvélum og því féllu margir Íslendingar í stríðinu þrátt fyrir að eiga ekki her.
Í einum bragganum í braggahverfinu var kvikmyndasýningarvél og buðu Bretar oft Hornfirðingum í bíó. 12. desember 1943 var öllum börnum í Nesjum og á Hornafirði boðið í bíó og komu Bretar að ná í krakkana á stórum hertrukk.
Sumar fjölskyldur fóru að veita hernum þjónustu sína svo sem að baka handa þeim brauð, selja egg og fisk og að þvo af þeim þvott. Bresku hermennirnir spiluðu einnig oft fótbolta með heimamönnum.

Frækileg björgun

24. september 1942 kom það óhapp fyrir að þegar fáeinar herflugvélar voru að fara á loft á Suðurfjörum missti ein flugið og skall í sjóinn. Ekki leið langur tími þar til sjónarvottar fóru af stað til að reyna að bjarga áhöfninni. Báturinn Björgvin II. SF 50 fór af stað í björgunaraðgerðir. Um borð var eigandinn, Sigurður Ólafsson og synir hans Ólafur og Þorbjörn og einnig Ásmundur Ásmundsson. Mikið vonskuveður var og náðu þeir að bjarga einum flugmanni en tveir félagar hans dóu. Þriðjudaginn 26. nóvember 1943 fór fram athöfn í Hafnarskóla. Þar var Sigurði veitt heiðursmerki bresku krúnunnar fyrir dugnað í björguninni. Ólafur, Þorbjörn og Ásmundur fengu heiðursskjöl fyrir þáttöku sína í björguninni. Eftir athöfnina söng karlakórinn.

Lokaorð

Fljótt á litið mætti halda að seinni heimsstyrjöldin hafi ekki haft mikil áhrif á Hornafjörð. En þegar maður fer yfir frásagnir kemst maður að því að stríðið hefur haft mikil áhrif á staðinn og þegar flestir hermenn voru hér voru þeir eflaust fleiri en íbúarnir í þorpinu eða um 450 talsins. Margir ógnvekjandi atburðir gerðust, þar á meðal fyrsta sprengjuárásin á Ísland.

Vonandi að þetta hafi verið fræðandi lesning.

Kv. Vedde