Aðför Þorgils skarða í Reykholt

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Grös eru að falla, guli liturinn að taka við af þeim græna og tveir hrafnar fljúga í átt til fjalla. Yfir Staðarsveit ríkir kyrrð. Þetta er skömmu fyrir Mikjálsmessu síðla dags þann 25. september árið 1253. Þorgils Böðvarsson, skarði og Þórður Hítnesingur eru að leggja af stað frá Stað á Ölduhrygg ásamt 35 manns.

Ferðinni er heitið í Reykholt í Reykholtsdal í Borgarfirði að heimta sjálfdæmi af Agli Sölmundarsyni. Hrossin bryðja mélin og stappa niður fótum þarna í hlaðvarpanum. Það er eins og þau finni á sér að eitthvað mikið er í aðsigi. Þennan dag er Þorgils á leið að hefna harma sinna gagnvart Borgfirðingum, sem hann telur hafa sýnt sér margs konar óvirðingu og sviksemi. Þetta er þó ekki herför enda Þorgils vanbúinn til stórátaka. Skæruhernað væri kannski réttara að nefna þetta.

Þorgils hafði komið til landsins árið 1252 og af konungi verið skipaður Borgarfjörður. Borgfirðingar hrökktu hann hins vegar fljótlega úr héraði og settist hann þá að á Stað á Snæfellsnesi. Nú ákvað hann að reyna að rétta sinn hlut.

Leiðin að Valbjarnarvöllum
Fyrst riðu þeir suður að Straumfirði og hafa væntanlega ætlað þar á Stakkhamarsfjörur. Þar sváfu þeir um nóttina og misstu af fjörunni sem þá var. Um morguninn þegar þeir vöknuðu vissu þeir ekki hvort var flóð eða fjara og tóku því það ráð að ríða fyrir ofan Straumfjörð. Af frásögninni má marka, að ef þeir hefðu átt þess kost hefðu þeir farið um Löngufjörur. Allan daginn riðu þeir án þess að koma heim á bæi fyrr en á Valbjarnarvöllum.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvar leið þeirra hefur legið, en hugsanlega hafa þeir farið um Ölduhrygg alfaravegur, sem lá á melahrygg um endilanga Staðarsveit. Seinna hafa þeir farið um Skjólhvammsgötu, sem liggur ofanvert í Eldborgarhrauni. Einnig liggja um Eldborgarhraun Þrællyndisgata niður á móts við Snorrastaði og Eldborgargata, en hún fannst ekki fyrr en löngu seinna. Um Skjólhvammsgötu lá síðar gamla póstleiðin.

Þaðan hafa þeir svo farið hjá Fagraskógarfjalli þjóðgötuna að vaðinu á Hítará, þar sem heitir undir Bælinu. Þvínæst hraungötuna í gegnum Hagahraun svonefndan Ferðamannaveg og með Múlum og undir Grímsstaðamúla. Yfir Langá hafa þeir væntanlega farið á Sveðjuvaði, sem er skammt fyrir austan bæinn Grenja. Þaðan er stutt að Valbjarnarvöllum.

Haldið í Reykholt
Í frásögn Sturlungu kemur fram að frá Valbjarnarvöllum fara þeir mýrarnar fyrir ofan Munaðarnes og þar yfir Norðurá sennilega á Hábrekknavaði. Það er fyrst þarna sem Þorgils segir mönnum sínum að hann ætli í Reykholt að taka Egil fastan, en hann bannar mönnum að bera vopn á hann.

Frá Hábrekknavaði fara þeir á Ámótsvaði yfir Hvítá, en það mun hafa verið þar sem Reykjadalsá rennur í Hvítá “þar sem gatan liggur yfir um Reykjadalsá.” Síðan komu þeir til Snældubeinsstaða og fengu þar stóra kyndla, en riðu svo að Reykjadalsá. Þaðan riðu þeir á götuna fyrir ofan Grímsstaði og í Reykholt. Hvers vegna þeir velja þessa leið frekar en að fara Bugana upp með Reykjadalsá er ekki gott að segja, nema þá að þeir hafi viljað koma Agli að óvörum á þennan hátt.

Ekki er þess getið að Ámótsvað hafi verið þeim Þorgils farartálmi. Öðru máli gegndi í annan tíma er Guðmundur biskup góði átti þar leið um. Þá var það ekki eins happadrjúgt. Það varð að styðja við biskup beggja vegna svo að hann losnaði ekki frá hestinum. Þegar biskup kom af ánni hafði hann orð á þvi “að hann myndi aldrei á jafn ófært vatn ríða síðan.” Af baki rak þá Eindriða frá Rauðsgili og Sigurð frá Kálfsnesi. Þeim var bjargað, en það er önnur saga.

Þegar þeir komu í Reykholt var Egill ekki heima. Hins vegar lá þar veikur Þorsteinn Árnason, sem hafði vísað á Þorgils í Stafholtsför er þeir Sturla Þórðarson og Hrafn Oddsson handtóku hann. Vildi Þorgils láta handhöggva Þorstein umsvifalaust, en Þórður var því mótfallinn, taldi það níðingsverk. Það var engu að síður gert. Þetta með að viðkomandi sé ekki heima þegar til á að taka kemur ótrúlega oft fyrir í Íslendingasögum. Það virðist vera að aðal heimavarnir manna hafi einmitt verið fólgnar í því að vera ekki heima.

Eftir þetta var riðið í Síðumúla og komu þeir neðan að garði. Þar lét Þorgils drepa Valgarð Þorkelsson. Þar með var ekki hægt að segja að þetta væri beint fýluferð. Að láta handhöggva sjúklinginn í Reykholti var engan veginn nægur árangur eftir allan þennan viðbúnað. Að því búnu riðu þeir vestur að Kolbeinsstöðum og því næst aftur til Staðar. Yfir Hvítá og að Síðumúla hafa þeir væntanlega farið á Fróðastaðavaði, en hvaða leið þeir hafa farið þangað er ekki gott að segja. Álitið er að Fróðastaðavað sé sama og Steinsvað, sem getið er um í Sturlungu.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 er sýnd leið austanvert í Skáneyjarbungu og að Hvítá nokkuð fyrir ofan Síðumúla. Vera má að sú leið hafi verið farin. Hin leiðin lá svo niður dalinn og framhjá Hurðarbaki, síðan sveigt nokkuð í austur og að Hvítá. Sennilegra er að sú leið hafi verið valin. Eins lá leið frá Reykholti að Hurðarbaki og þá farið um Tíðaskarð, sem er fyrir ofan Hurðarbak.

Vestur á Kolbeinsstaði hafa þeir svo farið svipaða leið og þeir komu. Ekki er þess getið hvaða leið þeir fóru frá Kolbeinsstöðum vestur að Stað, en þeir hafa sem hægast getað hafa farið niður hjá Snorrastöðum og þar á Löngufjörur og vestur, hafi þeir hitt vel á fjöruna. Það lá heldur ekki eins mikið á heim, þannig að þeir hafa getað gefið sér tíma til að kanna hvort var að falla að eða frá.

Það sem vekur athygli í frásögn þessari er hversu dagleiðir eru langar, þó ekki sú fyrsta frá Stað að Straumfirði. Næsta dag föstudag fara þeir hins vegar í einni reið fyrst að Valbjarnarvöllum, síðan í Munaðarnes og þaðan í Reykholt. Með skaplegu reiðlagi myndu þetta í dag teljast ekki minna en tvær dagleiðir og líklega nær þremur. Kannski hefur þessi flýtir verið til þess, að njósn bærist ekki á undan þeim. Athyglisvert er að þeir virðast forðast að koma heim á bæi.

Niðurlag
Höfundur frásagnarinnar í Sturlungu er Sturla Þórðarson ein athyglisverðasta persóna Sturlungaaldar. Fyrir utan að setja saman Íslendinga sögu, þá vann hann það afrek að lifa af þessa róstursömu tíma. Það eitt má telja til kraftaverka enda var hann iðulega viðstaddur þar sem mest voru átökin.

Margir hafa viljað lesa út úr frásögn Sturlu vissan friðarboðskap og má vel vera að það sé rétt, en að hann hafi verið friðarsinni í nútíma skilningi er af og frá. Það hversu kalt og æðrulaust hann segir frá ofbeldisverkum sýnir, að hann leit á þau sem nokkuð sjálfsagðan hlut þ.e. ef þau höfðu pólitískan tilgang. Tilgangslaus níðingsverk eins og þarna í Reykholti formdæmdi hann hins vegar og hann hefur greinilega haft andúð á Þorgils.

En hverfum aðeins frá átökum í Sturlungu og að hernaðarumsvifum í nútímanum. Síðustu mánuði hefur verið að koma æ betur í ljós, að Ameríkanar hafa ekki áhuga á að verja okkur öllu lengur. Þá hefur komið til tals að við þyrftum að koma okkur upp eigin varnarliði. Ekki þurfum við að kvíða því að hernaðarandi blundi ekki með þjóðinni. Hann er í genunum og þarf ekki annað en að skoða hegðun manna í umferðinni á föstudögum eða líta til áhuga skotveiðimanna til að samfærast um það. Hvað varðar vopnaburð þá ættu miðaldafræðingar og rjúpnaskyttur að geta veitt tilsögn í honum.

Annars finnst mér að við ættum ekki að láta okkur nægja varnarlið. Við þurfum að koma okkur upp árásarliði samkvæmt formúlunni að sókn er besta vörn. Svo þurfum við auðvitað líka að verða okkur úti um óvini. Það er til lítils að vera með öflugan her ef við eigum enga óvini. Þessir óvinir þurfa helst að vera grannar okkar, svo að hægt sé að ná til þeirra með þægilegu móti.

En nóg um nútíma hernað og aftur að Sturlungu. Þorgils skarði var drepinn að tilstuðlan Þorvaldar Þórarinssonar á Hrafnagili í janúar 1258.