Apavatnsför árið 1238
Eftir Örn H. Bjarnason
Inngangur
Gamall maður stendur á hlaðinu á Breiðabólsstað í Reykholtsdal í Borgarfirði. Hann fylgist með hvar fylking ríðandi manna kemur Bugana upp með Reykjadalsá og hann veit að þarna fer Sturla Sighvatsson. Hann er á leið til fundar við Gissur Þorvaldsson sem býr á Reykjum í Ölfusi. Spurst hefur að þarna fari ekki færri en 360 manns. Sumir eru komnir alla leið vestan af fjörðum, aðrir eru liðsmenn Sturlu úr Dölum og enn aðrir koma með Böðvari á Stað á Ölduhrygg, frænda Sturlu. Svo eru þeir sem bæst hafa í hópinn í Borgarfirði.

Eittvað þarf nú af skeifum undir öll þessi hross, hugsar gamli maðurinn og þar sem hersingin hlykkjast fyrir neðan bæ og sveigir í áttina að Rauðsgili, sér hann ekki betur en að þarna sé vindóttur klár frá Skáney og annar ljósaskjóttur frá Hurðarbaki.
Dalamenn eru vel ríðandi og eins þeir vestan af Snæfellsnesi, en alltaf hefur honum fundist hrossin í Borgarfirði fallegust. Það gerðu sjálfsagt sumarhagarnir frammi á Arnarvatnsheiði og Tvídægru, hugsar hann og flokkurinn ríður upp með Rauðsgili vestanverðu og á Okveg.

Þessi sjón orkar sterkt á gamla manninn og enn í dag lætur þessi viðburður okkur ekki ósnortin. Fátt í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar er okkur jafn mikil ráðgáta og viðskipti Sturlu Sighvatssonar og Gissurar í Apavatnsför. Um tildrög þeirrar farar segir í Íslendinga sögu: “Sturla sendir um vorið um föstu Ketil Þorláksson og Svarthöfða Dufgusson suður í Ölfus til Gissurnar Þorvaldssonar og lét segja honum, að hann ætlaði um vorið suður um land að heimta fé Kols með Ormi.”

Gissur féllst á að fara með Sturlu austur yfir ár ef hann vill þ.e. austur yfir Þjórsá og skyldu þeir hittast þegar Sturla kæmi suður um heiðar. Skyldi Gissur halda úti njósnum austur um og vita hvaða ráðgerðir væru þar uppi.

Leið Sturlu til Apavatns
Sturla kemur vestan úr Dölum og hefur væntanlega farið um Bröttubrekku. Kannski hefur hann farið um Grjótháls og hjá Norðtungu að Síðumúla og á Fróðastaðavaði yfir Hvítá. Það má líka vera, að hann hafi farið fyrir ofan Munaðarnes og um Hábrekknavað yfir Norðurá. Þaðan svo að Einifelli og Guðnabakka og um Fróðastaðavað yfir Hvítá. Líka er hugsanlegt að hann hafi farið um Eyjavað yfir Norðurá, en það er rétt fyrir ofan Stafholt og síðan á Bakkavaði yfir Hvítá. Það vað er álitið hafa verið á gömlum farvegi Hvítár.

Böðvar kemur vestan frá Stað á Ölduhrygg. Hann hefur hugsanlega farið Löngufjörur að Snorrastöðum og þaðan um Kaldármela hjá Fagraskógarfjalli og með Múlum að Sveðjuvaði á Langá skammt frá Grenjum. Þaðan svo hjá Valbjarnarvöllum og yfir Norðurá á Eyjavaði og síðan um Bakkavað. Kannski hefur hann hitt Sturlu á Kroppsmelum.

Allt er þetta á huldu nema hvað þegar Sturla hittir Böðvar, þá er hann búinn að safna viðbótarliði í Borgarfirði. Þetta er vitað og það er líka vitað að úr Borgarfirði fara þeir Bláskógaheiði. Síðan segir: “En er þeir komu suður undir Hrafnabjörg, kom þar á móti þeim sendimaður Gissurar og segir, að þeir voru sáttir Kolur, Björn og Ormur og þar með að Sturla þurfi ekki að koma, báðu hann aftur hverfa ef honum líkaði það.” Þarna hefur hann ugglaust farið á Hrafnabjargaveg hjá Víðivöllum og um Prestastíg yfir Hlíðargjá og þaðan hraungötuna upp að Hrafnabjörgum.

Ekki hafa menn viljað kveða upp úr um það, hvort hann hafi farið upp Lundarreykjadal að Brunnum eða um Okveg upp hjá Rauðsgili að Brunnum. Sennilegast þykir mér, að hann hafi farið um Okveg. Ástæðan er sú að hafi hann farið upp Lundarreykjadal hefði legið beinast við, að sveigja út af hjá Gilstreymi og fara um Gagnheiði og niður hjá Svartagili í Þingvallasveit. Þaðan liggur bein leið um Stekkjargjá og Skógarkot, en síðan um Gjábakkastíg og hjá Reyðarbarmi að Apavatni. Það hefði verið talsverður krókur fyrir hann að fara upp hjá Brunnum og um Kluftir að Hrafnabjörgum.
Þetta finnst mér veigamikil rök fyrir því að hann hafi farið um Okveg og hjá Biskupsbrekku, Víðikjörr, Tröllháls og um Kluftir á Víðivelli. Þaðan er stutt að Hrafnabjörgum.

Á leiðinni er hann sjálfsagt að hugleiða hvað gera skuli við Gissur þegar þeir hittast. Gissur hefur svo sem ekkert gert honum, en hann er fyrir. En ef hann drepur hann eignast hann um leið marga nýja óvini. Það var úr vöndu að ráða, kannski betra að fara með löndum og reyna að komast að einhverju samkomulagi. Því ekki að senda hann utan til Hákonar Noregskonungs?

Eiginlega í fyrsta skipti á ævinni fann Sturla til verulegrar einsemdar. Þarna reið hann með allan þennan flokk manna og samt var hann einmana. Bara einhver þarna væri sannur vinur hans, en því var ekki að heilsa. Hann var foringi þeirra og það var næstum því jafn slæmt og að vera útskúfaður.

Honum fannst hann ekki hafa átt neinn vin síðan þeir voru saman í Hítardal Aron og hann hjá Þorláki Ketilssyni. Þeir voru fóstbræður. En svo hafði Aron farið vestur í Flatey á Breiðafirði og Sturla að Sauðafelli til föður síns. Nú var Sturla kominn fast að fertugu og hann átti engan vin. Fylgdarmenn hans skröfuðu saman á leiðinni þennan vorlanga dag og sem snöggvast óskaði Sturla þess, að hann væri einn af þeim. Það átti að heita að í fylgd með honum væru einhverjir trúnaðarmenn, en þeir voru ekki vinir hans.
Leið sendimanns Gissurar

En hvaða leið hefur sendimaður Gissurar farið úr Ölfusi og undir Hrafnabjörg? Hann hefur sennilega farið út hjá Sogni og Gljúfri og yfir Grafningsháls hjá Hvammi. Síðan að Álftavaði á Álftavatni og þaðan fyrir austan Búrfell og rakleitt að Gjábakka og áfram undir Hrafnabjörg. Þessi leið frá Búrfelli að Gjábakka er sýnd á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 og virðist hafa verið alfaraleið.

Áfram með ferð Sturlu
Eftir að sendimaður Gissurar var farinn kallaði Sturla til sín trúnaðarmenn sína. Niðurstaðan varð sú að hann kvað “Sunnlendinga ekki skyldu vísa sér sem hjörð í haga…” Hann sendi svo þau skilaboð til Gissurar, að hann skuli finna hann við Apavatn. Það er eins og ekkert sé ákveðið um fundarstað fyrr en þarna undir Hrafnabjörgum. Hugsanlega hefur staðarvalið ráðist af því, að við Apavatn voru góðir hagar fyrir hrossin og nóg vatn.

Sturla reið þá til Apavatns og hefur hann farið um Hrafnabjargaháls og hjá Reyðarbarmi og Beitivöllum að Apavatni. Þar voru nægir hagar enda “allra vora best.” Sturla hafði komið þangað að morgni, en er á leið daginn kom Gissur og með honum fjörutíu manns. Þeir taka tal saman og Sturla lætur heldur ólíkindalega, en svo að því er virðist skyndilega tekur hann þá ákvörðun að handtaka Gissur og afvopna menn hans.

Gissur spyr hann hvers vegna hann leggi hendur á sig og þá segir Sturla honum, að hann ætli sér meiri hlut “en öðrum mönnum á Íslandi.” Hann segir að Gissur sé eini maðurinn á Íslandi, sem hann sé hræddur við. Síðan er Gissur látinn sverja að hann muni fara utan. Frásögnin hér er hárnákvæm, sem ekki er að undra því að Sturla Þórðarson höfundur Íslendinga sögu er þarna sjálfur viðstaddur. Athyglisvert er hversu myndin, sem dregin er af Gissuri er manneskjuleg. Lesandinn fær ósjálfrátt samúð með honum. Í þessu fellst m.a. frásagnarsnilld Sturlu Þórðarsonar. Hann lýsir óvininum sem viðfeldnum og notalegum manni. Það gerir óhæfuverkin seinna meir enn áhrifameiri.

Ferð Sturlu og Gissurar í Ölfus
Daginn eftir ríður allur flokkurinn út í Grímsnes og síðan að Reykjum í Ölfusi. Einsýnt er að þeir hafa farið Bakkagötur og fyrir norðan bæ hjá Björk. Síðan hjá Klausturhólum, Hæðarenda og Miðengi að Álftavaði. Frá Álftavaði fara þeir síðan um Grafningsháls og fyrir neðan bæinn Gljúfur og út með hlíðinni að Reykjum.

Að þeir hafi einmitt farið þessa leið sækir stuðning í sóknalýsingu yfir Klausturhóla- og Búrfellssóknir gerð af séra Jóni Bachmann árið 1840. Þar segir: “Alfaravegur úr Laugardal og Biskupstungum þeirra er fara út með sjó, liggur ofan endilanga Lyngdalsheiði, út hraun hjá Miðengi að Álftavatni…” og síðan: “Af bæjum þar í sóknum liggja Björk, Klausturhólar, Hæðarendi og Miðengi með og nærstir þessum vegi.” Ég hef riðið þennan veg fyrir norðan Klausturhóla og að Björk og virðist hann hafa verið fjölfarinn. Það er engin ástæða til að ætla, að önnur leið hafi verið farin árið 1238 en árið 1840.

Menn hafa snemma valið sér ákveðnar reiðleiðir og haldið sig við þær. Þessu réðu mýrar, vöð og ferjur. Í dag liggja vegir annars staðar, enda hægur vandi að smíða brýr yfir ár og svo sprengja menn sig í gegnum fjöll og jafnvel undir sjóinn. Það er aðdáunarvert hvað menn leggja mikið á sig, stundum til þess eins að heimamenn geti með þægilegu móti fengið sér pylsu og kók í öðru byggðarlagi.

Þeir höfðu djúpt á yfir Álftavað segir í Sturlungu og kemur það heim og saman við sömu sóknalýsingu og minnst er á hér að ofan. Þar segir: “Yfir Álftavatn liggur á sumardag þjóðleið allra þeirra, sem leið eiga úr uppsveitum vestan Hvítár og Grímsnesi útí Þorlákshöfn, eður lengra út með sjó. En ei er það fært fyrr en snjóleysingar mestu eru úr fjöllum, og í langvinnum rigningum verður það líka ófært. Ei er það heldur reitt fyrir dýpi, nema á þeim eina stað, og er það miðað vað, hvörju megin sem að því er komið. Verður það aldrei grynnra en í kvið og er á breidd við í lengsta lagi stekkjarveg.”

Í hrauninu fyrir ofan Álftavatn nemur Sturla staðar og virðist hugsi rétt eins og hann viti ekki almennilega hvað hann eigi að gera við Gissur, en síðan segir hann: “Ríðum enn.” Þegar þeir eru komnir yfir vaðið taka þeir stefnuna hægra meginn við Ingólfsfjall og halda um Grafningsháls og Djúpagrafning niður í Ölfus. Það var til þess tekið, að þennan dag lék Gissur við hvern sinn fingur.

Í Lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdán Jónsson á Reykjum gerð 1703 segir: “En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Ölvesið.” Af þessu má ráða að einmitt þar hafi Sturla og Gissur farið.

Niðurlag
Ekki verður skilist svo við þetta efni, að ekki sé minnst á átveisluna sem haldin var á Reykjum helgina eftir Apavatnsför. Hún var líkt og dempað forspil að Örlygsstaðabardaga þá um haustið.
Naut voru rekin úr Grímsnesi og Ölfusi heim á bæ. Ég spurði að gamni mínu kjötiðnaðarmann, hvað hann teldi að þyrfti mörg naut í svona veislu. Við gáfum okkur að 400 manns sætu hana og að þeir hefðu fengið bæði hádegis- og kvöldmat laugardag og sunnudag. Þetta gerðu 1600 skammta.

Kjötiðnaðarmaðurinn fór í reiknivélina og byrjaði að margfalda og deila. Hann kvað veitingahúsakammt vera 250 gr. á mann. Útkoman varð sú að ekki þyrfti minna en 3 naut í svona venjulega veislu. En þetta var engin venjuleg veisla. Þarna voru fornmenn á ferð og sumir komnir alla leið vestan af fjörðum og sjálfsagt ekki fengið ærlega máltíð lengi. Þeir voru svangir. Við margfölduðum þetta því með tveimur og þá voru komin 6 naut. Síðan mátti gera ráð fyrir, að ekki vildu menn verða uppiskroppa með mat. Það hafa því ekki verið færri en 8-10 naut, sem rekin voru heim að Reykjum þessa helgi.

Þessi saga verður ekki rakin öllu lengra hér nema hvað Sturla og Gissur fara saman austur yfir ár. Fyrst ríða þeir út í Flóa og gista nokkrar nætur í Villingaholti. Eftir fund sem Sturla átti við Þjórsá fara þeir austur yfir ár. Reið Sturla í Odda með sína sveit, en Böðvar og Gissur fara á Breiðabólsstað í Fljótshlíð og á að heita að Gissur sé þar í varðhaldi.

Leiðin austur hefur hugsanlega verið þessi. Þeir hafa farið inn hjá Sogni, Gljúfri og Hvammi að Ingólfsfjalli vestanverðu og síðan suður með Ingólfsfjalli að Laugardælaferju og þar yfir Ölfusá. Þaðan svo austur að Villingaholti. Það kæmi ágætlega heim við leið sem Björn Gunnlaugsson teiknar á kort sitt árið 1844. Frá Villingaholti fara þeir yfir Þjórsá á Sandhólaferju og þaðan Oddaleið austur. Hvaða leið Gissur hefur farið að Breiðabólsstað er erfitt að fullyrða nokkuð um.

Seinna sleppur Gissur úr varðhaldinu og myndar bandalag við Kolbein unga á móti Sturlungum. Þá dregur til stór tíðenda, sem endar með Örlygsstaðabardaga þetta sama haust norður í Skagafirði. Þar féllu Sighvatur og þrír synir hans þar á meðal Sturla Sighvatsson. Og enn er Sturla Þórðarson til frásagnar. Honum voru gefin grið þar nyrðra.

Gissur var einn af þeim sem veittu Sturlu banasár: “Hér skal ég að vinna,” sagði hann og tók breiðöxi og hjó í höfuð Sturlu. Sennilega hefur hann ekki getað fyrirgefið Sturlu, að hann skyldi gefa honum líf.