Það voru sennilega ekki margir sem að hefðu trúað því, fyrir 10. maí árið 1940, hve mikil áhrif erlend þjóð gæti haft á okkur Íslendinga. Eftir hernám Breta, og seinna hervernd Bandaríkja, hófst á í Íslandi, fyrir alvöru, alþjóðavæðing sem engann hafði órað fyrir. Það er samt sem áður ekki hægt að staðhæfa það að Íslendingar hafi verið staddir einhvers staðar í fornöld fyrir hernámið, eða eins og þeir Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson segja í bók sinni, Ástandið: „Alltof mikið hefur …verið gert úr áhrifum hersetunnar á íslenskt þjóðlíf, rétt eins og breski herinn, og síðar sá bandaríski, hafi kippt Íslendingum í einu vetfangi …inn í nútímann… Nútíminn lá nefnilega fyrir ströndu alllöngu áður en HMS Berwick bar hér að landi…”
Það er samt sem áður markmið þessarar ritgerðar að kanna hversu mikil áhrif hersetunnar voru á menningu og neyslu Íslendinga. Þó að viss alþjóðavæðing hafi verið hafin hér á landi með áhrifum íslenskra stúdenta erlendis þá eru fáir sem andmæla því að áhrif hersetunnar voru umtalsverð og hér verður reynt að gera nánar grein fyrir því.

Aukin velmegun
Með komu breska hernámsliðsins hófst nýr kafli í sögu Íslendinga. Herinn þurfti á miklu nýju vinnuafli að halda og hófst þar með mikill uppgangur í atvinnulífinu. Aukin atvinna og aukinn kaupmáttur greiddi svo sannarlega fyrir því að nýjungar í neyslumenningu litu dagsins ljós. Hér getum við séð breytingar milli tímabila á launum og kaupmætti Íslendinga á stríðsárunum.

Ár Tímakaup (krónur) Vísitala tímakaups Vísitala framf. kostnaðar Kaupmáttur
Jan.-mars 1939 1.45 100 100 100.0
1.okt. 1939 1.45 100 103 97.1
1.okt. 1940 1.84 127 141 90.1
1.feb. 1941 2.12 146 148 98.6
1.okt. 1941 2.41 166 172 96.5
1.júl. 1942 2.70 186 183 101.6
1.sep. 1942 4.26 294 210 140.0
1.des. 1942 5.68 392 272 144.1
1.okt. 1943 5.72 395 260 151.9
1.júl. 1944 6.83 472 266 177.4
1.júl. 1945 7.01 484 275 176.0

Ljóst er að hersetan skipti hér sköpum. Viðvarandi atvinnuleysi hvarf eins og dögg fyrir sólu. Til marks um þá breytingu sem varð þar á voru tæplega 800 manns á atvinnuleysisskrá í nóvember 1939 en árin 1941 og 1942 var enginn skráður atvinnulaus í Reykjavík og öll stríðsárin voru það aðeins nokkrir tugir þegar mest var. En þessum aukna kaupmætti fylgdu ekki bara sól og blíða heldur hafði hún marga vankosti í för með sér.
Þar er fyrst að nefna hina milu dýrtíð sem í hönd fór. Á töflunni fyrir ofan sést glöggt að vísitala tímakaups helst lengi vel í hendur við vísitölu framfærslukostnaðar, sem hækkaði gífurlega. Mikill vöruskortur einkenndi verslun á Íslandi en eftir hernám Breta urðu aðalviðskiptalönd Íslendinga Bretland, Bandaríkin og Kanada en á sama tíma misstu Íslendingar viðskipti við áður mikilvægar þjóðir, þ.e.a.s. Þýskaland og herteknu löndin þeirra, m.a. Danmörku. Með þessum nýju viðskiptavinum komu til landsins nýjar vörur sem urðu auðvitað hluti af þeirri ameríkaníseringu sem Íslendingar urðu fyrir seinna meir. Þessi verslun gekk þó ekkert auðveldlega fyrir sig svo síður sé. Mikil hætta var á siglingaleiðum til Bandaríkjanna og Bretlands svo örðugt var að halda uppi miklu vöruúrvali. Innflutningur miðaðist aðallega við nauðsynjar en raftæki og bílar urðu að bíða betri tíma. Skipaðar voru nefndir, eins og Íslendingum var einum lagið, til þess að ákveða hvað mætti, og hvað mætti ekki, flytja inn.
Annar vandi sem fylgdi þessari auknu velmegun var húsnæðisskortur. Þar kom aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi þá, eins og áður segir, var atvinnuleysi á Íslandi allt að því útrýmt með tilkomu setuliðsins. Allir sem vettlingi gátu valdið fengu vinnu hjá Bretanum, sem að borgaði mun betur í aðra hönd en íslenskir verkamenn voru vanir frá samlenskum vinnuveitendum. Þetta hafði það í för með sér að fjölmargir Íslendingar sem bjuggu í dreifbýli hópuðust til Reykjavíkur á vormánuðum til að freista gæfunnar og vinna sér inn auka vasapening. Húsnæðismálin í Reykjavík höfðu ekki verið upp á marga fiska frá kreppuárunum sökum gjaldeyrisskorts til efniskaupa og ekki bætti þetta úr skák, að fjölmargir íbúar bættust við jafnvel án þaks yfir höfuðið. Í öðru lagi freistuðust margir til þess að standa í húsnæðisbraski. Þeir sem leigðu út íbúðir tóku upp á því að segja upp leigjendum sínum til þess að geta boðið Bretum íbúðir sínar en þeir borguðu vitanlega meira fyrir en íslenski verkamaðurinn. Þessi vandi var viðvarandi nær allt stríðið og bjó fólk á ýmis miður geðslegum stöðum þó að þykkara væri í veskjum landsmanna heldur en fyrir stríð.

Nýjar afurðir, meiri neysla
Breytingar á menningu og neyslu eru háðar framboði á þessum breytum. Með tilkomu setuliðsins snarhækkaði íbútalan á Íslandi og nýju íbúarnir, þó þeir væru það ekki nema tímabundið, kröfðust þess að halda í venjur og siði frá sínum heimahögum. Margt af þessu var Íslendingum að vitaskuld framandi en eftir fyrstu reynslu eru fáir sem afþakka sælgæti, gos eða sígarettur svo fátt eitt sé nefnt.
Það voru þó íslenskir athafnamenn sem áttu einna stærstan þátt í breytingu á vöruframboði. Þeir voru nokkrir sem sáu sinn hag í því að opna „sjoppur” þar sem breskir hermenn gátu gætt sér á „fish and chips”, ristuðu brauði og tei og beikon og eggjum. Þessir staðir birtust hver af öðrum en þetta var alger nýjung hér á landi. Fjölmargar verslanir sem að seldu munaðarvörur er áður voru næsta óþekktar blómstruðu og t.a.m. voru tóbaksbúðin London, sælgætissala Gamla bíós, veitingasala góðtemplara og matsölu – og kaffihúsin Hressingarskálinn og Heitt og kalt í hópi tekjuhæstu fyrirtækja árið 1944.
Bretarnir voru líka ófeimnir við að deila með sér auðæfum sínum af framandi vörum, eða eins og Hjálmar Vilhjálmsson ritar í Seyðfirskir hernámsþættir: „Ýmislegt höfðu Bretar í fórum sínum, einkum matarkyns, sem ýmsir girntust. Má t.d. nefna ávexti, grænmeti, ódýrar sígarettur o.m.fl. Þar eð Bretar virtust mjög rausnarlegir og ónízkir í eðli sínu…hófust fljótt nokkur viðskipti milli þeirra og fólksins í bænum.” Það er óhætt að fullyrða að svipað var uppi á teningnum um allt land eða a.m.k. þar sem hernámslið var statt.
Áfengisneysla hernámsliðsins er svo sér kapítuli út af fyrir sig. Strax eftir hernámið var farið að bera á drukknum dátum hvert sem auga leit. Þeir fengu áfengið sitt vitaskuld ódýrara en Íslendingar og voru ekki bundnir áfengisskömmtunum heldur. Þó tíðkaðist það hjá Bretum að þeir skiptu áfengi sínu fyrir matvörur en þeir voru víst ekki í jafngóðu fæði og bandarísku hermennirnir á eftir þeim og stunduðu þeir því skiptaverslun þessa. En hvað varðar nýjar afurðir má helst greina frá því þegar að bjórinn var leyfður aftur tímabundið. Þannig var að breskir yfirmenn voru farnir að hafa áhyggjur af því hversu sterka áfengi okkar Íslendinga færi misvel ofan í drengina og kröfðust þess því að fá annað hvort að flytja inn bjór eða að Íslendingar tækju að sér að brugga hann ofan í hermennina. Íslensk stjórnvöld áttuðu sig á því að þau yrðu af umtalsverðum tekjum ef bjórinn yrði fluttur inn og því voru sett bráðabirgðalög sem heimilaði bruggun á bjór. Í ársbyrjun 1941 hófst svo sala á Pilsner beer sem var 4% af styrkleika en aðeins leyfður hermönnum. Það má þó fastlega reikna með því að ófáir Íslendingar hafi notið bragðsins af sterku öli með dátunum.
Þegar Bandaríkin tóku að sér hervernd Íslands fór þó að kveða við nýjann (og betri?) tón. Þeir höfðu greinilega úr meira fé að spila og komu með betri vörur, voru betur klæddir og betur agaðir svo fá dæmi séu tekin. Um breytinguna sem varð á eftir að Kanarnir komu er vel lýst í bók Jóns Hjaltasonar sagnfræðings um hernámsárin fyrir norðan:
„Setuliðsskipan á Akureyri og Eyjafirði í maí og september 1942 gerbreyttu því samfélagi sem hafði skapast í tíð Breta. Reykingar landans héldu þó enn áfram að aukast stórkostlega en sígaretturnar breyttu um bragð, Fish and Chips-sjoppan…lagði upp laupana og pylsur í pylsubrauðum sáust í fyrsta sinni hverfa ofan í Íslendinga. Poppkornsmenning Bandaríkjanna gerði einnig vart við sig en varð ekki nærri jafn útbreidd og pylsurnar. Tyggjó komst í efsta sæti á vinsældalista barnanna yfir sælgæti en auðlegð bandarísku hermannanna var slík að þeir áttu líka súkkulaði að gefa. Það fór ekki fram hjá neinum, hvorki börnum né fullorðnum, að bandarísku hermennirnir voru töluvert loðnari um lófana en þeir bresku…”

Sannkallað sælgætis-og gosdrykkjabrjálæði greip landsmenn á stríðsárunum er þeir höfðu loksins efni á einhverjum munaðarvörum. Frá þessu segir Eggert Þór Bernharðsson í Sögu Reykjavíkur:
„Árið 1940 framleiddu reykvískar sælgætisverksmiðjur um 137 tonn af át- og suðusúkkulaði en þremur árum síðar 245 tonn, og brjóstsykur fór úr tæpum 23 tonnum í ríflega sextíu…Ennfremur margfaldaðist framleiðsla á öðru sælgæti og gosdrykkjaþamb stórjókst. Öl- og gosdrykkjagerðir bæjarins…framleiddu um 1,2 miljónir lítra af öli og gosi árið 1940 en nærri 3,5 miljónir 1945. Þá hafði Sanitas fengið einkaleyfi fyrir gosdrykkinn „Pepsi-Cola” og í hópinn bæst Vífilfell sem framleiddi „Coca-Cola” við miklar vinsældir, ekki síst [meðal] bandarísku hermannanna.”

Það fór því ekki framhjá neinum að neysla, hvers konar, jókst gífurlega með komu setuliðsins, sérstaklega þess bandaríska. Eina staðreynd væri vert að athuga betur nú á tímum heilbrigðs lífernis og aukinnar fræðslu um skaðsemi reykinga en í fyrrgreindi riti Jóns Hjaltasonar segir hann frá siðavenjum á Siglunesi: „Það urðu vitanlega nokkur viðbrigði fyrir Nesmenn þegar bandaríski herinn kvaddi á árinu 1944. Mesta eftirsjá sumra þeirra, og sú sárasta, hefur eflaust verið eftir sígarettunum sem hurfu um leið og herliðið. Sígarettureykingar á Siglunesi höfðu hafist við komu Bandaríkjamanna og þegar þeir fóru hættu Nesmenn að reykja enda lágu sígarettur þá ekki lengur á lausu, allra síst frítt.” Það er sannarlega þess virði að velta því fyrir sér hversu mikla ábyrgð setuliðið á, á reykingum Íslendinga.
Önnur vara sem er sér-bandarísk er ísinn, sem hefur kælt ófáann Íslendinginn niður í gegnum árin, hvernig svo sem viðrar. Frá tilkomu hans segir Louis E. Marshall, fyrrum herforingi, í ævisögu sinni Hernámið, hin hliðin: „Við Trípólí-menn fluttum með okkur tæki til ísgerðar, því að Bandaríkjamenn eru sólgnir í ís…Brátt urðum við þess varir að börnin voru komin á bragðið og hugur fylgdi svo sannarlega máli þegar þeim var boðinn ís og þau þökkuðu síðan fyrir sig. Mér er sagt að með ísgerðinni í Trípólí-kampi hafi runnið upp „ísöld” á sjálfu Íslandi og síðan hámi Ísendingar í sig ís af öllum gerðum í tíma og ótíma…” Marshall minnist í sömu andrá á fleiri afurðir svo sem poppkorn, saltaðar jarðhnetur og ferska ávexti en ávextirnir höfðu fram að þessu aðeins verið fáanlegir hér á landi fyrir jólin. Bandarísku hermennirnir voru vel birgir af þessum vörum og voru því að sjálfsögðu örlátir á þær. Eina aðra vöru minnist Marshall á, sem að mínu mati er mjög athyglisverð, en það er Kornfleksið. Ég er viss um að tala þeirra Íslendinga sem að hafa alist upp með þennan ljúffenga morgunmat skiptir tugþúsundum og það er kannski óþarfi að fara út í mikilvægi þess á daglegt líf. Morgunmaturinn er, jú, miklvægasta máltíð dagsins.
Af öllu framansögðu er ljóst að hernámið skipti sköpum í vöruúrvali á Íslandi. Mikið framboð er af öllum þessum vörum enn þann dag í dag og þær skipta okkur miklu máli. Þó að reykingar séu vonandi á undanhaldi, a.m.k. ef miðað er við önnur lönd í Evrópu, þá eru ávextir mikilvæg uppistaða í mataræði okkar Íslendinga, og hver getur hugsað sér að fára í bíó án þess eð vera með popp og kók, börnin bíða enn í ofvæni eftir laugardögum til að gæða sér á sælgæti og hver hefur ekki einhvern tímann á ævi sinni fengið sér Kornfleks í morgunmat?

Menningarbreytingar
Miklar breytingar áttu sér stað í menningu okkar og mannlífi. Eins og kom fram í síðasta kafla snarfjölgaði íbúatölu landsins með tilkomu hernámsliðsins og það voru ekki einungis nýjar vörur sem fylgdu með heldur einnig nýjir siðir. Þá skal fyrst talin ný vinnumenning.
Áður en breski herinn kom á land voru Íslendingar að ná sér af kreppuárunum, þegar vinnuframboð var heldur af skornum skammti. Samkeppnin um stöður leiddi af sér að alls engum vettlingatökum var beitt, verkamenn einbeittu sér að því að afkasta sem mestu og vinna sem lengst. Skyndilega var öllu atvinnuleysi útrýmt og slakaði þá á samkeppninni. Nýjir vinnuhættir litu dagsins ljós, svonefnd „vinnuleti” varð algeng. María Hildur Guðmundsdóttir segir frá, í bók Herdísar Helgadóttur Úr fjötrum: „Breytingarnar urðu geysilegar. Allir fengu vinnu. Strákarnir, bræður mínir tveir, fóru í Bretavinnu, og þá fengum við peninga, því þeir höfðu gott kaup og næga vinnu. Nú gátu þeir meira að segja lagt sig í „letivinnunni”, eins og Bretavinnan var kölluð, og komu lítið þreyttir heim á kvöldin. Áður…þegar þeir voru svo heppnir að fá vinnu urðu þeir að hamast undir drep og komu úrvinda heim á kvöldin.” Sú staðreynd að meira og minna allir Íslendingar höfðu nú atvinnu leiddi vitanlega af sér að þeir höfðu úr meira fé að spila. Það, og auðvitað eirðarleysi erlendu hermannanna, leiddi til mikillar breytingar á skemmtanalífi á Íslandi, sem tók stakkaskiptum á stríðsárunum.
Fjöldinn allur af litlum kaffistofum voru settar á legg svo og skemmtistöðum þar sem fólk gat dansað í takt við nýjustu tónlistarstefnurnar. Möguleikarnir jukust semsé í skemmtanalífinu og auk þess áttu Íslendingar loksins pening. Þetta varð til þess að áfengisneysla Íslendinga jókst gífurlega, svo mikið að stjórnvöld sáu sér ekki annað fært en að grípa í taumana með því að skammta áfengi. Sólveig Guðmundsdóttir hefur þetta að segja um skömmtunina í áðurgreindri bók Herdísar Helgadóttur:
„Við áfengisskömmtunina fóru allir að kaupa vín. Ég drakk ekki og gat bara selt miðana mína. Hver maður sem átti afmæli gat fengið meira af víni. Upp úr þessari skömmtun byrjaði sá siður að hafa áfengi í afmælisveislum og öllum veislum, líka fermingarveislum. Maður heyrði sögur af strákum sem fóru á fyllerí við fermingu að það rann ekki af þeim fyrr en þeir voru fertugir. Þessi áfengisskömmtun jók mjög á drykkjuskapinn”.

Bretarnir voru þó síst skárri. Drykkjulæti þeirra þóttu með ósköpum og kenndu bresk yfirvöld íslenska brennivíninu þar um. Það er þó óhætt að segja að í þeirri óvissu sem að stríðið var vildu dátarnir eðlilega skemmta sér því að enginn vissi hvað morgundagurinn hefði í för með sér. Skemmtanir voru því hvert kvöld á stöðum eins og Hótel Borg (sem var eini vínveitingastaðurinn), Hótel Heklu og Ingólfskaffi. Það var vitaskuld dálítið pínlegt fyrir bresku hermennina að koma hér í tugþúsundatali án nokkurs kvenmanns (fyrir utan örfáar breskar hjúkrunarkonur). Þetta ástand leiddi til „ástandsins”.
Flestir nútíma sagnfræðingar eru þó á því að kerlingar af báðum kynjum hafi gert full mikið úr þessu „ástandi” þó að enginn getur mælt á móti því að allmikið samneyti íslenskra kvenna og erlendra hermanna hafi átt sér stað. Skipuð var sérstök ástandsnefnd sem átti að koma með tillögur til að ráða fram úr þessum vandræðum. Það bar þó ekkert minna á vandræðunum, a.m.k. á síðum dagblaðanna, eftir að ástandsnefndin hafði skilað sínu starfi. Staðreyndin er einfaldlega sú að þegar að fjöldi karlmanna í þéttbýlisstað eykst um helming er erfitt að komast hjá einhverju samneyti við hina nýju aðkomuþjóð. Konunum fannst hermennirnir e.t.v. spennandi en sögur segja að þeir hafi verið kurteisari en hinir íslensku og kunnað sig á allan máta betur í kringum kvenfólk. Þetta leiddi til þess að nýjar aðferðir við tilhugalíf komu í ljós hjá íslenskum mönnum sem áður höfðu sýnt kvenfólki sínu ekkert nema fyrirlitningu:
„Þeir [íslensku karlmennirnir] gripu sumir til þess ráðs að herma eftir hermönnunum í samskiptum við stúlkur…Þeir fór að verða kurteisari við konur, hættu margir að taka í nefið og tyggja skro, fóru að reykja sígarettur og lögðu derhúfunum…Þá héldu þeir sig til, rökuðu sig daglega, settu upp Battersbyhatta, voru í jakkafötum…og vel burstuðum leðurskóm…þegar þeir fóru í bæinn eða á böllin.”

Það varð þó einhver bið á öllum þessum bótum, a.m.k. var öðruvísi umhorfs í Reykjavík þegar hausta tók 1940. Þá fylltu bæinn drukknir menn í öllum skotum og skúfum hvort heldur Íslendingar eða dátar. Allmikið var um slagsmál á milli þeirra sem endaði oftar en ekki með því að lögreglan þurfti að hirða íslensku óróaseggina og herlögreglan þá bresku. En fyrir utan slagsmál og kynferðismál leiddi skemmtanalífið á dansstöðum bæjarins a.m.k. sitthvað gott af sér og eitt af því var tónlistin.
Íslendingar urðu fyrir mikilli djassvakningu á stríðsárunum. Það er þó ofmælt að segja, rétt eins og með nútímavæðinguna almennt, að djass hafi ekki verið til fyrr en 1940. Þvert á móti voru vissulega djassáhugamenn, m.a. þeir sem að höfðu kynnst listinni á námsárum sínum erlendis. En djass varð ekki „popp” fyrr en þá. Jón Múli, djassfræðingur með meiru, færir rök fyrir því, í bók sinni um sögu djassins, að alvöru djassvakningin hafi hafist með tilkomu bandaríska hersins. Þeir komu með fjöldann allan af hljómplötum með sér sem hafði áhrif á mikið af ungu fólki og ljóst var að ekki yrði aftur snúið eða eins og Duke Ellington orðaði það: „The pull of this American culture is so strong that no one can resist it.” Herdís Helgadóttir man eftir fyrstu miðnætuskemmtun hér á landi:
„Halldóra Bjarnadóttir söngkona hélt fyrstu miðnæturskemmtanir hér á landi í Gamla bíói við góðar móttökur. Glæsilegur klæðnaður hennar vakti athygli og stóðum við stelpurnar oft við gluggann í Hljóðfærahúsinu til að sjá nýju, flottu kjólana sem hún klæddist…Hún söng „svertingjamúsík” eins og djassinn var kallaður af blaðamönnum og ýmsum sem skrifuðu í blöðin um þessa „frumskógarmúsík” og hneyksluðust á að söngkonan dillaði sér á sviðinu.”

Þó að menningarvitar landsins voru ekki á einu máli um gildi þessarar nýju dægurlagatónlistar hljóta allir að vera sammála um gildi þess að fá heimsfræga gesti til landsins. Einn slíkur var leik-og söngkonan Marlene Dietrich sem kom hingað til lands í september 1944 og söng fyrir hermennina. Af klassískri tónlist má nefna að Íslendingar fengu í heimsókn hinn heimsfræga fiðlusnilling Isaac Stern og flúrsópran söngkonuna Polowna Stoska. Þau komu saman til landsins og héldu tónleika sem að voru opnir Íslendingum og var fullt kvöld eftir kvöld með meðfylgjandi fagnaðarlátum. Fjölmargir smituðust af tónlistarbakteríunni í bíó, þar á meðal hinn kunni tónlistarmaður Svavar Gests: „Það var uppselt í Gamla bíói þegar Galdrakarlinn í Oz var sýndur fyrst…Mér líður aldrei úr minni að sjá og heyra Judy Garland syngja lagið „Over the rainbow” eða hlusta á Louis Armstrong syngja lagið „Jeepers Creepers” í myndinni „Going places”… ”
Bíósýningar er hluti af menningu Íslendinga í dag sem verður seint vanmetinn. Bíóhúsin voru þó til staðar fyrir hernámið, rétt eins og Svavar Gests sagði hér frá. En sýningarnar jukust marktækt með komu setuliðsins sem hafði sínar óskir um dægradvöl, og urðu bíóferðir einn stærsti hluti þeirrar dvalar. Íslendingar fóru þó að verða minna varir við hermennina í bíóhúsum eftir að Bretinn fór en Bandaríkjamenn byggðu sér sitt eigið kvikmyndahús, svo sólgnir voru þeir í þessa heimaafurð sína.
Börn, víðsvegar, á landinu voru mjög áhugasöm um þessa framandi menningu Bandaríkjamanna, rétt eins og í sælgætið og ísinn. Til marks um það eru „hasarblöðin”. Skömmu eftir að Bandaríkjamenn komu fór mjög að bera á lesefni frá heimalandi þeirra og voru strákar um fermingu hvað duglegastir að komast yfir það. Ekki nóg með að börnin reyndu að komast yfir hasarblöðin heldur byrjuðu, sérstaklega drengir, að tileinka sér stríðsleiki ýmis konar og byrjuð m.a. að ganga með trériffla og fleiri vopn í þeim dúr. Skal ósagt látið hversu góð áhrif það hefur frá uppeldissjónarmiðum. Börn og unglingar voru líka fljót að taka upp nýtt tungumál og nú var tískan að sletta ensku frekar en dönsku. Orð eins og „hæ” og „bæ” eru einmitt þaðan komin og hafa rækilega fest sig í sessi, a.m.k. í daglegu tali okkar Íslendinga. Flestir hlutir daglegs lífs voru greinilega undir áhrifum frá setuliðinu en hér vantar einn þátt, íþróttirnar.
Ein vinsælasta íþrótt sem stunduð er á Íslandi í dag var komin frá Bandaríkjamönnum. Körfuknattleikur var í hávegum hafður á þeim bænum og byggðu Kanarnir meira að segja íþróttahús, sem síðar var þekkt sem íþróttahúsið Hálogaland, til að stunda þessa göfugu íþrótt. Þegar iðkun körfuboltans var í hámarki kepptu hér 30 lið í fjórum deildum en það er sambærilegt við þann liðafjölda sem spilar í íslenskri deildakeppni í dag. Lið komu einnig í heimsókn frá grænlenskum herstöðvum. Það var svo árið 1943 að Valdimar Sveinbjörnsson, íþróttakennari, hvatti nemendur við Menntaskólann í Reykjavík að kynna sér körfuknattleik sem þeir og gerðu. Þar með hófst hálfrar aldar saga körfuknattleiks á Íslandi. Jafnvel íþróttalíf Íslendinga varð ekki ósnortið að áhrifum erlendra hermanna. En hver voru þá heildaráhrifin?

Niðurstöður
Það er greinilegt að hernámið hafði mikil áhrif á næstum öll svið mannlífs á Íslandi. Hernámið var augljóslega til góðs þegar litið er á atvinnu, kaupmátt og, já jafnvel, menningar. Sumir vilja miða inngöngu Íslands í nútímann við hernámsdaginn, 10. maí 1940. Eftir þessa rannsókn er ég því þó ekki algjörlega sammála. En því er ekki að neita, að hernámið flýtti svo sannarlega fyrir og gerði okkur að einni „vestrænustu” þjóð í heimi. Það er þó önnur, en tengd, saga hvernig Íslendingar fengu nútíma altari siðmenningar, sjónvarpið, frá amerískum dátum á Keflavíkurflugvelli en hér verðu ekki farið útí þá sálma.
Það er því ljóst að hersetan breytti miklu, mörgu til góðs, með veru sinni hér. Ég held nú samt að það væru til Kornfleks og sígarettur á Íslandi hvort sem erlendur her hefði verið hér eður ei en hver veit, kannski myndu unglingar ennþá tala dönsku í stað ensku ef ekki hefði verið fyrir breskum og bandarískum dátum. Miklar vangaveltur hafa verið í gegnum tíðina um mikilvægi hersetunnar þó lítið hafi verið skrifað um þær menningarbreytingar sem áttu sér stað sem vissulega voru miklar. Þó að nútíminn hefði barið að dyrum fyrr eða seinna þá er ekkert víst að ávísunin hefði innistæðu ef ekki hefði verið fyrir fjármagni því sem hernámið færði okkur. Og hver veit hvort að við hefðum þá á annað borð óskað eftir að almenningsvæða nútímann, ef enginn hefði kynnst honum fyrr. Það er hægt að færa rök fyrir því að í staðinn fyrir að vera undir oki Danmerkur erum við núna einmitt undir oki neyslunnar sem að hófst á hernámsárunum. Á upphafsmánuðum hernámsins orti Kristján frá Djúpalæk um hermanninn sem svipti okkur sjálfstæði:
Þú hefur djúpt vorn þjóðarmetnað sært,
Þegna af landi burtu dæmda fært.
Hvarvetna stafar frá þér böl og feikn.