Konungasögur

Miðaldir hafa löngum verið taldar myrkur tími í sögu Evrópu. Styrjaldir voru daglegt brauð og fjöldi farsótta herjaði á íbúa álfunnar. Á meðan ósköpin dundu yfir Evrópu sátu Íslendingar hins vegar sallarólegir á eyju sinni í Norður-Atlantshafi og rituðu sögur sem nú á dögum teljast til gersema á sviðum bókmennta og sagnfræði. Þar ber helst að nefna Íslendingasögur og konungasögur sem fólk les sér enn til ánægju. En hvað eru konungasögur og hvenær voru þær skrifaðar? Hverjar eru helstu konungasögurnar?
Konungasögur eru sögur sem fjalla um norræna konunga og jarla og eru að uppruna eldri en Íslendingasögur. Þær eru flestar skrifaðar af Íslendingum en einnig eru dæmi um að Norðmenn hafi skrifað um konunga sína. Langflestar konungasögur fjalla um Noregskonunga, enda voru Íslendingar einkum af norskum uppruna, en sumar fjalla þó um Danakonunga, t.d. Skjöldunga saga sem því miður er glötuð.
Segja má að ritun konungasagna hefjist á fyrri hluta 12. aldar en hún stóð í mestum blóma á 13. öld. Vangaveltur eru um hvort Sæmundur fróði Sigfússon hafi skrifað um Noregskonunga á latínu og hvort Ari fróði Þorgilsson hafi fjallað um þá í frumgerð Íslendingabókar. En „fyrsta konungasagan sem vitað er með vissu að hafi verið skrifuð á Íslandi og af Íslendingi er nú glötuð. Höfundurinn hét Eiríkur Oddsson og bók hans fékk hið einkennilega nafn Hryggjarstykki.“
Ekki er alltaf ljóst hvers vegna Íslendingar rituðu konungasögur en eflaust eru ástæðurnar margar og misgóðar. Ein þeirra er líklega sú að þetta hafi verið kjörinn grundvöllur fyrir metorðagjarna menntamenn til þess að sanna ritleikni sína fyrir konungi og öðrum háttsettum mönnum. Sumir hafa ef til vill skrifað konungasögur gegn gjaldi en aðrir virðast einfaldlega hafa haft mikinn áhuga á sagnaritun og sögu þjóðar sinnar.

Örðugt kann þó að reynast að skýra til fullnustu hversvegna Íslendingar leggja slíkt kapp á að rita sögur norskra konunga . . . en því má bæta við að landnemar í nýju landi sýnast einlægt hafa sinnt sögu sinni í „gamla landinu“ mikið. Hefur í því sambandi m.a. verið bent á þjóðræknisáhuga Vestur-Íslendinga og annarra þjóðabrota sem fluttust vestur um haf á síðustu öld.


Það skiptir okkur í sjálfu sér engu máli hver ástæðan er en við erum að minnsta kosti afar þakklátir þessum spöku mönnum sem gerðu komandi kynslóðum kleift að fræðast um forna konunga og ævintýri þeirra.
Í sumum tilvikum voru konungasögurnar skrifaðar undir handarjaðri konungsins sjálfs og til þess að sagan yrði góð þá var Íslendingur fenginn til verksins því þeir voru almennt taldir góðir sagnaritarar. Gott dæmi um slíka sögu er Sverris saga sem skrifuð var af Karli Jónssyni ábóta í Þingeyraklaustri. Fyrri hluta sögunnar, Grýlu, skrifaði Karl eftir fyrirsögn Sverris sjálfs og telst sagan því vera samtíðarsaga. Seinni hlutinn var hins vegar ritaður eftir fall Sverris en ekki er fyllilega ljóst hvort Karl hafi lokið verkinu sjálfur. Karl var ekki sá eini í Þingeyraklaustri sem ritaði konungasögur.
Þingeyramunkarnir Oddur Snorrason og Gunnlaugur Leifsson rituðu hvor um sig Ólafs sögu Tryggvasonar, sögu konungsins sem kristnaði Íslendinga. Þetta var að sjálfsögðu ekki samtíðarsaga þar sem Ólafur var löngu dáinn. Í raun voru flestar konungasögur ritaðar að aðalpersónunni látinni og því má stundum efast um sannleiksgildi þeirra. Munkarnir studdust við ýmsar heimildir og ber þar helst að nefna norsk sagnarit á latínu eftir Theodoricus monacus eða Þóri munk. Að vísu skrifuðu Oddur og Gunnlaugur á latínu, máli kirkjunnar, en verk þeirra voru þó sem betur fer fljótt þýdd yfir á mál landsmanna. Munkar eru ekki þekktir fyrir að sækjast eftir veraldlegum verðmætum og þess vegna teljum við að þeir hafi ritað Ólafs sögu nær einungis vegna framlags hans til kristinnar trúar.
Morkinskinna og Fagurskinna eru samsteypurit sem fjalla um margar kynslóðir Noregskonunga. Hin skemmtilegu nöfn þeirra eru dregin af útliti skinnhandritanna sem varðveittu þær í gamla daga. Hvorugt ritanna telst til samtíðarsagna en þau eru engu að síður merkar heimildir um ævi Noregskonunga, þótt við viljum ekkert fullyrða um sannleiksgildi þeirra. Svokallaðir Íslendingaþættir prýða Morkinskinnu en þeir fjalla um dvöl Íslendinga við hirð konungs. Fagurskinna nær yfir sögu allra konunga frá Hálfdáni svarta, föður Haralds hárfagra, til Magnúsar Erlingssonar. Þessi tvö rit voru þó aðeins undanfarar stærra og merkara konungarits.
Heimskringla Snorra Sturlusonar er af mörgum álitin glæsilegasta og nákvæmasta konungasagan og erum við svo sannarlega á sama máli. Nafn hennar er dregið að upphafsorðum Ynglinga sögu sem er fyrsta sagan í Heimskringlu: „Kringla heimsins, sú er mannfólkit byggvir, er mjok vágskorin; ganga hof stór ór útsjánum inn í jorðina.“ Í Heimskringlu fjallar Snorri um sögu Noregskonunga frá upphafi til ársins 1177 og rekur ættir þeirra alveg aftur til Óðins. Hún er því ekki samtíðarsaga þar sem Snorri fæddist árið 1179. Næstum þriðjungur Heimskringlu fjallar um Ólaf helga Haraldsson enda hafði Snorri ritað sögu hans áður en hann hóf ritun Heimskringlu. Heimildir Snorra voru af ýmsu tagi og má þar til dæmis nefna aðrar íslenskar konungasögur, rit norskra sagnaritara og ýmis kvæði. Snorri reyndi í megindráttum að segja sannleikann í frásögn sinni en stundum skreytti hann söguna með frumsömdum samtölum til að lífga upp á textann.
Norðmenn hafa í gegnum tíðina tekið Heimskringlu ástfóstri og hún þjónaði miklum tilgangi í sjálfstæðisbaráttu þeirra.

Það var Snorra að þakka, meir en nokkrum öðrum einstökum manni, að Norðmenn urðu fullvalda þjóð. Eftir fimm alda erlenda stjórn eignuðust þeir nýjan konung, sem tók sér á hástóli sínum nafn þess manns sem forðum daga lét vega sögubóndann í Reykholti.

Snorri var ekki sá eini af ætt Sturlunga sem fékkst við ritun konungasagna. Bróðursonur hans, Sturla Þórðarson, dvaldi um hríð við hirð Magnúsar Hákonarsonar Noregskonungs og ritaði þar Hákonar sögu Hákonarsonar og Magnúsar sögu lagabætis að undirlagi konungs. Bróðir Sturlu, Ólafur Þórðarson hvítaskáld, er svo talinn hafa skrifað Knýtlinga sögu sem fjallar um Danakonunga, ólíkt flestum öðrum konungasögum. Konungasagnaritun er oft talin ljúka með sögum þeirra bræðra enda voru fáar bitastæðar konungasögur ritaðar á eftir þeim. Orsakirnar eru eflaust margar en sem dæmi má nefna að tungur Íslendinga og Norðmanna voru farnar að greinast og líklega voru Íslendingar Noregskonungi reiðir eftir valdatöku hans árið 1262.
Að okkar mati eru konungasögur stórmerkileg og áhugaverð fornrit sem tvímælalaust ættu að vera lesnar í skólum í stað nútímabókmennta. Að vísu höfum við ekki lesið eina einustu konungasögu en lýsingarnar í heimildum okkar hafa sannfært okkur um að þær séu þess verðugar að vera lesnar. Okkur finnst það í senn skrýtið og sniðugt að það skuli hafa verið Íslendingar sem rituðu flestar konungasögurnar en ekki Norðmenn. Þetta staðfestir grun okkar um að við séum öll komin af hinu besta fólki en ekki ómenntuðum vesalingum. Við vonum að komandi kynslóðir verði iðnari við að lesa þessar vanmetnu sögur svo að þær falli ekki í gleymsku. Hvað verður um sögu Íslands ef saga Noregs týnist?

Höfundar: Höskuldur og Sveinn



Heimildaskrá


Bergljót S. Kristjánsdóttir o.fl. 1991. Heimskringla. Lykilbók. Mál og menning, Reykjavík

Gunnar Karlsson. 1998. Samband við miðaldir. Mál og menning, Reykjavík

Heimir Pálsson. 1992. Frásagnarlist fyrri alda. Íslensk bókmenntasaga frá landnámsöld til siðaskipta. Forlagið, Reykjavík

_____. 2001. Frá hetjukvæðum til helgisagna. Íslenskar miðalda-bókmenntir. Vaka-Helgafell, Reykjavík

Jónas Kristjánsson. 1975. „Konungasögur.“ Saga Íslands II, bls. 222-241. Ritstj. Sigurður Líndal. Hið íslenzka bókmenntafélag og Sögu-félagið, Reykjavík

Kristján Eiríksson og Sigurborg Hilmarsdóttir. 1999. Bókastoð. Ágrip af íslenskri bókmenntasögu. IÐNÚ, Reykjavík

Snorri Sturluson. 1911. Heimskringla. Finnur Jónsson gaf út. G. E. C. Gads forlag, Kaupmannahöfn

Sverrir Tómasson. 1992. „Konungasögur.“ Íslensk bókmenntasaga I, bls. 358-401. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning, Reykjavík
Gleymum ekki smáfuglunum..