Hér ætla ég að birta ykkur stutta umfjöllun um Una danska sem ég skrifaði fyrir íslensku:



Uni danski var landnámsmaður sem kom til Íslands snemma á landnámsöld.
Saga hans hefur varðveist vegna þess að hún er rammpólítísk, tengist föður hans, Garðari Svavarssyni hinum sænska sem fyrstur kannar Ísland og tilraunum Haraldar hárfagra til að leggja undir sig landið.

Uni fór til Íslands til að aðstoða Harald hárfagra við að ná undir sig landinu. Haraldur hafði lofað honum jarlstign ef það tækist. Tilraunir Una misheppnuðust og hann týndi lífi.

Svo ég víki aðeins að uppruna Una. Faðir hans, Garðar Svavarsson var sænskur víkingur. Uni er sagður danskur en helsta skýring fyrir því er að Garðar átti lönd á Sjálandi. Móðir Una virðist hins vegar hafa verið frá Suðureyjum, norðan við Skotland (þar sem voru norrænar byggðir ).
Garðar var fyrstur manna til að kanna landið og eiga hér vetursetu og nefndi landið eftir sér, Garðarshólm. Á þessu virðist Uni byggja erfðarétt sinn yfir Íslandi.

Uni kemur til Íslands og hyggst leggja undir sig landið. Hann kemur að þar sem heitir Unaós, austan við ós Lagarfljóts og nam þar fyrst land allt til Unalækjar. En þegar menn fréttu af áætlunum hans, þá vildu þeir ekki selja honum kvikfé eða vistir og var hann þaðan hrakinn uns hann kom í Álftafjörð. Síðar er hann með Leiðólfi kappa á Síðu (í Skógahverfi, austan Skaftár).
Uni átti barn með dóttur Leiðólfs, Þórunni, sem hann varð ástfanginn af. Leiðólfur vildi gifta þau en Uni vildi ekki bindast og flúði. Leiðólfur fór á eftir honum, barðist við Una og menn hans og Uni snýr aftur nauðugur. Hann strýkur á ný og hittast þeir þá aftur og berjast í annað sinn og drepur Leiðólfur Una og alla menn hans.


En Uni átti afkomendur. Sonur hans og Þórunnar þótti mikill maður, Hróar
Tungugoði og var giftur systur Gunnars á Hlíðarenda. Hróar var seinna drepinn en
ættstofninn lifði ennþá.

Barði Guðmundsson telur í bók sinni, ,,Uppruni Íslendinga” að Uni hafi verið
,,austnorrænn”(þe. dansk-sænskur, danir réðu þá syðsta hluta Svíþjóðar) og enn femur að hann hafi verið af hinu danska Skjöldungakyni, sem var forn konungaætt á Sjálandi. Helstu rök Barða fyrir því eru að bær í landnámi Una heitir Hleiðrargarður, og eru þeir aðeins tveir bæir að þessum meðtöldum á Íslandi með því nafni. Samnefndur staður var einmitt á Sjálandi, höfuðstaður Sjálandskonunga (þ.e. Skjöldunga,Lejre=Hleiðargarður).

Það er annars merkilegt hvað Uni er lítils virtur í sögunni. Hér er saga af því þegar fyrst er reynt að leggja landið undir sig. Honum var sýnd óvild af samtímamönnum sínum á Íslandi og hefur hlotið litla samúð með mönnum síðan.

Deila má um erfðarétt Una. Garðar faðir hans dvaldist hér fyrstur manna og kannaði fyrst landið. Hugsunarháttur þeirra tíma virðist hafa kveðið á um að sá sem fyrstur kemur að óbyggðu landi og byggir það ætti um leið tilkall til landsins. Einnig það að Náttfari, sem (eiginlega) nam allra fyrstur land, var maður Garðars, en Náttfara sleit frá Garðari ásamt þræli og ambátt. Óvíst er annars, hvort hann tapaðist eða hvort hann hafi strokið. Á móti mælir að þess er aldrei getið að Garðar hafi eignað sér Ísland, auk þess sem hann nam í raun aldrei land, því hann hvarf á braut.




Heimildaskrá:

Landnámabók, útg. af Sigurði Kristjánssyni í Reykjavík 1909 ,

Uppruni Íslendinga-safn ritgerða eftir Barða Guðmundsson, útg. af Bókaútgáfu menningarsjóðs í Reykjavík.